Drekaskátar breyttust í ninjur í Hveragerði

Laugardaginn 2. mars síðastliðinn stóð Skátafélagið Strókur fyrir hinum árlega Drekaskátadegi þar sem um 160 skátar komu saman  til að efla skátaandann og samheldni. Drekaskátarnir hjá Stróki völdu að hafa Ninja þema og fengu því öll ninja grímur áður en haldið var í dagskrá.

Fálka- og Dróttskátar Stróks sáu um að skipuleggja og stýra dagskrá sem var ekki af verri endanum. Tvö dagskrárbil voru í boði, annarsvegar í Lystigarðinum þar sem boðið var upp á 7 leikjastöðvar með hinum ýmsu hópeflisleikjum, og hinsvegar 7 stöðva ratleik um Hveragerði þar sem skátarnir gengu eftir korti, leystu ninjaþrautir og höfðu gaman. Vinsælasti pósturinn var klárlega póstur númer 5 þar sem grillaðir voru sykurpúðar og ninjaskátasudoku leyst.

   

Í hádeginu voru borðaðar hvorki meira né minna en 380 pylsur og var gott fyrir skátana að komast aðeins inn að hlýja sér á milli dagskrárbila. Eftir að öll höfðu lokið dagskrá var komið saman fyrir utan Bungubrekku þar sem öll fengu ninjamerki fyrir þátttöku, kakó, kex og ís því auðvita borða Drekaskátar ís í -5 stiga frosti. Drekaskátadeginum var slitið með Bræðralagssöngnum og héldu skátarnir svo glaðir heim eftir vel heppnaðan dag.

Skátafélagið Strókur þakkar öllum sem tóku þátt og gerðu þennan dag mögulegan og hlakkar til að hitta öll í næsta skátaævintýri.

Fyrir hönd Skátafélagsins Stróks,
Sjöfn Ingvarsdóttir félagsforingi.