VEGNA NÝRRA VIÐMIÐA FRÁ STJÓRNVÖLDUM

Fyrr í dag, föstudaginn 20. mars 2020, sendi Heilbrigðisráðuneytið ásamt Mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá sér leiðbeinandi viðmið um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum. Í þeim segir:

Kennsla í leik- og grunnskólum fer nú fram í litlum hópum og leitast er við að ekki verði blöndum milli þessara hópa til að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Samkvæmt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi gilda sömu reglur um íþrótta- og æskulýðsstarf barna en ljóst er að ekki er unnt að halda þar sömu hópaskiptingu og í skólum og því óhjákvæmilegt að nemendur munu blandast í íþrótta- og æskulýðsstarfsemi sem stefnt gæti markmiðum sóttvarnarráðstafananna í tvísýnu.

….

Af þeim sökum og að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur. Eru skipuleggjendur þess hvattir til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.

Því hefur Bandalag íslenskra skáta í samráði við félagsforingja allra skátafélaga ákveðið að hlé skuli gert á öllu skátastarfi þar til takmörkun skólastarfs lýkur.

Við munum leggja okkur fram við að halda áfram góðu samráði við öll skátafélögin og veita allar upplýsingar um leið og þær verða aðgengilegar.

Á meðan að æskulýðsstarf líkt og íþrótta- og skólastarf verður fyrir röskunum vegna ríkjandi heimsfaralds munu sjálfboðaliðar skátanna og starfsfólk búa til og miðla dagskrárefni sem vonandi nýtist ungmennum og fólki á öllum aldri til að stytta sér stundir. Efnið er öllum aðgengilegt á https://skatarnir.is/studkvi og á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #Stuðkví.

Leiðbeinandi viðmið um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum frá Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og menningamálaráðuneytinu má lesa í heild sinni á vef stjórnarráðsins.