Skátapepp í Búðardal

Skátapepp var haldið í Búðardal 27. til 29. september og var tekið ótrúlega vel á móti skátunum. Þema námskeiðsins var ofurhetjuþema og voru allir ráðgjafar í glæsilegum búningum og þurftu allir flokkar að finna sinn eiginn ofurkraft. Markmið námskeiðsins var að kynna dagskrárhringinn fyrir skátunum og hvernig hægt er að nýta hann við skipulag skátastarfs.Skipuleggjendur ákváðu að hafa þema dagskrárhrings helgarinnar færnimerki skátanna. Eftir að hafa fundið flokkana sína þurftu skátarnir því að skipuleggja sína eigin dagskrá með því að velja úr nokkrum færnimerkjum sem þeir ætluðu að reyna að klára á þremur fundum sem þeir höfðu yfir helgina. Var lögð áhersla á að skipuleggja fundina og kynnt mikilvægi þess að setja og slíta fundi.

Flokkarnir unnu að hinum ýmsu færnimerkjum. Þar á meðal færnimerkið Kokkur þar sem einn flokkur hélt núðluveislu úti og aðstoðaði við kjötsúpugerð. Einnig unnu margir að færnimerkinu Skapa þar sem meðal annars voru föndraðar skikkjur og Powerpuff girls málaðar á stein. Var haldin glæsileg kvöldvaka þar sem flokkarnir kynntu ofurkrafta með skemmtilegum atriðum. DJ Vaskur tók svo við og keyrði upp stemninguna á dansgólfinu.

Á lokadegi námskeiðsins hittust flokkarnir og fóru yfir helgina. Var metið hvað fór vel, hvað illa og hvort skátarnir ættu skilið að fá færnimerki eftir fundi helgarinnar. Á slitum voru færnimerki afhent og veitt verðlaun fyrir ofurhetjuleikana miklu sem var keppni á milli flokkana í fjölbreyttum og skemmtilegum þrautum sem þau unnu að yfir helgina.

Eftir slit var haldið í óvissuferð að Fellsendaréttum þar sem var vel tekið á móti skátunum og margir fengu að taka þátt í réttum í fyrsta sinn. Eftir fjörugar réttir var tekið stutt stopp á Erpsstöðum, borðaður ís, klappað kanínum og haldið svo heim á leið.


Netnámskeið-Verndum þau opið

Æskulýðsvettvangurinn ásamt hópi fagaðila í barnaverndarmálum hefur á síðustu mánuðum unnið að því að setja á laggirnar netnámskeið í barnavernd fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Námskeiðið var opnað formlega í gær fimmtudaginn 26. september með móttöku fyrir þá sem komu að verkefninu.

Við hvetjum alla til að taka þátt.

namskeid.aev.is/courses/barnavernd


Sumar-Gilwell Leiðtogaþjálfun

Sumar-Gilwell leiðtogaþjálfun fór fram á Úlfljótsvatni um liðna helgi. Fimmtán skátar frá hinum ýmsu félögum tóku þátt í fjölbreyttri og fræðandi dagskrá.

Ekki var eingöngu um hefðbundna kennslu að ræða, unnið var með hvataspjöldin, hópavinna í flokkunum og fræðslufyrirlestrar fóru fram utandyra.

Nemendahópnum var skipt í þrjá flokka, Dúfur, Hrafna og Gauka. Reist var tjaldbúð og hver flokkur reisti sitt tjald ásamt ýmsum tjaldbúðarverkefnum. Eldstæði var búið til, fánastöng reist og kæliaðstaða útbúin, auk þess sem allar máltíðir voru eldaðar utandyra.

Á laugardagskvöldið héldu flokkarnir svo í Markferð og leystu ýmsar þrautir m.a. Bátsferð, leðurvinnu og samtal um skátastarf í Gilwell skálanum.

Varðeldur og kvöldvaka var haldin bæði kvöldin og skemmtu þátttakendur sér vel við söng og gleði, sér í lagi þegar Arnór Bjarki spilaði á óvænt hljóðfæri, brauðrist.

Sumar-Gilwell


Rifist um rækjusamlokur

Atrenna

Rifist um rækjusamlokur

Undirbúningshelgi reykvískra sveitarforingja fór fram í Landnemaheimilinu um helgina, þar sem sveitarforingjar komu saman og skipulögðu komandi starfsvetur. Markmiðið með helginni var að þétta foringjahópinn, undirbúa næstu önn og bjóða um leið upp á leiðtogaþjálfun fyrir okkar öfluga fólk. Foringjahópurinn var fjölbreyttur, en foringjar frá nánast öllum félögum mættu. Þarna voru í bland reynslumiklir sveitarforingjar sem eru að fara að stýra sömu sveit og síðasta starfsár, nýir foringjar með nýjar sveitir og í það minnsta einn reynslubolti sem er að fara að stýra skátasveit eftir 20 ára hlé frá sveitarforingjastörfum!

Engir langdregnir fyrirlestrar

Viðfangsefnin voru fjölbreytt, en lögð var áhersla á raunverulega skipulagningu næsta vetrar, séreinkenni aldursbila, samskipti og samstarf, auk hinna sívinsælu þroskasviða, sem allir skátar elska að kjammsa á. Ragnheiður Silja, fálkaskátaforingi í Garðbúum, var afar ánægð með helgina: „Mér fannst mjög gott að fá tíma til að undirbúa sveitaráætlun og geta spurt út í hana um leið.“ Henni fannst sérstaklega frábært hvernig viðfangsefnunum var miðlað á fjölbreyttan hátt: „Við fórum í lýðræðisleik og umræðuhóp og vorum alltaf að gera eitthvað sjálf, en vorum ekki að hlusta á fyrirlestra allan daginn.“ Hún bætir við að ekki hafi félagsskapurinn verið af verri endanum.

Flóttarými til fræðslu

Sá dagskrárliður sem vakti hvað mesta kátínu var nýung í skátastarfi: Flóttarýmið - fangi Ingólfs. Fræðsluflóttarými, eða Educational Escape Room, er kennsluaðferð sem hefur verið í þróun í æskulýðsstarfi undanfarin ár. Fræðsluflóttarými eru eins og önnur Escape Room að því leyti að þau ganga út á að leysa þrautir til þess að komast út úr lokuðu rými eða ná sameiginlegu markmiði, en í fræðsluflóttarýmum er fræðslunni fléttað saman við þrautirnar og svo ítarleg ígrundun tekin eftir reynsluna til þess að ná yfir upplifunina og heimfæra lærdóminn yfir á skátastarfið. Flóttarýmið þótti ekki gefa atvinnuflóttarýmum neitt eftir og varð einum skátanum það að orði að þetta væri erfiðasta flóttarými sem viðkomandi hefði tekið þátt í.

Lýðræði í landnámsþema

Til þess að kynnast betur lýðræðisleikjunum fengu þátttakendur að kjósa um hvað yrði í hádegismat. Kosningin fór fram í gegnum lýðræðisleik í landnámsstíl, þannig að hver flokkur hafði ákveðið mörg kýrgildi á milli handanna og gat valið að verja þeim í mismunandi möguleika. Rækjusamlokur háðu grimma baráttu við samlokur frá Subway, en að lokum hafði alþjóðlega bátakeðjan vinninginn. Gengur betur næst, Benni.
Atrenna 2019


Skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni

Á mynd; Huldar Hlynsson

Sex vaskir skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka síðastliðinn laugardag og stóðu sig með prýði. Þau söfnuðu áheitum til styrktar margra góðra málefna og safnaði hópurinn samtals 180.000 krónum.

Hópurinn hljóp til styrktar UNICEF en einstaklingar í hópnum söfnuðu einnig áheitum fyrir Ljósið, Neistann, MND félagið, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og ABC barnahjálp.

Á mynd frá vinstri; Ásdís Erla og Gréta Björg
Við óskum þessum köppum innilega til hamingju með árangurinn og erum ótrúlega stolt af því að hafa svona gott fólk í okkar röðum.
Smellið hér til þess að sjá nánari upplýsingar um hlauparana og málefnin sem þau styrktu með framlagi sínu.
Á mynd frá vinstri; Kristófer Helgi, Védís Helgadóttir og Sigurður Viktor

 


Úrslit í ljósmyndasamkeppni Skátanna

Úrslit í ljósmyndasamkeppni Skátanna

Skátarnir efndu til ljósmyndasamkeppni á Instagram í ágúst. Viðfangsefnið var "Skátamót erlendis". Fjölmargar flottar myndir bárust og þrjár fengu verðlaun.

Ísold Vala
Ísold Vala birti þessa flottu mynd af hópi skáta úr sveitinni Sleipni á gangi á Jamboree

Þær  Hildur Bragadóttir, Ísold Vala og Ragnheiður Silja birtu þær myndir á instagram sem ritstjórn vef- og samfélagsmiðla Skátanna tilnefndu til sigurs og fá nýjan BÍS bol að launum.

Þær vissu ekki allar af keppninni eða að þær væru að taka þátt í henni en voru þó allar hæstánægðar með verðlaunin.

Raghneiður Silja
Ragnheiður birti þessa skemmtilegu mynd af skátum í háloftaþrautabrautinni á Jamboree

Myllumerkið Skátanna er #skatarnir og við hvetjum alla til að deila skemmtilegum myndum úr skátastarfi á samfélagsmiðlum með því myllumerki og hver veit nema að þú vinnir óvart ljósmyndakeppni!

Hildur Bragad.
Hildur Bragadóttir birti þessa mynd af íslenskum IST liðum í klifri á Jamboree

Skátarnir taka þátt í Gleðigöngunni!

Skátarnir taka þátt í Gleðigöngu Hinsegindaga í ár líkt og við höfum gert frá árinu 2014. Verkefnið hefur frá upphafi verið að frumkvæði einstaklinga úr röðum skátanna og stutt af landssamtökum skátanna. Það er alltaf mikil stemming og gleði yfir undirbúningi og framkvæmd hjá skátunum í tengslum við gönguna.

Í grunngildum BÍS stendur „Skátahreyfingin er opin fyrir alla sem fylgja markmiðum hennar, Grunngildum og Skátaaðferðinni, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda.“
Þátttaka okkar í gleðigöngunni er til að undirstrika þessa stefnu og í von um að allir upplifi sig velkomna í skátastarfi.

Þema skátavagnsins í ár er ‚Rataðu út‘. Oft hefur það reynst mörgu hinsegin fólki erfitt að komast út úr skápnum og opinbera hinseginleika sinn fyrir fjölskyldu, vinum eða almenningi. Skátarnir vilja veita ungu fólki þann vettvang og stuðning sem það þarf til að finna sjálft sig.  Í skátunum eru það meðmæli að vera öðruvísi og fjölbreytileikinn upphafinn í allri sinni mynd.

Gangan í ár hefst klukkan 14:00, laugardaginn 17. ágúst og gengið er frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuveg og endað á Sóleyjargötu við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar að göngu lokinni.

Við hlökkum mikið til að taka þátt og vonumst til þess að hitta sem flesta skáta niðri í bæ á laugardaginn að fagna fjölbreytileikanum með okkur!


24 Dróttskátar á Gilwell 24

Gilwell 24
Fararhópur Fossbúa, Garðbúa, Heðarbúa, Kópa og Ægisbúa við sviðið á Gilwell 24, 2019

24 dróttskátar á Gilwell 24

Skátamótið Gilwell 24 sem haldið er í Gilwell park í London hefur talsverða sérstöðu á meðal skátamóta í heiminum.
Fyrsta sérstaðan er að mótið stendur eingöngu yfir í sólarhring í staðinn fyrir heila helgi, heila viku eða í lengri tíma eins og flest önnur skátamót – þess vegna heitir mótið Gilwell 24. Önnur sérstaða mótsins er sú að engin skipulögð kyrrð fer fram á mótinu, þ.e. í stað þess að dagskrá ljúki á skikkanlegum tíma um kvöldið og skátar fari í háttinn þá heldur dagskráin áfram alla nóttina og alveg þar til mótinu er slitið morguninn eftir. Þannig geta þeir orkumestu verið í stanslausri dagskrá frá því að mótið hefst og þar til því lýkur.

Þetta þótti dróttskátum bæði í Garðbúum og Ægisbúum spennandi og því ákváðu foringjar úr báðum félögum að mynda fararstjórn og fara með sína skáta og áhugasama skáta úr öðrum félögum á mótið. Mikill áhugi var fyrir mótinu og 24 dróttskátar úr Fossbúum, Garðbúum, Heiðarbúum, Kópum og Ægisbúum fóru ásamt 5 manna fararstjórn á mótið.

Hópurinn hélt utan snemma á föstudagsmorgni og var mikil tilhlökkun í hópnum þótt allir væru illa sofnir vegna áhyggna af svefnleysi næstu daga. Mótið var ekki sett fyrr en á laugardagsmorgni og því hafði hópurinn einn frjálsan dag á ferðalagi sínu og var stefnan sett að heimsækja og skoða sem flest kennileiti Lundúna áður en haldið yrði í Gilwell Park. Þótt dróttskátarnir væru úr ólíkum félögum voru þau fljót að hristast saman á bæjarrölti um London og eftir að hafa veifað Betu inn um gluggann á Buckingham Palace tjaldaði hópurinn í algjöru myrkri og lagðist til hinnar hinstu hvílu þessa helgina.

Reynt að ná Rás 1 á heimagerð útvörpin
Gilwell 24
Enn er óvíst hvor skemmtu sér betur, þátttakendur eða fararstjórar

Loks rann laugardagur upp! Skátarnir spruttu á fætur, drifu sig að sviði mótsins og fylgdust með niðurtalningunni að mótsetningu. Þegar klukkan sló níu hlupu skátarnir af stað í dagskrá en af nægu var að taka. Sirkús rólur, tívolí tæki, frjálst fall á loftdýnu, útvarpssmíðar, laser tag, hljóðlátt diskótek, fjórhjól og margt fleira. Hver dagskrárliður var opinn yfir visst tímabil og þann tíma gat fólk komið og farið að vild. Dagskránni var þar að auki skipt upp í mismunandi þemu og þannig gat hver og einn fundið dagskrá við sitt hæfi. Dróttskátarnir stýrðu því fullkomnlega sjálf hverju þau tóku þátt í.

Þegar líða tók á nóttina var þreytan aðeins farin að segja til sín og flestir fengu sér kríu til að safna kröftum. Þó voru nokkrir sem héldu sér vakandi alla nóttina. En tíminn leið og áður en hópurinn áttaði sig almennilega á því var klukkan aftur orðin 9 að morgni, í þetta skiptið að sunndagsmorgni og því komið að slitum.

Að móti loknu pökkuðu þátttakendur í dagpokann sinn, gengu frá tjöldunum og héldu heim á leið. Á leiðinni fengu dróttskátarnir og fararstjórar þeirra að prófa að dotta í hinum ýmsu öngum breska samgöngukerfisins en þar ber að nefna breska tveggja hæða strætóa, metró vagn og flugvél Ryan Air.

Það var sannarlega ævintýragjarn og skemmtilegur hópur dróttskáta sem hélt út á Gilwell 24 þetta árið. Þau voru glæsileg í spennuþrungnu ferðalagi út og heim aftur og vill fararstjórn þakka þeim sérstaklega fyrir frábæran félagsskap og frammistöðu.

Skátakveðja, fararstjórar hópsins

Egill, Eyja, Kolbrún Ósk, Ragnheiður Silja og Sædís Ósk.

Gilwell 24
Ýmis tækifæri voru til að eignast nýja vini á mótinu. Þeir voru ekki allir mennskir

172 skátar frá Íslandi á Alheimsmót

Nú fer Alheimsmót skáta að bresta á. Spennan í hópnum magnast með hverjum deginum og allt er að verða tilbúið.

Eins og flestir skátar á Íslandi vita þá er mótið haldið í Vestur Virginíu í Bandaríkjunum.

Canada, Mexíkó og Bandaríkin standa sameiginlega að mótinu. Rúmlega 50.000 skátar frá 152 löndum munu sækja mótið sem er 24. alheimsmót skáta.

Frá Íslandi fara  172 skátar og eru 120 þeirra á þátttakendaaldri.

Gífurlega mikið er lagt í dagskrá á mótinu en m.a. verður hægt að fara í flúðasiglingar, klettaklifur,  fræðast um mannréttindi og sjálfbærni, prófa risa BMX braut, brettasvæði og svo má ekki gleyma zip-line en þar er ferðast neðan í línu eins kílómetra vegalengd á um 80 km/klst hraða í um 100 metra hæð. Dagskráin stendur þannig vel undir einkunnarorðum mótsins sem eru friður, vinátta og ævintýri. Skátar frá öllum heimshornum koma saman til að fræðast og opna nýja heima og sýna skilning á mismunandi menningu hvaðanæva af úr heiminum í gegnum leik og starf. Þema mótsins er ,,Unlock new world“.

Mótssvæðið er á stærð við Akureyri eða á tæplega 4300 hektara svæði á Summit Bechtel Reserve en svæðið er gert sérstaklega fyrir skáta af skátum fyrir stórmót.


Hæ hó og jibbí jeij!

Ljósmynd: Margrethe
Ljósmynd: Margrethe

Í gær héldu skátar þjóðhátíðardaginn hátíðlegan. Mikið var um að vera og skátar og gestir nutu dagsins í sólinni.

Skátafélög um allt land tóku þátt í dagskrá í sínum bæjarfélögum og allt gekk eins  og í sögu.

Gleðilegan þjóðhátíðardag öllsömul!

Ljósmynd: Jón Andri


Privacy Preference Center