Metþátttaka ungmenna á Skátaþingi

Það var mikil gleði og góður andi í hópnum sem mætti á Skátaþing um helgina. Flestir skátar bíða eftir skátaþingi með eftirvæntingu þar sem það er helsti vettvangur nýrra hugmynda og skoðanaskipta. Hópurinn sem mætti á föstudagskvöld var með endæmum hress enda höfðu margir tekið þátt í bílabingó og öðrum þrautum á leiðinni norður. Rúmlega 150 skátar tóku þátt í eða stóðu að framkvæmd Skátaþings þetta árið og fór það fram 24.-26. mars í Háskólanum á Akureyri.

Skátaþing er árleg samkomu þar sem skátahreyfingin kemur saman, heldur aðalfund sinn og rýnir í stöðu skáta á Íslandi. Þingið er einnig ákveðin uppskeruhátíð fyrir fastaráðin enda er það oft vettvangur kynninga á nýjum leiðum í skátastarfi. Það sem helst var á döfinni að þessu sinni var útgáfa endurnýjaðs starfsgrunns skáta, ný útivistarmerki sem hvetja til þátttöku í gönguferðum og fjallaferðum og að sjálfsögðu upphitun fyrir Landsmót skáta 2024.

Þingið um helgina var afskaplega vel sótt og þá hefur þátttaka ungs fólks aldrei verið meiri en 47 róverskátar, 29 rekkaskátar og 8 dróttskátar sóttu Skátaþing þetta árið og þannig voru 84 fulltrúa á þinginu á þátttakanda aldri í skátastarfi. Ekki nóg með þessa stórgóðu þátttöku ungmenna í þinginu, heldur voru einnig 53% atkvæða í höndum ungmenna og er það met frá upphafi skátaþings.

 


Í upphafi þingsins fluttu gestir ávörp, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar Heimir Örn Árnason ræddi um mikilvægi samvinnu sveitarfélaga og skátafélaga í uppbyggingu æskulýðsstarfs. Rektor Háskóla Akureyrar Eyjólfur Guðmundsson flutti einnig ávarp og fjallaði um mikilvægi skátastarfs og þá sérstaklega hvað skátar væru á góðri leið með að byggja upp sjálfstæða einstaklinga með nýju markmiðaflokkunum í starfsgrunninum, Leiðtogafærni, Tilveran mín, Heimurinn og umhverfið, og Skapandi hugur og segir Rektor mikinn samhljóm með þessum markmiðaflokkum og endurnýjaðri stefnu háskólans á Akureyri. Að lokum fjallaði Anna Kristjana, skátafélaginu Klakki,  um 100 ára afmæli Valkyrjunar á Akureyri og sett var upp sýning um sögu félagsins á göngum háskólans.

Á aðalfundinum tíðkast að veita viðurkenningar og að þessu sinni var m.a. afhentur Hetjuðdáðarmerkið úr gulli sem veitt er þeim sem hefur hætt lífi sínu við að bjarga öðrum úr lífsháska. Handhafi merkisins var Þórhallur Helgason úr skátafélaginu Segli, en árið 1997 bjargaði hann skátaflokk út úr skálanum Vífilsbúð sem brann eftir að gaskútur gaf sig.
Þórhallur kom öllum út úr skálanum heilum og höldnu en slasaðist sjálfur á hendi í brennandi skálanum. Hlaut Þóhallur standandi lófaklapp allra viðstaddra við afhendinguna.

Aðrar viðurkenningar voru afhentar öflugum skátaforingjum sem hlutu þórshamarinn úr bronsi fyrir sín öflugu störf.
Jón Halldór Jónasson var tilnefndur til skátakveðjunar úr bronsi eftir störf sín í stjórn BÍS og Hrefna Hjálmarsdóttir hlaut skátakveðjuna úr gulli fyrir ævistarf sitt fyrir skátahreyfinguna á Akureyri.



Það vakti mikla ánægju meðal þinggesta að ný stofnað skátafélag var tekið inn í Bandalag íslenskra skáta, en skátafélagið Farfuglar var stofnað síðasta vor. Félagið starfar á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og mættu nánast öll börn bæjarfélagsins með félaginu á skátamót síðastliðið sumar. Stofnun félagsins blæs okkur öllum byr undir báða vængi og munu stjórn BÍS og erindrekar setja áherslu á landsbyggðina næstu árin.

Í lok aðalfundar tóku við umræðuhópar og smiðjur. Þátttakendur lögðu meðal annars drög að sóknaráætlun skáta fyrir vor og haustmánuði, rýndu í stöðu húsa á Úlfljótsvatni, kynntu sér nýja þætti í hvatakerfinu og kynntust fjölmörgum möguleikum sem standa ungu fólki til boði í alþjóðastarfi.

Það var þreyttur og glaður hópur sem kvaddist að Hömrum á sunndaginn, með innblástur í farteskinu aftur heim og brennandi sóknaranda í brjósti fyrir uppbyggingu skátastarfs.