Mælitæki á áhrif æskulýðsstarfs á ungt fólk kynnt á ImpactYouth

Þann 22. febrúar sótti Védís Helgadóttir lokafund MIYO verkefnisins í Belgíu.

MIYO verkefnið (e. Measuring Impact: with, for and by youth organisations) er samstarfsverkefni WOSM, YMCA í Evrópu og Maynooth University og markmið þess er að búa til mælitæki til þess að mæla áhrif ýmissa ungmennahreyfinga, t.d. skátahreyfingarinnar, á ungt fólk.
Á fundinum var þetta mælitæki kynnt en það hefur verið í þróun síðastliðin tvö ár og nokkur bandalög hafa nú þegar tekið þátt í pilot-rannsóknum.

Það er mikilvægt fyrir skátahreyfinguna, og smærri einingar innan hennar, að geta sýnt með sannanlegum hætti hver áhrif starfs hennar er á skátana, t.d. hvaða færni skátarnir öðlast og hvað þeir læra.
Fyrst og fremst er það mikilvægt fyrir hreyfinguna sjálfa, til að vita á hvaða leið hún er, en það er líka mikilvægt að hreyfingin eigi þessi gögn til að geta sýnt almenningi hver áhrif skátastarfs eru, sem og til að kynna fyrir styrktaraðilum sínum.

 

Mælitækið er tvíþætt en miðað hefur verið við að þátttakendur í rannsókninni séu á aldrinum 14-18 ára.
Annars vegar byggist mælitækið á spurningalista og hins vegar á umræðum í rýnihópum. Þannig eiga rýnihóparnir að dýpka svörin úr spurningalistunum.
Spurningalistinn sem lagður er fyrir þátttakendur er tvíþættur; fyrri hlutinn inniheldur lýðfræðilegar spurningar þar sem er spurt um bakgrunnsupplýsingar skátanna, m.a. hve lengi þeir hafa verið starfandi.
Í seinni hlutanum eru fullyrðingar lagðar fyrir og þátttakendur beðnir um að meta á skalanum 1-10 hversu sammála þeir eru fullyrðingunum. Fullyrðingarnar koma alltaf tvær saman og tengjast þær innbyrðis.

Dæmi um fullyrðingapar:

  • Ég reyni að lifa heilsusamlegu lífi (næring, svefn, hreyfing)
  • Skátastarf hvetur mig til þess að lifa heilsusamlegu lífi

Þannig lýtur fullyrðing A meira að skátanum sjálfum en fullyrðingu B er ætlað að kanna hver bein áhrif af skátastarfinu sjálfu eru.
Þegar fullyrðingarnar fyrir spurningalistann voru samdar var stuðst við SPICES módelið sem WOSM þróaði og hefur hér heima verið kallað þroskasviðin 6 þannig að fullyrðingarnar tengjast allar einhverju þroskasviðanna.

Nokkur þátttökulönd í verkefninu, m.a. Svíar og Tékkar, sögðu á fundinum frá pilot-rannsóknum sem þau höfðu framkvæmt á meðan verið var að þróa mælitækið og það var verulega gagnlegt að heyra frá þeim hvernig mælitækið virkaði í praktík og hvaða hindrunum þau hefðu mætt og hvernig þau hefðu leyst úr þeim, og sömuleiðis var athyglisvert að heyra niðurstöðurnar þeirra sem voru um sumt svipaðar milli landanna.

Það var gaman að sjá hvað mikill metnaður hefur verið lagður í MIYO verkefnið en að því koma líka akademískir starfsmenn úr Maynooth University sem miðluðu á sérlega skýran máta fræðilegum atriðum varðandi mælitækið og sögðu m.a. frá því hvernig á að velja úrtak og hvernig best er að leiða umræður í rýnihóp.

Á fundinum var mælitækið formlega gefið út þannig að núna geta öll bandalög framkvæmt sínar eigin rannsóknir með notkun þess.
Á vefsíðunni impactofyouth.org eru góðar leiðbeiningar um hvernig maður á að snúa sér í því og það verður spennandi að sjá niðurstöður úr frekari rannsóknum.

Eins og áður sagði snýr mælitækið sem nú hefur verið þróað að því hver áhrif skátastarfs eru á einstaklingana sem taka þátt í skátastarfinu.
Hópurinn sem annast hefur MIYO verkefnið ætlar ekki að láta þar við sitja því nú vonast hópurinn til að fá styrk til að geta þróað annað  mælitæki sem rannsakar áhrif skátastarfs á samfélagið. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því enda verulega áhugaverð rannsóknarspurning.

Það var verulega gaman og athyglisvert að sitja þennan fund og heyra um þetta mikilvæga verkefni sem mikill metnaður hefur verið lagður í, og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

Texti: Védís Helgadóttir