Agora 2024

Skátamótið Agora fór fram í Göransborg skátamiðstöð í Svíþjóð fyrstu helgina í apríl. Um 56 þátttakendur frá 22 löndum tóku þátt og fóru tveir skátar frá Íslandi. Agora er skátamót skipulagt og haldið af róverskátum fyrir róverskáta.

Á mótinu var mikið rætt um mismunandi róverstarf eftir löndum og valdeflingu ungs fólks. Eitt af markmiðum Agora er að vera samkomustaður róverskáta til að ræða drauma, tilfinningar, áhyggjur, upplifanir og hugmyndir, sækja innblástur og orku og að geta verið til staðar hvort fyrir annað og kennt hvort öðru nýja hluti.

Ljósmyndir: Scouting in Europe

 


Sumardeginum fyrsta fagnað um land allt

Sumardagurinn fyrsti var haldinn hátíðlegur um land allt fimmtudaginn 25. apríl. Hér má sjá skemmtilegar myndir frá nokkrum skátafélögum.

Félögin í Reykjavík skiptu sér upp eftir hverfum og voru 3 hátíðir í Reykjavík.

Ægisbúar héldu skemmtun við skátaheimilið sitt og voru með hoppukastala og veitingasölu, ásamt hike-brauðs gerð, og héldu síðan kvöldvöku í tilefni af 55 ára afmæli skátafélagsins.

Árbúar voru á Árbæjarsafni í annað sinn með veitingasölu, hike-brauðs gerð og skrúðgöngu um safnið, um 1.800 manns áttu leið í gegnum safnið.

 

Garðbúar, Landnemar og Skjöldungar sameinuðu krafta sína á ný og og héldu sín hátíðarhöld í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum. Boðið var uppá úrval af hoppuköstulum, súrraðar þrautabrautir, hike-brauð og veitingasölu. Um 2.600 manns gerðu sér góðan dag í garðinum.

Ljósmyndir: SSR - Daði Már Gunnarsson

 

Í Hafnarfirði voru Hraunbúar með skátadagskrá á Víðistaðatúni og á meðfylgjandi mynd eru þau að gera sig klár fyrir fánaborg í skrúðgöngu.

Ljósmynd: Vilhjálmur Þór Sigurjónsson

 

Í Reykjanesbæ voru Heiðabúar með skátamessu.

Ljósmynd: Haukur Hilmarsson

 

Á Akureyri var Klakkur með skrúðgöngu, skátamessu og skátadagskrá á Hömrum.

Ljósmynd: Ingimar Eydal


Inngilding og sjálfbærni í brennidepli á Skátaþingi

Um 150 skátar tóku þátt eða stóðu að Skátaþingi sem haldið var á Sólheimum og Úlfljótsvatni helgina 5.-7. apríl. Skátaþing er árleg samkoma þar sem skátahreyfingin kemur saman, heldur aðalfund sinn og rýnir í stöðu skáta á Íslandi. Þingið er einnig ákveðin uppskeruhátíð fyrir fastaráðin enda er það oft vettvangur kynninga á nýjum leiðum í skátastarfi.

Gaman er að fylgjast með þróun í þátttöku ungmenna á Skátaþingi en í ár var slegið met í virkri þátttöku þeirra, en fyrra met var sett á Skátaþingi í fyrra. Í ár voru 36 af 55 fulltrúum þingsins með atkvæðisrét á aldrinum 13-25 ára og því rúmlega 65% atkvæða í höndum ungmenna. Við fögnum því og erum stolt af því að vera ungmennahreyfing sem stýrt er af ungu fólki með stuðningi fullorðinna.

Inngilding og sjálfbærni voru í brennidepli á Skátaþingi að þessu sinni og var því tilvalið að halda þingið á Sólheimum. Starfsemi Sólheima og skátastarf byggja einmitt bæði á hugsjónastarfsemi og miða að því að bæta þann heim sem við búum í. Þema þingsins að þessu sinni var Leiðtogar í 100 ár í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Bandalag íslenskra skáta var stofnað.

Í upphafi voru flutt ávörp frá gestum þingsins en Ása Valdísar Árnadóttur Oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps flutti opnunarávarp þingsins. Þar fjallaði hún um sveitarfélagið og sagði frá reynslu sinni af því að hitta þátttakendur á Gilwell leiðtogaþjálfuninni þegar þau komu í heimsókn á bæinn sem hún ólst upp á. Ólafur Hauksson og Valgeir F. Backman fluttu ávarp fyrir hönd skátafélagsins Sólheima þar sem þeir buðu skátana velkomna og minntust á að almennt svifi skátaandinn yfir Sólheimum og íbúum þar. Að lokum fór Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Grænna skáta,  yfir starfsemi þeirra og hvernig hún styður við skátastarf í landinu ásamt því að gefa þátttakendum þingsins gjöf frá fyrirtækinu. 

Einnig voru kynningar á þinginu en þar byrjaði Huldar Hlynsson, meðstjórnandi í stjórn BÍS, á því að fara yfir stöðuna í Stefnu BÍS og hvernig hægt sé að vinna að því að markmiðum hennar sé náð fyrir lok árs 2025. Helga Þórey Júlíudóttir, sveitaforingi og skátaforingi skátastarfs í Guluhlíð, og Margrét Rannveig Halldórsdóttir, forstöðukona Guluhlíðar sögðu frá Skátastarfi fyrir öll í Guluhlíð en síðastliðið ár hefur verið unnið að því að auka tækifæri fyrir öll börn að stunda skátastarf, óháð færni og getu. Loks kom Rebecca Craske, sérfræðingur bresku skátahreyfingarinnar í sjálfbærni málefnum og talaði um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í samfélaginu okkar í dag og þau tækifæri sem standa okkur til boða til að gera lifnaðarhætti okkar sjálfbærari.

Á Skátaþingi tíðkast að veita öflugum skátum þakkir fyrir vel unnin störf. Að þessu sinni ber helst að nefna að fararstjórn, sveitarforingjar og sjálfboðaliðar sem fóru á Alheimsmót skáta fengu öll heiðursmerki fyrir að hafa staðið sig vel í erfiðum aðstæðum í Suður-Kóreu.

Eftir að hefðbundnum aðalfundastörfum lauk var boðið upp á smiðjur þar sem þátttakendur gátu kynnt sér betur starfsemi Sólheima, sjálfbærni næstu 100 árin, könnuðamerki BÍS, leiðir til að minnka skjánotkun, leiðtogaþjálfunarleik og hvernig við aukum alþjóðastarf í skátunum.

Á sunnudag var haldið á Úlfljótsvatn þar sem boðið var upp á dagskrá til að undirbúa Landsmót skáta sem haldið verður í sumar. Þar voru lögð drög að mótsbókinni, rekka- og róverdagskráin var skoðuð og opið var í Skátasafnið. Loks var svo boðið upp á karnival þar sem félögin sýndu frá því sem hefur gefist vel í þeirra tjaldbúðum á Landsmótum.

Við þökkum öllum þátttakendum fyrir skemmtilega og gagnlega helgi á Skátaþingi og hlökkum til þess næsta!


Drekaskátar breyttust í ninjur í Hveragerði

Laugardaginn 2. mars síðastliðinn stóð Skátafélagið Strókur fyrir hinum árlega Drekaskátadegi þar sem um 160 skátar komu saman  til að efla skátaandann og samheldni. Drekaskátarnir hjá Stróki völdu að hafa Ninja þema og fengu því öll ninja grímur áður en haldið var í dagskrá.

Fálka- og Dróttskátar Stróks sáu um að skipuleggja og stýra dagskrá sem var ekki af verri endanum. Tvö dagskrárbil voru í boði, annarsvegar í Lystigarðinum þar sem boðið var upp á 7 leikjastöðvar með hinum ýmsu hópeflisleikjum, og hinsvegar 7 stöðva ratleik um Hveragerði þar sem skátarnir gengu eftir korti, leystu ninjaþrautir og höfðu gaman. Vinsælasti pósturinn var klárlega póstur númer 5 þar sem grillaðir voru sykurpúðar og ninjaskátasudoku leyst.

   

Í hádeginu voru borðaðar hvorki meira né minna en 380 pylsur og var gott fyrir skátana að komast aðeins inn að hlýja sér á milli dagskrárbila. Eftir að öll höfðu lokið dagskrá var komið saman fyrir utan Bungubrekku þar sem öll fengu ninjamerki fyrir þátttöku, kakó, kex og ís því auðvita borða Drekaskátar ís í -5 stiga frosti. Drekaskátadeginum var slitið með Bræðralagssöngnum og héldu skátarnir svo glaðir heim eftir vel heppnaðan dag.

Skátafélagið Strókur þakkar öllum sem tóku þátt og gerðu þennan dag mögulegan og hlakkar til að hitta öll í næsta skátaævintýri.

Fyrir hönd Skátafélagsins Stróks,
Sjöfn Ingvarsdóttir félagsforingi.


Mælitæki á áhrif æskulýðsstarfs á ungt fólk kynnt á ImpactYouth

Þann 22. febrúar sótti Védís Helgadóttir lokafund MIYO verkefnisins í Belgíu.

MIYO verkefnið (e. Measuring Impact: with, for and by youth organisations) er samstarfsverkefni WOSM, YMCA í Evrópu og Maynooth University og markmið þess er að búa til mælitæki til þess að mæla áhrif ýmissa ungmennahreyfinga, t.d. skátahreyfingarinnar, á ungt fólk.
Á fundinum var þetta mælitæki kynnt en það hefur verið í þróun síðastliðin tvö ár og nokkur bandalög hafa nú þegar tekið þátt í pilot-rannsóknum.

Það er mikilvægt fyrir skátahreyfinguna, og smærri einingar innan hennar, að geta sýnt með sannanlegum hætti hver áhrif starfs hennar er á skátana, t.d. hvaða færni skátarnir öðlast og hvað þeir læra.
Fyrst og fremst er það mikilvægt fyrir hreyfinguna sjálfa, til að vita á hvaða leið hún er, en það er líka mikilvægt að hreyfingin eigi þessi gögn til að geta sýnt almenningi hver áhrif skátastarfs eru, sem og til að kynna fyrir styrktaraðilum sínum.

 

Mælitækið er tvíþætt en miðað hefur verið við að þátttakendur í rannsókninni séu á aldrinum 14-18 ára.
Annars vegar byggist mælitækið á spurningalista og hins vegar á umræðum í rýnihópum. Þannig eiga rýnihóparnir að dýpka svörin úr spurningalistunum.
Spurningalistinn sem lagður er fyrir þátttakendur er tvíþættur; fyrri hlutinn inniheldur lýðfræðilegar spurningar þar sem er spurt um bakgrunnsupplýsingar skátanna, m.a. hve lengi þeir hafa verið starfandi.
Í seinni hlutanum eru fullyrðingar lagðar fyrir og þátttakendur beðnir um að meta á skalanum 1-10 hversu sammála þeir eru fullyrðingunum. Fullyrðingarnar koma alltaf tvær saman og tengjast þær innbyrðis.

Dæmi um fullyrðingapar:

  • Ég reyni að lifa heilsusamlegu lífi (næring, svefn, hreyfing)
  • Skátastarf hvetur mig til þess að lifa heilsusamlegu lífi

Þannig lýtur fullyrðing A meira að skátanum sjálfum en fullyrðingu B er ætlað að kanna hver bein áhrif af skátastarfinu sjálfu eru.
Þegar fullyrðingarnar fyrir spurningalistann voru samdar var stuðst við SPICES módelið sem WOSM þróaði og hefur hér heima verið kallað þroskasviðin 6 þannig að fullyrðingarnar tengjast allar einhverju þroskasviðanna.

Nokkur þátttökulönd í verkefninu, m.a. Svíar og Tékkar, sögðu á fundinum frá pilot-rannsóknum sem þau höfðu framkvæmt á meðan verið var að þróa mælitækið og það var verulega gagnlegt að heyra frá þeim hvernig mælitækið virkaði í praktík og hvaða hindrunum þau hefðu mætt og hvernig þau hefðu leyst úr þeim, og sömuleiðis var athyglisvert að heyra niðurstöðurnar þeirra sem voru um sumt svipaðar milli landanna.

Það var gaman að sjá hvað mikill metnaður hefur verið lagður í MIYO verkefnið en að því koma líka akademískir starfsmenn úr Maynooth University sem miðluðu á sérlega skýran máta fræðilegum atriðum varðandi mælitækið og sögðu m.a. frá því hvernig á að velja úrtak og hvernig best er að leiða umræður í rýnihóp.

Á fundinum var mælitækið formlega gefið út þannig að núna geta öll bandalög framkvæmt sínar eigin rannsóknir með notkun þess.
Á vefsíðunni impactofyouth.org eru góðar leiðbeiningar um hvernig maður á að snúa sér í því og það verður spennandi að sjá niðurstöður úr frekari rannsóknum.

Eins og áður sagði snýr mælitækið sem nú hefur verið þróað að því hver áhrif skátastarfs eru á einstaklingana sem taka þátt í skátastarfinu.
Hópurinn sem annast hefur MIYO verkefnið ætlar ekki að láta þar við sitja því nú vonast hópurinn til að fá styrk til að geta þróað annað  mælitæki sem rannsakar áhrif skátastarfs á samfélagið. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því enda verulega áhugaverð rannsóknarspurning.

Það var verulega gaman og athyglisvert að sitja þennan fund og heyra um þetta mikilvæga verkefni sem mikill metnaður hefur verið lagður í, og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

Texti: Védís Helgadóttir


Ógleymanlegt Gilwell-ævintýri í Slóveníu

Íslenski fararhópurinn. Frá vinstri: Elín (Fossbúum), Tero (Úlfljótsvatni), Steinar Logi (Kópum), Hinrik (Vogabúum), Sebastian (Klakki), Hjálmar (Kópum) og Thelma (Hraunbúum).

Síðustu helgina í febrúar fóru sex skátaforingjar frá Íslandi, og einn leiðbeinandi, til Postojna í Slóveníu til að taka þátt í seinni hluta Gilwell-námskeiðs. Ferðin var hin eftirminnilegasta í alla staði og á námskeiðinu fengu foringjarnir gott veganesti fyrir foringjastörf sín, og fyrir síðasta hluta þjálfunarinnar – Gilwell-verkefnið.

Þetta er í annað sinn sem íslenskur hópur fer á Gilwell í Slóveníu, en um er að ræða fjölþjóðlegt námskeið sem styrkt er af Erasmus+, og hét fullu nafni International Wood Badge course - Bohinj 2023. Samhliða fjölþjóðlega námskeiðinu eru keyrð tvö önnur námskeið á sama tíma og undir sama hatti. Á þeim er lögð áhersla á dagskrármál annars vegar og stjórnun skátafélaga og viðburða hins vegar. Á alþjóðlega námskeiðinu er áherslan hins vegar á að foringinn læri að þekkja sjálfan sig – hver gildi hans eru og hvernig þau nýtast í leiðtogastörfum.

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í skátamiðstöð við Bohinj-vatn í ágúst á síðasta ári. Auk Íslendinga og Slóvena sóttu foringjar frá Svartfjallalandi og Serbíu námskeiðið líka. Gilwell-námskeið eru alltaf mikil upplifun, en að sitja slíkt námskeið í suður-evrópskri náttúruperlu og fá í leiðinni tækifæri til að kynnast vel skátaforingjum með allt annan bakgrunn, það er ævintýri líkast!

 

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í Bohinj í ágúst sl. Hér má sjá Tero og Sebastian vinna verkefni með flokknum sínum, úti í skógi.

Hópurinn flaug út á fimmtudegi. Eftir stutt næturstopp í höfuðborginni Ljubljana var farið með lest til Postojna-borgar, sem er hvað frægust fyrir samnefndan helli sem er alls um 23 km langur og fullur af dropsteinum. Fyrir námskeiðið gafst hópnum tími til að fara í skoðunarferð um hellinn, sem var sannarlega fyrirhafnarinnar virði.

Íslensku þátttakendurnir fóru að sjálfsögðu í Postojna-helli, sem er ævintýraheimur út af fyrir sig.

Á námskeiðinu sjálfu var að þessu sinni kafað dýpra ofan í verkefnastjórnun, fullorðna í skátastarfi, leiðtogahlutverkið, sögu Gilwell-námskeiða og fleira. Auk þess var sérstök vinnustofa þar sem þátttakendur reyndu að festa hönd á því hvað þeir höfðu lært á fyrri hluta námskeiðsins. Það getur nefnilega verið auðveldara að átta sig á slíku þegar smá tími hefur liðið og reynsla er komin á að nýta fróðleikinn af námskeiðinu.

Seinni hluti námskeiðsins fór fram í hosteli sem er líka menntaskóli fyrir verðandi skógfræðinga.

Eftir slit á sunnudegi beið svo leigubíll eftir hópnum. Leiðin lá í Predjama kastala, sem er steinsnar frá Postojna. Kastalans er fyrst getið í heimildum árið 1274, en hann er byggður að hluta inni í kletti. Eftir stutta en mjög áhugaverða heimsókn til miðalda lá leiðin aftur til Ljubljana og beint upp í flugvél.

Ferðin endaði svo á heimsókn í Predjama-kastala. Þetta væri nú ágætis skátaheimili!

Við tekur vinna við Gilwell-verkefnin, en hver þátttakandi þarf að klára verkefni sem reynir á verkefnastjórnunar- og leiðtogahæfileika viðkomandi. Verkefnin eru fjölbreytt, allt frá því að skipuleggja útilegu fyrir dróttskáta í tveimur félögum, yfir í viðamiklar rannsóknir eða bókaútgáfu.

Fyrir hvern og einn þátttakanda er ferð eins og þessi ógleymanlegt ævintýri. Fyrir utan það sem hægt er að læra á svona námskeiði fara skátaforingjarnir heim af því með nýja vini frá öðrum heimshornum. Slík vinátta getur enst alla ævi og býður upp á alls konar samstarf, skoðanaskipti, ferðalög og fleira. Þetta vita allir skátar sem hafa ferðast. Balkanlöndin kunna að virðast óralangt frá Íslandi, bæði menningarlega og landafræðilega, en eftir stutt kynni kemur auðvitað í ljós að fólk er meira og minna eins alls staðar. Við borðum morgunmat á morgnanna og kvöldmat á kvöldin.

Fyrir hreyfinguna sjálfa er svo dýrmætt að foringjar sækji sér þjálfun og reynslu sem víðast. Það auðgar flóruna heima við og kemur í veg fyrir stöðnun og fábreytni. Áherslurnar á þessu námskeiði eru enda býsna frábrugðnar þeim á íslenska námskeiðinu, þó svo að unnið sé að sama markmiði. Þess háttar fjölbreytni styrkir hreyfinguna og meðlmi hennar.

Það ætti því að vera keppikefli fyrir skátafélög og -bandalög að senda foringja sína vítt og breytt um heiminn. Þátttaka í Slóveníu-Gilwelli er einmitt ein birtingarmynd þeirrar stefnu.

Í ágúst byrjar nýtt námskeið, sem Íslendingar taka ekki þátt í, en þess í stað fara íslenskir þátttakendur á norrænt Gilwell-námskeið. Það verður spennandi að sjá hvað þau læra þar!


Nýtt ungmennaráð kjörið á Ungmennaþingi á Akranesi

Helgina 3.- 4. febrúar var haldið ungmennaþing fyrir skáta 25 ára og yngri í skátaheimili Skátafélags Akraness. Á þinginu var talað um hvernig ungmenni geta haft áhrif, ásamt því hvernig þing virka. Þau mál sem kosið var um á ungmennaþingi munu síðan vera borin fram á Skátaþingi. Það var mikið fjör, skemmtilegur félagsskapur og æðislegur matur. Saddir skátar eru sáttir skátar!

Upphaflega átti þingið að vera á Sauðárkróki en vegna vandræða með rútu var það fært á Akranes. Einnig frestaðist þingið um einn dag vegna veðurs. Það gekk misvel hjá fólki að komast á þingið, ferðin hjá sumum var vandræðalaus en aðrir áttu í veseni með bilaða bíla. Til þess að komast á þingið, sameinaðist fólk í bíla og notfærði sér strætó og voru þá komin klukkan 10:00 á laugardagsmorgni. Fólk kom sér og dótinu sínu fyrir og það tók ekki langan tíma fyrir masið að byrja!

Þingstörf hófust með stæl klukkan 11:00 og kosið var um fundarstjóra, fundarritara og dagskránna. Næst var framsaga, umræður og afgreiðsla áskoranna. Þær voru margar og fjölbreyttar til dæmis kom sú áskorun um aukna vetrarskátun á höfuðborgarsvæðinu ásamt áskoruninni um nýja útgáfu skátahandbókar.

Lagabreytingartillögurnar fóru fram á sama hátt og áskoranirnar. Dæmi um lagabreytingartillögu sem borinn var fram á þinginu er: Að bæta skildi við efnisyfirliti í lög BÍS.

Nokkur met voru sleginn í ár! Fleiri buðu sig fram í ungmennaráð í ár en nokkru sinni fyrr, eða tíu frábærir skátar. Í núverandi og splunkunýja ungmennaráðinu er yngsti meðlimur í sögu ungmennaþings, sem er fæddur árið 2009. Fjórir af fimm meðlimum ungmennaráðs eru staðsettir utan Höfuðborgarsvæðisins og hafa þeir aldrei verið svo margir. Einnig er það í fyrsta sinn sem ein manneskja hlýtur hlutverk bæði sem meðlimur ungmennaráðs og sem áheyrnarfulltrúi ungmenna.

Næsti dagur fór í það að skemmta sér og njóta síðustu stundanna. Gerðar voru smiðjur fyrir ungmennin: eitt um fyrrverandi ungmennaþing sem Högni Gylfason sá um, hvernig á að skipuleggja viðburð? sem Jóhann Thomasson Viderö sá um og smiðja um svefn og mikilvægi þess sem Huldar Hlynsson sá um. Einnig var farið í menningarferð upp í Akranesveita og sund áður en við kvöddum hópinn sem við höfðum eytt skemmtilegri helgi með!

Ps. pítsan var æðisleg

Texti: Ungmennaráð


Skátar halda upp á 22. febrúar - Þankadaginn

Víðsvegar um heiminn er haldið upp á 22. febrúar en hann er kallaður Þankadagur og Stofnendadagurinn (e. Founder's day).

Íslenskir skátar héldu upp á þennan dag á ýmsan hátt, sumir báru skátaklútinn eða skiptu um prófílmynd á facebook. Einnig fóru Harpa Ósk skátahöfðingi og Kolbrún Ósk Landsmótsstýra í skemmtilegt viðtal á Rás 1.
Harpa Ósk skrifaði grein um mikilvægi skátastarfs og geðheilbrigði barna og birtist hún á vísi. Skátafélagið Mosverjar hélt hátíðarkvöldvöku og skátafélagið Kópar og Gildi héldu saman kvöldvöku sem var vel sótt.


Skátaævintýri á Útilífsnámskeiði

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn stóðu Skíðasamband skáta og skátafélagið Klakkur fyrir Útilífsnámskeiði í Eyjafirði fyrir drótt- og rekkaskáta.

Námskeiðið er haldið árlega og að þessu sinni voru 20 þátttakendur á námskeiðinu, 11 skátar frá Klakki og 9 skátar af höfuðborgarsvæðinu ásamt foringjum.

Hópurinn að sunnan lagði af stað með rútu frá Skátamiðstöðinni í hádeginu föstudaginn 9. febrúar og voru mætt í Valhöll tilbúin í verkefni helgarinnar þegar námskeiðið var sett klukkan 18.

Markmið námskeiðsins er að vera hvatning til skátanna að stunda útivist að vetri til og kenna þeim hvernig best er að undirbúa sig fyrir slík ævintýri.

Til þess fá þau fræðslu um ýmislegt sem nauðsynlegt er að vita, meðal annars um viðeigandi klæðnað og búnað ásamt því að þjálfast í rötun og á gönguskíðum.

Að auki gerðu þátttakendur eldhús úr snjónum, sem nóg var af, en þar elduðu þau og borðuðu flestar máltíðir á meðan námskeiðinu stóð.

Einnig tjölduðu þau í snjónum og létu kuldan ekki á sig fá þegar þau gistu í tjöldunum seinni nóttina.

Það voru sáttir skátar sem héldu heim á sunnudegi.

 

 

 

 


Framkvæmdastjóri & Skátahöfðingi sóttu fund í Gilwell park

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn sóttu Ragnar og Harpa fund skátahöfðingja og framkvæmdastjóra Evrópu í Gilwell Park á vegum Evrópustjórnar WOSM. Yfirskrift fundarins var sjálfbærni í skátastarfi og voru vinnulotur og fundir helgarinnar tileinkaðar því mest alla helgina. Í Gilwell park er góð aðstaða fyrir samkomur af þessu tagi, mörg skemmtileg og óhefðbundin rými í boði og hópurinn gisti í hefðbundnum skátaskálum á svæðinu. Fundinn sóttu yfir 50 fulltrúar 26 Evrópulanda auk fulltrúa Evrópustjórnar WOSM.

Fundir helgarinnar voru samkeyrðir að nokkru leiti á milli skátahöfðingja og framkvæmdastjóra en einnig voru vinnustofur sértaklega tileinkaðar öðrum hvorum hópnum. Það er frábært tækifæri að fá að mæta á fund þar sem aðrir einstaklingar sem sinna sömu stöðu í öðrum bandalögum ná að hittast og kynnast, deila hugmyndum og fá speglun á vandamál þvert á menningu og landsvæði.

Meðal fyrirlestra og vinnusmiðja voru
· Innleiðing sjálfbærnihugsjónar í skátastarf
· Seigla bandalaga
· Gagnadrivin ákvarðanataka
· Geðræn heils
· Sjálfbærni í rekstri
· Skautun í þjóðfélögum í Evrópu
· Gegnsæji í stjórnun bandalaga
· Þátttaka ungmenna í stjórnun bandalaga

Umræður um stefnumótun lituðu stóran hluta föstudags og laugardags og komu þá fram að mikilvægustu þættir flestra bandalaga voru vöxtur, dagskrármál, fjárhagslegur stöðugleiki, efling sjálfboðaliða og sjálfbærni.

 

Það var góð tilfinning og heilmikil upplifun að funda og ræða við alþjóðlega kollega á stað sem hefur mikla þýðingu fyrir upphaf skátastarfs í heiminum. Ekki skemmdi fyrir að við fengum að sjá Kúdúhornið fræga og silfurúlf BP sjálfs. Samkoman skilaði okkur miklum innblæstri og nýjum hugmyndum, auk þess var gott að fá staðfestingu að íslenskt skátastarf er á góðri leið í samanburði við nágrannaþjóðir okkar. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að sameiginlegar áskoranir skátastarfs í Evrópu, hvort sem þátttakendafjöldi landsins sé 1000 eða 100.000. Frábær og vel skipulögð helgi að baki þar sem skátahöfðingi og framkvæmdastjóri koma til baka innblásin og betur tengdari en fyrir fund.

 

 


Privacy Preference Center