Rifist um rækjusamlokur

Atrenna

Rifist um rækjusamlokur

Undirbúningshelgi reykvískra sveitarforingja fór fram í Landnemaheimilinu um helgina, þar sem sveitarforingjar komu saman og skipulögðu komandi starfsvetur. Markmiðið með helginni var að þétta foringjahópinn, undirbúa næstu önn og bjóða um leið upp á leiðtogaþjálfun fyrir okkar öfluga fólk. Foringjahópurinn var fjölbreyttur, en foringjar frá nánast öllum félögum mættu. Þarna voru í bland reynslumiklir sveitarforingjar sem eru að fara að stýra sömu sveit og síðasta starfsár, nýir foringjar með nýjar sveitir og í það minnsta einn reynslubolti sem er að fara að stýra skátasveit eftir 20 ára hlé frá sveitarforingjastörfum!

Engir langdregnir fyrirlestrar

Viðfangsefnin voru fjölbreytt, en lögð var áhersla á raunverulega skipulagningu næsta vetrar, séreinkenni aldursbila, samskipti og samstarf, auk hinna sívinsælu þroskasviða, sem allir skátar elska að kjammsa á. Ragnheiður Silja, fálkaskátaforingi í Garðbúum, var afar ánægð með helgina: „Mér fannst mjög gott að fá tíma til að undirbúa sveitaráætlun og geta spurt út í hana um leið.“ Henni fannst sérstaklega frábært hvernig viðfangsefnunum var miðlað á fjölbreyttan hátt: „Við fórum í lýðræðisleik og umræðuhóp og vorum alltaf að gera eitthvað sjálf, en vorum ekki að hlusta á fyrirlestra allan daginn.“ Hún bætir við að ekki hafi félagsskapurinn verið af verri endanum.

Flóttarými til fræðslu

Sá dagskrárliður sem vakti hvað mesta kátínu var nýung í skátastarfi: Flóttarýmið – fangi Ingólfs. Fræðsluflóttarými, eða Educational Escape Room, er kennsluaðferð sem hefur verið í þróun í æskulýðsstarfi undanfarin ár. Fræðsluflóttarými eru eins og önnur Escape Room að því leyti að þau ganga út á að leysa þrautir til þess að komast út úr lokuðu rými eða ná sameiginlegu markmiði, en í fræðsluflóttarýmum er fræðslunni fléttað saman við þrautirnar og svo ítarleg ígrundun tekin eftir reynsluna til þess að ná yfir upplifunina og heimfæra lærdóminn yfir á skátastarfið. Flóttarýmið þótti ekki gefa atvinnuflóttarýmum neitt eftir og varð einum skátanum það að orði að þetta væri erfiðasta flóttarými sem viðkomandi hefði tekið þátt í.

Lýðræði í landnámsþema

Til þess að kynnast betur lýðræðisleikjunum fengu þátttakendur að kjósa um hvað yrði í hádegismat. Kosningin fór fram í gegnum lýðræðisleik í landnámsstíl, þannig að hver flokkur hafði ákveðið mörg kýrgildi á milli handanna og gat valið að verja þeim í mismunandi möguleika. Rækjusamlokur háðu grimma baráttu við samlokur frá Subway, en að lokum hafði alþjóðlega bátakeðjan vinninginn. Gengur betur næst, Benni.
Atrenna 2019