Kraftur í fálkaskátum Skjöldunga

Í nóvember voru fálkaskátar í skátafélaginu Skjöldungum fyrstu þátttakendur FálkaKrafts, sem eru ný leiðtoaþjálfunarnámskeið haldin af Leiðbeinendasveitinni.

Á FálkaKrafti fá þátttakendur tækifæri á því að taka þátt í dagskrá sem þjálfar þau í flokkastarfi, að plana-gera-meta og samvinnu. Þátttakendur fá færi á því að kynnast gildum skátahreyfingarinnar í gegnum leiki og reynslunám og eru þau hvött til að vinna að samfélagsverkefnum að viðburði loknum.

"GAMAN AÐ SJÁ HVAÐ KRAKKARNIR ERU FLOTT"

Helena Sif, annar sveitarforingi fálkaskátanna í Skjöldungum, var mjög ánægð með FálkaKraft og fannst gaman að fylgjast með því hversu vel skátarnir þeirra stóðu sig á viðburðinum.

"Þetta gekk vel og var bara kósý" segir Helena en á FálkaKrafti koma tveir aðilar úr Leiðbeinendasveitinni og keyra dagskrána með fálkaskátunum. Helena sagði það vera mjög þægilegt í ljósi alls sem sjálfboðaliðar eru oft að fást við innan og utan skátastarfs að fá tilbúna dagskrá og aðila sem sjá um hana.

"Við þurftum ekkert að gera nema vera stolt" sagði Helena en einnig fannst henni gaman að fá nýja að starfinu og sjá þau hvetja skátana þeirra áfram til að vinna að verkefnum sem þeim hefði kannski ekki dottið í hug að gera sjálf. Það helsta sem stóð uppúr fyrir foringjana var "að sjá hvað krakkarnir eru flott og fá einhvern nýjan inn sem sýnir fram á hvað er hægt í skátastarfi. The sky is the limit í rauninni en þau taka ekki alltaf mark á því þegar það kemur frá okkur foringjunum"

Dagskráin gekk vel og höfðaði vel til skátanna, viðfangsefnin voru fjölbreytt og var ólíkt hvað stóð uppúr hjá þátttakendum að sögn Helenu. Það sem hefur þó farið mest fyrir eftir að viðburðinum lauk eru samfélagsverkefni en einn dagskrárliður FálkaKrafts var að flokkarnir áttu að velja sér samfélagsverkefni sem þeim þótti mikilvægt. Í framhaldi að því fóru þau í lýðræðisleik þar sem hver flokkur kynnti sína hugmynd og svo var kosið um bestu hugmyndina sem þau myndu vinna saman að sem sveit. Að auki voru þau hvött til að vinna samt sem áður að sínum samfélagsverkefnum og hafa fálkaskátarnir svo sannarlega gert það en þau hafa þegar framkvæmt tvö samfélagverkefni.

JÓLABALL FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA

Einn flokkurinn vildi halda jólaball fyrr fjölskyldur í hverfinu og voru þau búin að skipuleggja dagskrá ballsins sjálf. Þau hönnuðu auglýsingar fyrir jólaballið á skátafundum en fóru svo sjálf að dreifa þeim um hverfið í sínum frítíma. Einnig sáu þau um að baka veitingar  til að bjóða uppá á ballinu heima hjá sér.

Jólaballið var haldið í skátaheimili Skjöldunga 9. desember og voru um 20 manns sem mættu, hittu jólasveina og skreyttu piparkökur.

DÓSASÖFNUN FYRIR GRINDVÍKINGA

Annar flokkur var mjög áhugasamur um að safna dósum til að styðja söfnun Rauða Krossins vegna jarðrhræringanna við Grindavík. Vörðu þau þrem fundum í að ganga í hús og safna flöskum og dósum úr hverfinu og náðu þau að safna 51.442 krónum sem afhentar voru Rauða Krossinum.

Hér má lesa frétt á vef Rauða Krossins um dósasöfunina.

BÓKA FÁLKAKRAFT

FálkaKraftur er haldinn á vettvangi félagsins en nokkur félög geta einnig sameinast um að halda námskeiðið.  Skátafélögin sem óska eftir Fálkakrafti fyrir sínar fálkaskátasveitir útvega húsnæði fyrir námskeiðin (t.d. skátaheimili eða skátaskála) og þannig kemur Fálkakrafturinn til skátafélaganna! Hvert námskeið stendur yfir í 5 klukkustundir og því er tilvalið að prjóna lengri dagskrá við Fálkakraftinn, t.d. sveitarútilegu yfir alla helgina.

Langar þig að fá FálkaKraft í þitt félag? Hafðu samband við Leiðbeinendasveitina með því að senda þeim tölvupóst á leidbeinendasveit@skatarnir.is.


Ánægjukönnun sjálfboðaliða starfsárið 2023-2024

Eins og fram kemur í stefnu BÍS til ársins 2025 er eitt markmið Skátanna að sjálfboðaliðar hreyfingarinnar séu sátt. Skátarnir vilja veita fólki tækifæri á að taka þátt í uppbyggilegu sjálfboðaliðastarfi þar sem það nýtur sín í starfi, getur miðlað af reynslu sinni og fær tækifæri til að vaxa og dafna. Einn af mælikvörðum þess er að Skátamiðstöðin sendir frá sér ánægjukönnun til allra sjálfboðaliða tvisvar sinnum ári og niðurstöðum hennar verði fylgt eftir.

Því erum við núna að óska eftir svörum við ánægjukönnun fyrir skátaforingja og meðlimi stjórna skátafélaga starfsárið 2023-2024. Sendur hefur verið tengill á könnunina á alla sjálfboðaliða samkvæmt mannauðsskrá BÍS og biðjum við öll um að athuga tölvupóstinn sinn og svara könnuninni.

Nokkrir heppnir svarendur verða svo dregnir úr lukkupotti þann 15. desember og fá vinning úr Skátabúðinni.


Könnuðamerkin eru mætt!

Könnuðamerkin eru nýjung í skátastarfi sem byggja á forsetamerkinu. Merkin eru hvatakerfi fyrir skáta og veitir þeim endamarkmið til að vinna að á síðasta ári hvers aldursbils.

Dreka-, fálka-, og dróttskátar sem eru að ljúka sínu aldursbili fá tækifæri á því að gerast könnuðir. Sem könnuðir þurfa þau að vinna að sérstökum verkefnum yfir starfsárið og halda utan um þau í könnuðamerkjabókinni sinni.

Verkefnin eru allt frá því að vinna að færnimerkjum, fara í útilegur og skipuleggja gönguferð yfir í að vinna að verkefnum sem þau velja sjálf og vinna að með flokknum eða sveitinni sinni. Skátarnir vinna sjálf að þessum verkefnum en njóta stuðnings sveitarforingja sinna.

Könnuðamerkjabækurnar er hægt að kaupa í Skátabúðinni eða prenta út sjálf í skátaheimilinu.

Könnuðamerkin sjálf fást svo í Skátabúðinni.


15 þátttakendur á skyndihjálparnámskeiði

Skyndihjálparnámskeið var haldið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna á 3 kvöldstundum, dagana 23., 26. og 31. október. Námskeiðið var 12 kennslustunda námskeið og var í umsjón hinnar þaulreyndu Laufeyjar Elísabetar Gissurardóttur sem hefur kennt skyndihjálp í þrjá áratugi.

Að þessu sinni voru 15 skátar sem sátu námskeiðið, þar af voru 9 sem sátu allt námskeiðið og 6 sem þurftu aðeins að mæta fyrsta kvöldið í endurnýjun á skyndihjálparskírteininu. Rauði Krossinn mælir með endurmenntun í skyndihjálp annað hvert ár.

Þátttakendur námskeiðsins að þessu sinni sinna öll sjálfboðaliðastörfum fyrir Skátanna, annað hvort sem skátaforingjar eða í stjórn skátafélags, en öll sátu námskeiðið í þeim tilgangi að vera betur búin til að bregðast við ef slys ber að garði. Öryggi er mikilvægur þáttur skátastarfs og er skyndihjálp ein leið til þess að auka öryggi allra sem taka þátt í starfinu.

Er kominn tími fyrir þig að sækja skyndihjálparnámskeið, taktu þá frá dagana 25. og 26. maí 2024 en þá höldum við aftur skyndihjálparnámskeið!


30 dróttskátar skemmtu sér í Lækjarbotnum

Helgina 13.-15. október var DróttKraftur haldinn í skátaskálanum í Lækjarbotnum.

DróttKraftur er leiðtogaþjálfun á vegum Leiðbeinendasveitarinnar og er lögð áhersla á að efla leiðtogafærni og samskiptahæfni þátttakenda. Dagskrá DróttKrafts byggist á leikjum, reynslunámi og samvinnu skátanna í flokkum. Þannig fá skátarnir tækifæri á því að kynnast öðrum dróttskátum á landinu, æfa sig í því að vera leiðtogar á meðal jafningja og taka þátt í lýðræðislegu starfi. Að þessu sinni voru þátttakendur 30 talsins og komu frá ólíkum félögum á landinu.

Þátttakendurnir fengu að velja dagskrá helgarinnar og urðu útieldun, flokkakeppni og kappræður fyrir valinu.

Dróttskátarnir létu veðrið ekki hafa áhrif á sig þegar þau elduðu dýrindis tómatsúpu og grillaðar samlokur í hádegismat.

Á kvöldin var svo að sjálfsögðu haldnar kvöldvökur en á laugardags kvöldvökunni voru allir flokkar með skemmtiatriði og skiptust þeir á að stýra kvöldvökunni.

Takk öll fyrir skemmtilega helgi.

 

 


Vel sótt foringjanámskeið í Búðardal

Helgina 1.-3. september stóð Leiðbeinendasveitin fyrir foringjanámskeiði í Búðardal en námskeiðið sóttu á fjórða tug sveitar- og aðstoðarsveitarforingja úr ýmsum skátafélögum.

Þema námskeiðsins var “Sjáðu tindinn” og alla helgina voru þátttakendur á leiðinni á tindinn; að sjálfu foringjahlutverkinu. Af nógu var að taka og í gegnum lausnaleitaræfingar, fyrirlestra, umræðuhópa og leiki lærðu foringjarnir um hlutverk skátaforingja, ólíka leiðtogastíla, skátaaðferðina, flokkakerfið, dagskrárrammann, markmiðaflokkana, PGM, ÆSKA, hvatakerfið og vígslugrunninn. Þá lærðu foringjarnir um hegðun barna, öryggi í skátastarfi, Æskulýðsvettvanginn og viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þátttakendur störfuðu í flokkum á námskeiðinu og á hverjum degi námskeiðsins var haldinn sveitarráðsfundur þar sem flokks- og aðstoðarflokksforingjar hittust og komu á framfæri skilaboðum frá sínum flokkum.

Þá má ekki gleymast að söng- og leiklistarhæfileikar þátttakenda fengu heldur betur að njóta sín á námskeiðinu, því á laugardagskvöldinu var haldin kröftug kvöldvaka með framúrskarandi skemmtiatriðum frá öllum flokkum, svo að eftir var tekið!

Afar fjölbreyttur hópur foringja sótti námskeiðið; þau voru ýmist að stíga sín fyrstu skref sem skátaforingjar eða búin að starfa í lengri tíma, enda er mikilvægt og gott fyrir foringja að sækja sér þjálfun og fræðslu reglulega, sérstaklega núna þegar ýmis ný tól hafa bæst í verkfærakistu foringa: könnuðamerkin, hæða- og stikumerkin og markmiðaflokkarnir, svo fátt eitt sé nefnt.

Á námskeiðinu öllu spunnust sérlega góðar umræður um allt það er viðkemur foringjastarfinu og foringjarnir skiptust á reynslusögum og hugmyndum og veittu hver öðrum innblástur. Eftir göngu helgarinnar á tindinn héldu skátaforingjarnir heim á leið með gott veganesti í farteskinu, tilbúnir fyrir foringjastörf starfsársins!


Námskeiðaáætlun Æskulýðsvettvangsins fyrir starfsárið 2023-2024

Námskeiðaáætlun Æskulýðsvettvangsins fyrir starfsárið 2023-2024 hefur verið birt!

Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi í þeim tilgangi að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara. Námskeið Æskulýðsvettvangsins eru liður í því.

Það er mikilvægt að öll sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð og viti hvernig á að bregðast við þegar upp koma atvik eða áföll í starfinu. Því hvetjum við öll sem starfa fyrir Skátana, sjálfboðaliða og starfsfólk að skrá sig á námskeið Æskulýðsvettvangsins.
Námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu!

Námskeið starfsársins 2023-2024 eru eftirfarandi:

21. ágúst - Verndum þau
15. nóvember - Samskipti og siðareglur
7. febrúar - Hinsegin fræðsla
20. mars - Verndum þau

Útkall eftir umsóknum á alþjóðlegt Gilwell námskeið í Slóveníu

BÍS stendur til boða að senda 6 þátttakendur á alþjóðlegt Gilwell leiðtogaþjálfunar námskeið sem haldið verður í Slóveníu. Námskeiðið er styrkt af Erasmus+ og verða þátttakendur frá Íslandi, Slóveníu, Serbíu og Svartfjallalandi. Námskeiðið fer fram á ensku. Að námskeiði loknu þurfa þátttakendur að mæta á lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar á Íslandi.

HVAR OG HVENÆR

Námskeiðinu í Slóveníu er skipt í 2 hluta:

  • Fyrri hlutinn verður haldinn í skátamiðstöð við Bohinj-vatn dagana 12.-19. ágúst. Gist verður í tjöldum.
  • Seinni hlutinn verður haldinn 23.-25. febrúar 2024, nákvæm staðsetning verður staðfest síðar en yfirleitt er helgin haldin í Postojna.

Að því loknu verður lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar haldin í nóvember 2024 á Úlfljótsvatni.

MARKMIÐ

Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á ævintýralegt námskeið ásamt því að styrkja leiðtogahæfni þátttakenda. Á námskeiðinu er mikil áhersla á gildi, bæði einstaklingsins og skátahreyfingarinnar, og þurfa þátttakendur að vera tilbúin að taka þátt í verkefnum sem krefjast ígrundunar á eigin gildum og viðhorfum.

KRÖFUR

Þátttakendur þurfa að vera 20 ára, hafa reynslu af foringjastörfum, eða öðrum leiðtogastörfum, innan skátahreyfingarinnar og stefna á að halda því áfram. Jafnframt er æskilegt að þátttakendur hafi lokið sveitarforingjanámskeiði.

KOSTNAÐUR

Námskeiðið er styrkt af Erasmus+ og eru námskeiðsgjöld því 0 kr. Jafnframt er ferðakostnaður upp að 530 evrum á mann. Ferðakostnaður umfram það er greiddur af þátttakenda. Að auki þarf að greiða 21.000 krónur fyrir útskriftarhelgi á Íslandi.

UMSÓKNIR

Umsóknir skulu berast í gegnum formið hér að neðan. Umsóknarfrestur er til og með 17 maí.

Vinsamlegast skrifaðu bara önnur tungumál ef þú myndir treysta þér að vera í samskiptum við erlenda skátahópa á því tungumáli
Vinsamlegast skrifaðu starfsheiti eða stutta lýsingu á hvað þú fæst við.

Fimmtán öflugir skátar hefja Gilwell leiðtogaþjálfun

Gilwell þjálfunin er æðsta leiðtogaþjálfun skáta og er metnaðarfullt 11 mánaða nám fyrir starfandi foringja, stjórnarfólk og aðra fullorðna skáta sem starfa með BÍS eða í skátafélagi.

Eftir 4 ára hlé hófst hin langþráða Gilwell þjálfun á ný á gamalkunnum slóðum á Úflljótsvatni og var því mikil eftirvænting fyrir helginni. Föstudaginn 20. janúar sátu þó bæði skátar og leiðbeinendur stúrin heima í stofu að horfa á handboltaleik í stað þess að sitja við eldinn í Ólafsbúð, þar sem veðurviðvaranir og færð komu í veg fyrir að námskeiðið færi af stað á réttum tíma.

Eldsnemma á laugardagsmorgun var hópurinn mættur með pússaða gönguskó og vel straujaðar skyrtur og klúta og hóf störf við leik og nám.  Mesta spennan á hverju Gilwell námskeið er að sjálfsögðu flokkaskiptingin og fengu Uglur, Gaukar, Dúfur og Spætur nýja meðlimi þessa helgina.

Aðal áhersla á fyrsta hluta Gilwell þjálfunarinnar eru gildi skáta, einstaklingsins og hreyfingarinnar. Fyrir mörgum var þetta nýtt viðfangsefni og öðrum nokkuð kunnuglegt.
Í þetta sinn voru gildin vafin inn í þemað á Njáluslóðum og því stóð Hallgerður langbrók fyrir ástríðu, hörku og orku sem Spætuflokkurinn til dæmis samsamaði sig vel við.

Allir Gilwell ungarnir fóru glöð heim með sín fyrstu gilwell einkenni og hugmyndir að spennandi verkefnum til að vinna skátahreyfingunni til eflingar næstu mánuði.

Einn skáti, Karen Öder úr skátafélaginu Fossbúum,  kláraði sinn feril um helgina, og fékk hún því sín einkenni. Við óskum henni innilega til hamingju með áfangan.

Næsti hluti þjálfunarinnar hefst í júní en þá mun hópurinn hafast við í tjöldum og rýna í skátastarfið á allt annan hátt.

Við hlökkum til að hitta hópinn aftur!


Nýtt fyrirkomulag námskeiða Æskulýðsvettvangsins

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennafélags Íslands. Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og stuðlar að heilbrigðum, uppbyggjandi, vönduðum og öruggum aðstæðum í slíku starfi.

Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi í þeim tilgangi að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara. Námskeið Æskulýðsvettvangsins eru liður í því. Áður hafa aðildarfélög ÆV óskað eftir námskeiðunum inn í sínfélög eftir þörfum en nú verður gerð breyting þar á. Námskeiðin verða sameiginleg fyrir öll aðildarfélögin og fara fram eftir námskeiðaáætlun.

Það er mikilvægt að öll sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð og viti hvernig á að bregðast við þegar upp koma atvik eða áföll í starfinu. Því hvetjum við sem flest til að sækja námskeiðin en þau eru frí fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

NÁMSKEIÐAÁÆTLUN VOR 2023

8. febrúar Hinsegin fræðsla
8. mars Samskipti og siðareglur
29. mars Inngilding og fjölmenning

Skráning er opin á öll námskeiðin hér


Privacy Preference Center