Yfir 100 drekaskátar komu saman á drekaskátadegi Svana

Drekaskátadagurinn 2023 var haldinn á laugardaginn seinast liðinn þann 4. mars. Dagurinn var haldinn af Skátafélaginu Svönum og fór dagskráin fram á Álftanesi í stórumhverfinu í kringum skátaheimili þeirra á Bjarnastöðum. Dagurinn gekk frábærlega fyrir sig, og fengu drekarnir ljómandi gott veður, þó það hafi verið örlítið kal, skein sólinn allan daginn og gerði leiki og dagskrá skemmtilega og létta.
Táknræn umgjörð dagsins var „Sjóræningjar og geimverur“ þar sem skátarnir tóku hlutverk sjóræningja sem voru að endurheimta kex og kakó sem geimverurnar höfðu stolið af þeim. Skátarnir gengu á milli pósta sem voru að finna dreift um stóran hluta Álftanes. Á hverjum póst tókust skátarnir á áskorunum geimveranna, í formi leikja og verkefna.
Að lokum, þegar drekarnir náðu að sigra geimverurnar, settust skátarnir niður við Bjarnastaði, skátaheimili Svana, og drukku kakó og kjömsuðu á kexi.

Drekaskátar í leik, mynd eftir Guðna Gíslason, Hraunbúa„Það var einstaklega skemmtilegt að sjá fjörið í krökkunum og foringjum“ segir Halldór Valberg, félagsforingi Svana. „Við vorum heppin með veður, sólin lék við okkur. Þegar við héldum fálkaskátadaginn fyrir nokkrum árum var svo mikið rok að við vorum hrædd um að krakkar gætu farið að fjúka, en núna fengum við þetta dásamlega veður og nýttum það vel.“
Foringjar og sjálfboðaliðar Svana þakka kærlega frábæra þátttöku og einstaklega góðan anda í þátttakendum og foringjum.
Auglýsum eftir umsóknum í styrktarsjóð skáta
Styrktarsjóður skáta er sjóður sem haldið er úti af Bandalagi íslenskra skáta til að styrkja verkefni skátahreyfingunni á Íslandi til heilla. Samkvæmt reglugerð sjóðsins skulu styrkhæf verkefni falla í einn eftirfarandi flokka:
- Útgáfu innan skátahreyfingarinnar
- Nýjungar í starfi skátafélaganna sem miði að fjölgun skáta á Íslandi
- Styrkur til aðstöðusköpunar skátastarfs
- Fræðslumála innan skátahreyfingarinnar
- Styrkir til skátafélaga til að auðvelda börnum og fullorðnum með ólíkan bakgrunn að taka þátt í skátastarfi
Hægt er að sækja um styrki í sjóðinn allt árið en styrkir að upphæð 100.000 króna eða hærri eru aðeins veittar einu sinni á ári, á Skátaþingi. Því er ærið tækifæri að sækja um núna fyrir metnaðarfullum verkefnum.
Til að hvetja skátahópa og skátafélögin til að sækja um hefur sjóðstjórnin ákveðið að fara álíka leið og þegar verkefni voru styrkt tend þemanu "10 nýjar leiðir í skátastarfi". Því hefur sjóðstjórn valið nýtt þema og hvetur félög til að sækja um verkefni sem falla að því en slík verkefni verða styrkt sérstaklega á Skátaþingi þetta árið. Þemað er:
Samstarf við aðila í nærsamfélaginu og önnur samfélagsverkefni
Til að nægur tími gefist til að vinna úr umsóknum eru öll hvött að sækja um fyrir 22. mars. Hægt er að sækja um í gegnum umsóknarform sjóðsins sem er einnig að finna hér að neðan.
Umsókn í fararhóp Agora 2023

Hvað er Agora?
Agora er viðburður sem er skipulagður af rekka- og róverskátum fyrir rekka- og róverskáta. Bandalag íslenskra skáta fær 4 sæti fyrir rekka- og róverskáta á viðburðinn.
Hvar og hvenær:
Í ár verður viðburðurinn haldinn í skátamiðstöðinni Fátima í Portúgal 12.-16. april 2023.
Markmið:
Á Agora 2023 munu þátttakendur :
- Öðlast verkfæri sem aðstoða þá við að deila hugmyndum á skipulagðan hátt, geta hannað og skipulagt verkefni tengd sjálfbærni sem gætu svo verið innleidd í skátafélögum eða skátabandalagi.
- Læra um mismunandi menningu og dagskráramma hjá rekka- og róverskátum í Evrópu, á meðan þeir deila sinni reynslu með öðrum þátttakendum.
- Gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem þeir hafa, sem ungt fólk, á mismunandi þætti samfélagsins hvort sem það er í gegnum skátastarf eða samfélagið. Geta gefið dæmi úr eigin reynsluheimi.
- Taka þátt í verkefnum sem tengjast valdeflingu ungmenna.
Þema viðburðarins:
Árin 2023 og 2024 verður þema Agora tengt Erasmus+ og earth tribe project , sem er verkefni sem evrópudeild WOSM er að koma í framkvæmd með áherslu á sjálfbærni. Hægt er að lesa meira um það verkefni hér.
Hverjir geta sótt um:
Bandalag íslenskra skáta fær 4 sæti á Agora 2023. Rekka- og róverskátar skráðir í Bandalag íslenskra skáta geta sótt um að vera þátttakandi frá Íslandi með því að fylla út umsóknareyðublaðið hér að neðan. Þátttakendur þurfa að geta tjáð sig um rekka- og róverskátastarf á Íslandi og vera virkir, áhugasamir og tilbúnir í að læra nýjar og mismunandi aðferðir sem nota má í skátastarfi. Mikill kostur er að þátttakendur hafi áhuga á umhverfinu og sjálfbærni. Tungumálið sem notað er á viðburðinum er enska og er því mikilvægt að þátttakendur geti tjáð sig og skilið umræður á ensku.
Verð:
Þátttökugjaldið á Agora 2023 er 100 evrur. Þátttakendur þurfa að greiða flug og ferðakostnað sjálfir en hægt er að sækja um ferðastyrk upp að 200 evrum.
Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Agora. Endilega hafið samband við Alþjóðaráð
Umsóknarfrestur er til og með 6. mars 2023 og er hægt að sækja um með því að fylla út umsóknareyðublaðið hér að neðan.
Skátamiðstöðin lokuð 20. febrúar

Skátamiðstöðin er lokuð föstudaginn 20. febrúar meðan starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar og Úlfljótsvatns gera sér glaðan dag. Hægt er að senda okkur erindi á skatarnir@skatarnir.is og vænta svara strax á morgunn.
Nýtt fyrirkomulag erindreksturs 2023

Um 2022 voru gerðar talsverðar breytingar á skipulagi Skátamiðstöðvarinnar. Breytingar sem ætlaðar voru til þess að auka þjónustu og stuðning við skátafélög og sjálfboðaliða. Meðal breytinga voru að þá störfuðu þrír erindrekar, með það markmið að þjónusta og styðja félögin í starfi sínu. Fyrsta skrefið sem nýtt teymi ákvað að taka var að skipta félögunum formlega niður svo að hvert félag eigi sinn erindreka sem stjórnir og skátaforingjar viti að þau geti leitað til eftir stuðningi. Þannig værii betur hægt að tryggt jafna þjónustu við öll skátafélög, byggja upp traustara samband við félagsráð hvers skátafélags en einnig einfalda skátafélögum öll samskipti við Skátamiðstöðina.
Einn erindreka lauk störfum undir lok árs 2022 og í framhaldi starfa nú 2 erindrekar hjá Skátamiðstöðinni. Þau ætla áfram að skipta með sér félögum þar sem það hefur gert öll samskipti einfaldari bæði fyrir skátafélögin og fyrir Skátamiðstöðina.
Skipting erindreka á skátafélög er eftirfarandi:

Sigurgeir B. Þórisson
Netfang: sigurgeir@skatarnir.is
Sími: 550 9801 / 867 0604
- Skátafélag Akranes
- Skátafélagið Árbúar
- Skátafélag Borgarness
- Skátafélagið Farfuglar
- Skátafélagið Faxi
- Skátafélagið Garðbúar
- Skátafélagið Hafernir
- Skátafélagið Heiðabúar
- Skátafélagið Klakkur
- Skátafélagið Kópar
- Skátafélagið Mosverjar
- Skátafélagið Svanir
- Skátafélagið Vogabúar

Sædís Ósk Helgadóttir
Netfang: saedis@skatarnir.is
Sími: 550 9805 / 661 6433
- Skátafélagið Eilífsbúar
- Skátafélagið Fossbúar
- Skátafélagið Hraunbúar
- Skátafélagið Landnemar
- Skátafélagið Segull
- Skátafélagið Skjöldungar
- Skátafélagið Stígandi
- Skátafélagið Strókur
- Skátafélagið Vífill
- Skátafélagið Ægisbúar
- Skátafélagið Örninn
Erindrekarnir vinna áfram sem teymi að öllum verkefnum og þvert á þessa skiptingu við stuðning verkefna eftir þeirra styrkleikum og þekkingu hverju sinni. En nú geta félögin alltaf treyst á þennan aðila til að hjálpa sér að finna bestu lausnina á sínum áskorunum. Þar að auki verður þessi erindreki tengiliður skátafélagsins þegar kemur að nokkurs konar upplýsingamiðlun til Skátamiðstöðvarinnar eða BÍS og geta sent öll gögn, allar fyrirspurnir og öll önnur mál sem þau vita ekki alveg nákvæmlega hverjum öðrum þau ættu að berast tengt skátastarfinu.
Fundarboð Skátaþings 2023
Stjórn Bandalags íslenskra skáta boðar til Skátaþings 2023.
Þingið verður haldið dagana 24.-26. mars í Háskólanum á Akureyri og hefst með setningu kl. 20:30 föstudaginn 24. mars og lýkur sunnudaginn 26. mars kl. 13:00. Aðstaðan opnar kl. 18:30 og frá þeim tíma er hægt að fá þinggögn afhent. Kl. 19:30 verða opnar kynningar fram að setningu. Vakin er athygli á að ekki verður boðið upp á kvöldmat á föstudegi.
Dagskrá þingsins er skv. 21. grein laga BÍS og er sérstök athygli vakin á því að skv. 17. grein laga BÍS er ekki kosningaár. Einnig er rétt að vekja sérstaka athygli á greinum 18-20 í lögum BÍS sem fjalla um Skátaþing.
Allir starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétt óháð aðildarleið. Skátar 16 ára og eldri geta farið með 1 atkvæði félags sem þau eru skráð í. Skátafélög eru hvött til að vekja athygli sinna skáta á þinginu. Öll sem hyggjast taka þátt skulu skv. 18. grein laga BÍS skrá sig á skraning.skatarnir.is fyrir 17 mars klukkan 20:30. Félagsforingjar eða annað stjórnarfólk skátafélaganna skal skila kjörbréfum rafrænt þar sem tilgreindir eru aðal- og varafulltrúar skátafélags á þinginu.
Þátttökugjald er 6.000 kr., innifalin eru þinggögn, léttar veitingar á föstudagskvöldi, morgunverður báða morgna, hádegisverður á laugardegi og sunnudegi og almenn dagskrá sem verður boðið upp á samhliða þinginu.
Skátafélagið Klakkur er gestgjafi þingsins. Þau munu bjóða svefnpláss í Valhöll, skátaskála Klakks á Vaðlaheiði og í Hyrnu, skátaheimili Klakks í Þórunnarstræti. Þá mun félagið standa fyrir sérstökum hátíðarkvöldverði á laugardegi þingsins. Öll skráning fyrir slíkt mun fara fram í Sportabler og verður eingöngu aðgengileg þeim sem eru þegar skráð á Skátaþing.
Mikilvægar dagsetningar fram að Skátaþingi:
Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi dagsetningum fram að þingi samkvæmt gildandi lögum BÍS.
- febrúar kl. 20:30– Fresti til að skila tillögum að lagabreytingum til stjórnar BÍS lýkur.
3. mars kl. 20:30– Fresti til að skila beiðnum um upptöku mála á Skátaþingi til stjórnar BÍS lýkur.
10. mars kl. 20:30 – Fresti stjórnar BÍS til að senda félagsforingjum þinggögn og drög að dagskrá Skátaþings lýkur.
17. mars kl. 20:30 – Fresti til að skila athugasemdum um útsend gögn til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
17. mars kl. 20:30 – Skráning á Skátaþing lýkur.
24. mars kl. 20:30 – Fresti skátafélaga til að skila gögnum og kjörbréfum til skrifstofu BÍS lýkur.
24. mars kl. 20:30 – Skátaþing er sett.24
Upplýsingasíðu Skátaþings má finna á skatarnir.is/skatathing en þar má finna allar upplýsingar um Skátaþing í rauntíma, þangað verður gögnum hlaðið upp þegar þau berast og í síðasta lagi fyrir tilgreindan frest samkvæmt lögum. Öll þinggögn verða aðgengileg þar á rafrænu formi þegar Skátaþing verður sett.
Reykjavík 20. janúar 2023
Fyrir hönd stjórnar BÍS
Harpa Ósk Valgeirsdóttir
Skátahöfðingi
Úlfur Kvaran nýr sölu- og markaðsfulltrúi Skátabúðarinnar

Okkur er sönn ánægja að tilkynna að Úlfur Kvaran hefur verið ráðinn sem sölu- og markaðsfulltrúi Skátabúðarinnar og mun meðal annars sinna daglegum rekstri og þjónustu Skátabúðarinnar, hafa umsjón með pöntunum birgða, útgáfu bæklinga og bóka og umsjón með sölu- og markaðsetningu Sígrænna jólatrjáa. Úlfur byrjaði sem ylfingur í skátafélaginu Fossbúum og hefur verið skátaforingi og er nú starfandi aðstoðarfélagsforingi og starfsmaður Fossbúa. Hann hefur ríka reynslu af sölu- og lagerstjórnun en hann var deildarstjóri húsgagna hjá Rúmfatalagernum.
Úlfur hóf störf 2. janúar og við hlökkum til samvinnunnar!
EN:
We are pleased to announce that Úlfur Kvaran has been hired as a sales and marketing representative for Skátabúðin. He will, among other things, handle the day-to-day operations and services of the Scout shop, supervise the ordering of supplies, the publication of brochures and books, and the management of sales and marketing of the Evergreen Christmas trees. Úlfur started scouting as a cub scout in his home town with the scout group Fossbúar. He has been a scout leader with his group as well as being the assistant club leader and an employee of Fossbúar. He has extensive experience in sales and inventory management as he was the head of the furniture department at Rúmfatalager.
Úlfur started work on January 2nd and we look forward to the cooperation!
Bandalag íslenskra skáta fær styrk úr samfélagssjóði Landsbankans

Bandalag íslenskra Skáta fékk styrk frá samfélagssjóði Landsbankans að upphæð 250.000 kr. síðast liðin 20.desember. Styrkurinn er fyrir verkefnið Fjölskylduskátadagur fyrir flóttafólk frá Úkraínu en við buðum fjölskyldum flóttafólks frá Úkraínu í dagsferð á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Markmiðið með viðburðinum var að bjóða flóttafólki frá Úkraínu jákvæða, heilbrigða og verðmæta upplifun á Úlfljótsvatni. Þar komu fjölskyldur frá Úkraínu saman, kynntust hver annarri og sköpuðu minningar saman með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá og nutu samverustundar sem fjölskylda.
Samræmd viðbragðsáætlun lítur dagsins ljós

Föstudaginn 5. nóvember kynnti Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf. Um er að ræða leiðbeinandi áætlun til að styðja þau sem standa fyrir slíkri starfsemi þegar upp koma atvik eða áföll í félagsstarfinu. Viðbragðsáætlunin tekur við af þeirri sem Æskulýðsvettvangurinn setti sér að fylgja árið 2018 og byggir ofan á þá áætlun.
„Við erum að stuðla að bættu öryggi, erum að vinna gegn ofbeldi og mismunun og erum að sýna ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu. Þessi sameiginlega áætlun gerir það að verkum að öll félög geta notið leiðsagnar og stuðnings í glímunni við þau mál sem koma upp,‟ segir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Viðstödd kynninguna voru fulltrúar þeirra félaga sem komu að gerð viðbragðsáætlunarinnar, Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, sérfræðingar ráðuneytisins ásamt þeim Lárusi Blöndal, forseta ÍSÍ, skátahöfðingjanum Hörpu Ósk Valgeirsdóttur og Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, formanni UMFÍ.
Margsannað mikilvægi viðbragðsáætlunar
Skátarnir hófu vinnu að viðbragðsáætlun árið 2010 og kom fyrsta útgáfa hennar út 2011. Hún var uppfærð tvisvar, 2013 og 2015, en árið 2018 var hún bæði uppfærð og tekin upp á víðari vettvangi Æskulýðsvettvangsins sem sú áætlun sem þau samtök settu sér að fylgja í þeim málum sem hún náði til. Það var á stefnu að sú áætlun yrði endurskoðuð og uppfærð árið 2020 en um sama leiti nálgaðist embætti samskiptaráðgjafa samtökin um að taka þátt í að gera samræmda áætlun og var því átaki tekið fagnandi. Enda hafa skátarnir ásamt samtökunum sem mynda Æskulýðsvettvanginn löngum talað af reynslu fyrir mikilvægi þess að hafa til staðar viðbragðsáætlun sem tryggir fagleg og samkvæm viðbrögð í hinum ýmsu atvikum óháð því hver á í hlut og á hvaða vettvangi atvikið verður.
Viðbragðsáætlunin byggir því ofan á þær góðu áætlanir sem voru til fyrir. Í henni er því að finna hvernig félög bregðist við ofbeldi af nokkru tagi, agabrotum, slysum, sjúkdómum, málum sem ber að tilkynna barnavernd og ýmsu sem áður var að finna í áætluninni en nú af enn meiri nákvæmni. En nú er þar líka að ýmsa nýja kafla um hvernig félög búa til öruggt umhverfi m.t.t. inngildingar, hinseginleika og fjölmenningar ásamt viðbrögðum við fordómum í félagsstarfi. Þá er einnig að finna nýjan kafla um andlega líðan og viðbrögð við atvikum sem geta komið upp tengt því.
„Þessi áætlun telur til flestra þeirra atvika sem við teljum að geti komið upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi,‟ sagði Sigurbjörg og taldi upp sem dæmi handleggsbrot á æfingu, barnaverndartilkynningu sem þurfi að senda út, kynferðisbrot eða annað sem getur komið upp í starfi íþrótta- og æskulýðsfélaga.
„Þarna eru leiðbeiningar sem leiða félögin áfram. Stuðningur við það er svo hjá samskiptaráðgjafa,‟ bætti Sigurbjörg við og hvatti forráðafólk í öllum íþrótta og æskulýðsfélögum landsins til að sækja viðbragðsáætlunina, birta hana á heimasíðum sínum eða setja hlekki á miðla.
„Ekki síst þarf að kynna hana fyrir sínu starfsfólki, stjórnum, sjálfboðaliðum, þátttakendum og forsjáraðilum og bara öllum sem þetta við kemur.“

Sögulegt samstarf!
Vinna að viðbragðsáætluninni hefur staðið yfir í tvö ár, en stuttu eftir að embætti samskiptaráðgjafa var sett á fót var leitað til hagaðila á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs um að koma að þessari vinnu. Að borðinu komu samtökin sem mynda Æskulýðsvettvanginn þ.e. Bandalag íslenskra skáta, KFUM/KFUK, Landsbjörg, Ungmennafélag Íslands ásamt íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íþrótta- og ólympíusamband Íslands. Sigurgeir B. Þórisson erindreki BÍS sat í vinnuhópnum fyrir hönd skátanna.
Innleiðingarstarf framundan og áframhaldandi framþróun
Bandalag íslenskra skáta fer nú af stað með innleiðingu nýrrar áætlunar, það mun fela í sér kynningar á innihaldi nýrrar áætlunar ásamt þjálfunar í notkun hennar á foringjanámskeiðum BÍS og á Skátaþingi 2023.
Reynslan hefur líka sýnt að vinnu sem þessari er aldrei lokið að fullu. Það er mikilvægt að hafa áætlanir og að starfa eftir þeim en síðan þarf að rýna í reynsluna af þeim viðbrögðum og nota hana til að gera verkfærin og ferlana enn betri til framtíðar.
Nálgast viðbragðsáætlun
Sækja: Viðbragðsáætlun Íþrótta- og æskulýðsstarfs
Fleiri en 200 íslenskir skátar tóku þátt í JOTA-JOTI 2022

Alþjóðlega skátamótið JOTA-JOTI fór fram helgina 14.-16. október, skammstöfunin stendur á ensku fyrir alheimsmót skáta í loftinu og alheimsmót skáta á internetinu. Á milli 2 og 3 miljónir skáta um allan heim tóku þátt í mótinu. Íslenskir skátar um land allt tóku líka þátt í viðburðinum en skátar frá Akranesi, Akureyri, Búðardal, Reykjavík og Hafnarfirði voru á meðal þátttakenda.

Það eru ýmsar leiðir færar til að taka þátt í mótinu en skátar geta bæði tekið þátt sem einstaklingar eða tekið þátt í mótinu í stærri hópum. Mótið fer fram á rafrænu mótsvæði sem skiptist upp í dagskrártorg þar sem hvert torg er með ólíka áherslu. Innan hvers torgs er síðan fjölbreytt og spennandi dagskrá yfir helgina þar sem þátttakendur geta tengst skátum um allan heim ýmist á zoom fundum, í tölvuleikjum eða bara með að fást við verkefni í raunheimum á sama tíma og þúsundir annarra.

Flestir íslenskra skáta tóku þátt með sínu skátafélagi en félögin fóru ólíkar leiðir til að taka þátt. Skátafélögin Landnemar og Hraunbúar voru í félagsútilegu umrædda helgi á Úlfljótsvatni og í Lækjabotnum og nýttu mótið fyrir dagskrá í útilegunni hjá sér, þau fengu líka aðstoð radíóskáta sem mættu til þeirra og hjálpuðu þeim að taka þátt í þeim hluta mótsins sem fór fram í loftinu gegnum talstöðvar og annan fjarskiptabúnað. Skátafélag Akraness, Klakkur og Stígandi voru héldu viðburð í sinni heimabyggð vegna tilefnisins þar sem áhugasamir skátar gátu komið að taka þátt í mótinu með sínum skátaforingjum og gist á meðan að á viðburðinum stóð. Árbúar hittust síðan í skátaheimilinu til að taka þátt saman í mótinu meðan sum í hópnum voru heima en tengd við restina af hópnum gegnum sameiginlega spjallrás. Garðbúar skráðu síðan hóp til þátttöku og auglýstu til sinna skáta og foringja sem tóku síðan þátt sitt í hvoru lagi. Þá tóku á milli 10 og 20 íslenskir skátar líka þátt í mótinu án þess að vera í stærri hóp.
Í heildina tóku því fleiri en 200 skátar þátt í mótinu og var skiptingin eftirfarandi samkvæmt skrá mótsins:
Skátafélagið Árbúar - 7 skátar
Dróttskátsveitin Oríón, skátafélagi Akraness - 14 skátar
Radíóskátar - 7 skátar
Skátafélagið Stígandi - 10 skátar
Skátafélagið Klakkur - 14 manns
Skátafélagið Garðbúar - 20 skátar
Skátafélagið Landnemar - 50 skátar
Skátafélagið Hraunbúar - 74 skátar













