Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir hefur verið ráðin verkefnastýra inngildingar hjá Bandalagi íslenskra skáta. Þórhildur hefur starfað með Skátafélaginu Kópum frá 8 ára aldri og er núverandi dagskrárforingi félagsins. Hún er með B.A. gráðu frá Háskólanum á Bifröst í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, diplómu í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands, og lauk nýverið meistaragráðu í kynjafræði frá Linköping Háskóla. Áður starfaði Þórhildur í félagsmiðstöðvum í Reykjavík, síðast sem aðstoðarforstöðukona félagsmiðstöðvar í Grafarvogi.

Sem verkefnastýra inngildingar hefur Þórhildur umsjón með verkefninu „Skátastarf fyrir alla“ sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna.

Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi. Fræðsluefni um skátastarf verður útbúið fyrir starfsfólk frístundaheimilanna svo þau séu í stakk búin til að framkvæma ævintýralegt skátastarf á sínum starfsstað.

Til að auka aðgengi barna og fullorðinna af erlendum uppruna að skátastarfi verður fræðslu og dagskrárefni skátanna þýtt yfir á önnur tungumál, ásamt því að leitast verður eftir því að fullorðnir skátar af erlendum uppruna sem búa hérlendis verði virkjaðir til þátttöku í skátastarfi. Innifalið í verkefninu er einnig að þróa fræðsluefni fyrir skátaforingja og aðra sjálfboðaliða innan skátahreyfingarinnar um hvernig skal taka á móti börnum með fjölbreyttar þarfir og bakgrunn í skátastarfið.

Verkefnið er nú þegar farið af stað og mun til dæmis frístundaheimilið Gulahlíð við Klettaskóla bjóða upp á skátadagskrá í sumar þar sem börn prófa að tjalda, elda yfir opnum eldi og kynnast náttúrunni við frístundaheimilið sitt nánar.