24 Dróttskátar á Gilwell 24

Gilwell 24
Fararhópur Fossbúa, Garðbúa, Heðarbúa, Kópa og Ægisbúa við sviðið á Gilwell 24, 2019

24 dróttskátar á Gilwell 24

Skátamótið Gilwell 24 sem haldið er í Gilwell park í London hefur talsverða sérstöðu á meðal skátamóta í heiminum.
Fyrsta sérstaðan er að mótið stendur eingöngu yfir í sólarhring í staðinn fyrir heila helgi, heila viku eða í lengri tíma eins og flest önnur skátamót – þess vegna heitir mótið Gilwell 24. Önnur sérstaða mótsins er sú að engin skipulögð kyrrð fer fram á mótinu, þ.e. í stað þess að dagskrá ljúki á skikkanlegum tíma um kvöldið og skátar fari í háttinn þá heldur dagskráin áfram alla nóttina og alveg þar til mótinu er slitið morguninn eftir. Þannig geta þeir orkumestu verið í stanslausri dagskrá frá því að mótið hefst og þar til því lýkur.

Þetta þótti dróttskátum bæði í Garðbúum og Ægisbúum spennandi og því ákváðu foringjar úr báðum félögum að mynda fararstjórn og fara með sína skáta og áhugasama skáta úr öðrum félögum á mótið. Mikill áhugi var fyrir mótinu og 24 dróttskátar úr Fossbúum, Garðbúum, Heiðarbúum, Kópum og Ægisbúum fóru ásamt 5 manna fararstjórn á mótið.

Hópurinn hélt utan snemma á föstudagsmorgni og var mikil tilhlökkun í hópnum þótt allir væru illa sofnir vegna áhyggna af svefnleysi næstu daga. Mótið var ekki sett fyrr en á laugardagsmorgni og því hafði hópurinn einn frjálsan dag á ferðalagi sínu og var stefnan sett að heimsækja og skoða sem flest kennileiti Lundúna áður en haldið yrði í Gilwell Park. Þótt dróttskátarnir væru úr ólíkum félögum voru þau fljót að hristast saman á bæjarrölti um London og eftir að hafa veifað Betu inn um gluggann á Buckingham Palace tjaldaði hópurinn í algjöru myrkri og lagðist til hinnar hinstu hvílu þessa helgina.

Reynt að ná Rás 1 á heimagerð útvörpin
Gilwell 24
Enn er óvíst hvor skemmtu sér betur, þátttakendur eða fararstjórar

Loks rann laugardagur upp! Skátarnir spruttu á fætur, drifu sig að sviði mótsins og fylgdust með niðurtalningunni að mótsetningu. Þegar klukkan sló níu hlupu skátarnir af stað í dagskrá en af nægu var að taka. Sirkús rólur, tívolí tæki, frjálst fall á loftdýnu, útvarpssmíðar, laser tag, hljóðlátt diskótek, fjórhjól og margt fleira. Hver dagskrárliður var opinn yfir visst tímabil og þann tíma gat fólk komið og farið að vild. Dagskránni var þar að auki skipt upp í mismunandi þemu og þannig gat hver og einn fundið dagskrá við sitt hæfi. Dróttskátarnir stýrðu því fullkomnlega sjálf hverju þau tóku þátt í.

Þegar líða tók á nóttina var þreytan aðeins farin að segja til sín og flestir fengu sér kríu til að safna kröftum. Þó voru nokkrir sem héldu sér vakandi alla nóttina. En tíminn leið og áður en hópurinn áttaði sig almennilega á því var klukkan aftur orðin 9 að morgni, í þetta skiptið að sunndagsmorgni og því komið að slitum.

Að móti loknu pökkuðu þátttakendur í dagpokann sinn, gengu frá tjöldunum og héldu heim á leið. Á leiðinni fengu dróttskátarnir og fararstjórar þeirra að prófa að dotta í hinum ýmsu öngum breska samgöngukerfisins en þar ber að nefna breska tveggja hæða strætóa, metró vagn og flugvél Ryan Air.

Það var sannarlega ævintýragjarn og skemmtilegur hópur dróttskáta sem hélt út á Gilwell 24 þetta árið. Þau voru glæsileg í spennuþrungnu ferðalagi út og heim aftur og vill fararstjórn þakka þeim sérstaklega fyrir frábæran félagsskap og frammistöðu.

Skátakveðja, fararstjórar hópsins

Egill, Eyja, Kolbrún Ósk, Ragnheiður Silja og Sædís Ósk.

Gilwell 24
Ýmis tækifæri voru til að eignast nýja vini á mótinu. Þeir voru ekki allir mennskir