Verkefni 11 – Góðverkagangan

Skáti er hjálpsamur og á tímum sem þessum er mikilvægt að halda í útiveru og vera dugleg að fá okkur ferskt loft. Verkefni dagsins sameinar þetta tvennt en það er að fara í göngutúr og gera góðverk í leiðinni. Góðverkið má vera af hvaða toga sem er en hér eru nokkrar hugmyndir:

Gefðu fuglunum að borða.

Þú getur nýtt verkefni 8 þar sem sýndar voru ýmsar aðferðir til að búa til fuglafóður. Svo tekuru fóðrið með þér í göngutúr og setur þar sem fuglarnir eru.

Mundu bara að taka það niður þegar fuglarnir eru búnir að borða fóðrið.

Gleðja fólk í sóttkví

Hefur þú séð myndbönd af fólki syngja fyrir þau sem sitja heima í sóttkví? Lesa fyrir börn í gegnum netið? Nýttu göngutúrinn til að banka á glugga hjá þeim sem eru í sóttkví og gleðja þau með skemmtilegum bröndurum, söng eða jafnvel smá leikþætti. Ef það er nóg af snjó getur þú líka sett upp skemmtilega snjófígúru til að gleðja.

Moka innkeyrslur eða göngustíga

Nú þar sem enn snjóar þá er um að gera að grípa með sér skóflu í göngutúrinn og moka hjá nágrönnum þínum! Fátt sem kætir jafn mikið og aðstoð frá nágrönnum og þú færð góða hreyfingu í þokkabót.

Snjókarl

Góðverk smita

Segðu frá hvernig þú nærð að gleðja þá sem eru í kringum þig, það smitar og getur gefið öðrum hugmyndir um góðverk til að gefa áfram. Það er svo gaman að sjá hvernig þið tæklið þessi verkefni þannig ekki gleyma að sýna okkur undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví. Haldið áfram að gera heiminn að betri stað!