Vinnuhópur World Thinking Day
Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í vinnuhóp sem mun þýða og staðfæra dagskrárpakkann fyrir World thinking day 2020 sem WAGGGS þróaði og setti saman. World thinking day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og lýsa þökkum og þakklæti. Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide. Dagskrárpakkinn skiptist í þrjú þemu:
- leiðtogafærni
- fjölbreytni, sanngirni og allir með
- friðaruppbygging
Frekari upplýsingar eru hér að neðan og áhugasamir skulu hafa samband við kolbrun@skatar.is.
Hvaða kröfur þarf ég að uppfylla til að vera með?
Við óskum eftir fólki sem er:
- 16 ára og eldri
- Fært í ensku
- Áhugasamt um að fræðast betur um World Thinking Day og dagskrárpakkann
Þýðing
Bæklingur sem segir frá World thinking day og öllum verkefnunum er á ensku. Flest ungmenni kunna góða ensku og gott að geta nálgast efnið á ensku líka en kapp er þó lagt á að sem mest af stuðningsefni BÍS sé á íslensku og því þarf að þýða öll verkefnin.
Tímalína
Vinnuhópurinn mun hittast 4 sinnum fram að desember, fara yfir stöðu verkefnis og skipta þeim verkefnum á milli sín sem eftir eru. Áætluð skil eru um mánaðarmótin nóvember / desember. Áhugasamir hafi samband við kolbrun@skatar.is.
Skátapepp í Búðardal

Skátapepp var haldið í Búðardal 27. til 29. september og var tekið ótrúlega vel á móti skátunum. Þema námskeiðsins var ofurhetjuþema og voru allir ráðgjafar í glæsilegum búningum og þurftu allir flokkar að finna sinn eiginn ofurkraft. Markmið námskeiðsins var að kynna dagskrárhringinn fyrir skátunum og hvernig hægt er að nýta hann við skipulag skátastarfs.Skipuleggjendur ákváðu að hafa þema dagskrárhrings helgarinnar færnimerki skátanna. Eftir að hafa fundið flokkana sína þurftu skátarnir því að skipuleggja sína eigin dagskrá með því að velja úr nokkrum færnimerkjum sem þeir ætluðu að reyna að klára á þremur fundum sem þeir höfðu yfir helgina. Var lögð áhersla á að skipuleggja fundina og kynnt mikilvægi þess að setja og slíta fundi.
Flokkarnir unnu að hinum ýmsu færnimerkjum. Þar á meðal færnimerkið Kokkur þar sem einn flokkur hélt núðluveislu úti og aðstoðaði við kjötsúpugerð. Einnig unnu margir að færnimerkinu Skapa þar sem meðal annars voru föndraðar skikkjur og Powerpuff girls málaðar á stein. Var haldin glæsileg kvöldvaka þar sem flokkarnir kynntu ofurkrafta með skemmtilegum atriðum. DJ Vaskur tók svo við og keyrði upp stemninguna á dansgólfinu.
Á lokadegi námskeiðsins hittust flokkarnir og fóru yfir helgina. Var metið hvað fór vel, hvað illa og hvort skátarnir ættu skilið að fá færnimerki eftir fundi helgarinnar. Á slitum voru færnimerki afhent og veitt verðlaun fyrir ofurhetjuleikana miklu sem var keppni á milli flokkana í fjölbreyttum og skemmtilegum þrautum sem þau unnu að yfir helgina.
Eftir slit var haldið í óvissuferð að Fellsendaréttum þar sem var vel tekið á móti skátunum og margir fengu að taka þátt í réttum í fyrsta sinn. Eftir fjörugar réttir var tekið stutt stopp á Erpsstöðum, borðaður ís, klappað kanínum og haldið svo heim á leið.
Skátamiðstöðin lokuð vegna starfsdags
Skátamiðstöðin lokar kl 14:30 á morgun föstudaginn 4. október vegna starfsdags starfsfólks. Við bendum ykkur á að senda fyrirspurn á skatar@skatar.is og við svörum strax eftir helgi.
Netnámskeið-Verndum þau opið
Æskulýðsvettvangurinn ásamt hópi fagaðila í barnaverndarmálum hefur á síðustu mánuðum unnið að því að setja á laggirnar netnámskeið í barnavernd fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Námskeiðið var opnað formlega í gær fimmtudaginn 26. september með móttöku fyrir þá sem komu að verkefninu.
Við hvetjum alla til að taka þátt.
namskeid.aev.is/courses/barnavernd
Skatarnir.is fyrsti áfangi kominn í loftið

Eftir þrotlausa vinnu síðustu tvo mánuði er fyrsti áfangi nýrrar heimasíðu kominn í loftið. Í þessari fyrstu umferð eru komnar góðar síður um öll aldursbil skátastarfsins, sjálfboðaliðastarfið auk upplýsingasíðna um öll skátafélög landsins.
Kíkið í heimsókn á https://skatarnir.is/
Ritstjórn:
Jón Halldór Jónasson
Hulda Mjöll Þorleifsdóttir
Kolbrún Ósk Pétursdóttir
Sigurgeir Bjartur Þórisson
Unnur Líf Kvaran
Þakkir:
Aron Gauti Sigurðarson - Ljósmyndun
Benedikt Þorgilsson - Tæknivinna
Berglind Lilja Björnsdóttir - Textavinna
Guðmundur Vestmann - Uppsetning vefsíðu
Halldór Valberg Skúlason - Ljósmyndun
Margrethe Grönvold Friis - Ljósmyndun
Nanna Guðrún Bjarnadóttir - Ljósmyndun
Sigurður Ólafur Sigurðsson - Ljósmyndun
Sigríður Ágústsdóttir - Yfirlestur
Tryggvi Bragason - Tæknivinna
Auk allra annarra sem aðstoðuðu okkur
Ingólfur Ármannsson er farinn heim
Ingólfur Ármannsson (1936–2019), kennari og síðar fræðslustjóri og skólastjóri Síðuskóla á Akureyri, lést hinn 1. september á 83. aldursári. Ingólfur var framkvæmdastjóri og erindreki Bandalags íslenskra skáta árin 1960–1964. Þótt hann væri lengstum eini starfsmaður bandalagsins tókst honum eindæma vel að standa fyrir öflugu fræðslustarfi. Ingólfur sótti fyrsta Gilwell-námskeiðið á Íslandi árið 1959. Margir skátar sem sóttu námskeiðið þá og næstu ár voru virkjaðir við námskeiðshald og ritun fræðsluefnis undir hans stjórn. Ingólfur stýrði og leiðbeindi á Gilwell-námskeiðum og sat í sameiginlegri norrænni stjórn Jamboree árið 1975, Nordjamb.
Ingólfur bjó á Akureyri frá árinu 1966 ásamt eiginkonu sinni, Hrefnu Hjálmarsdóttur. Þar voru þau hjónin virk í skátastarfi æ síðan. Bandalag íslenskra skáta þakkar Ingólfi ríkulegt framlag til skátastarfs á Íslandi og vottar Hrefnu og börnum þeirra innilega samúð.
Sumar-Gilwell Leiðtogaþjálfun
Sumar-Gilwell leiðtogaþjálfun fór fram á Úlfljótsvatni um liðna helgi. Fimmtán skátar frá hinum ýmsu félögum tóku þátt í fjölbreyttri og fræðandi dagskrá.
Ekki var eingöngu um hefðbundna kennslu að ræða, unnið var með hvataspjöldin, hópavinna í flokkunum og fræðslufyrirlestrar fóru fram utandyra.
Nemendahópnum var skipt í þrjá flokka, Dúfur, Hrafna og Gauka. Reist var tjaldbúð og hver flokkur reisti sitt tjald ásamt ýmsum tjaldbúðarverkefnum. Eldstæði var búið til, fánastöng reist og kæliaðstaða útbúin, auk þess sem allar máltíðir voru eldaðar utandyra.
Á laugardagskvöldið héldu flokkarnir svo í Markferð og leystu ýmsar þrautir m.a. Bátsferð, leðurvinnu og samtal um skátastarf í Gilwell skálanum.
Varðeldur og kvöldvaka var haldin bæði kvöldin og skemmtu þátttakendur sér vel við söng og gleði, sér í lagi þegar Arnór Bjarki spilaði á óvænt hljóðfæri, brauðrist.

Rifist um rækjusamlokur

Rifist um rækjusamlokur
Undirbúningshelgi reykvískra sveitarforingja fór fram í Landnemaheimilinu um helgina, þar sem sveitarforingjar komu saman og skipulögðu komandi starfsvetur. Markmiðið með helginni var að þétta foringjahópinn, undirbúa næstu önn og bjóða um leið upp á leiðtogaþjálfun fyrir okkar öfluga fólk. Foringjahópurinn var fjölbreyttur, en foringjar frá nánast öllum félögum mættu. Þarna voru í bland reynslumiklir sveitarforingjar sem eru að fara að stýra sömu sveit og síðasta starfsár, nýir foringjar með nýjar sveitir og í það minnsta einn reynslubolti sem er að fara að stýra skátasveit eftir 20 ára hlé frá sveitarforingjastörfum!
Engir langdregnir fyrirlestrar
Viðfangsefnin voru fjölbreytt, en lögð var áhersla á raunverulega skipulagningu næsta vetrar, séreinkenni aldursbila, samskipti og samstarf, auk hinna sívinsælu þroskasviða, sem allir skátar elska að kjammsa á. Ragnheiður Silja, fálkaskátaforingi í Garðbúum, var afar ánægð með helgina: „Mér fannst mjög gott að fá tíma til að undirbúa sveitaráætlun og geta spurt út í hana um leið.“ Henni fannst sérstaklega frábært hvernig viðfangsefnunum var miðlað á fjölbreyttan hátt: „Við fórum í lýðræðisleik og umræðuhóp og vorum alltaf að gera eitthvað sjálf, en vorum ekki að hlusta á fyrirlestra allan daginn.“ Hún bætir við að ekki hafi félagsskapurinn verið af verri endanum.
Flóttarými til fræðslu
Sá dagskrárliður sem vakti hvað mesta kátínu var nýung í skátastarfi: Flóttarýmið - fangi Ingólfs. Fræðsluflóttarými, eða Educational Escape Room, er kennsluaðferð sem hefur verið í þróun í æskulýðsstarfi undanfarin ár. Fræðsluflóttarými eru eins og önnur Escape Room að því leyti að þau ganga út á að leysa þrautir til þess að komast út úr lokuðu rými eða ná sameiginlegu markmiði, en í fræðsluflóttarýmum er fræðslunni fléttað saman við þrautirnar og svo ítarleg ígrundun tekin eftir reynsluna til þess að ná yfir upplifunina og heimfæra lærdóminn yfir á skátastarfið. Flóttarýmið þótti ekki gefa atvinnuflóttarýmum neitt eftir og varð einum skátanum það að orði að þetta væri erfiðasta flóttarými sem viðkomandi hefði tekið þátt í.
Lýðræði í landnámsþema
Til þess að kynnast betur lýðræðisleikjunum fengu þátttakendur að kjósa um hvað yrði í hádegismat. Kosningin fór fram í gegnum lýðræðisleik í landnámsstíl, þannig að hver flokkur hafði ákveðið mörg kýrgildi á milli handanna og gat valið að verja þeim í mismunandi möguleika. Rækjusamlokur háðu grimma baráttu við samlokur frá Subway, en að lokum hafði alþjóðlega bátakeðjan vinninginn. Gengur betur næst, Benni.

Skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni

Sex vaskir skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka síðastliðinn laugardag og stóðu sig með prýði. Þau söfnuðu áheitum til styrktar margra góðra málefna og safnaði hópurinn samtals 180.000 krónum.
Hópurinn hljóp til styrktar UNICEF en einstaklingar í hópnum söfnuðu einnig áheitum fyrir Ljósið, Neistann, MND félagið, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og ABC barnahjálp.

Úrslit í ljósmyndasamkeppni Skátanna
Úrslit í ljósmyndasamkeppni Skátanna
Skátarnir efndu til ljósmyndasamkeppni á Instagram í ágúst. Viðfangsefnið var "Skátamót erlendis". Fjölmargar flottar myndir bárust og þrjár fengu verðlaun.

Þær Hildur Bragadóttir, Ísold Vala og Ragnheiður Silja birtu þær myndir á instagram sem ritstjórn vef- og samfélagsmiðla Skátanna tilnefndu til sigurs og fá nýjan BÍS bol að launum.
Þær vissu ekki allar af keppninni eða að þær væru að taka þátt í henni en voru þó allar hæstánægðar með verðlaunin.

Myllumerkið Skátanna er #skatarnir og við hvetjum alla til að deila skemmtilegum myndum úr skátastarfi á samfélagsmiðlum með því myllumerki og hver veit nema að þú vinnir óvart ljósmyndakeppni!











