Hvað er iScout?

HVAÐ ER ISCOUT?
iScout er alþjóleg keppni fyrir skáta 16 ára og eldri og stendur yfir í sex klukkustundir laugardagskvöldið 6. mars.
Þátttakendur taka þátt í 8 – 25 skáta hópum sem hittast einhverstaðar í sínu landi með fartölvur, snjallsíma og góða internettengingu. Þegar keppnin hefst fá liðin úthlutaðar þrautir sem þarf ýmist að leysa á internetinu eða í raunheimum, þannig þarf hvert lið að skipta með sér verkum. Meðan hluti liðsins leysir verkefni í raunheimum og sendir sönnunargögn fyrir því á dómara keppninnar heldur hinn hluti liðsins sig við tölvuna og leysir þrautir þar.
Að degi loknum vinnur hvert það lið sem tókst að leysa flestar þrautir á réttan máta.
HVERNIG PRÓFA ÉG ISCOUT?
Sökum Covid-19 heimsfaraldursins hefur hópurinn sem stendur að baki hinu árlega skátamóti iScout opnað fyrir að skátar geti spreytt sig á netþrautum fyrri ára! Til þess að taka þátt geta flokkar eða einstakir skátar fylgt þessum leiðbeiningum
1. Velja fjarfundarbúnað til að vera saman á meðan þið leysið iScout þrautirnar
Við hvetjum rekka- og róverskáta áfram til að forðast að hittast í persónu eins og kemur fram í næstu skrefum geta þátttakendur verið á sitthvorum staðnum að leysa iScout þrautir saman. En skemmtilegast er að nota fjarfundarbúnað til að geta talað saman um lausnirnar. Við mælum með Discord, Teams, Zoom, Google hangouts eða hópsímtali á facebook messenger.
2. Stofna iScout aðgang
Til að taka þátt er mælt með því að flokkur skáta skapi sameiginlegan aðgang með því að fara fylgja þessum hlekk: https://game.iscoutgame.com/#/login/. Einstaklingar fylgja að sjálfsögðu sama skrefi
Þegar búið er að stofna aðgang geta allir í flokkinum skráð sig inn samtímis með aðganginum. Þannig geta allir samtímis fengið upplýsingar vegna hverrar þrautar
3. Velja „track“
Eftir að hafa skráð sig inn blasir við þátttakendum 15 hnappar sem ýmist heita Track 1, Track 2, Track 3. Hver hnappur er sett af sirka 20 miserfiðum þrautum. Mælt er með því að leysa velja bara eitt „Track“ og halda sig við það þar til búið er að leysa allar þrautir í settinu. En hópar geta að sjálfsögðu líka reynt að leysa nokkur ólík sett af þrautum samtímis.
4. Hafa gaman og leysa jafn margar þrautir og þið getið
iScout síðan útskýrir rest fyrir ykkur, við hvetjum ykkur til að hafa gaman og til að leysa eins margar þrautir og þið mögulega getið!
Skátafundir grunnskólabarna geta hafist á ný
Skátafundir grunnskólabarna geta hafist á ný
Í dag, 18. nóvember, taka nýjar reglur um æskulýðsstarf gildi. Þær heimila að skátafundir hefjist á ný hjá dreka-, fálka- og dróttskátum. Skátafélög skulu hátta skátastarfi samkvæmt þessum leiðbeiningum.
Þátttakendur:
- Drekaskátar mega vera 50 saman á skátafundi og eru undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.
- Fálkaskátar mega vera 25 saman á skátafundi og eru undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.
- Dróttskátar mega vera 25 saman á skátafundi og ber að nota andlitsgrímur sé ekki unnt að halda 2 metra fjarlægð milli þeirra.
- Á skátafundum allra þriggja aldursbila þarf ekki að gæta sömu hópaskiptingar og í grunnskólastarfi.
Staðsetning skátafunda:
Sé þess kostur skal skátastarf fara fram utandyra. Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými. Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.
Skátaforingjar:
Skátaforingjar mega að hámarki vera 10 á skátafundum, þeim ber að gæta 2 metra fjarlægðar frá hvoru öðru og þátttakendum en bera grímu ef ekki er unnt að tryggja nálægðartakmörk. Mælst er til þess að skátaforingjar allra aldursbila beri andlitsgrímur öllum stundum á meðan að skátafundir standa yfir. Ef skátafélög hafa starfsmann gilda sömu reglur um viðkomandi og skátaforingja á skátafundum.
Forráðamenn og aðstandendur:
Forráðamenn og aðstandendur þátttakenda skulu ekki koma inn í skátaheimili eða á skátafundi nema brýna nauðsyn beri til en þá skulu þau vera með andlitsgrímu. Um foreldra og aðstandendur sem leiðbeina á skátafundum gilda að sjálfsögðu sömu reglur og um skátaforingja.
Aðrir aðilar:
Öll umferð annarra en skátaforingja og þátttakenda skal bönnuð á svæði skátafélagsins meðan skátafundir standa yfir nema brýna nauðsyn beri til en þá er grímuskylda.
Hvert skátafélag er í ólíkri stöðu og því bendum við þátttakendum og aðstandendum þeirra á að upplýsingar um hvernig framhaldi starfsins verður háttað mun koma beint frá skátafélaginu.
#GivingTuesday
Taktu þátt í #GivingTuesday með skátum frá öllum heimshornum!
Væri það ekki frábært ef heimurinn kæmi saman í bara einn dag til að hjálpa öðrum og gefa til baka? #GivingTuesday snýst einmitt nákvæmlega um það! Dagur þar sem allir koma saman og gefa til baka í því formi sem þau vilja, eins og með því að gefa tíma sinn, rödd sína, hæfileikann sinn eða framlag sitt.
Þetta er ástæðan fyrir því að WOSM (World Organisation of the Scout Movement) ætlar að taka höndum saman 1. desember nk. og hjálpa skátum út um allan heim að safna peningum fyrir málefni sem skipta þau máli með því að nota Scout Donation Platform. Frá því að berjast við Covid-19 til að leggja sitt af mörkunum við að ná heimsmarkmiðunum, hvort sem verkefnið er stórt eða smátt, þá getur það breytt heiminum.
Hér eru 5 hugmyndir fyrir þig til að vinna að í tilefni #GivingTuesday:
1.Finndu samtök til að vinna með
Finndu málstað í þínu nágrenni sem þarfnast þinnar hjálpar. Það getur verið dýraathvarf, elliheimili, samtök sem hjálpa til við að plokka rusl í náttúrunni og ýmis fleiri málefni. Hringdu í samtökin til að fá betri skilning á þeirra þörfum og settu þér markmið fyrir hverju þú þarft að afla fjár.
2.Veldur þér eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru frábær leið til að finna málefni sem skipta þig máli. Ef þú veist ekki hvar þú átt að byrja þá getur þú skoðað heimsmarkmiðin og valið þér eitt eða tvö markmið, borið kennsl á það sem þú getur framkvæmt í þínu samfélagi og skapað verkefnið þitt út frá því.
3.Nýttu þér þetta í vegferð þinni að merkjum og/eða viðurkenningum
Ertu að vinna að Forsetamerkinu, Messengers of Peace, Platic Tide Turners eða að öðrum merkjum? Hámarkaðu áhrif verkefnisins og safnaðu í sjóð til að láta verkefnið þitt verða að veruleika!
4.Komdu af stað herferð
Finndu núverandi verkefni á Scout Donation Platform og vertu talsmaður þess, sem þýðir að í 24 klukkutíma þá talar þú fyrir málefninu og vekur athygli á því til að hjálpa til við að safna í sjóð verkefnisins!
5.Finndu málefni fyrir sveitina þína / flokkinn þinn / skátafélagið þitt
Hver sagði að þú þyrftir að gera þetta ein/n/tt? Skipuleggðu heilabylju þar sem þú og skátahópurinn þinn leggið höfuðið í bleyti og finnið eitthvað sem þið hafið ástríðu fyrir (fáið skátaforingjann ykkar til að aðstoða þegar á þarf). Það geta verið hugmyndirnar sem voru nefndar hér að ofan eða þið getið fundið upp á nýju verkefni!
Þegar þið eruð tilbúin með ykkar verkefni þá farið þið inn á Scout Donation Platform til að byrja! Þið getið skoðað heimasíðu #GivingTuesday fyrir innblástur og til að skoða önnur verkefni.
Vinnuhópur vegna Þankadagsins 2021 (World Thinking Day)
VINNUHÓPUR
WORLD THINKING DAY 2021
Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í vinnuhóp sem mun þýða og staðfæra dagskrárpakkann fyrir World Thinking Day 2021 sem WAGGGS þróaði og setti saman. World Thinking Day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og lýsa þökkum og þakklæti. Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide.
Þemað í ár er „Stöndum saman um frið“ og er dagskrárpakkanum skipt í þrjá hluta þar sem skátarnir munu standa vörð um frið (e. Stand strong), standa með friði (e. Stand up) og standa saman um frið (e. Stand together)!
Frekari upplýsingar eru hér að neðan og áhugasamir skulu hafa samband við kolbrun@skatar.is.
Hvaða kröfur þarf ég að uppfylla til að vera með?
Við óskum eftir fólki sem er:
- Fært í að lesa og skrifa ensku og íslensku
- Áhugasamt um að fræðast betur um World Thinking Day og dagskrárpakkann
ÞÝÐING
Bæklingur sem segir frá World Thinking Day og öllum verkefnunum er á ensku. Flest ungmenni kunna góða ensku og gott að geta nálgast efnið á ensku líka en kapp er þó lagt á að sem mest af stuðningsefni BÍS sé á íslensku og því þarf að þýða öll verkefnin.
TÍMALÍNA
Vinnuhópurinn mun hittast 4 sinnum í desember og janúar, fara yfir stöðu verkefnis og skipta þeim verkefnum á milli sín sem eftir eru. Á milli funda munu sjálfboðaliðar vinnuhópsins vinna þau verkefni sem þau taka að sér. Áætluð skil eru 21. janúar. Áhugasamir hafi samband við kolbrun@skatar.is
Rafrænt Academy 2020
The Academy 2020
Rafrænn viðburður fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk skátabandalaga í Evrópu
Nú á dögunum fór fram Academy en það er árlegur viðburður haldinn sameiginlega af WOSM og WAGGGS fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk skátabandalaga í Evrópu. Viðburðurinn fer vanalega fram í einhverri borg í Evrópu og koma þar saman fjöldinn allur af skátum frá löndum Evrópu til að sækja sér fjölbreytta fræðslu og þjálfun og til að kynnast öðrum skátum. Í ár fór viðburðurinn þó fram með öðrum hætti en vanalega þar sem hann var haldinn í fyrsta skiptið á netinu.
Sankað að sér nýrri þekkingu
Þema Acadamey í ár var „Vöxtur“ (e. Growth), „Áhrif“ (e. Impact & Influence) og „Fjölbreyttir meðlimir og Inngildandi tækifæri“ (e. Diverse members & Inclusive Opportunities). Fjölbreyttar smiðjur voru í boði og gat fólkið valið sér það sem það vildi leggja áherslu á og sankað að sér nýrri þekkingu.


Íslendingar fjölmenntu á viðburðinn
Átta Íslendingar tóku þátt í viðburðinum, fimm sem þátttakendur, einn jafningjafræðari (e. peer group mentor) og tveir sem stjórnuðu smiðjum (e. facilitators). Auk þess var sýnt frá Kandersteg, sem er skátamiðstöð í Sviss, og þar áttum við Ísland líka fulltrúa sem tók þátt í að kveikja varðeld. Mjög skemmtilegt!


150 manns sungu saman Ging Gang Gullí Gullí á Zoom
Viðburðurinn gekk mjög vel og hélt hann sömu dagskrá og ef viðburðurinn hefði ekki verið haldinn á netinu. Sem dæmi var opnunarhátíðin á sínum stað þar sem 150 manns fjölmenntu á zoom fund og sungu saman. Alþjóðlega kvöldið stóð fyrir sínu þar sem löndum var skipt niður í herbergi í Zoom og gátu kynnt sín lönd; sumir elduðu þjóðarréttinn sinn, aðrir sungu saman og sumir kenndu hvort öðru dans! Íslenski hópurinn sýndi sýnar bestu hliðar og skellti í einn Daðadans, enn ekki hvað!
Ferðalagið heldur áfram
Academy lauk í ár á fallegu lokakvöldi þar sem við fórum yfir ferðalagið á Academy. Viðburðarteymið setti saman skemmtilegt myndband með svipmyndum viðburðarins (og mátti þar sjá glitta í Daðadansinn okkar Íslendinga, enn ekki hvað!) og var gaman að sjá hvað við gerðum mikið á þessum stutta tíma saman! Academy verður haldið í Þýskalandi á næsta ári og mælir hópurinn sem sótti það núna að allir sæki um að fara þangað!
Ferðalagið var stutt heim eftir þennan viðburð en bakpokinn þungur. Margar nýjar minningar, fjölbreyttur fróðleikur og nýir vinir er það sem við tökum með okkur heim í ár.
Takk fyrir okkur!

Tindaáskorun Mosverja
Tindaáskorun Mosverja
Skátafélagið Mosverjar hefur verið duglegt að senda út verkefni heim til skátanna sinna svo þau geti haldið áfram að vinna að merkjum heima en þeim finnst það mjög skemmtilegt. Mosverjum fannst vanta meiri útivist og datt í hug nýja áskorun. Útkoman var „Tindaáskorun Mosverja“ þar sem þau skora á alla að fara út og ganga a.m.k. einn tind!
Yfir 300 manns búin að taka áskoruninni
Orðið var fljótt að spyrjast út og eru nú yfir 300 manns komin í Facebook hópinn – Tindaáskorun Mosverja – og myndirnar strax farnar að hrannast inn! Áskorunin er til áramóta en allir sem taka þátt fara í lukkupott og þegar áskoruninni líkur verða tveir heppnir einstaklingar dregnir út og fá glaðning.
Svona tekur þú þátt:
-
- Gengur einn tind
- Tekur mynd sem sýnir staðsetningu eða gönguleið.
- Deilir myndinni á Facebook hópnum – Tindaáskorun Mosverja. Einnig getur þú merkt myndina með #Tindaáskorun. Ef þú átt ekki Facebook síðu þá getur þú sent mynd og upplýsingar á mosverjar@mosverjar.is.
- Nafnið þitt fer í lukkupottinn þegar þú sendir inn mynd af göngu á einn tind. Nafnið þitt fer jafnt oft í pottinn og tindarnir sem þú gengur. Ef þú gengur 5 tinda þá fer nafnið þitt 5 sinnum í pottinn.

Ofið merki fyrir skátana
Þeir skátar sem sigra að minnsta kosti einn tind fá í gjöf saumað merki hannað af Andreu Dagbjörtu, Mosverja. Til að fá merkið þá láti þið Mosverja vita þegar þið sendið inn að þið viljið fá sent merki.
Fálkaskátadagurinn 2020
Fálkaskátadagurinn 2020
Fálkaskátadagurinn var haldinn síðasta laugardag, 7. nóvember, og var Skátafélagið Vífill gestgjafinn að þessu sinni. Í staðinn fyrir að bjóða fálkaskátum í heimsókn eins og venjan er þá var fálkaskátadagurinn haldinn rafrænt í ár! Því setti Skátafélagið Vífill saman skemmtilegan þrautaleik sem var sendur út á fálkaskáta og skátafélög út um allt land. Þrautaleikurinn saman stóð af allskonar mismunandi verkefnum og með því að klára verkefnin fékkstu annað hvort 5 stig eða 10 stig.
Verkefnin
5 stig:
- Gefið fuglum brauð, korn eða ávexti og greinið fuglategundina. Aukastig ef þið finnið fleiri en tvær fuglategundir.
- Farið á útsýnissvæði þar sem er víðsýnt. Nefnið 5 örnefni sem þið sjáið þaðan. Aukastig ef þið getið bent í höfuðáttirnar fjórar (norður, suður, vestur, austur).
- Horfið til himins og gerið stutta veðurathugun. Takið upp myndband þar sem þið lýsið veðuraðstæðum.
- Klifrið upp í öruggt tré eða standið upp á steini og syngið lag eða farið með ljóð sem fjallar um náttúruna. Aukastig ef þið greinið tegund trésins eða berggerðina.
- Skorið einhvern á hólm í íþrótt að eigin vali sem er án snertingar.
- Syngið 2 skátalög þar sem annað er hreyfilag og sendið okkur myndband.
- Finnið hæð fánarstangar í ykkar nágrenni þar sem notast er við þekktar hæðarmælingar.
- Takið mynd af styttu/útilistaverki með skátaklút og segið stuttlega frá styttunni eða listaverkinu í myndbandi og sendið okkur.
- Búið til bingó spjald fyrir ykkur og fjölskylduna ykkar.
10 stig:
- Kveikjið eld á öruggum stað (t.d. á útieldstæði eða grilli) og hitið eða eldið eitthvað til að borða.
- Farið í jóga þar sem þið prófið a.m.k. 5 jógastöður og sendið okkur myndband.
- Gerið góðverk þar sem þið hjálpið öðrum.
- Gangið 1-2 km hring í ykkar nágrenni og notið áttavita til að finna hvaða stefnu þið gangið hverju sinni og áætlið hversu mörg skref eru í hverri stefnu fyrir sig. 5 aukastig fyrir að teikna upp kort af leiðinni með kennileitum.
- Setjið upp stuttan leikþátt um Rauðhettu og Úlfinn í dans eða rapp þema.
- Gerið skýli sem rúmar tvær manneskjur og fáið ykkur nesti þar.
Skemmtilegast að rappa Rauðhettu og Úlfinn
Við heyrðum aðeins í tveimur fálkaskátum sem tóku þátt, þeim Alexöndru Kolku og Hönnu Lilju en þær eru í Skátafélaginu Klakki. Þær unnu stigakeppnina og sendu inn mjög skemmtileg myndbönd og myndir.



Súrruðu skýli
Hér má sjá mjög flott virki hjá þeim sem þær bjuggu sjálfar til! Vel gert!! En þeim fannst einmitt mjög skemmtilegt að súrra skýli og að rappa hið sívænsæla ævintýri um Rauðhettu og Úlfinn. Upprennandi listakonur hér á ferð.
Þær lærðu einnig að mæla fánastöng sem er eitthvað sem er gott að eiga í reynslubankanum sínum 🙂
BINGÓ!
Til að ljúka deginum hélt Vífill upp á rafrænt BINGÓ þar sem fálkaskátunum bauðst tækifæri á að „hitta“ aðra fálkaskáta og spila saman. Allskonar skemmtilegir vinningar voru í boði og dreifðust þeir út um allt land 🙂 Hér fyrir neðan má sjá 4 heppna sigurvegara, til hamingju!
Mikil gleði einkenni daginn og var gaman að sjá hvernig fálkaskátarnir leystu verkefnin á fjölbreyttan máta. Takk allir sem tóku þátt 🙂 Gaman að „sjá“ ykkur.



Takk Skátafélagið Vífill fyrir að standa fyrir svona flottum fálkaskátadegi og takk allir fálkaskátar sem tóku þátt! 🙂
Ný stefna samþykkt á rafrænu Skátaþingi
Rafrænt Skátaþing í fyrsta sinn í sögu íslensku skátahreyfingarinnar
Aðalfundur Bandalags íslenskra skáta, Skátaþing, fór fram um liðna helgi. Vegna yfirstandandi heimsfaraldurs og samkomutakmarkanna var Skátaþing haldið rafrænt í fyrsta sinn í sögu íslensku skátahreyfingarinnar og tóku allir þingfulltrúar, áheyrnarfulltrúar og meirihluti stjórnar BÍS þátt í þinginu gegnum fjarfundarbúnað.
Skátaþing var sent út úr Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 þar sem 5 starfsmenn, 1 fundarstjóri, 3 fulltrúar stjórnar og 1 fundarritari stýrðu fundarsköpum og tæknimálum. Hópurinn gætti að sjálfsögðu fyllstu sóttvarna og dreifði sér um aðskilin rými um alla bygginguna.

Ný stjórn kjörin í fyrsta sinn samkvæmt nýju fyrirkomulagi
Á Skátaþingi 2019 var lögum BÍS breytt og sætum í stjórn BÍS fækkað úr átta í sjö. íÍ stað þess að kjósa á hverju ári í viss embætti innan stjórnar til þriggja ára er stjórn nú kjörin öll á sama árinu og eingöngu til tveggja ára. Þá er er ekki kosið milli einstaklinga í hvert sæti heldur er skátahöfðingi kjörinn í sérstakri kosningu, gjaldkeri í sérstakri kosningu og síðan fimm meðstjórnendur kjörnir allir í einu í sérstakri kosningu.
Á rafrænu Skátaþingi 2020 var í fyrsta sinn kosningarár samkvæmt nýjum lögum en stjórnin var öll sjálfkjörin. Í stjórn BÍS sitja:
Marta Magnúsdóttir – Skátahöfðingi
Sævar Skaptason – Gjaldkeri
Ásgerður Magnúsdóttir – Meðstjórnandi
Björk Norðdahl – Meðstjórnandi
Harpa Ósk Valgeirsdóttir – Meðstjórnandi
Jón Halldór Jónasson – Meðstjórnandi
Þórhallur Helgason – Meðstjórnandi
Frekari upplýsingar um stjórn BÍS, verklagsreglur hennar og fundargerðir má finna á upplýsingasíðu stjórnar BÍS.
Gömul og ný fastaráð sjálfkjörin
Á Skátaþingi 2019 var lögum breytt til að fækka fastaráðum innan Bandalags íslenskra skáta. Fastaráðin dagskrárráð, félagaráð, fjármálaráð, fræðsluráð og upplýsingaráð voru lögð af en skátaskólanum og starfsráði var bætt við. Þá var kjörnum sætum innan hvers ráðs fækkað úr fimm í þrjú. Þá eru fastaráð og aðrir kjörnir fulltrúar kjörnir til tveggja ára nú í stað eins árs áður.
Á rafrænu skátaþingi 2020 var sjálfkjörið í öll fastaráð og önnur embætti. Listi kjörinna fulltrúa er:
Þrír meðlimir í alþjóðaráð til tveggja ára
Daði Björnsson
Selma Sif Ísfeld Óskarsdóttir
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir
Þrír meðlimir í starfsráð til tveggja ára
Birta Ísafold Jónasdóttir
Páll Kristinn Stefánsson
Jóhanna Björg Másdóttir
Þrír meðlimir í stjórn Skátaskólans til tveggja ára
Dagbjört Brynjarsdóttir
Halldór Valberg Skúlason
Inga Jóna Þórisdóttir
Þrír meðlimir í ungmennaráð til tveggja ára
Ísold Vala Þorsteinsdóttir
Thelma Líf Sigurðardóttir
Úlfur Leó Hagalín
Fimm meðlimir í uppstillingarnefnd
Berglind Lilja Björnsdóttir
Birgir Ómarsson
Sædís Ósk Helgadóttir
Katrín Kemp Stefánsdóttir
Sigurður Viktor Úlfarsson
Þrír félagslegir skoðunarmenn til tveggja ára
Guðmundur Þór Pétursson
Kristín Birna Angantýsdóttir
Jón Þór Gunnarsson
Ný stefna BÍS var næstum því nefnd Stebbi
Ný stefna BÍS til 2025 var samþykkt á skátaþingi en hún felur m.a. í sér að skátahreyfingin fjölgi skátafélögum á landsvísu um 5, að 25% atkvæða verði í hönum ungmenna á Skátaþingi fyrir lok 2025 og ýmislegt fleira. Áhugasöm geta kynnt sér stefnuna á nýrri upplýsingasíðu en þar má einnig sækja stefnuna á pdf formi.
Einnig var kosið um nafn á stefnu BÍS á skátaþingi. Stjórn BÍS hafði kallað eftir tillögum að nafni og barst fjöldi skemmtilegra nafna. Kosið var milli tillagna í tveimur lotum, eftir þá fyrri voru þær þrjár vinsælustu „Fyrirmynd til framtíðar“, „Stebbi“ og „Vísum veginn“ en í seinni lotu sigraði „Fyrirmynd til framtíðar“ með 50,91% atkvæða.
Nýtt útilífsráð stofnað og kosningum í ungmennaráð færðar til Ungmennaþings
Töluverður fjöldi lagabreytingatillagna lá fyrir þinginu en alls höfðu 11 breytingar á lögum BÍS borist Skátamiðstöðinni eftir að Skátaþing var boðað í mars. Eingöngu tvær breytingar hlutu 2/3 hluta greiddra atkvæða eða meira og snéru báðar að 25. grein laga BÍS.
Fyrri lagabreytingin fól í sér að ungmennaráð verður héðan af kosið á Ungmennaþingi, þannig mun Ungmennaþing 2022 skipa ungmennaráð til 2024.
Seinni lagabreytingin fól í sér að stofnað skylda fimmta fastaráðið innan BÍS, svokallað útilífsráð. Hlutverk þess verður að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
Áhugasöm geta séð niðurstöður hinna kosninganna á upplýsingasíðu Skátaþings 2020.








