Ársskýrsla BÍS 2019 birt á vefnum
Ársskýrsla BÍS 2019 hefur verið birt á vefnum. Ársskýrslan eru enn eingöngu drög því hún krefst yfirferðar og samþykkis Skátaþings. Ekki tókst að halda Skátaþing í ár á tilsettum tíma sökum heimsfaraldursins sem gengur yfir um þessar mundir. Bundnar eru vonir við að hægt verði að halda Skátaþing í haust og þá verður þessi glæsilega skýrsla borin upp til samþykktar.
Hægt er að lesa skýrsluna hér á vefnum, hún er aðgengileg á upplýsingasíðu Skátaþings 2020 og síðan er hægt að sækja hana í pdf formi með að smella hér.
Útkall Alþjóðafulltrúi, frestur framlengdur
Stjórn BÍS leitar að 1-2 einstaklingum til að starfa sem alþjóðafulltrúar BÍS næstu tvö árin. Lokafrestur til að senda inn umsókn er 25. maí 2020, nánar hér.
Alþjóðafulltrúi WAGGGS og/eða WOSM
Hlutverk:
- Vera fyrsti tengiliður BÍS við WOSM/WAGGGS og viðhalda góðum samskiptum og upplýsingaflæði milli samtakanna.
- Vera aðal- eða varafulltrúi BÍS í Norðurlandasamstarfi skátabandalaga (NSK)
- Deila upplýsingum frá WAGGGS/WOSM/NSK til viðeigandi aðila (alþjóðaráðs, stjórnar BÍS, fastaráða, vinnuhópa, starfsfólks BÍS, skátafélaga o.fl).
- Fylgjast náið með alþjóðlegum styrkjum sem standa BÍS til boða og láta tengilið alþjóðaráðs BÍS vita um mögulega styrki.
- Vera fyrirmynd í öllu skátastarfi og þátttöku í viðburðum á vegum skáta.
- Vera meðlimur í alþjóðaráði BÍS og sinna hlutverki ráðsins ásamt öðrum meðlimum þess. Alþjóðafulltrúi getur eftir atvikum verið formaður ráðsins.
„Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.“
Verkefni alþjóðamála:
- Alþjóðafulltrúi sér m.a. um eftirfarandi verkefni, í samstarfi við alþjóðaráð og alþjóðatengilið Skátamiðstöðvarinnar:
- Afla upplýsinga um erlenda viðburði (mót, námskeið, fundi o.fl.) og auglýsa eftir fararstjóra/fararhóp.
- Aðstoða fararhópa við undirbúning, framkvæmd og endurmat á þátttöku á viðburðum.
- Ganga úr skugga um að fólk sem sæki námskeið erlendis hafi hlotið viðeigandi þjálfun og upplýsingar varðandi þátttökuna t.d. hvað felst í því að vera fulltrúi BÍS á alþjóðlegum vettvangi og hvers er ætlast af viðkomandi að viðburði loknum.
- Safna gögnum um þátttöku í alþjóðastarfi og eftirfylgni með þátttöku og undirbúa gögn til að kynna fyrir stjórn BÍS, alþjóðaráði og öðrum skátahópum eftir eðli viðburða/námskeiða. Vera reiðubúinn að aðstoða við þróun skátastarfs sem tengist viðburðinum/námskeiðinu.
- Halda utan um reglugerð um utanfarir skáta og að henni sé fylgt í samstarfi við framkvæmdstjóra BÍS.
- Leggja til upplýsingar fyrir fjárhagsáætlun BÍS að verkefnum sem snúa að alþjóðastarfi í samstarfi við alþjóðatengilið Skátamiðstöðvarinnar, gjaldkera og framkvæmdastjóra.
- Halda utan um upplýsingar um alþjóðamál fyrir ársskýrslu BÍS í samstarfi við skrifstofu BÍS.
Landsmóti skáta frestað til 2021
Gleðilegt sumar.
Eins og við vitum öll þá stóð til að halda Landsmót skáta að Hömrum á Akureyri í sumar. Mikill undirbúningur er búinn að eiga sér stað og stefndi í virkilega gott mót. Aðstæður í samfélaginu hafa hins vegar sett strik í reikninginn og fengið okkur til að endurskoða ákvörðun um mótahald í sumar. Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við yfirvöld í þessu ferli og fengið liðsinni þeirra í þessari vinnu.
Stjórn BÍS hefur í ljósi aðstæðna ákveðið að fresta Landsmóti skáta 2020 til næsta sumars. Óvissuþættirnir eru of margir til að geta réttlætt þessa framkvæmd í sumar.
Á næstu vikum munum við kynna betur hvernig verður staðið að Landsmóti skáta að Hömrum 2021. Nánari upplýsingar um endurgreiðslur og skráningu munu koma eigi síðar en 15. maí n.k.
Þessi ákvörðun var erfið en við trúum því að hún hafi verið rétt. Það er mikilvægt að við stöndum saman og vinnum okkur í gegnum þessa veiru.
Með skátakveðju
Stjórn BÍS
Drekaskátamóti aflýst
Vegna óviðráðanlegra aðstæðna í samfélaginu hefur verið ákveðið að aflýsa Drekaskátamótinu í ár, en óttist ekki, Drekaskátamót verður haldið í júní 2021 með pompi og pragt! Sólstrandaþemað verður á sínum stað og við hlökkum til að sjá ykkur við ströndina á Úlfljótsvatni!
Í tilefni af sólstrandaþemanu viljum við hvetja alla tilvonandi þátttakendur Drekaskátamóts og aðra velunnara að taka þátt í stuttu myndbandi sem verður birt 7. júní kl. 15:00 þegar Drekaskátamóti hefði átt að vera að ljúka í ár.
Til að taka þátt þarft þú að klæða þig upp í sólstrandaþema. Þú gætir til dæmis sett upp sólhatt og sólgleraugu, farið í strápils, vafið um þig stóru strandhandklæði eða annað skemmtilegt sem þér dettur í hug!
Síðan tekur þú mynd af þér og sendir hana á drekaskatamot@skatar.is fyrir 1. júní 2020, þá verður myndin sett inn í Sólstrandamyndbandið mikla!
BÍÐUM AUGLÝSINGAR STJÓRNVALDA

Þessa dagana berst Bandalagi íslenskra skáta, útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni og skátafélögum um allt land ýmsar fyrirspurnir um hvernig starfsemi okkar verði háttað eftir 4. maí.
Um þessar mundir bíðum við eins og annað æskulýðs- og frístundastastarf eftir auglýsingu stjórnvalda þar sem við vonumst til þess að skýrari tilmæli og leiðbeiningar verði settar fram um hvernig skuli hegða tómstundastarfi barna öðru en íþróttastarfi. Þangað til erum við í góðum samskiptum við ráðuneyti mennta og menningarmála ásamt því sem við höfum komið spurningum sem okkur þykir vanta svör við áfram til almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.
Vænta má upplýsinga frá yfirvöldum í næstu viku sem við vitum að vinna mjög hörðum höndum að þeim um þessar mundir. Skátarnir munu reyna að vera eins fljót og kostur er að aðlaga starfsemi sína í samærmi við formleg fyrirmæli stjórnvalda og koma síðan upplýsingum áfram til okkar skáta og aðstandenda þeirra.
VEGNA NÝRRA VIÐMIÐA FRÁ STJÓRNVÖLDUM

Fyrr í dag, föstudaginn 20. mars 2020, sendi Heilbrigðisráðuneytið ásamt Mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá sér leiðbeinandi viðmið um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum. Í þeim segir:
Kennsla í leik- og grunnskólum fer nú fram í litlum hópum og leitast er við að ekki verði blöndum milli þessara hópa til að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Samkvæmt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi gilda sömu reglur um íþrótta- og æskulýðsstarf barna en ljóst er að ekki er unnt að halda þar sömu hópaskiptingu og í skólum og því óhjákvæmilegt að nemendur munu blandast í íþrótta- og æskulýðsstarfsemi sem stefnt gæti markmiðum sóttvarnarráðstafananna í tvísýnu.
....
Af þeim sökum og að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur. Eru skipuleggjendur þess hvattir til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.
Því hefur Bandalag íslenskra skáta í samráði við félagsforingja allra skátafélaga ákveðið að hlé skuli gert á öllu skátastarfi þar til takmörkun skólastarfs lýkur.
Við munum leggja okkur fram við að halda áfram góðu samráði við öll skátafélögin og veita allar upplýsingar um leið og þær verða aðgengilegar.
Á meðan að æskulýðsstarf líkt og íþrótta- og skólastarf verður fyrir röskunum vegna ríkjandi heimsfaralds munu sjálfboðaliðar skátanna og starfsfólk búa til og miðla dagskrárefni sem vonandi nýtist ungmennum og fólki á öllum aldri til að stytta sér stundir. Efnið er öllum aðgengilegt á https://skatarnir.is/studkvi og á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #Stuðkví.
Leiðbeinandi viðmið um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum frá Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og menningamálaráðuneytinu má lesa í heild sinni á vef stjórnarráðsins.
TILLAGA UM BREYTINGAR Á SKÁTAÞINGI 2020
Í ljósi stöðunnar varðandi heimsfaraldur COVID-19 og samkomubanns leggur stjórn BÍS til að Skátaþing verði haldið í Skátamiðstöðinni föstudaginn 27. mars frá 18:00 – 20:00 í stað Varmalands yfir tvo daga. Á þinginu yrðu nauðsynlegir dagskrárliðir afgreiddir og þátttaka færi fram í gegnum fjarfundarbúnað. Aukaskátaþing yrði síðan haldið að hausti 2020 þar sem aðrir dagskrárliðir yrðu afgreiddir.
Samkvæmt lögum BÍS skal skila athugasemdum við útsend gögn vegna Skátaþings til Skátamiðstöðvarinnar eigi síður en viku fyrir þing. Því er afar mikilvægt að skátafélögin kynni sér þessar tillögur og geri athugasemdir við þær eigi síður en 20. mars 2020.
Sækja tillögu í heild sinni hér

COVID-19 og skátastarf
Kæru félagsforingjar, skátaforingjar, stjórnir og starfsfólk
Samkomubanni hefur verið lýst yfir og það tekur gildi á miðnbætti sunnudaginn 15. mars nk. Það á við um STÆRRI samkomur en hefðbundna skátafundi. Miðum við að ekki fleiri en 20 manns séu í hverju rými og miðum skátastarfið okkar við grunnskólana, þeim er EKKI lokað og á meðan svo er þá mælumst við til að skátafundir falli ekki niður. Þó margir skátaforingjar séu í framhaldsskólum þá bætir það stöðu skátafundanna að framhaldsskólum sé lokað, þá er síður hætta á smiti inn á skátafundina. Framhaldsskólanemi er jafn öruggur og fjölskyldumeðlimir.
Fylgjum leiðbeiningum landlæknis um 2ja metra fjarlægð milli skátanna okkar, útbúum aðstöðu fyrir handþvott og handsprittun. Mælst er til að fólk noti aðrar kveðjur en handaband og faðmlög.
Skátafundir
Mikilvægt er að halda hvunndeginum eins óbreyttum og hægt er hjá börnum og ungmennum og á þessu stigi er EKKI mælst til þess að hætt verði að halda skátafundi en lögð áhersla á að farið sé að leiðbeiningum yfirvalda um handþvott og samneyti. Ef til vill má líkja aðstæðum á hefðbundnum skátafundum við skólastarf og mælast til að foringjar og stjórnir skátafélaga séu vakandi yfir leiðbeiningum og tilmælum í sínu skólahverfi.
Skátastarf, verkefni og leikir
Fljótlega eftir helgi munum við senda út hugmyndir að hvað hægt er að gera í skátastarfi í ljósi aðstæðna. Einnig munum við senda út skátapakka fyrir þá sem komast ekki á fundi og þurfa að vera heima.
Útilegur – svo sem sveitarútilegur og innilegur
BÍS mælist til þess að stærri viðburðum verði frestað þar sem fólk kemur úr ólíkum áttum og líkur séu á nánu samneyti. Ef hópurinn sem útilegur/innilegur á við er stærri en á hefðbundnum skátafundi þá er mælst til þess að viðburðinum verði frestað.
Ágætt er að ákveða mánuð fram í tímann fyrir viðburði. Þá er hægt að skoða hálfsmánaðarlega hvort eigi að fresta viðburðum tveim vikum lengur en það sem þegar er búið að fresta.
COVID-19 og börn og ungmenni
Hér eru leiðbeiningar frá Landlækni hvernig vernda má börn og ungmenni fyrir COVID-19 veirunni. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með ráðleggingum Landlæknis og annarra stofnana ríkisins því aðstæður geta breyst með litlum fyrirvara.
Ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið haft samband við okkur hjá BÍS, skatar@skatar.is eða í síma 550-9800.
Nýr dagskrárstjóri Úlfljótsvatns
Nýlega var Javier Paniagua Petisco ráðinn dagskrárstjóri hjá Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Pani, eins og hann er kallaður, kemur frá Spáni og er með mikla skátareynslu. Undanfarin fjögur ár hefur hann starfað hjá alþjóðlegu skátamiðstöðinni í Kandersteg þar sem hann stýrði og skipulagði ævintýraferðir á svæðinu og var einnig aðstoðar-dagskrárstjóri síðustu tvö árin.
Það er okkur mikil ánægja að fá Pani til starfa hjá ÚSÚ og hann getur örugglega lagt mikið til staðarins af reynslu sinni frá Kandersteg. Útilífsmiðstöðin leggur áherslu á að skipa sér í flokk með öflugum alþjóðlegum skátamiðstöðvum og munum við nýta þekkingu Pani í þeirri vinnu. Við bjóðum Pani hjartanlega velkominn til starfa. Hann er með netfangið pani@skatar.is.
Viðvera í Skátamiðstöðinni vegna veðurviðvörunar
Föstudaginn 14. febrúar verður sími Skátamiðstöðvarinnar lokaður, og lítil eða engin viðvera í húsi.
Starfsmenn okkar vinna flestir heima þennan dag, og hægt að ná í okkur með tölvupósti.
Netföng:
Aðalnetfang Skátamiðstöðvarinnar skatar@skatar.is
Kristinn Ólafsson - Framkvæmdastjóri - kristinn@skatar.is
Sigríður Ágústsdóttir sigridur@skatar.is
Guðmundur Örn Sverrisson -Verkefnastjóri - gudmundurs@skatar.is
Sigurgeir B. Þórisson - Erindreki - sigurgeir@skatar.is
Kolbrún Ósk Pétursdóttir - Erindreki - kolbrun@skatar.is
Hulda María Valgeirsdóttir - Viðburðastjóri - huldamaria@skatar.is
Hulda Mjöll - Þjónustufulltrúi - huldamjoll@skatar.is
Hilda Ösp - Bókari - hilda@skatar.is








