Hringfarinn veitir fjölskylduskátum veglegan styrk

Hringfarinn veitir fjölskylduskátum veglegan styrk

Hringfarinn Kristján Gíslason og eiginkona hans Ásdís Rósa Baldursdóttir vilja láta gott af sér leiða og hafa meðal annars stutt við bataferli fíkla. Þegar því verkefni lauk spurðu þau þann hóp sem naut góðs af því verkefni hvað þau teldu að kæmu sér best. Þau hvöttu hann til að skoða aðstæður ungs fólks fyrr á lífsleiðinni. Hann hafði samband við Helgu Þórey Júlíudóttur hjá skátunum og hún sagði honum frá nýjung í skátastarfi sem kölluð eru fjölskylduskátun.

Fjölskylduskátastarf er fyrir börn sem ekki hafa náð hinum hefðbundna skátaaldri og forráðafólk þeirra.  Markmið starfsins er gera öllum fjölskyldum kleift að stunda saman skipulagt tómstundastarf þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri á að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, njóta útivistar, líða vel í eigin skinni, vera sjálfstæðir leiðtogar í eigin lífi og með sterka sjálfsmynd. Hugmyndin hefur þegar fengið tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla.

Skátastarf hefur til þessa almennt hafist við 8 ára aldur. Boðið hefur verið upp á starfið til reynslu í þrjú ár og hefur það gefið góða raun. Fjölskyldur í starfinu hafa komið saman tvisvar sinnum í mánuði í skipulögðu starfi sem reyndir skátaforingjar og forráðafólkið sem fylgir börnunum hjálpast að við að leiða. Þetta nýja starf kallar á þróun í dagskrárefni og verður það einnig útbúið til að fjölga fjölskylduskátasveitum.

Kristján og Ásdís Rósa ákváðu eftir að hafa kynnt sér málið að styrkja skátana veglega til að byggja upp þessa nýjung í skátastarfinu. Heildarstyrkur Hringfarans til skátanna eru 10 milljón krónur. Hluti styrksins eða 2 milljónir verður afhentur í formi bóka sem þau hafa gefið út og verða seldar í Skátabúðinni en það eru:

  • Hringfarinn
  • Sliding Through (ensk útgáfa Hringfarans)
  • Andlit Afríku.

Söluandvirði bókanna sem seljast í Skátabúðinni rennur óskipt til skátastarfsins.  Aðstandendur styrktarsjóðsins, Kristján Gíslason og Ásdís Rósa Baldursdóttir, vilja einnig miðla reynslu sinni til skáta og annarra sem áhuga hafa á þeirra reynslu.

Styrkurinn var afhentur formlega í morgun að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands en hann er einnig verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi.

„Mér lýst afskaplega vel á þetta nýja starf skátanna sem stefnir að því að fjölskyldur komi saman og njóti þessa að brúa bil milli kynslóðanna.“ segir Guðni Th

„Við erum ákaflega þakklát fyrir þennan stuðning,“ segir Helga Þórey Júlíudóttir, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Hún og Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, veittu styrknum móttöku við fjölskylduskátaviðburð við Bjarnastaði í morgun.

Í framhaldi af hinni formlegu afhendingu var gestum boðið að taka þátt í fjölskylduskátafundi sem haldinn var á skátaheimilið á Álftanesi, Bjarnastöðum. Þar fóru fram leikir og verkefni sem að fjölsykldu skátar tóku þátt í af gleði, þrátt fyrir rigningu og rok.


Björgvin Magnússon farinn heim

Björgvin Magnússon farinn heim

Vinur okkar og skátabróðir, Björgvin Magnússon lést s.l. nótt 98 ára að aldri. Björgvin var öllum kær og hann hafði áhrif á okkur öll. Með Björgvin er genginn góður skáti sem ávallt og alls staðar dreifði gæsku og góðum straumum. Margs er að minnast en einkum nefnum við hér störf hans að Úlfljótsvatni allt frá árinu 1947 og málefnum Gilwellsþjálfunar á Íslandi. Björgvin lauk Gilwellþjálfun sinni í Gilwell Park 1948 og var einn aðal leiðbeinanda við fyrsta Gilwellnámskeiðið á Úlfljótsvatni 1959 og síðan stjórnandi fjölmargra slíkra í áratugi. Björgvin gerðist ungur skáti í Skátafélaginu Völsungum sem starfaði í tengslum við Laugarnesskólann í Reykjavík. Þegar Völsungar sameinuðust Skátafélagi Reykjavíkur starfaði Björgvin þar og sat m.a. í stjórn félagsins. Einnig starfaði hann um tíma sem félagsforingi Skjöldunga. Fyrir störf sín var Björgvin Magnússon sæmdur æðsta heiðursmerki íslensku skátahreyfingarinnar, Silfurúlfinum árið 1992 og riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2008 af forseta Íslands.

Í samráði við fjölskyldu Björgvins safnar BÍS minningarstyrkjum til heiðurs Björgvini sem mun renna óskipt til Gilwellskálans á Úlfljótsvatni. Áhugasöm geta fundið allar upplýsingar með því að smella hér.


Katrín ný verkefnastýra fræðslumála

Katrín ný verkefnastýra fræðslumála

Í haust var Katrín Kemp Stefánsdóttir ráðin til starfa til að sinna fræðslu og leiðtogaþjálfunar málum fyrir Bandalag íslenskra skáta.

Katrín hefur starfað innan skátahreyfingarinnar í 10 ár að fjölbreyttum verkefnum m.a sem aðstoðarfélagsforingi skátafélagsins Kópa undanfarin ár og sem sjálfboðaliði í leiðtogaþjálfunarteymi Gilwell skólans. Hún er með B.A. gráðu í uppeldis og menntunarfræði og er að klára masternám í sömu fræðum samhliða starfinu. Katrín hefur verið Útilífsskólastjóri nokkur sumur hjá skátafélaginu Kópum og starfað í leik- og grunnskólum.

Sem verkefnastýra fræðslumála BÍS hefur Katrín yfirumsjón með fræðsluefni, námskeiðaframboði og þjálfunum á vegum BÍS. Katrín vinnur að markmiðum BÍS um Skátaskólann og er í nánu samstarfi við sjálfboðaliðana sem mynda stjórn skólans. Hún vinnur mun líka hjálpa að móta og styðja leiðbeinendasveit BÍS sem ætlað er að sinna skipulagi og framkvæmd námskeiða með dyggum stuðningi hennar.

Það er okkur mikil ánægja að hafa fengið Katrínu til starfa!


Fálkaskátadeginum frestað

Fálkaskátadeginum frestað

Það er verulega leitt að tilkynna að sú ákvörðun hefur verið tekin að fresta fálkaskátadeginum 2021. Ákvörðunin var tekin bæði af BÍS sem ábyrgist viðburðinn og skátafélaginu Garðbúum sem átti að vera gestgjafi fálkaskátadagsins í ár. Þeim sem standa viðburðinum þykir ekki ábyrgt að stefna saman hópum barna og fullorðinna úr ólíkum hverfum og bæjarfélögum við núverandi stöðu.

 

Skátafélag hefur þurft að afboða komu sína og allra sinna þátttakenda vegna stöðunnar í þeirra nærsamfélagi og á sama tíma er fjöldinn allur af ungum þátttakendum sem voru spennt fyrir að koma sem þyrfti að biðja um að koma ekki sökum þess að þau eru í smitgát. Tilgangur fálkaskátadagsins er að leyfa krökkum úr ólíkum skátafélögum að hittast og hafa gaman saman og aðstæður núna eru ekki heppilegar til að ná þeim markmiðum.

Þess verður freistað að reyna aftur síðar og ný dagsetning viðburðarins er sunnudagurinn 13. febrúar og er gert ráð fyrir að fálkaskátadagurinn fari fram með sama hætti, á sama stað og með sömu gestgjöfum. Skráning er því framlengd og þau sem eru skráð halda sínu sæti. .

 

Við minnum alla skátana okkar á að muna að vera ávallt viðbúin sérstaklega núna þegar á reynir!


Tilmæli um viðburði

Tilmæli um viðburði

Til Skátamiðstöðvarinnar hafa leitað skátafélög sem höfðu í einhvern tíma stefnt á að vera með viðburði um komandi helgi 29.-31. október. Skátafélög hafa verið að spyrja starfsfólk Skátamiðstöðvar hvað BÍS ráðleggi þeim að gera í ljósi ástandsins og í ljósi þess að sóttvarnarlæknir sagði í fjölmiðlum í dag, 28. október, að aðilar sem stefndu á stóra viðburði um helgina ættu að endurskoða það.

Þegar skýrar leiðbeiningar hafa ekki borist okkur frá yfirvöldum eða okkar ráðuneyti í formi reglugerðar er erfitt að setja boð eða bönn og vera viss um að þau séu rétt. Skátamiðstöðin leitaði til covid.is eftir ráðgjöf en þar var vísað til 2000 manna samkomutakmarkanna sem væru nú í gildi.

Skátamiðstöðin ráðleggur því öllum skátafélögum að fara varlega og hugsa sig vel um. Í slíku mati gæti verið gott að hugsa hvort hópurinn sem myndi mætast á viðburðinum sé þegar að blandast í skólastarfi eða ekki. Ef viðburðir eru skipulagðir skal fyrst kanna hug meðal sjálfboðaliða, þátttakenda og forráðafólks til að meta hvort það sé áhugi á að viðburðum sé haldið til streitu. Ef viðburðir eru haldnir leggjum við til að gætt sé upp á sóttvarnir meðan að á þeim stendur byggt á þeirri reynslu sem við eigum öll að hafa eftir tæp tvö ár af þessu ástandi.

Við höfum fengið fregnir af því að í öðru ungmennastarfi sé verið að gera það að kröfu að öll sem hyggist mæta á viðburði um helgina fari í hraðpróf 48 klst fyrir komu, en slík má t.d. bóka á hradprof.covid.is.

Ef skátafélögin eru óörugg og vilja heldur fresta eða aflýsa viðburðum sem þau höfðu skipulagt hvetjum við þau til að vera óhrædd að gera það og útskýra fyrir sínum skátum og forráðafólki þeirra að það sé gert í öryggisskyni og að skátafélagið treysti sér ekki til annars.

Við hvetjum fólk að vera skynsamt og fylgja samvisku sinni. En einnig að muna að skáti er tilitssamur.


Fyrsti útivistarskáli Íslands -Væringjaskálinn 100 ára.

Fyrsti útivistarskáli Íslands -Væringjaskálinn 100 ára.

Afmælisathöfn í Árbæjarsafni, sunnudaginn 29. ágúst 2021 kl: 13:00
á vegum Bandalags íslenskra skáta og Skátasambands Reykjavíkur í samstarfi við Árbæjarsafn.

Allir velkomnir

Dagskrá:
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri býður gesti velkomna
Upphafsorð, gestir boðnir velkomnir: Ævar Aðalsteinsson.
Ávarp forseta Íslands hr. Guðna Jóhannessonar, verndara skátahreyfingarinnar.
Skátakórinn: Kórsöngur og skátasöngvar.
Sagan talar, Væringjaskáli – Lækjarbotnaskáli: Haukur Haraldsson.
Skátaþrautir og „skátaæfingar“. Umsjón: Skátafélögin.
Skátakakó í tjaldi. Umsjón: Bakhópur Endurfunda skáta.

Skálinn skoðaður og opinn almenningi.
Varðeldurinn tendraður og skátasöngvar hljóma.
Tjöldun og framkvæmd svæðis: SSR og BÍS.

SKÁTASTARF Í LÆKJARBOTNUM  –  VÆRINGJASKÁLI  –  100 ÁR
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Það þótti all mikið þrekvirki fyrir 100 árum þegar Skátafélagið Væringjar í Reykjavík reisti sér veglegan útivistar- og íveruskála við Lækjarbotna austan Reykjavíkur. Væringjaskálinn var byggður af skátunum sjálfum í sjálfboðavinnu en undir stjórn trésmiða. Skálinn hleypti strax miklu lífi í skátastarfið og opnaði skátum nýjan vettvang til útivistar, rötunar og leikja í umhverfi sínu og gerði slíkt alla tíð þar til hann var fluttur í Árbæjarsafn árið 1962 en þá höfðu skátar reist sér nýjan og stærri skála í Lækjarbotnum. Í Árbæjarsafni stendur Væringjaskálinn enn, keikur og fallegur í umsjón safnsins, veglegur minnisvarði um fyrri reisn. Verður svo áfram, en skátastarfið heldur áfram á gamla staðnum, undir Selfjallinu við Lækjarbotna.

Skátahreyfingin vill nú í samvinnu við Árbæjarsafn minnast merkra tímamóta; – frumherja Væringja í Lækjarbotnum og alls skátastarfsins þar í heila öld, með sérstökum viðburði 29. ágúst n.k. við skálann í Árbæjarsafni.
Öllum skátum er boðið að vera viðstaddir, en aðgangur að Árbæjarsafni er ókeypis þennan dag fyrir þá skáta sem bera skátaklútinn við innganginn.
Forseti Íslands, verndari skátahreyfingarinnar og borgarstjórinn i Reykjavík munu heiðra samkomuna með nærveru sinni.  Viðburðurinn hefst kl.13, vinsamlega mætið tímanlega að skálanum.

Athugið að farið verður að gildandi samkomutakmörkunum vegna sóttvarna.


Breytingar hjá Skátamiðstöðinni

Breytingar hjá Skátamiðstöðinni

Vegna aukinna umsvifa Grænna skáta undanfarin ár mun Kristinn Ólafsson sem síðastliðin 4 ár hefur sinnt framkvæmdastjórastöðu BÍS og allra dótturfélaga þess snúa sér alfarið að Grænum skátum og Skátabúðinni.

Kristni og félögum í Grænum skátum hefur tekist að efla starfsemi Grænna skáta töluvert og á undanförnum  fjórum árum hefur fyrirtækið vaxið úr því að vera með 6 starfsmenn í 25 starfsmenn. Félagið er orðið eitt stærsta þjónustufyrirtæki á landinu þegar kemur að söfnun endurvinnanlegra umbúða frá fyrirtækjum og söfnunargámum og jafnframt einn stærsti vinnustaður landsins fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Við þökkum Kristni fyrir það yfirgripsmikla starf sem hann hefur unnið í þágu BÍS og hlökkum til að vinna með honum áfram í Grænum skátum.

Stjórn BÍS mun á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra BÍS auk þess sem skipulag skátamiðstöðvanna í Hraunbæ og á Úlfljótsvatni verður endurskoðað í ljósi þess að ekki verður lengur einn framkvæmdastjóri yfir öllum einingum BÍS.

Stjórn BÍS vill með þessum breytingum styrkja grunnstoðir skátastarfs með aukinni áherslu skátamiðstöðvarinnar á dagskrá, fræðslu og stuðningi við skátafélögin. Þegar nánari útfærsla verður tilbúin í samstarfi með nýjum framkvæmdastjóra mun stjórn boða til félagsforingjafundar til kynningar.

Með skátakveðju,

Stjórn BÍS

Marta, Harpa, Jón Halldór, Björk, Laddi, Sævar og Huldar


Lokað fram yfir Verslunarmannahelgi

Lokað fram yfir Verslunarmannahelgi

Skátamiðstöðin verður lokuð dagana 26. júlí til 2. ágúst vegna sumarfrís starfsfólks.

Starfsfólk fer aftur að týnast til vinnu úr sumarfríi þriðjudaginn 3. ágúst.


Hefð að hjóla á skátamót

Hefð að hjóla á skátamót

Tjaldflatirnar við Úlfljótsvatn eru nú að fyllast af skátum sem setja upp tjaldbúð og taka þátt í Skátasumrinu 2021. Mótið, sem var sett á miðvikudag, er eitt þriggja sambærilegra minni móta sem haldin verða á Úlfljótsvatni í sumar, í stað eins risavaxins Landsmóts skáta. Þetta var gert til að tryggja að hægt væri að bregðast við þeim samkomutakmörkunum sem kynnu að eiga við. Flestir skátarnir komu sér á áfangastað með hefðbundnum hætti — í rútum eða á einkabílum — en nokkrir vaskir skátar úr Skátafélaginu Vífli úr Garðabæ ákváðu að halda í gamla hefð og hjóla á mótið.  

 

Héldu að þetta yrði ekkert mál

„Það er gömul hefð í skátafélaginu okkar að dróttskátar hjóli á Landsmót. Ég held að hún sé frá 2002, þegar mótið var á Akureyri,“ segir Birgir Óli Guðmannsson, einn af skátunum sem hjóluðu. Hjólaferðin tók 5 og hálfan tíma, en skátarnir hjóluðu 56 km, frá Garðabæ til Úlfljótsvatns um Nesjavelli. „Ég hélt þetta yrði ekkert mál,“ segir Hreiðar Örn Hlynsson, annar úr hópnum, „en ég hafði ekki rétt fyrir mér. Lokaspretturinn var ógeðslegur“. Á leiðinni eru þrjár 15% brekkur en strákarnir sjá ekki eftir þessu. „Það eru ekki allir sem geta sagst hafa hjólað 56 kílómetra!“ segir Birgir Óli. 

 

Þórey Lovísa er ein af skipuleggjendum mótsins og segir það fara vel af stað.

Hlakka til að hitta gamla vini

Drengirnir úr Vífli eru spenntir fyrir mótinu, enda langt síðan skátar máttu koma saman í hundraða tali. „Eftir þessa hjólaferð —  ef þetta verður ekki skemmtilegasti hlutur í heimi verð ég svekktur!“ segir Kári Kjartansson, einn úr hjólahópnum. Það er lítil hætta á að Kári verði fyrir vonbrigðum, enda er þétt dagskrá í boði fram á sunnudag. Hreiðar segist spenntastur fyrir því að hitta gamla vini úr fararhópnum á heimsmótið fyrir tveimur árum. „Svo er líka bara gott að vera mættur aftur, eftir svona langt hlé frá skátaviðburðum,“ bætir hann við. 

 

Tækifæri felast í heimsfaraldri

Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, ein af skipuleggjendum mótsins, segir að mótið fari vel af stað. „Það eru ákveðin forréttindi að fá að keyra mótið þrisvar, því við munum vafalausts læra mikið á leiðinni,“ segir Þórey Lovísa og bætir því við að svona mót hafi ekki verið haldin áður. „Í raun er heimsfaraldurinn að gefa okkur tækifæri til að prófa nýja hluti sem við höfum ekki gert áður,“ segir Þórey Lovísa. 

Skátasumarið 2021 stendur yfir næstu þrjár vikur og eru tæplega 200 þátttakendur á svæðinu hverju sinni. 


Skátasumarið er hafið

Skátasumarið er hafið

Síðasta sumar stóð til að halda stórt Landsmót skáta en vegna heimsfaraldursins var því frestað. Þess í stað verða haldin þrjú minni skátamót í sumar, sem ganga undir nafninu Skátasumarið. Fyrsta mótið var sett síðasta miðvikudag á Úlfljótsvatni og stendur fram á næsta sunnudag. Næstu mót verða svo sett næstu tvo miðvikudaga á eftir líka á Úlfljótsvatni.

Mikið er lagt upp úr því að hafa dagskránna sem fjölbreyttasta og að allir finni sér eitthvað við sitt hæfi. Þátttakendur fá sjálfir að velja sína dagskrá og reyna verkefnin bæði á samvinnu skátaflokksins sem og hugmyndaflug, hæfni og reynslu hvers þátttakanda.

Heimsbandalag kvennskáta hefur útbúið dagskrárefni sem er ætlað að stuðla að jákvæðu líkamsöryggi og valdefla börn og ungmenni. Allir þátttakendur munu fara í gegnum það ásamt því að kynnast heimsmarkmiðunum, fara í gönguferðir og taka þátt í hefðbundinni skátadagskrá.

Reiknað er með yfir 1.000 – 1.500 manns verði á mótssvæðinu í hverri viku, þátttakendur og gestir í fjölskyldubúðum. Fjölskyldubúðir er rótgróinn þáttur á stærri skátamótum, þar sem foreldrar, gamlir skátar og allir þeir sem hafa áhuga geta komið og notið útivistar, samveru og um leið upplifað töfra skátastarfsins.

Bandalag íslenskra skáta stendur að mótinu. Skátastarf stuðlar að heilbrigðri æsku og virðingu fyrir samfélaginu og náttúrunni. Þannig byggjum við upp öfluga og ábyrga einstaklinga


Privacy Preference Center