Námskeiðaáætlun Æskulýðsvettvangsins fyrir starfsárið 2023-2024
Námskeiðaáætlun Æskulýðsvettvangsins fyrir starfsárið 2023-2024 hefur verið birt!
Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi í þeim tilgangi að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara. Námskeið Æskulýðsvettvangsins eru liður í því.
Námskeið starfsársins 2023-2024 eru eftirfarandi:
Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar

Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar í Skátamiðstöðinni þann 13. september 2023 frá klukkan 19:30-22:00. Boðaðir eru félagsforingjar, dagskrárforingjar, sjálfboðaliðaforingjar eða staðgenglar þeirra. Þá verður að sjálfsögðu hægt að taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað en við biðjum öll sem mögulega geta að mæta í persónu.
Skráning fer fram á skraning.skatarnir.is
Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:
- Kynning frá Skátabúðinni (10 mínútur)
Skátabúðin mun upplýsa félögin um helstu verkefni sem snúa að félögunum. Farið verður yfir hvernig staðið er að pöntun á skátabúningnum, félög fá upplýsingar um nýjan innkaupasamning sem BÍS hefur gert við Rekstrarvörur sem skátafélögum býðst einnig að nýta sér, farið verður yfir afsláttarkjör skáta og framtíðar fyrirætlanir í þjónustu til skátafélaga t.d. við búnaðarkaup. - Áskoranir tengdar seinum skráningum á viðburði (10 mínútur)
Ein stærsta áskorun í viðburðarhaldi á vegum BÍS starfsárið 2022-2023 var hversu seint skráningar þátttakenda bárust en dæmi voru um að 70-95% skráninga bárust í síðustu viku skráningarfrests. Stjórn og Skátamiðstöð vilja velta upp nokkrum spurningum með forystu félaganna um hvað geti valdið, hvað megi bæta og fá álit á hugmynd um seinagangs gjöld sem bætist ofan á þátttökugjöld. - Kynning og umræðuhópar um ánægjukönnun (50 mínútur)
Ánægjukönnun var gerð meðal skáta og forráðafólks þeirra fyrir starfsárið 2022-2023. Við viljum kynna niðurstöður hennar en síðan mun fundurinn skiptast í umræðuhópa sem munu skoða afmörkuð svið könnunarinnar, ræða og koma með tillögur um hvernig skátahreyfingin getur þróað þau áfram.Hlé – 5 mínútur - Samhæft átak í rekkaskátastarfi 2023-2024 (15 mínútur)
Félagatal milli ára sýnir að þvert á félög er mikil þörf fyrir eflt rekkaskátastarf á landsvísu. Talsvert brottfall verður á rekkaskátaaldri en þótt fjölmennir árgangar byrji í rekkaskátum er iðulega minna en helmingur þeirra sem gengur upp í gegnum aldursbilið. Erindrekar kynna hvernig reynt verður að stýra samhæfðu átaki yfir komandi ár, hver hlutur félaganna er í því, hvaða stuðning BÍS býður og hvaða markmiðum við viljum ná á komandi ári. - Kynning á smiðju um hvernig skuli fá fleiri fullorðna til starfa (10 mínútur)
Flestum félögum vantar sjálfboðaliða en það getur verið meira en að segja það að afla þeirra. BÍS er tilbúin með smiðju að fyrirmynd þýsku skátanna til keyra með félagsráði skátafélaga þar sem félagið setur sig í stellingar til að skilgreina þörf sína, auglýsa eftir og taka á móti sjálfboðaliðum. Á fundinum kynnum við smiðjuna, hvað hún felur í sér, hvað vonast er til að félagið taki út úr henni og hvernig félög óska eftir henni til sín. - Landsmót skáta 2024 (25 mínútur)
Landsmót skáta fer fram á Úlfljótsvatni næsta sumar og því er mikilvægt að öll skátafélög fari að undirbúa sinn fararhóp. Mótsstýra landsmóts mun kynna alla helstu þætti mótsins, verð, skráningu og fleira. - Alheimsmót skáta 2023 (15 mínútur)
Farið verður stuttlega yfir ferð íslenska fararhópsins á Alheimsmót skáta en fararstjórn gefur nákvæmari skýrslu um ferðina síðar eins og hefð er fyrir. - Önnur mál (10 mínútur)
Skátamiðstöðin verður lokuð dagana 17.-28. júlí

Skátamiðstöðin verður lokuð dagana 17.-28. júlí.
Ef erindið er brýnt er hægt að senda tölvupóst á skatarnir@skatarnir.is, við óskum ykkur góðs sumars!
Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir hefur verið ráðin verkefnastýra inngildingar hjá Bandalagi íslenskra skáta. Þórhildur hefur starfað með Skátafélaginu Kópum frá 8 ára aldri og er núverandi dagskrárforingi félagsins. Hún er með B.A. gráðu frá Háskólanum á Bifröst í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, diplómu í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands, og lauk nýverið meistaragráðu í kynjafræði frá Linköping Háskóla. Áður starfaði Þórhildur í félagsmiðstöðvum í Reykjavík, síðast sem aðstoðarforstöðukona félagsmiðstöðvar í Grafarvogi.
Sem verkefnastýra inngildingar hefur Þórhildur umsjón með verkefninu „Skátastarf fyrir alla“ sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna.
Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi. Fræðsluefni um skátastarf verður útbúið fyrir starfsfólk frístundaheimilanna svo þau séu í stakk búin til að framkvæma ævintýralegt skátastarf á sínum starfsstað.
Til að auka aðgengi barna og fullorðinna af erlendum uppruna að skátastarfi verður fræðslu og dagskrárefni skátanna þýtt yfir á önnur tungumál, ásamt því að leitast verður eftir því að fullorðnir skátar af erlendum uppruna sem búa hérlendis verði virkjaðir til þátttöku í skátastarfi. Innifalið í verkefninu er einnig að þróa fræðsluefni fyrir skátaforingja og aðra sjálfboðaliða innan skátahreyfingarinnar um hvernig skal taka á móti börnum með fjölbreyttar þarfir og bakgrunn í skátastarfið.
Verkefnið er nú þegar farið af stað og mun til dæmis frístundaheimilið Gulahlíð við Klettaskóla bjóða upp á skátadagskrá í sumar þar sem börn prófa að tjalda, elda yfir opnum eldi og kynnast náttúrunni við frístundaheimilið sitt nánar.
Sumarskátafundir - Dróttskátasveitin Ramus

Skátasveitin DS. Ramus mun starfa í sumar á höfuðborgarsvæðinu og er öllum dróttskátum velkomið að taka þátt. Krakkar sem ekki hafa verið í skátunum eru einnig velkomin að koma og vera með í sumar.
Hvar og hvenær
Skátafundir munu fara fram víðsvegar um höfuðborgarsvæðið milli 17:00 og 19:00 á þriðjudögum og fimmtudögum frá og með 20. júní til 10. ágúst.
Hvað
Starfið byggist að mestu á flokkastarfi og gefst skátunum færi á að skapa sín eigin sumarævintýr með öðrum jafningjum á ýmsum útivistarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Þeir skátar sem ekki skrá sig með flokk munu fá aðstoð við að finna flokk sem hentar þeim.
Fyrstu fundir
Fyrstu fundir munu fara fram í Elliðaárdalnum en mæting er við Árbæjarsafnið klukkan 17:00 á fyrsta fundinn þann 20. júní.
Skráning
Til að taka þátt þarf að skrá sig inn á skraning.skatarnir.is og kostar 3000 kr fyrir hvern skáta að taka þátt í allt sumar. Ef skátinn hættir við er ekki endurgreitt staðfestingargjaldið sem er 10% af heildarverðinu.
Þátttakendur sem vegna ferðalaga eða annars komast ekki á alla fundi, eru engu að síður hvött til að taka þátt.
Mikilvægt er síðan að fylgjast vel með upplýsingum á Sportabler. Einnig þarf að láta vita fyrir hvern fund hvort skáti mætir eða ekki. Ef lágmarksmæting (4 skátar) næst ekki á fund fyrir hádegi sama dag fellur fundurinn þann daginn niður.
Skátakveðjur og hlökkum til að sjá sem flesta í sumar,
Sveitarforingjar Ds. Ramus.
Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir (ragnheidursilja@gmail.com) dróttskátaforingi Garðbúa
Salka Guðmundsdóttir (salkagu97@gmail.com) dróttskátaforingi Mosverja
Nýir meðlimir í fastaráðum BÍS

Á Skátaþingi í lok mars var samþykkt af þingi breyting á 26.grein laga sem fjallar um að láti einhver meðlimur fastaráða af störfum á miðju tímabili skal stjórn BÍS í samráði við uppstillinganefnd manna stöðuna fram að næsta aðalfundi. Stjórn BÍS hefur því skipað tvo nýja meðlimi í Útilífsráði, þær Önnu Margréti Tómasdóttur og Hrafnhildi Sigurðardóttir. Þær byrjuðu að starfa með ráðinu í byrjun árs þar sem ráðið einblínir að því að stuðla að aukinni útivist skáta á Íslandi.
Á ungmennaþingi 2023 auglýsti ungmennaþing allar stöður lausar og voru eftirfarandi kjörin í ráðið á ungmennaþingi: Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir, Högni Gylfason, Jóhann Thomasson og Svava Dröfn Davíðsdóttir. Skátaþing samþykkti síðan þessa skipun.
Útkall eftir umsóknum á alþjóðlegt Gilwell námskeið í Slóveníu
BÍS stendur til boða að senda 6 þátttakendur á alþjóðlegt Gilwell leiðtogaþjálfunar námskeið sem haldið verður í Slóveníu. Námskeiðið er styrkt af Erasmus+ og verða þátttakendur frá Íslandi, Slóveníu, Serbíu og Svartfjallalandi. Námskeiðið fer fram á ensku. Að námskeiði loknu þurfa þátttakendur að mæta á lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar á Íslandi.
HVAR OG HVENÆR
Námskeiðinu í Slóveníu er skipt í 2 hluta:
- Fyrri hlutinn verður haldinn í skátamiðstöð við Bohinj-vatn dagana 12.-19. ágúst. Gist verður í tjöldum.
- Seinni hlutinn verður haldinn 23.-25. febrúar 2024, nákvæm staðsetning verður staðfest síðar en yfirleitt er helgin haldin í Postojna.
Að því loknu verður lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar haldin í nóvember 2024 á Úlfljótsvatni.
MARKMIÐ
Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á ævintýralegt námskeið ásamt því að styrkja leiðtogahæfni þátttakenda. Á námskeiðinu er mikil áhersla á gildi, bæði einstaklingsins og skátahreyfingarinnar, og þurfa þátttakendur að vera tilbúin að taka þátt í verkefnum sem krefjast ígrundunar á eigin gildum og viðhorfum.
KRÖFUR
Þátttakendur þurfa að vera 20 ára, hafa reynslu af foringjastörfum, eða öðrum leiðtogastörfum, innan skátahreyfingarinnar og stefna á að halda því áfram. Jafnframt er æskilegt að þátttakendur hafi lokið sveitarforingjanámskeiði.
KOSTNAÐUR
Námskeiðið er styrkt af Erasmus+ og eru námskeiðsgjöld því 0 kr. Jafnframt er ferðakostnaður upp að 530 evrum á mann. Ferðakostnaður umfram það er greiddur af þátttakenda. Að auki þarf að greiða 21.000 krónur fyrir útskriftarhelgi á Íslandi.
UMSÓKNIR
Umsóknir skulu berast í gegnum formið hér að neðan. Umsóknarfrestur er til og með 17 maí.
Nýr framkvæmdastjóri væntanlegur til starfa

Ragnar Þór Þrastarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri BÍS og mun hefja störf í byrjun maí.
Raggi er skáti úr Vestmanneyjum og hefur víðtækan grunn í fjalla og ferðamennsku, rekstri og í uppbyggingu fræðslumála. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn og hlökkum til að fá nýjan liðsmann í teymið í Skátamiðstöðinni.
Skátamiðstöðin verður lokuð yfir páskana

Skátamiðstöðin er komin í páskafrí. Lokað verður hjá okkur yfir páskana frá fimmtudeginum 6. apríl. Við opnum aftur 11. apríl. Erindi mega berast á póstfangið okkar skatarnir@skatarnir.is sem svarað verður 11. apríl.
Gleðilega páska!
Skátamiðstöðin lokuð vegna Skátaþings

Skátamiðstöðin verður lokuð fimmtudaginn 23. mars, föstudaginn 24. mars, mánudaginn 27. mars og þriðjudaginn 28. mars sökum vinnu starfsmanna skátamiðstöðvarinnar að Skátaþingi sem fer fram helgina 24.-26. mars.
Þau sem þurfa að ná af starfsfólki geta það á vinnutíma fimmtudaginn, föstudaginn og mánudaginn með að senda viðkomandi starfsmanni tölvupóst en póstföng má finna hér. Þriðjudaginn 28. mars verður allt starfsfólk í fríi frá vinnu.
Öll almenn og minna áríðandi erindi má senda á á póstfangið okkar skatarnir@skatarnir.is og verður þeim svarað 29. mars.









