Verkefni 16 - NáttúruBINGÓ

Verkefni 16 – NáttúruBINGÓ

Verkefni dagsins er náttúruBINGÓ! Þið getið prentað spjöldin út eða notað símann ykkar. Svo er bara að fara út, muna að klæða sig vel, og reyna að vera fyrst/ur til að finna alla hlutina á spjaldinu. Ekki gleyma að öskra eins hátt og þú getur BINGÓ þegar þú ert búin/n að finna alla hlutina. Reyndu að öskra þannig að allir skátar á Íslandi heyri í þér!

Svo deiliru með okkur myndum af hlutnum sem þú finnur – og auðvitað sigurvegaranum!

Skemmtið ykkur vel 🙂


Verkefni 15 - Íslenski fáninn

ÍSLENSKI FÁNINN

Þekkir þú íslenska fánann?

Svarið er örugglega JÁ. Fáninn okkar er blár, rauður og hvítur. Krossfáni eins og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Við flöggum við ýmis tækirfæri, veifum fánanum á hátíðardögum, skreytum kökur og heimili á afmælisdögum. Við málum okkur í framan þegar landsliðin eru að keppa o.fl. ofl.

En vissir þú að það eru til fánalög í mörgum liðum? Lögin fjalla meðal annars  um hvenær við megum draga fána að húni og hvernig. Það er líka bundið í lög í hvaða litum fáninn á að vera og stærðir og hlutföll.

Efni: Pappír, litir, trépinni, lím, bandspotti, aðgangur að interneti

Verkefni 1

Nú skalt þú skoða hvaða reglur eru um hlutföll og stærð fánans. Skoðaðu þessa síðu á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands. Þar sérðu ýmis lög og reglugerðir og neðst á síðunni eru hlutföll fánans. Kynntu þér hvað litirnir eiga að tákna.
Finndu til pappír, reglustiku, blýant og liti. Glímdu við að teikna fánann í réttum hlutföllum (7 – 1 – 2 - 1 – 14 og 7 - 1 - 2 - 1 -7) og litaðu í eins réttum litum og þú átt. Ef þú átt rúðustrikað blað þarftu ekki reglustiku.

Verkefni 2

Fáninn sem við þekkjum í dag hefur ekki alltaf verið fáni Íslendinga. Lengi vel var Ísland hluti af danska ríkinu. Þá flögguðum við danska fánanum. Um tíma vildu Íslendingar nota „hvítbláa fánann“, og einnig voru hugmyndir að gera fálkafánann að þjóðarfána. Löngu fyrr, var hér maður að nafni Jörgen Jörgensen sem vildi gera Íslendinga að sjálfstæðri þjóð. Hann útbjó sérstakan fána fyrir Íslendinga sem var kallaður fáni Jörundar. Vegna þess að Íslendingar kölluðu Jörgen alltaf Jörund.
Leitaðu að myndum af fánunum sem eru feitletraðir í textanum og veldu þér tvo til að teikna. Eða alla.

Verkefni 3

Flestir fánar tákna eitthvað sérstakt. Það er sýnt með litum eða táknum.
Nú skalt þú búa til eigin fána, fyrir þig eða fjölskyldu þína. Þú getur síðan klippt hann út og límt á grillpinna úr tré (ef þú finnur heima) eða fest marga litla á snúru og hengt upp til skrauts. Hvaða litir eru sérstakir fyrir þig?

Verkefni 4

Æfðu þig í að gera fánahnútinn. Hann er oft notaður til að festa fána á fánalínu svo hægt sé að draga fána að húni á fánastöng. Hér getur þú fundið leiðbeiningar og frekari upplýsingar um notkun fánans.

 

 

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur verkefnin þín með því að setja mynd eða myndband á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá!


Snjókarl

Verkefni 14 - Útisamvera

Verkefni 14 – Útisamvera

Verkefni dagsins snýst um að ljúka við verkefnalistann hér að neðan í góðri útivist. Byrjaðu á því að fá alla fjölskylduna þína með þér út að leika og við mælum með því að smyrja nesti og njóta! Takið, auk þess, með ykkur poka fyrir rusl og hanska (ef þið viljið).

Gangi ykkur vel og við hlökkum til að sjá útkomuna! Ekki gleyma að deila með okkur myndum undir #skátarnir og #stuðkví.

útisamvera

Verkefni 13 - Jarðarstund

JARÐARSTUND

Frá 2007 hefur verið haldið upp á viðburðinn "Earth Hour" eða Jarðarstund seinasta laugardag í mars á hverju ári. Markmið Jarðarstundarinnar er að vekja íbúa heims til umhugsunar um loftlagsbreytingar sem eiga sér stað í heiminum, með því að slökkva ljósin í klukkustund. Öll lönd munu því reyna að gera sitt besta, og hvetja sína íbúa til þess að slökkva ljós í klukkutíma kl. 20:30. Undirbúðu kvöldið og taktu saman kerti, spil og bækur og vertu tilbúinn að slökkva ljósin kl. 20:30!

Á þessari vefsíðu er hægt að lesa meira um viðburðinn, og finna ýmsar fróðlegar upplýsingar ásamt verkefnum sem hægt er að gera.


sápuský 4

Verkefni 12 - Tilraunir með sápu

Verkefni 12 – Tilraunir með sápu

Það er hægt að leika sér endalaust með sápu. Hér koma nokkrar hugmyndir að tilraunum sem hægt er að gera með sápustykkjum! Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn fylgi börnunum sínum vel í þessum tilraunum.

Sápuský

Fyrsta tilraunin er að sjá hvað gerist þegar þú setur sápu í örbylgjuofn. Fylgdu leiðbeiningunum vel og fylgstu með hvað gerist. Verður þín sápa að sápuskýi?

Það sem þú þarft:

  • Disk
  • Sápustykki
  • Örbylgjuofn

Aðferð:

  • Sápustykkið tekið úr umbúðum og sett á disk
  • Diskurinn er settur í örbylgjuofn
  • Settu tímann á 80-90 sekúndur, fylgstu vel með

sápuský 1
sápuský 2
sápuský 3
sápuský 4

Sápufroða

Önnur tilraunin snýst um að búa til froðu úr sápunni. Við mælum með að taka froðuna með í baðið eða út að leika! Þú getur skipt froðunni upp í nokkrar skálar og litar þær allar með sitthvorum litnum!

Það sem þú þarft:

  • Matskeiðar
  • Desilítramál
  • Blandara eða hrærivél
  • Uppþvottalög
  • Maíssterkju
  • Matarliti

Aðferð:

  • 0,75 dl vatn
  • 2 msk uppþvottalögur
  • 2 msk maíssterkja
  • Matarlitur (ég var með grænan uppþvottalög sem blandaðist síðan við litina)
  • Allt sett í blandara og blandað saman
  • Þegar ágætis froða er komin þá er henni hellt í baðið, balann eða vaskinn
  • Litunum blandað við og þá er ekkert eftir nema leika sér með froðuna 

sápufroða1
sápufroða2
sápufroða3
sápufroða4

Tunglsandur

Næsta tilraun er að búa til leir eða tungsland (moon sand fyrir þau sem þekkja það) með sápu sem hægt er að nýta til handþvottar eftir tilraunina.

Það sem þú þarft:

  • Skál
  • Skeið til að hræra
  • Maíssterkju
  • Kókosolíu
  • Sturtusápa (body wash) (handsápa var notuð í sýnimyndum)
  • Matarlitur (getur splittað deiginu og sett nokkra liti, mæli með að vera í hönskum)
  • Ilmolía (valkvætt, ekki nauðsynlegt)

Aðferð:

  • 2,5 dl maíssterkja
  • 1,25 dl sturtusápa
  • 1 msk kókosolía
  • Dropar af ilmolíu (þarf ekki)
  • Öllu blandað vel saman
  • Matarlitum bætt við ef þið viljið
  • Leika sér með áferðina og litina
  • Gaman að nýta þetta í bað eða sturtu

tungsandur1
tungsandur2
tungsandur3
tungsandur4

Óvæntur glaðningur inn í sápunni

Það er líka hægt að búa til óvæntan glaðning fyrir fjölskyldu og/eða vini 🙂 Búðu til sápubolta og feldu óvænta glaðninginn (lítið leikfang, skopparabolta…) inn í boltanum.

Það sem þú þarft:

  • Sápustykki
  • Lítið leikfang
  • Rifjárn
  • Skál
  • Örlítið af vatni, gott að hafa það í spreybrúsa

Aðferð:

  • Notaðu rifjárnið til að skræla sápuna í spænir
  • Taktu síðan smá sápu í hendina og leikfangið
  • Sprautaðu nokkrum dropum af vatni á sápuna og byrjaðu að móta
  • Bættu síðan við sápu og vatni eftir þörfum 
  • Gott að setja meira vatn en lítið svo hún haldist vel saman, líka hægt að bæta við kókosolíu. 
  • Hægt að setja í ísskápinn í smá stund til að hún festist betur saman
  • Leika sér með sápuna í baði eða gefja einhverjum hana

Óvæntur glaðningur1
Óvæntur glaðningur2
Óvæntur glaðningur3
Óvæntur glaðningur4

Verkefni 11 - Góðverkagangan

Verkefni 11 – Góðverkagangan

Skáti er hjálpsamur og á tímum sem þessum er mikilvægt að halda í útiveru og vera dugleg að fá okkur ferskt loft. Verkefni dagsins sameinar þetta tvennt en það er að fara í göngutúr og gera góðverk í leiðinni. Góðverkið má vera af hvaða toga sem er en hér eru nokkrar hugmyndir:

Gefðu fuglunum að borða.

Þú getur nýtt verkefni 8 þar sem sýndar voru ýmsar aðferðir til að búa til fuglafóður. Svo tekuru fóðrið með þér í göngutúr og setur þar sem fuglarnir eru.

Mundu bara að taka það niður þegar fuglarnir eru búnir að borða fóðrið.

Gleðja fólk í sóttkví

Hefur þú séð myndbönd af fólki syngja fyrir þau sem sitja heima í sóttkví? Lesa fyrir börn í gegnum netið? Nýttu göngutúrinn til að banka á glugga hjá þeim sem eru í sóttkví og gleðja þau með skemmtilegum bröndurum, söng eða jafnvel smá leikþætti. Ef það er nóg af snjó getur þú líka sett upp skemmtilega snjófígúru til að gleðja.

Moka innkeyrslur eða göngustíga

Nú þar sem enn snjóar þá er um að gera að grípa með sér skóflu í göngutúrinn og moka hjá nágrönnum þínum! Fátt sem kætir jafn mikið og aðstoð frá nágrönnum og þú færð góða hreyfingu í þokkabót.

Snjókarl

Góðverk smita

Segðu frá hvernig þú nærð að gleðja þá sem eru í kringum þig, það smitar og getur gefið öðrum hugmyndir um góðverk til að gefa áfram. Það er svo gaman að sjá hvernig þið tæklið þessi verkefni þannig ekki gleyma að sýna okkur undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví. Haldið áfram að gera heiminn að betri stað!


Verkefni 10 - Gítar og hrista

GÍTAR OG HRISTA

Nú er komið að því! Búðu til þína eigin hljómsveit með heimatilbúnum hljóðfærum. Skoðaðu leiðbeiningarnar hér að neðan og finndu til þá hluti sem þarf í þetta verkefni.

Gítar

Það sem þið þurfið:

  • Skókassi eða annar kassi, t.d. kassi utan af íspinnum eða morgunkornskassi
  • 6 teygjur
  • Sterkt límband
  • Skæri
  • Snæri
  • Blýantar
  • Hólkur innan úr eldhúspappír
  1. Byrjið á því að teikna hring á kassann. Hafið hringinn nær öðrum endanum, ekki alveg í miðju kassans.

2. Klippið hringinn út. Gætið ykkar, kannski er gott að fá hjálp frá fullorðnum í þessu skrefi!

3. Klippið teygjurnar og festið þær vel með límbandi á þann enda kassans sem er nær gatinu.

4. Strekkið teygjurnar yfir gatið og festið með límbandi. Farið varlega hér, passið að teygjurnar skjótist ekki í ykkur.

5. Setjið tvo blýanta hvor sínum megin við gatið. Blýantana getiði notað til þess að stilla strengina.

6. Klippið upp í hólkinn.

7. Festið hólkinn með límbandi á kassann.

8. Festið snæri í gítarinn svo að hægt sé að hafa gítarinn um hálsinn. Þetta er þó ekki nauðsynlegt. Skreytið að vild.

Nú eruði komin með sannkallaðan kassagítar!

Hrista

Það sem þið þurfið:

  • Tómt ílát, t.d. skyrdós, sultukrukka eða annað sem þið finnið í endurvinnslutunnunum heima.
  • Hrísgrjón, poppbaunir, Cheerios eða annað smágert sem þið finnið í skúffunum heima.
  • Dagblöð
  • Límband
  1. Setjið hrísgrjón eða annað sem heyrist í ofan í ílátið.

2. Finnið skemmtilega síðu í dagblaðinu og festið hana á ílátið með límbandi. Gætið þess að festa dagblöðin vel á ílátið svo að hljóðgjafinn sullist ekki úr ílátinu.

Nú er bara að semja góðan slagara!

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hljóðfærin þín með því að setja mynd eða myndband á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá!


Verkefni 9 - Örbylgjuskátabollakaka

Í stuðkví dagsins kennum við einfalda en stórskemmtilega leið til að baka súkkulaðiköku í bolla.

Það sem þarf:

  • Örbylgjuofn
  • Bolla
  • Góða skapið
  • Salt
  • Vanilludropa
  • Súkkulaði
  • Olíu
  • Mjólk
  • Egg
  • Kakóduft
  • Sykur
  • Hveiti

Hægt er að gera kökuna vegan: 1/2 banana í staðinn fyrir egg, vegan mjólk í staðinn fyrir mjólk

Blandið hráefnunum í bolla eins og myndin sýnir hér að neðan. Mælt er með því að þurrefnum sé ekki blandað við vökva fyrr en skömmu áður en allt er tilbúið og hægt er að hræra hráefnin vel saman. Setjið bollan næst inn í örbylgjuofn og gætið þess að stilla örbylgjuofninn ekki á lengri tíma en tvær mínútur og hafið vökult auga með bakstrinum meðan bollinn er inni í ofninum.

Að 2 mínútum loknum ætti afurðin að vera bragðgóð súkkulaðikaka til að njóta!


Verkefni 8 - Fuglafóður

Eftir storm gærdagsins er tilvalið að hugsa aðeins um fuglana okkar sem eru eflaust farið að leiðast að leita sér að fæði í snjónum og á freðinni jörð. Því höfum við útbúið leiðbeiningar um hvernig megi búa til fuglafóður sem auðvelt sé fyrir smáfugla að borða.

Mælst er til þess að nota einföld hráefni, sem hafa verið lítið unnin og getur verið gott að leita sér upplýsinga á veraldarvefnum um hvaða hráefni henti sem fæði fyrir fugla áður en lengra er haldið.

Útfærsla 1

Það sem þú þarft er skál, skeið, smáköku- eða möffinsform, snæri og hollt hráefni í fuglafóður.

Í þessari uppskrift voru notuð allskyns hráefni sem fundust á heimilinu:

  • Rúsínur
  • Hafrar
  • Sólblómafræ
  • Hirsi
  • Graskersfræ
  • Furuhnetur
  • Kókosolía til að allt haldist vel saman

Innihaldið skal sett í skál, mælieiningar eru ekki fastar heldur metur hvert og eitt hvað þau vilji setja setja mikið af hverju hráefni í blönduna. 

Næst er kókosolían brædd í potti eða pönnu og hrært vel saman við blönduna.

Síðan skal snærispotta þrætt í gegnum piparkökuformið áður en það er fyllt af fuglafóðurs blöndunni, ekki binda spottan saman á þessum tímapunkti.

Mikilvægt er að þjappa fuglafóðurs blöndunni vel saman ofan í forminu svo að hún haldist þegar fóðrið er tekið úr formunum.

Þegar öll formin eru orðin full er gott að stinga þeim inn í ísskápinn svo að blandan formist betur.

Þegar formin hafa setið nógu lengi í ísskápnum er hægt að taka fuglafóðurs blönduna úr formunum og binda spottan saman eftir það. Þá ætti afurðin að líta einhvernveginn svona út:

 

Útfærsla 2

Hægt er að nota hólkinn sem verður afgangs þegar klósettpappírinn klárast og smyrja hann með hnetusmjöri.

Síðan er fuglafóðurs blöndunni hellt yfir eða klósettpappírs hólkinum velt upp úr svo blandan festist við. 

Síðan er klósettrúllan sett í ísskápinn til að auðvelda hnetusmjörinu að harðna. Eftir það er þrætt snærisspotta í gegnum rúlluna og endarnir bundnir saman. Þá ætti afurðin að líta einhvernveginn svona út:

 

Útfærsla 3

Í þessari útfærslu er mjólkurferna endurnýtt!

Klippið 4 - 5 cm fyrir ofan botninn.

Botninn sem verður eftir má nota sem skál undir fuglafóður

Svo mögulegt sé að hengja fuglafóðrið upp má skera göt á öll hornin og setja snærisspotta í þau, þá lýtur afurðin að líta einhvernveginn svona út:

 

Útfærsla 4

Í þessari útfærslu eru búin til hengi fyrir mörg ílát með fuglafóðri í sem smáfuglar geta jafnvel staðið í. Ýmislegt má nýta til þess t.d. blómapottadiska, tóm skyrílát, gosflöskubotna og fleira.

Fyrst skulu teknir 12 bandsspottar, byrjið á að binda þá alla saman á einum endanum. Síðan eru tveir bandsspottar teknir í einu og bundnir saman hver á eftir öðrum fyrir ofan stóra hnútinn. Hægt er að endurtaka ferlið eins og oft og þið viljið eða þar til þið teljið vafninginn geta haldið ílátunum sem þið völduð. Á hinum endanum er síðan bundinn annar stór hnútur sem gæti verið hengt upp i tré. Fuglafóðrinu er síðan komið fyrir í diskunum.

Útfærsla 5

Allir að nota ímyndunaraflið og koma með frumlega útgáfu af því að búa til fuglafæðu. Við hvetjum þig því til nákvæmlega þess og bendum þér á að reyna að nota hluti sem þú getur fundið á heimilinu og endurnýtt í þessum tilgangi t.d. gamlan tebolla, plastflösku, áldós eða skyrdolla.

Sýndu okkur endilega þína útfærslu með að setja mynd eða myndskeið af henni á samfélagsmiðla og merkja með myllumerkinu #Stuðkví.


Verkefni 7 - Gátur og þrautir

Er ekki tilvalið að þjálfa heilann aðeins á þessum fallega sunnudegi? Við mælum með að setja skemmtilega tónlist á fóninn og hvetja alla sem eru heima til að prófa! Ekki gleyma að láta okkur vita hvernig gekk og ef þið kunnið fleiri þrautir eða gátur þá ekki hika við að senda þær inn og leyfa okkur hinum að prófa :)

Skemmtu þér vel og ekki gleyma að deila með okkur þegar þið finnið lausnirnar --> #skátarnir #stuðkví

Fyrsta þrautin er orðarugl! Getur þú fundið öll týndu orðin? Þegar þú ert búin getur þú prófað að búa til þitt eigið orðarugl og leyft öðrum að prófa:)

 

Önnur þrautin er peningaröðin! Hér sérðu mynd af peningum þar sem fjöldi peninga í annarri röðinni eru 4 og í hinni röðinni eru 5. Getur þú, með því að færa EINN pening, haft raðirnar þannig að BÁÐAR raðirnar séu með 5 peningum?

Þriðja þrautin er skátadulmál. Skátadulmál er vinsælt meðal skáta og hefur meðal annars verið notað í leikjum, bréfaskriftum og dagbókarfærslum. Nærð þú að finna út úr því? Notaðu fyrri myndina til að leysa skátadulmálið.

Skátadulmál setning

 


Privacy Preference Center