Ingólfur Ármannsson er farinn heim

Ingólfur Ármannsson (1936–2019), kennari og síðar fræðslustjóri og skólastjóri Síðuskóla á Akureyri, lést hinn 1. september á 83. aldursári. Ingólfur var framkvæmdastjóri og erindreki Bandalags íslenskra skáta árin 1960–1964. Þótt hann væri lengstum eini starfsmaður bandalagsins tókst honum eindæma vel að standa fyrir öflugu fræðslustarfi. Ingólfur sótti fyrsta Gilwell-námskeiðið á Íslandi árið 1959. Margir skátar sem sóttu námskeiðið þá og næstu ár voru virkjaðir við námskeiðshald og ritun fræðsluefnis undir hans stjórn. Ingólfur stýrði og leiðbeindi á Gilwell-námskeiðum og sat í sameiginlegri norrænni stjórn Jamboree árið 1975, Nordjamb.
Ingólfur bjó á Akureyri frá árinu 1966 ásamt eiginkonu sinni, Hrefnu Hjálmarsdóttur. Þar voru þau hjónin virk í skátastarfi æ síðan. Bandalag íslenskra skáta þakkar Ingólfi ríkulegt framlag til skátastarfs á Íslandi og vottar Hrefnu og börnum þeirra innilega samúð.