Skátapepp í Búðardal

Skátapepp var haldið í Búðardal 27. til 29. september og var tekið ótrúlega vel á móti skátunum. Þema námskeiðsins var ofurhetjuþema og voru allir ráðgjafar í glæsilegum búningum og þurftu allir flokkar að finna sinn eiginn ofurkraft. Markmið námskeiðsins var að kynna dagskrárhringinn fyrir skátunum og hvernig hægt er að nýta hann við skipulag skátastarfs.Skipuleggjendur ákváðu að hafa þema dagskrárhrings helgarinnar færnimerki skátanna. Eftir að hafa fundið flokkana sína þurftu skátarnir því að skipuleggja sína eigin dagskrá með því að velja úr nokkrum færnimerkjum sem þeir ætluðu að reyna að klára á þremur fundum sem þeir höfðu yfir helgina. Var lögð áhersla á að skipuleggja fundina og kynnt mikilvægi þess að setja og slíta fundi.

Flokkarnir unnu að hinum ýmsu færnimerkjum. Þar á meðal færnimerkið Kokkur þar sem einn flokkur hélt núðluveislu úti og aðstoðaði við kjötsúpugerð. Einnig unnu margir að færnimerkinu Skapa þar sem meðal annars voru föndraðar skikkjur og Powerpuff girls málaðar á stein. Var haldin glæsileg kvöldvaka þar sem flokkarnir kynntu ofurkrafta með skemmtilegum atriðum. DJ Vaskur tók svo við og keyrði upp stemninguna á dansgólfinu.

Á lokadegi námskeiðsins hittust flokkarnir og fóru yfir helgina. Var metið hvað fór vel, hvað illa og hvort skátarnir ættu skilið að fá færnimerki eftir fundi helgarinnar. Á slitum voru færnimerki afhent og veitt verðlaun fyrir ofurhetjuleikana miklu sem var keppni á milli flokkana í fjölbreyttum og skemmtilegum þrautum sem þau unnu að yfir helgina.

Eftir slit var haldið í óvissuferð að Fellsendaréttum þar sem var vel tekið á móti skátunum og margir fengu að taka þátt í réttum í fyrsta sinn. Eftir fjörugar réttir var tekið stutt stopp á Erpsstöðum, borðaður ís, klappað kanínum og haldið svo heim á leið.