Breytingar hjá Skátamiðstöðinni

Vegna aukinna umsvifa Grænna skáta undanfarin ár mun Kristinn Ólafsson sem síðastliðin 4 ár hefur sinnt framkvæmdastjórastöðu BÍS og allra dótturfélaga þess snúa sér alfarið að Grænum skátum og Skátabúðinni.

Kristni og félögum í Grænum skátum hefur tekist að efla starfsemi Grænna skáta töluvert og á undanförnum  fjórum árum hefur fyrirtækið vaxið úr því að vera með 6 starfsmenn í 25 starfsmenn. Félagið er orðið eitt stærsta þjónustufyrirtæki á landinu þegar kemur að söfnun endurvinnanlegra umbúða frá fyrirtækjum og söfnunargámum og jafnframt einn stærsti vinnustaður landsins fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Við þökkum Kristni fyrir það yfirgripsmikla starf sem hann hefur unnið í þágu BÍS og hlökkum til að vinna með honum áfram í Grænum skátum.

Stjórn BÍS mun á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra BÍS auk þess sem skipulag skátamiðstöðvanna í Hraunbæ og á Úlfljótsvatni verður endurskoðað í ljósi þess að ekki verður lengur einn framkvæmdastjóri yfir öllum einingum BÍS.

Stjórn BÍS vill með þessum breytingum styrkja grunnstoðir skátastarfs með aukinni áherslu skátamiðstöðvarinnar á dagskrá, fræðslu og stuðningi við skátafélögin. Þegar nánari útfærsla verður tilbúin í samstarfi með nýjum framkvæmdastjóra mun stjórn boða til félagsforingjafundar til kynningar.

Með skátakveðju,

Stjórn BÍS

Marta, Harpa, Jón Halldór, Björk, Laddi, Sævar og Huldar