Verkefni 36 – Endurnota, minnka, endurnýta

Eins og við höfum farið yfir í seinustu verkefnunum er skáti nýtinn, náttúruvinur og tillitsamur, ásamt mörgum öðrum góðum eiginleikum. Því höfum við verið að vinna mikið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en fyrir þau sem þekkja þessi markmið ekki þá geti þið lesið um þau hér.  Flest verkefni sem við vinnum að í skátunum tengjast á einn eða annan máta inn á heimsmarkmiðin. Ef þú skoðar þau vel finnur þú örugglega fullt af hlutum sem þú ert að gera til að ná heimsmarkmiðunum og til að hjálpa jörðinni okkar. Þetta verkefni tengist markmiði 9, Nýsköpun og uppbygging og markmiði 12, ábyrg neysla og framleiðsla.

Nú fer að líða að sumardeginum fyrsta (hann er á fimmtudaginn!) og eflaust margir farnir að hlakka til 😀 Nú er góður tími til að fara yfir búnaðinn sem við eigum fyrir sumarið og passa að allt sé tilbúið. Ef eitthvað er bilað, rifið eða brotið þá ætlum við að byrja á því að laga það. Hér kemur listi yfir hluti sem þið getið farið yfir og hvernig hægt er að endurnýta hluti.

Endurnýta útilegubúnað

Skoðið útilegubúnaðinn ykkar. Ef það er eitthvað bilað, byrjið á því að reyna að laga það. Ef það er gat þá er hægt að sauma það eða líma fyrir gatið. Ef hluturinn er mjög skítugur þá er gott að byrja á því að þrífa hann. En ef ekki er hægt að laga hlutinn og nota þá geti þið prófað að búa til eitthvað nýtt úr hlutnum.

Segjum til dæmis að þið eigið tjald sem er orðið mjög slitið og þið eruð búin að prófa að laga það en ekkert virkar. Þá geti þið endurnotað tjaldið og búið til úr því ýmsa hluti. Sem dæmi er hægt að gera:

  • Innkaupanet (t.d. fyrir ávexti eða brauð)
  • Hælapoka
  • Poka undir útilegupottasettið
  • Flokkunarpoka sem hægt er að nýta aftur og aftur
  • Höfuðflugnanet fyrir ykkur (getið notað flugnanetið sem er í tjaldinu)
sauma

Þegar þið farið í gegnum búnaðinn ykkar, skoðið hvernig þið geymið hann. Búnaðurinn endist lengur ef honum er haldið við og hann er geymdur á góðum stað.

Fleiri hugmyndir

Stundum er hægt að nýta hluti í eitthvað allt annað. Hvað á til dæmis að gera við stígvélin þegar þau eru byrjuð að leka eða orðin of lítil?

Þú getur til dæmis málað þau og sett blóm ofan í þau og skreytt þannig pallinn/svalirnar/garðinn þinn.

Stígvél sem blómapottur

Veist þú um fleiri leiðir til að endurnota og endurnýta útilegubúnað? Endilega sendu okkur og láttu einnig vita hvernig gengur að fara yfir þinn búnað!

#skátarnir #stuðkví