Verkefni 27 - Hláturjóga
Verkefni 27 - Hláturjóga
Skáti er glaðvær svo sannarlega. Til að undirstrika það ætlar Védís Helgadóttir að leiða okkur í gegnum hláturjóga í dag kl 14:00. Viðburðurinn mun eiga sér stað á fundarforritinu Zoom og þar munum við hlæja saman sem er eitthvað sem allir hafa gott af, alltaf.
Komdu með okkur í þetta skemmtilega ferðalag og ekki gleyma að hláturinn lengir lífið :D
Verkefni 26 - Skáti er hjálpsamur
SKÁTI ER HJÁLPSAMUR
Vissir þú að skáti er hjálpsamur?
Fyrsta grein skátalaganna er skáti er hjálpsamur. Á næstu dögum munu Stuðkví verkefnin vera með áherslu á skátalögin.
Í dag ætlum við að hjálpa náttúrunni og fara út að plokka!
Plokk gengur út á að fara út að ganga eða skokka með einn (eða fleiri) poka og týna rusl. Þetta er skemmtileg leið til að hreyfa sig og gera góðverk á sama tíma!
P.S. skáti er ekki bara hjálpsamur heldur er hann líka náttúruvinur!
Ef þú kemst ekki út að plokka getur þú gert ýmislegt hjálplegt heima!
Þú getur...
..hjálpað til við að elda matinn heima.
..gert fínt fyrir páskana.
..týnt til föt sem þú notar ekki lengur til að gefa í fatasöfnun Rauða Krossins.
..styrkt gott málefni.
..gert eitthvað annað hjálplegt sem þér dettur í hug :)
Taktu síðan mynd af þér með öllu ruslinu sem þú týnir og póstaðu henni undir #stuðkví #skátarnir
Verkefni 25 - Fyrstu viðbrögð
FYRSTU VIÐBRÖGÐ
Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um hvernig skal bregðast við í óvæntum aðstæðum. Á flestum heimilum eru til sjúkrakassar eða töskur þar sem er hægt að finna plástra, sárabindi, sjúkrateip, teygjubönd og ýmislegt fleira. Það er gott að undirbúa sjálfan sig og heimilið fyrir jarðskjálftum, eldgosum eða slysum og því erum við með nokkur verkefni fyrir ykkur.
Neyðarnúmer
Gott er að hafa lista á heimilinu með símanúmerum hjá helstu fjölskyldumeðlimum og vinum. Þar geta því allir leitað ef nauðsynlegt er.
Ásamt þeim símanúmerum er gott að minna á Neyðarlínuna 112. Mikilvægt er að allir kunni á heimasímann/farsímann og viti hvernig eigi að hringja. Einnig er sniðugt að skrifa niður heimilsfang á sama lista.
Heimilisfang: Hraunbær 123, 110 Reykjavík
- Neyðarlínan 112
- Mamma: XXX-XXXX
- Pabbi: XXX-XXXX
- Kolla systir: XXX-XXXX
- Palli bróðir: XXX-XXXX
- Sigga frænka: XXX-XXXX
Sjúkrakassi
Við viljum hvetja ykkur til þess að kynna ykkur leiðbeiningar á þessum hlutum, og hvernig skal nota þá á réttan máta. Hægt er að búa til sinn eigin sjúkrakassa til að hafa á heimilinu. Slysavarnafélagið Landsbjörg og Rauði Krossinn selja einnig tilbúna sjúkrakassa, en einnig er hægt að fá hugmyndir að innihaldi kassans frá þeim.
- Gott er að hafa kassann í skærum lit
- Hann þarf að vera nógu stór
- Á stað þar sem allir vita
- Búa til lista yfir innihald kassans
- Það þarf að athuga innihald reglulega
Almannavarnir
Á heimasíðu Almannavarna er hægt að skoða fræðsluefni sem hjálpar okkur að búa okkur undir óvæntar hættur. Þar er meðal annars hægt að finna upplýsingar um hvernig eigi að bregðast við í jarðskjálfta, hvernig á að útbúa neyðarkassa og hvernig skal undirbúa heimilið fyrir aðrar hamfarir.
Skyndihjálp
Þú getur auk þess náð þér í skyndihjálparappið sem þú finnur inn á skyndihjalp.is. Þar getur þú meðal þess kynnt þér undirstöðuatriði fyrstu hjálpar, tekið frítt vefnámskeið í skyndihjálp og lært skyndihjálparlagið.
Verkefni 24 - Heimsmet í lestri
Verkefni 24 – Heimsmet í lestri
Í dag ætlum við að verða hluti af því þegar Íslendingar setja heimsmet í lestri! Allir Íslendingar geta tekið þátt í því að setja heimsmet í lesnum mínútum á einum mánuði og í dag ætlar þú að taka þátt!
- Þú þarft að byrja á því að finna skemmtilega bók.
- Næst þarft þú að finna góðan stað til að lesa á.
- Það getur verið upp í sófa, í gluggakistunni, úti í garði eða jafnvel úti á svölum. Finndu stað sem þér finnst þægilegur og komdu þér vel fyrir.
- Þú getur líka fundið einhvern til að lesa fyrir. Til dæmis hringt í ömmu þína og afa og lesið fyrir þau, lesið fyrir gæludýrið þitt eða fuglana sem eru úti.
- Byrjaðu síðan að lesa og taktu tímann hvað þú lest lengi.
- Svo þarftu að fara inn á timitiladlesa.is og skrá hversu margar mínútur þú last.
- Þar getur þú líka séð hversu margar mínútur allir Íslendingar eru búnir að lesa og skrá þarna inn!
- Ekki gleyma að deila með okkur hvaða bók þú last, þú gætir gefið öðrum hugmynd um hvaða bók væri skemmtilegt að lesa næst 🙂
Verkefni 23 - Alþjóðlegur dagur heilsu
Alþjóðlegur dagur heilsu
Í dag, 7.apríl, er alþjóðlegur dagur heilsu og er hann til að minna okkur á allt það frábæra starf sem læknar, hjúkrunafræðingar og sjúkraliðar vinna á hverjum einasta degi. Auk þess er hann til að minna okkur á mikilvægi þess að allir í heiminum hafi tækifæri á að lifa við góða heilsu og hafi aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Í dag ætlum við að læra að mæla púlsinn okkar heima. Púls er hugtak sem notað er yfir hversu oft hjartað fyllist og tæmis á einni mínútu en það fer eftir líkamlegu ástandi einstaklings, aldri og virkni.
Til að mæla púlsinn þá leggur þú miðfingurna, ýmist tvo eða þrjá, yfir hálsslagæðina eða úlniðlsslagæðina og telur fjölda slaga á tilteknum tíma. Púsl er ætíð gefinn upp sem slög á mínútu.

Byrja þú á því að mæla hvíldarpúlsinn þinn. Hvíldarpúls er þegar þú ert vel hvíld/ur og róleg/ur.
Hlauptu svo einn hring í kringum húsið þitt og mældu púlsinn þinn aftur. Hver er munurinn?
Þegar þú ert búin að þessu getur þú reiknað út aðra púlsa:
Hámarkspúls
Hámarkspúls fer eftir aldri en hann er oftast fundinn með því að draga lífaldur frá 220. Sem dæmi þá er hámarkspúls tvítugrar manneskju 200. Ef púls fer yfir hámarkspúls nær hjartað ekki að fylla sig milli slaga en þá nýtist vinna þess ekki sem skyldi.
Vinnupúls
Vinnupúls er munurinn á hámarkspúlsi og hvídarpúlsi. Ef tvítug manneskja er með hvílarpúls 75 er vinnupúls hennar 200-75 = 125 slög á mínútu.
Heimild: Vísindavefurinn
Nú er bara að mæla alla í fjölskyldunni og sjá muninn! Skemmtið ykkur vel.
Verkefni 22 - Alvöru gönguferð
Verkefni 22 - Alvöru gönguferð
Nú er tilvalinn tími til þess að finna til bakpoka, nesti og góða skó! Undirbúðu þig fyrir gönguferð og skelltu þér út í náttúruna. Það sem er ýmislegt sem þarf að huga að áður en maður fer í gönguferð, þá sérstaklega á Íslandi þar sem veðrið getur breyst skyndilega. Mundu að klæða þig vel fyrir gönguferðina! Þú getur byrjað á að fara í gönguferð um hverfið þitt, og svo þegar þú ert tilbúinn getur þú farið á fjöll, í villta náttúru eða á þína uppáhaldsstaði.
Verkefni
ALVÖRU GÖNGUFERÐ!
Í dag ætlar þú að fara í 5 km göngu! 5 kílómetrar/5000 metrar eru eins og að synda 100 ferðir í 50 metra sundlaug. Hvað er langt að labba í skólann þinn?
Farðu á kortasjá á netinu, til dæmis www.lmi.is og skoðaði lengdir frá heimili þínu. Nú ætlar þú nefnilega að hanna 5 km gönguferð.
1. Hannaðu gönguferð sem er 5000 metra, t.d. á lmi.is eða öðrum síðum
2. Pakkaðu í góðan bakpoka: Nesti, plástrum, auka fatnaði samkvæmt veðurspá, hleðslubanka ef þú ert með síma.
3. Sýndu fullorðnum leiðina sem þú ætlar að ganga.
4. Farðu út og fylgdu leiðinni nákvæmlega eins og þú hannaðir hana.
5. Komdu heim og segðu öllum ferðasöguna á meðan þú borðar góðan kvöldmat
Útbúnaður
Skór
Mikilvægt er að vera í góðum skóm þegar farið er í langar göngur. Best er að vera í gönguskóm, en stundum kaupir maður ekki svoleiðis fyrr en maður er hættur að stækka. Ef þú átt ekki gönguskó, þá er hægt að finna góða vetrarskó eða íþróttaskó. Hafðu gönguleiðina í huga þegar þú velur þér skó. Ef þú ætlar að labba í gegnum drullusvað, þá eru nýju hvítu íþróttaskórnir kannski ekki góð hugmynd. Yfirleitt er erfitt að ganga lengi í stígvélum, og forðast það flestir, en það má þó alveg. Mikilvægast er að vera í skóm sem þér finnst þæginlegir.
Fatnaður
Það er mjög mikilvægt að þér líði vel þegar þú ert í gönguferðinni! Því er hlýr og góður fatnaður lykilatriði. Gott er að finna til föðurland eða ullarnærföt ef það er kalt úti. Finndu til góðar og hlýjar buxur, t.d. flísbuxur, göngubuxur eða íþróttabuxur. Gott er að vera í ullarbol eða íþróttabol fyrir göngur. Næst getur þú fundið flíspeysu eða ullarpeysu. Finndu til góðan jakka, en athugaðu veðurspána fyrst, verður rigning, sól eða vindur?Reyndu að finna góða sokka, helst göngu- eða ullarsokka. Mikilvægt er að taka með húfu, vettlinga og jafnvel buff/trefil, og ef það verður of heitt, þá fer það bara ofaní tösku.
Bakpoki
Taktu með þér góðan bakpoka í gönguferðina. Í bakpokann getur þú svo pakkað ýmsum hlutum sem gætu verið nytsamlegir.
- Vatnsbrúsa
- Nesti t.d. samloka, ávextir, grænmeti, hnetur og fl.
- Auka sokkapar
- Regnjakka og regnbuxur
- Skyndihjálpardót, t.d. plástra, teygjubindi og hælsærisplástra.
Þú getur svo bætt við þeim hlutum sem þú vilt taka með í þína gönguferð. Ef þú getur tekið myndir af undirbúningnum og ferðinni ekki gleyma að deila þeim með okkur með myllumerkinu #stuðkví.
Verkefni 21 - Páskakanína
Verkefni 21 – Páskakanína
Leynast einstæðir sokkar heima hjá þér sem þú veist ekki alveg hvað þú átt að gera við og þú þorir ekki alveg að henda þeim þar sem þú ert alltaf að bíða eftir því að hinn sokkurinn birtist! Nú er um að gera að gefa þessum sokkum nýtt líf. Hér er uppskrift af páskakanínu sem þið getið föndrað í sameiningu.
Það sem þig vantar:
- Sokkur
- Hrísgrjón
- Penni
- Snæri
- Borði
- Skæri
- Teip

Fyrst skalt þú byrja á því að fylla sokkin með hrísgrjónunum. Þið getið hjálpast að svo að hrísgrjónin fari ekki út um allt gólf. Fylltu upp að hælnum á sokknum, eins og sést á myndinni.


Næst skaltu nota snærið til að hnýta fyrir opið á sokknum þannig að engin grjón komist í gegn.

Svo er að búa til eyrun á kanínuna. Klippið úr stroffi sokksins þannig að það myndi tvö eyru, eins og sést á myndinni hér að neða. Takið svo límband, sem annað hvort er með lím báðum megin eða setjið límbandið í hring, þar sem límið vísar út þannig það sé lím á báðum hliðunum. Leggið svo límbútana inn í eyrun á kanínunni svo að hliðarnar leggist saman.


Nú er komið að því að búa til haus á kanínuna. Skiptið búknum á kanínunni (þennan sem er fullur af grjónum) í þrjá helminga og hausinn á að vera um 1/3 af búknum. Notið borðann til að mynda hausinn og bindið slaufu. Notaðu svo pennan og gerðu tvo punkta fyrir augu og eitt x fyrir muninn.



Svo verðum við náttúrlega að setja dindil á kanínuna! Veltu henni á magann og klíptu út nokkur hrísgrjón svo þau myndi dindil. Notaðu snæri og hnýttu í kringum dindilinn eins og sést á myndinni.
Nú er kanínan þín tilbúin og þá vantar bara að finna fyrir hana góðan stað. Gleðilega páska!

Verkefni 20 - Teikniverkefni
TEIKNIVERKEFNI
1. Verkefni - Teiknað í formin
Efni: Pappír, feitur tússlitur eða litur, fínn penni eða dökkur trélitur.
- skref: Taktu feitan tússlit eða annarskonar lit og teiknaðu eitthvað krass á blað! Það má vera með línum, eða fylla alveg inn í alla reitina. Best er að nota ljósa liti!
- skref: Skoðaðu krassmyndirnar og athugaði hvort þú getur séð einhverjar myndir inn í krassinu.
- skref: Notaðu svartan penna eða dökkan trélit og teiknaði inn í formin það sem þú sérð! Ef þú sért ekkert, prófaði bara að teikna eitthvað inn í formin og sjáðu hvað gerist! Þú mátt fara út fyrir línurnar!
- Skref: Þú ert komin/n með listaverk!
2. Verkefni - Hverfið þitt
Efni: Pappír og hvaða litir sem er.
- skref: Taktu þér blað og blýant og teiknaðu upp kort af götunni eða hverfinu þínu! Settu inn alla staði sem þér finnast vera mikilvægir, t.d. skólinn þinn, strætóskýli, vinir þínir, húsið þitt, skemmtilegar leynileiðir o.s.fv.
- skref: Litaðu kortið þitt og skrifaðu inn helstu staðarheiti og kennileiti. Einnig getur verið gaman að merkja inn leiðir sem þú labbar t.d. í skólann, eða hvar þú hefur fundið bangsa í gluggum!

3. Verkefni - Útiteiknun
Efni: Pappír og hvaða litir sem er.
- skref: Farðu út í garð eða út í göngutúr! Á meðan þú ert úti skaltu safna eða taka eftir 5 hlutum sem þú sérð úti.
- skref: Ef þú vilt, þá getur þú tekið blað og blýant með þér og teiknað það sem þú finnur úti! Ef ekki þá getur þú annað hvort tekið með þér eitthvað inn eins og t.d. steina eða munað hvað þú sást úti og teiknað það þegar þú kemur inn.

Deildu endilega með okkur myndunum sem þú teiknar með myllumerkinu #stuðkví!
Verkefni 19 - Alheimsmót á internetinu
Verkefni 19 – Alheimsmót á internetinu
Alheimsmót skáta í loftinu og á internetinu, eða JOTA/JOTI eins og það er skammstafað á ensku, er skátamót sem haldið er á alþjóðavísu á hverju ári þriðju helgina í október. Þar gefst skátum allstaðar að úr heiminum tækifæri til þess að kynnast og gera ýmislegt saman gegnum veraldarvefinn eða með fjarskiptabúnaði. Mótið er á vegum WOSM, heimssamtaka skáta.
Í ljósi heimsfaraldurs hefur verið ákveðið að boða til sérstaks alheimsmóts skáta á internetinu helgina 3.-5. apríl. Á meðan mótið stendur yfir gefst skátum 13 ára og eldri tækifæri til að taka þátt í allskyns dagskrá í þema hinna ólíku dagskrárþorpa sem mynda hið rafræna mótsvæði. Á meðal rafrænna dagskrárþorpa verður mannúðarmiðstöð, útvarpsstöð, leikjastöð, rafrænt greni heimsborgarans, tjaldsvæði skátaforingjans og svið fyrir hæfileikakeppni mótsins. Áhersla í allri dagskrá mótsins verður andleg líðan og hvað við getum gert sem skátar á tímum COVID-19.

Til að taka þátt þarf að gera eftirfarandi:
- Segja foreldrum/forráðamönnum frá því sem þú ætlar að gera á netinu
- Búa til aðgang inn á scout.org
- Taka námskeið í netöryggi sem þú finnur inn á heimasíðunni þeirra
- Finna ykkur verkefni sem þið hafið áhuga á og kynnast fullt af nýjum skátum út um allan heim!
Skemmtið ykkur vel!
Verkefni 18 - HreyfiTETRIS
Verkefni 18 – HreyfiTETRIS
Hver þekkir ekki Tetris? Hinn sívinsæla leik sem margir hafa spilað seinustu áratugi. Nú í aðeins öðruvísi formi en þú þekkir – nefnilega hreyfiTetris.
Hvað er hreyfiTetris eru þið að velta fyrir ykkur? Jú í staðinn fyrir að spila Tetris í tölvunni, þá er hér blað sem lítur út eins og spilaborðið í Tetris en til þess að fylla það út þarft þú að gera ákveðna hreyfingu og þá færðu að lita inn ákveðinn kubb sem flestir ættu að þekkja úr Tetris.
Hér eru tvær útgáfur af spilaborðinu, ein þar sem við höfum sett fram hugmyndir af hreyfingum sem þú getur nýtt til að spila hreyfiTetris og hin útgáfan þar sem þú getur fyllt úr þær hreyfingar sem þú vilt.
Svo er bara að byrja að hreyfa sig og fylla út blaðið! Hvað ertu lengi að fylla það alveg upp í topp?









