Reglugerð BÍS um hæfi skátaforingja

REGLUGERÐ BÍS
UM HÆFI SKÁTAFORINGJA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 9. maí 2023

1. GREIN

Með skátaforingja er í reglugerð þessari átt við þann lögráða einstakling sem hefur verið skipaður til ábyrgðastarfa af hálfu félagsforingja, formanns skátasambands eða skátahöfðingja.

Reglugerð þessi nær ekki til flokksforingja og annarra aðstoðarforingja sem ekki eru lögráða.

2. GREIN

Þau má skipa skátaforingja sem sækjast eftir því og fullnægja þessum skilyrðum:

  1. Eru vígð skátar.
  2. Hafa viðeigandi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til að gegna starfi sínu að mati skipunaraðila.
  3. Hafa unnið skriflegt heiti að viðlögðum heiðri sínum að rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem þeim kunna að verða falin eða þau taka að sér sem skátaforingjar og að þau muni aldrei gerast brotleg gegn börnum.
  4. Hafa ekki hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum, eins og Æskulýðslög nr. 70/2007 segja til um.
  5. Hafa undirritað eyðublað sem veitir Bandalagi íslenskra skáta heimild til öflunar upplýsinga úr Sakaskrá ríkisins eins og Æskulýðslög nr. 70/2007 segja til um.

3. GREIN

Umsókn um leyfi til að gerast skátaforingi í skátastarfi skal beint til viðkomandi félagsstjórnar eða skátasambands. Sé hvorugt starfandi á svæðinu skal umsókn beint til BÍS.

Stjórnir skátafélaga skulu leitast við að gera skriflegt samkomulag við skátaforingja í samræmi við drög BÍS um Sjálfboðaliðasamkomulag.

4. GREIN

Ef skátaforingi uppfyllir ekki öll skilyrði 2. gr. eftir að hafa hlotið skipun eða brýtur gegn sæmdarheiti sínu, skal viðkomandi láta af störfum að eigin frumkvæði ella er stjórn skátafélags, stjórn skátasambands og/eða stjórn BÍS skylt að víkja viðkomandi frá störfum.


Reglugerð BÍS um heiðursmerki BÍS

REGLUGERÐ BÍS UM HEIÐURSMERKI BÍS

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 10. maí 2005

1.  GREIN - HETJUDÁÐAMERKI BÍS

Gullkrossinn: sem borinn er í bandi með íslensku fánalitunum á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem lagt hefur líf sitt í bersýnilega hættu við björgun úr lífsháska og sýnt við tækifæri sérstaka hugprýði og hetjudáð.

Silfurkrossinn: sem borinn er í rauðu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem bjargar úr lífsháska án þess að hætta eigin lífi.

Bronskrossinn: sem borinn er í bláu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta, sem sýnir hreystilega framkomu og fyrir vel af hendi leysta hálp í viðlögum, er slys ber að höndum.

2. GREIN - HEIÐURSMERKI BÍS:

Silfurúlfurinn: borinn um hálsinn, í sérstakri keðju með nafnskjöldum fyrri skátahöfðingja, er embættistákn skátahöfðingja. Fráfarandi skátahöfðingi afhendir arftaka sínum embættistákn þetta í lok þess aðalfundar er skipti fara fram.

Silfurúlfurinn: sem borinn er um hálsinn, í bandi með íslensku fánalitunum, skal veittur fráfarandi skátahöfðingja þá er hann hefur afhent arftaka sínum embættistákn skátahöfðingja.

Skátakveðjan úr gulli: sem borin er í rauðu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni af framúrskarandi dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veitt Skátakveðjan úr gulli, sem áður hefur verið sæmdur Skátakveðjunni úr silfri.

Skátakveðjan úr silfri: sem borin er í gráu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veitt Skátakveðjan úr silfri, sem áður hefur verið sæmdur Skátakveðjunni úr bronsi.

Skátakveðjan úr bronsi: sem borin er í brúnu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veitt Skátakveðjan úr bronsi, sem áður hefur verið sæmdur Þórshamrinum úr gulli.

Þórshamarinn úr gulli: sem borinn er í rauðu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veittur Þórshamarinn úr gulli, sem áður hefur verið sæmdur Þórshamrinum úr silfri.

Þórshamarinn úr silfri: sem borinn er í gráu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veittur Þórshamarinn úr silfri, sem áður hefur verið sæmdur Þórshamrinum úr bronsi.

Þórshamarinn úr bronsi: sem borinn er í brúnu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi.

Á skátabúningi skal aðeins bera æðsta heiðursmerki BÍS sem skátinn hefur hlotið. Að jafnaði skal skila til stjórnar BÍS heiðursmerki, þegar handhafi þess hlýtur æðra stig heiðursmerkis.

3. GREIN – VIRÐINGARMERKI SKÁTA:

Gullmerki skáta: getur stjórn BÍS veitt verndara íslenskra skáta, heiðursfélögum BÍS og öðrum sem hún vill sýna mikinn heiður.

Silfurmerki skáta: getur stjórn BÍS veitt borgara sem vinnur skátahreyfingunni eða einstökum skátafélögum mikið gagn. Silfurmerki skáta má einnig veita skátum og gildisskátum.

4. GREIN – ÞJÓNUSTUMERKI BÍS:

Gyllta Liljan og Smárinn: sem borin er í bláu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Sérstaklega skal horft til einstakra verkefna sem skátinn hefur unnið að. Að jafnaði skal þeim einum veitt Gyllta Liljan og Smárinn, sem áður hefur verið sæmdur Silfruðu Liljunni og Smáranum.

Silfraða Liljan og Smárinn: sem borin er í bláu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Sérstaklega skal horft til einstakra verkefna sem skátinn hefur unnið að.

5. GREIN – STARFSMERKI BÍS:

Starfsmerki BÍS eru bronsmerki sem eru að lögun eins og skinn, með merkjum íslenskra skáta og þeirri tölu sem markar hvert starfs (þjónustu) tímabil. Starfsmerki (Þjónustumerki) BÍS má/skal veita þeim skáta sem vinnur skátafélagi sínu gagn í tiltekinn árafjölda. Skal leitast við að sem flestir skátar, í virku skátastarfi, hljóti Starfsmerki BÍS reglulega.

6. GREIN – UM VEITINGU MERKJA

Orðunefnd BÍS sem í sitja skátahöfðingi, aðstoðarskátahöfðingi og félagsmálastjóri BÍS ákveða um veitingu hetjudáða,-heiðurs- virðingar- og þjónustumerkja BÍS.

Skátafélög geta sent rökstudd tilmæli til stjórnar BÍS, á þar til gerðum eyðublöðum, með minnst mánaðar fyrirvara, um veitingu framangreindra merkja á ákveðnum degi. Allir skátaforingjar hafa rétt til að beina samskonar tilmælum til stjórnar BÍS.

Að jafnaði skal við það miðað að Þórshamarinn úr bronsi sé ekki veittur skátum yngri en 25 ára og að jafnaði líði ekki minna en 10 ár milli þess að sama skátanum sé veitt heiðurs eða virðingarmerki.

Bandalag íslenskra skáta ber allan kostnað af gerð hetjudáða-, heiðurs-, virðingar- og þjónustumerkja, en skátafélög greiða kostnað sem hlýst af gerð starfsmerkja.

Skátafélög ákveða hverjir hljóti starfsmerki BÍS.

Hetjudáða-, heiðurs- og virðingarmerki afhendir skátahöfðingi eða umboðsmaður hans við hentugt hátíðlegt tækifæri.

Félagsforingi afhendir að jafnaði þjónustu- og starfsmerki, við hentugt hátíðlegt tækifæri en skátahöfðingi eða umboðsmaður hans, sé þess sérstaklega óskað.

7. GREIN – UM GILDISTÖKU REGLUGERÐAR ÞESSARAR

Með reglugerð þessari falla úr gildi eldri reglugerðir um hetjudáða og heiðursmerki BÍS. Þeir sem hlotið hafa 5, 10 , 15 ára Skátaliljuna eða Skátasmárann halda þeim merkjum óbreyttum.


Umhverfisstefna BÍS

UMHVERFISSTEFNA BÍS

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 28. maí 2019.

SÝN:

Aðalmarkmiðið er að við allar ákvarðanatökur, framkvæmdir, rekstur, innkaup og aðra starfsemi á vegum skátanna skuli leitast við að halda neikvæðum áhrifum á umhverfið í lágmarki. Þessi stefna er fyrir alla skátastarfsemi á Íslandi. Með því að fylgja skrefunum sem er gerð grein fyrir hér fyrir neðan mun Bandalag íslenskra skáta reyna að gera sinn hlut í að byggja betri heim og vera fyrirmyndir fyrir aðra í samfélaginu í umhverfisvernd.

MARKMIÐ:

  1. Að þekking og vitund um umhverfismál og umhverfisvæna lífshætti verði aukin með fræðslu fyrir skáta.
  2. Að lögð sé áhersla á vistvæn innkaup á vörum, þjónustu, framkvæmdum og ráðgjöf.
  3. Að auka notkun á úrgangsmetakerfinu og draga þannig úr hvers kyns sóun verðmæta, myndun úrgangs og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu.
  4. Að skátarnir taki meiri þátt í samfélagsverkefnum sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið.
  5. Að lágmarka þau neikvæðu umhverfisáhrif sem verða vegna notkunar á samgöngutækjum á vegum BÍS.
  6. Að miðla þessari stefnu út á við
  7. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í umhverfismálefnum.

SKREF Í ÁTT AÐ MARKMIÐUM:

1. Að þekking og vitund um umhverfismál og umhverfisvæna lífshætti verði aukin með fræðslu til skáta.

1.1 Búa til dagskrárefni sem styður skátafélögin og foringjana í að koma þessari stefnu í verk.

1.2 Tryggja að umhverfismál komi fram í öllum fræðslum þar sem það er viðeigandi.

2. Að lögð sé áhersla á vistvæn innkaup á vörum, þjónustu, framkvæmdum og ráðgjöf

2.1. Velja umhverfismerktar vörur og þjónustu umfram annað.

2.2 Versla matvöru úr nærumhverfi þegar hægt er og minnka þ.a.l. kolefnisfótspor.

2.3. Byrja á því að gera umhverfismat (EIA) áður en gerðar eru einhverjar framkvæmdir á vegum skátanna.

3. Að auka notkun á úrgangsmetakerfinu og draga þannig úr hvers kyns sóun verðmæta, myndun úrgangs og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu.

3.1. Flokka að minnsta kosti pappa, plast, lífrænan úrgang, málm, flöskur og dósir í skátamiðstöðinni, skátaheimilum og á viðburðum.

3.2. Minnka pappírsnotkun þar sem hægt er og endurnýta og endurvinna pappírinn eftir að búið er að nota hann.

3.3. Nota vatn, rafmagn, olíu, gas og við á skilvirkan og sparsaman hátt.

3.4. Reyna að fá lánað/gefins hjá öðrum innan skátanna áður en keypt er eitthvað nýtt.

4. Að skátarnir taki meiri þátt í samfélagsverkefnum sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

4.1. Vera opin fyrir því að taka þátt í verkefnum sem hafa jákvæð umhverfisáhrif eins og t.d. landgræðslu og plokk.

4.2. Sýna frumkvæði og skipuleggja svona verkefni í nærumhverfi skátafélaganna.

4.3. Skilja alltaf við staði í betra ástandi heldur en þegar komið var að þeim þegar farið er í útilegur eða aðrar ferðir.

5. Að lágmarka þau neikvæðu umhverfisáhrif sem verða vegna notkunar á samgöngutækjum á vegum BÍS.

5.1. Nota fjarfundabúnað þegar hægt er til að minnka kolefnislosun vegna flugferða.

5.2. Halda utan um notkun bíla á vegum BÍS og kolefnisjafna hana.

5.3. Birta árlega yfirlit yfir ferðir á vegum BÍS og hvernig þær voru kolefnisjafnaðar.

5.4. Hvetja einnig skátafélögin til að kolefnisjafna sínar ferðir.

6. Að miðla þessari stefnu út á við.

6.1. Vera fyrirmynd fyrir önnur samtök í umhvefismálum og umhverfisfræðslu.

6.2. Aðstoða erlenda skátahópa sem koma til Íslands við að minnka umhverfisáhrif sín. t.d. með því að virkja þau í umhverfisverkefnum og kolefnisjafna þannig ferð sína.

6.3. Sýna á samfélagsmiðlum skátanna skrefin sem verið er að taka með þessari stefnu.

7. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í umhverfismálefnum.

7.1. Þróa stefnuna eftir því sem nýjar upplýsingar og ný tækni koma í ljós.

7.2. Fylgjast með hvernig gengur að innleiða þessi skref í félögunum.

7.3. Endurmeta reglulega hvort það vanti eitthvað í stefnuna eða hvort einhverju sé ofaukið.


Viðmið um framboð

LEIÐBEINANDI VIÐMIÐ

vegna framboða til stjórnar BÍS og annarra trúnaðarstarfa á vegum BÍS

Frambjóðendur:

Skátamiðstöðin skal bjóða frambjóðendum aðgang að eftirfarandi, að framboðsfresti loknum:

  • Kynningarvefsvæði á vefsíðu BÍS.
  • Útsendingu rafrænna fjöldapósta frá Skátamiðstöðinni sem hluta af Þriðjudagspóstinum.
  • Tengiliðum allra skátafélaga.

Frambjóðendur munu ekki fá aðgang að félagatali eða netfangalista BÍS.

Í fjórðu grein siðareglna Æskulýðsvettvangsins segir:

„Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu aldrei misnota aðstöðu sína gagnvart samskiptaaðilum eða þátttakendum með neinum hætti sér til framdráttar eða eigin hags.“

Þeim frambjóðendum, eða stuðningsmönnum frambjóðenda, sem starfa sinna vegna hafa aðgang að félagatali og/eða öðrum netfangalistum er því óheimilt að nýta sér þann aðgang/þær upplýsingar í þágu eigin/tiltekins framboðs.

Frambjóðendur og stuðningsmenn frambjóðenda:

Hafa ber í huga að siðareglur Æskulýðsvettvangsins eru siðareglur BÍS og skulu því frambjóðendur, sem og aðrir skátar, fylgja þeim. Í þessu samhengi má sérstaklega minna á 8. gr. í flokknum Rekstur og ábyrgð:

„Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu leitast við að skapa jákvætt andrúmsloft í starfi. Gæta skal hófs og sanngirni í ummælum um hvert annað eða aðra svo sem með því að taka ekki þátt í slúðri eða dreifa rógi.“

Frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra eru því beðnir að gæta hófs í framboðsbaráttu og hvattir til bræðralags og jákvæðra samskipta.

Smþykkt á fundi stjórnar BÍS 4. mars 2015


Reglugerð BÍS um hæfi leiðbeinenda

REGLUGERÐ BÍS
UM HÆFI LEIÐBEINENDA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 08. júní 2010.

1. GREIN - SKIPUN STJÓRNENDA

Fræðsluráð skipar stjórnendur námskeiða með skipunarbréfi. Stjórnendur eru skipaðir til stjórnunar á ákveðnum námskeiðum og er tímalengd samkomulag fræðsluráðs og viðkomandi stjórnanda.  

2. GREIN - HÆFNI STJÓRNENDA OG LEIÐBEINENDA

Námskeið á vegum fræðsluráðs BÍS eru í tveimur flokkum. Annars vegaforingjanámskeið og hins vegar námskeið um sértæk efni á vegum fastaráða BÍS. 

a) Stjórnandi á foringjanámskeiði skal uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

    1. Hafa foringjareynslu innan skátahreyfingarinnar. 
    2. Hafa lokið Gilwell þjálfun, leiðbeinendaþjálfun og stjórnendaþjálfun eins og hún er skilgreind af fræðsluráði hverju sinni. 
    3. Hafa fengið jákvæða umsögn á endurmati námskeiða þar sem viðkomandi hefur sinnt leiðbeinendastörfum.  

b) Leiðbeinandi á foringjanámskeiði skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:  

    1. Hafa lokið Gilwell námskeiði eða vera orðinn 23 ára.  
    2. Hafa lokið leiðbeinendaþjálfun eins og hún er skilgreind af fræðsluráði hverju sinni.  

 c) Stjórnandi og leiðbeinandi á námskeiði um sértæk efni skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:  

    1. Hafa sértæka þekkingu á efninu. 
    2. Hafa stjórnenda og/eða leiðbeinendareynslu. 

Fræðsluráð getur metið formlega menntun og leiðbeinenda- og stjórnendareynslu utan skátahreyfingarinnar til jafns á við þá þjálfun sem skátahreyfingin veitir. 

3. GREIN - ÁBYRGÐ STJÓRNENDA

Stjórnendur námskeiða bera ábyrgð á því að námskeið BÍS séu í samræmi við skipunarbréf, námskrár og verklagsreglur fræðsluráðs BÍS eins og þær eru á hverjum tíma.  


Reglugerð BÍS um utanferðir skáta

REGLUGERÐ BÍS UM UTANFERÐIR SKÁTA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 20. janúar 2022

1. grein - gildissvið

Reglur þessar gilda um allar utanferðir sem lögráða og ólögráða einstaklingar fara sem skátar á hverskyns viðburð. Sé það ráðstefna, námskeið eða skátamót óháð því hvort farið er á vegum skátafélags, skátasambands eða BÍS.

Erlendis eiga skátar skilyrðislaust að vera til fyrirmyndar bæði í framkomu og þátttöku og ávallt skal virða reglur sem viðburðarhaldarar setja hverju sinni.

2. grein - þátttakendur

Þau sem taka þátt í utanferð á vegum skáta skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Hafa náð hæfilegum aldri þegar tilgangur ferðarinnar er hafður til hliðsjónar.
2. Vera vígð skátar með félagsaðild að BÍS.
3. Taka þátt í þeim undirbúningi sem er skipulagður vegna ferðarinnar.
4. Þekkja siðareglur ÆV ásamt forvarnarstefnu og vímuvarnarstefnu BÍS.

Ólögráða skátar verða að skila til fararstjórnar eyðublaðinu „Samþykki vegna ferðar barns til útlanda“ undirritað af öllum forsjáraðilum.

Lögráða skátar verða að hafa undirritað eyðublað sem veitir BÍS heimild til að afla upplýsinga hjá Sakaskrá ríkisins eins og Æskulýðslög nr. 70/2007 segja til um.

3. grein - fulltrúar BÍS á alþjóðavettvangi

Þegar skátar sækja alþjóðlega viðburði fyrir hönd BÍS s.s. fræðslu, námskeið, þing, ráðstefnur eða fundi teljast þau fulltrúar BÍS á alþjóðavettvangi og skulu uppfylla öll skilyrði 2. greinar þessarar reglugerðar auk eftirtalinna skilyrða:

1. Hafa skilað inn ferðaumsókn um þátttöku á alþjóðlegum viðburði.
2. Hafa kynnt sér stefnu BÍS og allar helstu upplýsingar sem viðkemur BÍS og því málefni sem alþjóðlegi viðburðurinn snýr að.
3. Taka virkan þátt í viðburðinum og missa ekki úr dagskrá.
4. Skila ferðaskýrslu þegar ferð er lokið og ef þörf er á að halda áfram vinnu við viðfangsefni ferðarinnar fyrir hönd BÍS.
5. Bregðast við og taka virkan þátt í samskiptum við Alþjóðaráð fyrir viðburðinn, á meðan að á honum stendur og eftir að honum er lokið.

Fulltrúar BÍS á alþjóðavettvangi skulu þekkja vímuvarnarstefnu BÍS og þá sérstaklega 2. lið um áfengisneyslu. Óháð landslögum viðburðar er neysla áfengis skáta undir 20 ára óheimil og öll neysla annarra vímuefna óháð aldri.

4. grein - fararstjórar og foringjar í ferðum

Þau sem taka að sér fararstjórn fyrir íslenskum skátum á alþjóðlegum viðburði eða gerast foringjar skáta á slíkum viðburði skulu uppfylla öll skilyrði 2. greinar þessarar reglugerðar auk eftirtalinna skilyrða :

1. Aðalfararstjóri (e. head of contingent, HOC) skal vera a.m.k. 20 ára og ber endanlega ábyrgð undirbúningi og á fararhópnum meðan á ferð stendur.
2. Aðrir aðilar í fararstjórn (e. contingent management team, CMT) og foringjar (e. leaders) á alþjóðlegum viðburðum skulu vera a.m.k. 18 ára.
3. Hafa sótt námskeið í barnavernd og hafa reynslu af hópstjórnun, t.d. stjórnað námskeiði, verið fararstjóri á mót, hafa gegnt stöðu sveitarforingja eða annarri æðri foringjastöðu.
4. Hafa haldgóða þekkingu á tungumáli þess lands sem farið er til eða ensku.

Helstu verkefni og skyldur fararstjórnar eru:

1. Að gera sitt besta til að ferðin verði hverjum þátttakenda jákvæð upplifun.
2. Að stuðla að því að kynning hópsins á Íslandi og íslensku skátastarfi sé vönduð og gefi sem nákvæmasta mynd hverju sinni.
3. Að hafa yfirumsjón með öllum samskiptum og upplýsingamiðlun vegna ferðarinnar.
4. Að gera fjárhagsáætlun og ferðaáætlun fyrir ferðina.
5. Að fylgja hópnum frá upphafsstað til endastaðar.
6. Að ljúka störfum með skýrslu um ferðina ásamt fjárhagsuppgjöri innan tveggja mánaða frá heimkomu.

Verkefni foringja á alþjóðlegum viðburðum eru samkvæmt reglum viðburðar hverju sinni.

5. grein - utanferðir á vegum skátafélaga

Skátafélög geta staðið fyrir utanferðum skáta.

1. Stjórn félagsins er skylt að upplýsa stjórn BÍS og/eða Skátamiðstöðina um fyrirhugaða utanferð.
2. Stjórn félagsins gætir þess að ferðin sé í samræmi við öll atriði þessarar reglugerðar.
3. Stjórn félagsins ber þá fulla ábyrgð á ferðinni, tilnefnir fararstjórn og samþykkir fjárhagsáætlun.
4. Að ferð lokinni skilar fararstjórn félagsstjórninni skýrslu sinni og fjárhagsuppgjöri.
5. Skátafélög eru eindregið hvött til að fara yfir ferðina með Alþjóðaráð að henni lokinni svo hægt sé að nýta ferðina til fræðslu og fréttamiðlunar.

6. grein - utanferðir fararhópa á vegum BÍS

Þegar utanferðir fararhópa (e. contingent) eru skipulagðar á vegum Bandalags íslenskra skáta skal eftirfarandi verklag viðhaft:

1. Stjórn BÍS skipar fararstjórn (e. contingent management team, CMT) að fengnum tillögum frá Alþjóðaráði.
2. Fararstjórn skipar flokksforingja (e. patrol leaders) og/eða sveitarforingja (e. troop leaders) í ferðum þegar það á við.
3. Stjórn BÍS skulu leggja fararstjórn til hvernig fjármálastjórn ferðarinnar skuli háttað. Fjárhagsáætlun fararstjórnar vegna ferðarinnar er háð samþykki stjórnar BÍS.
4. Við ákvörðun ferðakostnaðar skal tekið tillit til kostnaðar við þá þjónustu sem skrifstofa BÍS veitir við undirbúning ferðarinnar. Stjórn BÍS ákvarðar hver þessi upphæð skal verða á hvern þátttakenda.
5. Ferðakostnaðurinn skal ákvarðaður sem ein upphæð og skal sú upphæð tryggja að ferðin standi alfarið undir sér. Ráðstöfun hagnaðar/taps er alfarið í höndum stjórnar BÍS, en fararstjórn er heimilt að koma með ábendingar þar um án skuldbindinga.
6. Ólögráða skátar geta eingöngu verið hluti fararhóps með samþykki þeirra skátafélags.
7. Að ferð lokinni skal fararstjóri skila skýrslu sinni til Alþjóðaráðs innan tveggja mánaða frá heimkomu og fjárhagsuppgjöri til stjórnar BÍS og gjaldkera BÍS innan sama tíma.

Fararstjórn skal njóta þjónustu skrifstofu BÍS við eftirtalið nema að um annað sé samið:

1. Upplýsingamiðlun til fararhóps.
2. Móttöku þátttakendatilkynninga og þátttökugjalda.
3. Skráningu fararhóps hjá viðburðarhaldara.
4. Bókun flugs, gistingar og dagskrár vegna ferðar.
5. Fjármálaumsýslu og tryggingarmálum.
6. Samskipti við erlend skátasamtök vegna utanferðar.
7. Aðgangi að handbók fararstjóra.

  1. Aðgangi að handbók fararstjóra.  


Reglugerð BÍS um Landsmót skáta

REGLUGERÐ BÍS UM LANDSMÓT SKÁTA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 9 maí 2023.

1. GREIN

Landsmót skáta skal haldið þriðja hvert ár.

Markmið slíkra móta er að bjóða upp á tjaldbúðalíf með fjölbreyttum viðfangsefnum fyrir alla félaga Bandalags íslenskra skáta fálkaskátum og eldri. Einnig verði drekaskátum og yngri gefinn kostur á að heimsækja mótið til lengri eða skemmri tíma. Þá sé einnig boðið upp á möguleika fyrir fjölskyldur skátanna, félaga í St. Georgsgildum og aðra eldri skáta að dvelja á mótinu og taka þátt í hluta þess sem boðið er upp á.

2. GREIN

Landsmót skal haldið að Úlfljótsvatni og að Hömrum á víxl, á oddatöluári á Úlfljótsvatni en á Hömrum á sléttu ári.

Stjórn BÍS skipar mótsstjórn með minnst átján mánaða fyrirvara. Í mótsstjórn skulu að minnsta kosti skipaðir: Mótsstjóri, aðstoðarmótsstjóri (eða tveir mótsstjórar), dagskrárstjóri og tjaldbúðastjóri. Fjármálastjóri BÍS skal starfa sem fjármálastjóri mótsins. Mótsstjórn skal ávallt skipuð skátum úr nokkrum skátafélögum, þar af að minnsta kosti einn af landsbyggðinni. Mótsstjórn eru ábyrg gagnvart stjórn BÍS.  

3. GREIN

Stjórn BÍS getur, ef hún kýs svo, lagt mótsstjórn til eftirfarandi, allt eða einstaka liði: Tíma landsmóts, mótsgjald, yfirskrift, og mótsmerki.

Ákvörðun um þessa liði ber að liggja fyrir a.m.k. 15 mánuðum fyrir mót. Mótsstjórn ber að vinna samkvæmt því.

Að auki skal mótsstjórn hafa aðgang að gögnum fyrri landsmóta, einkum dagskrá og kynningarefni.

4. GREIN

Viðfangsefni mótsstjórnar eru sem hér segir:

  • Að leita eftir og skipa fólk í undirnefndir eftir því sem þörf er á hverju sinni. Mótsstjórn skipi ætíð í tjaldbúðastjórn og dagskrárstjórn eins fljótt og auðið er.
  • Að vinna upp fjárhagsáætlun og leggja hana fyrir stjórn BÍS til ákvörðunar um mótsgjöld. Ef stjórn BÍS ákveður upphæð mótsgjalds skal fjárhagsáætlunin unnin innan þess ramma.
  • Að ákveða ramma mótsins, mótsmerki og nánari tímasetningu, hafi stjórn BÍS ekki lagt mótsstjórninni þetta til. Þá skal mótsstjórn ákveða heildardagskrá, skipulag tjaldbúða, tilhögun matarmála, öryggis- og heilsugæslu og annað sem varðar undirbúning mótsins, og fylgja eftir framkvæmd þessara þátta.

Ákvarðanir um framangreind atriði þurfa að liggja fyrir minnst 14 mánuðum fyrir mót og kynningu á þeim þarf að koma á framfæri bæði innanlands og erlendis með minnst 12 mánaða fyrirvara.

5. GREIN

Mótsstjórn ræður launaða starfsmenn eftir því sem þörf er á hverju sinni að höfðu samráði við framkvæmdastjóra BÍS og skal taka tillit til starfsmannahalds BÍS í heild sinni og samnýtingu þess.

Gjaldkeri BÍS leggur mótsstjórn hverju sinni línurnar í fjármálastjórn mótsins og tekur hann við það mið af fjármálastjórn og fjármálastefnu BÍS.

Skrifstofa BÍS ákvarðar og annast innkaup minjagripa fyrir mótið í samráði við mótsstjórn og skal stefnt að því að minjagripirnir séu tilbúnir til sölu a.m.k. þremur mánuðum fyrir mót.

6. GREIN

Við gerð fjárhagsáætlunar skal tekið mið af eftirtöldum atriðum:

  1. Kostnaðaráætlun skal gera á föstu verðlagi sem framreikna má í samræmi við verðlagsbreytingar eins og þurfa þykir.
  2. Leitað sé eftir beinum eða óbeinum styrktaraðilum fyrir mótið.
  3. Mótsgjald skal miðað við það að standi undir áætluðum kostnaði við mótið auk álags er samsvari hluta þeirrar sjálfboðavinnu er lögð er fram við mótið. Þetta álag skal ákveðið af stjórn BÍS hverju sinni.

Stjórn BÍS skal tryggja mótsstjórn fjármagn á undirbúningstíma.

7. GREIN

Landsmót skulu fara fram um miðjan júlí og skulu standa í minnst 5 daga og mest 8 daga.

8. GREIN

Landsmótssvæðið þarf að skipuleggja þannig að þar sé örugglega:

  1. Tjaldbúðarými fyrir rúmlega áætlaðan þátttakendafjölda. Þá skal gert ráð fyrir minnst 300 fermetrum fyrir hverja 20 manna tjaldbúð. Auk þess þarf að áætla minnst 600 fermetra rými fyrir sameiginlegt athafnasvæði fyrir hverja 200 tjaldbúðagesti.
  2. Svæði sem henta fjölbreyttum dagskrárliðum á eða í nágrenni við tjaldbúðasvæðið.
  3. Svæði sem eru greinilega afmörkuð til að auðvelda nauðsynlega gæslu og þjónustu á svæðinu.
  4. Fullnægjandi hreinlætis og þvottaaðstaða sem uppfyllir gildandi reglugerðir og staðla.
  5. Allt að 20% af áætluðum mótsgjöldum skal nýta í uppbyggingu á mótssvæðinu. Horfa skal til þess að styrkja innviði mótssvæðisins og dagskráraðstöðu.

Mótsstjórn skal leita samþykkis opinberra eftirlitsaðila eins og heilbrigðiseftirlits, eldvarnareftirlits, rafmagnseftirlits, náttúruverndarráðs, almannavarna, lögreglu, landeigenda og annarra þeirra aðila, sem slíkt samkomuhald kann að heyra undir, eftir því sem þörf er á hverju sinni.

9. GREIN

Dagskrá landsmóts þarf að vera fjölbreytt að viðfangsefnum og þannig samsett að hún veiti öllum mótsgestum viðfangsefni við hæfi, þegar þeir eru ekki bundnir við skyldustörf við tjaldbúð eða hvíld. Þess vegna þurfa að vera í dagskrá:

  1. Einstaklingsverkefni, sem reyna á hugmyndaflug, hæfni og reynslu þátttakenda.
  2. Flokkaverkefni, sem reyna á samvinnu og þjálfun flokkanna.
  3. Verkefni sem stuðla að fjölbreyttum kynnum mótsgesta frá mismunandi stöðum.
  4. Dagskrárliðir sem stuðla að samkennd mótsgesta.
  5. Samfélagsverkefni tengd heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna.

Stefnt skal að því að meginhluti dagskrár (60 – 70%) sé hefðbundin Landsmótsdagskrá sem nýtir þekkingu og efni fyrri móta.

10. GREIN

Mótsstjórn skal skila stjórn BÍS skýrslu og fjárhagsuppgjöri innan fjögurra mánaða frá því að móti lýkur hverju sinni. Ráðstöfun eigna mótsins og hagnaðar/taps er alfarið í höndum stjórnar BÍS, en mótsstjórn er heimilt að koma með ábendingar þar um án skuldbindinga. Horfa skal til þess að sem mest af búnaði sem mótið fjárfestir í verði eftir á mótssvæði sem eign þess.


Reglugerð BÍS um skátamót

REGLUGERÐ BÍS UM SKÁTAMÓT

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 13. september 1994.

A. SKÁTAMÓT

Til þess að útilega eða útisamkoma skáta geti kallast skátamót þarf að uppfylla eftirtalin atriði:

  1. Lágmarkstími mótsins sé tveir sólahringar.
  2. Ákveðin dagskrá sé undirbúin og framkvæmd.
  3. Skátum úr minnst þremur skátafélögum sé boðin þátttaka.
  4. Að stjórn BÍS viðurkenni mótið sem skátamót.

B. LANDSMÓT

Á vegum BÍS séu haldin Landsmót þriðja hvert ár. Stjórn BÍS getur þó breytt þessum tímamörkum, t.d. ef minnst á merkisatburðar í skátastarfi með landsmóti.

C. ÖNNUR MÓT

Skátafélög, skátasambönd og aðrir aðilar innan skátahreyfingarinnar eru hvattir til að standa fyrir skátamótum. Stjórn BÍS samræmir síðan tímasetningar þannig að reynt verði að komast hjá því að mörg mót verði á sama svæði á svipuðum tíma.

D. SÉRMÓT

Stjórn BÍS getur samþykkt frávik frá þessari reglugerð t.d. er varðar skátamót, utan hins hefðbundna mótstíma (vormót, vetrarmót). Sömuleiðis hvað varðar mót fyrir afmarkaðar greinar skátastarfs s.s. flokkamót, sjóskátamót, radíóskátamótdróttskátamót.


Reglugerð BÍS um einkennismerki skáta

REGLUGERÐ BÍS
UM EINKENNISMERKI SKÁTA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 11. mars 1997.

A. ALMENN ÁKVÆÐI:

  1. Allir skátar skulu bera merki á skátabúningnum í samræmi við eftirfarandi ákvæði.
  2. Stjórn BÍS setur reglur um einkennismerki skáta að fenginni umsögn frá Starfsráði, skv grein H-3 þessarar reglugerðar.
  3. Gæta skal hófs í notkun viðurkenningamerkja og skulu félagsforingjar sjá til þess að þau séu eingöngu á boðstólum hjá ákveðnum aðilum innan félagsstjórnar.
  4. Skátum er óheimilt að kaupa, selja, gefa eða láta af hendi í skiptum þau hetjudáða- og heiðursmerki, Forsetamerki og vörðumerki er þeir fá.

B. EFTIRTALIN MERKI SKULU BORIN Á SKÁTASKYRTUNNI:

  1. Merki Bandalags íslenskra skáta skal bera fjóra sentimetra ofan við vinstri brjóstvasa skátaskyrtunnar. Fyrir foringja og eldri skáta sem ekki bera vörðumerkin má merkið vera tveimur sentimetrum ofan við vinstri brjóstvasa.
  2. Alþjóðamerki BÍS (merki inniheldur merki beggja alþjóðahreyfinganna) skal bera ofan við hægri brjóstvasa í sömu hæð og merki BÍS.
  3. Staðarmerki: Merki sveitarfélags, skátafélags, skátadeildar, skátasveitar eða skátaflokks skal bera á hægri upphandlegg neðan við axlarsaum, þannig að efst komi merki sveitarfélags, þá félags, deildar, sveitar og að lokum flokks.
  4. Skátavörðurnar skal bera á skátaskyrtunni undir merki BÍS, einn sentimeter ofan við vinstri brjóstvasa. Þegar skáti hefur unnið sér inn allar þrjár vörðurnar í einni átt, má hann færa þriðju vörðuna yfir á vinstri upphandlegg rétt ofan við olnboga.
  5. Dróttskátavarðan, Gullnavarðan, og Forsetamerkið koma í stað skátavarðanna eftir því sem unnið er til þeirra.

C. HEIMILT ER AÐ BERA EFTIRTALIN MERKI Á SKÁTAKLÚTNUM:

  1. Flokksvarðan, borin aftan á skátaklútnum.

D. MERKI Á SKÁTAPEYSUNNI:

Á skátapeysunni, sem hefur áprentað merki BÍS, er heimilt að bera vörðumerki, alþjóðamerki BÍS og staðarmerki eins og mælt er fyrir um í B lið reglugerðar þessarar. Félagsforingjum er heimilt að ákveða nánar um hvaða merki skulu borin á skátapeysum félaga viðkomandi skátafélags. Heiðursmerki skulu að jafnaði ekki borin á skátapeysu.

E. HEIÐURSMERKI OG HETJUDÁÐAMERKI:

  1. Heiðursmerki BÍS er heimilt að bera ofan við vinstri brjóstvasa skátaskyrtunnar, nema Silfurúlfinn, sem skal bera í borða um hálsinn. Heiðursmerki BÍS skal aðeins bera við hátíðleg tækifæri. Aldrei skal bera fleiri en eitt heiðursmerki BÍS á búningnum í einu. Skal bera heiðursmerki BÍS innst heiðursmerkja, sé það borið ásamt öðrum heiðursmerkjum félaga og öðrum heiðurspeningum.
  2. Hetjudáðarmerki BÍS er heimilt að bera ofan við vinstri brjóstvasa við hátíðleg tækifæri.
  3. Heiðursmerki skátasambanda og skátafélaga er heimilt að bera ofan við vinstri brjóstvasa. Skátasambönd og/eða skátafélög skulu setja nánari reglur um þessi heiðursmerki og notkun þeirra. Félagsforingjum ber að sjá til þess að hófs sé gætt í notkun heiðursmerkja á skátabúningnum.

F. FORINGJAEINKENNI:

  1. Foringjamerki skal bera framan á broti hægri brjóstvasa og skátaskyrtunni og á sambærilegum stað á skátapeysunni.
  2. Foringjaeinkenni er aðeins heimilt að bera á meðan embætti er gegnt.

G. AÐRAR HEIMILDIR:

  1. Heimilt er að bera prjónamerki BÍS á foringjajakka eða dróttskátapeysu.
  2. Heimilt er að bera forsetamerkið á foringjajakka eða dróttskátapeysu.
  3. Heimilt er að bera merki BÍS og/eða alþjóðamerki BÍS á foringjajakka og dróttskátapeysu.
  4. Heimilt er að bera allt að tvö mótsmerki, eða merki tengdum ákveðnum viðburðum í skátastarfi, í senn á skátabúningi.
  5. Heimilt er að skátar beri merki sem getið er í reglugerð þessari á yfirhöfnum, skv nánari ákvörðun félagsforingja.

H. ÖNNUR ÁKVÆÐI:

  1. Félagsforingjar skulu sjá til þess að skátar beri ávallt rétt merki á viðeigandi stað á skátabúningnum.
  2. Félagsforingjar skulu sjá til þess að skátar gæti hófs í notkun merkja á skátabúningnum.
  3. Starfsráð BÍS gerir tillögur til stjórnar BÍS að merkjum sem veitt eru skátum sem lokið hafa skilgreindum þáttum skátaþjálfunar og öðrum sérstökum viðburðum sem BÍS hefur forgöngu að. Foringjaþjálfunarráð og Alþjóðaráð BÍS gera tillögur til stjórnar BÍS að merkjum sem tengjast viðburðum og unnum áföngum á starfssviði ráðanna.
  4. Skátafélög og skátasambönd sem óska eftir að skátar beri merki sem tengjast starfsemi þeirra, skulu leita samþykkis stjórnar BÍS, sem tekur ákvörðun að fenginni umsögn Starfsráðs.
  5. Á yfirhöfnum eru skátar hvattir til að bera merki BÍS. Allir skátar eru hvattir til að bera prjónmerki BÍS er þeir ganga til daglegra starfa.
  6. Bandalag íslenskra skáta sér um framleiðslu og dreifingu allra merkja sem getið er í reglugerð þessari, að undanskildum þeim er getið er um í greinum B-3, E-3, G-4.


Lög BÍS

1. grein - Bandalag íslenskra skáta

Landssamtök skáta á Íslandi heita Bandalag íslenskra skáta, skammstafað BÍS. Aðsetur þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein - Félagsaðild að BÍS

Hver sem gerist skáti skal vinna skátaheitið, skilja skátalögin og starfa samkvæmt Grunngildum BÍS.

Aðild að Bandalagi íslenskra skáta getur verið með eftirfarandi hætti:

Aðild A Skátafélög með starf fyrir – og félaga á aldrinum 6 – 25 ára
Aðild B Skátafélög sem stunda skátastarf og stuðla að því, með félaga sem flestir eru eldri en 25 ára
Aðild C Hópar skáta sem vilja halda tengslum við BÍS
Aðild D Skátar með beina aðild að BÍS

Eftirtalin réttindi og skyldur fylgja ólíkri aðild að BÍS:

Félagsaðild A B C D
Þjónusta BÍS forgangur ef unnt er ef unnt er
Þátttökuréttur í viðburðum forgangur ef unnt er ef unnt er
Atkvæði á Skátaþingi 4 1 0 0
Félagsgjald til BÍS nei

BÍS starfar í tengslum við félög og stofnanir sem starfa að málefnum er lúta að velferð barna og ungmenna og öðrum þeim málum sem samræmast Grunngildum BÍS og markmiðum skátahreyfingarinnar.

BÍS er aðili að Æskulýðsvettvanginum og starfar eftir þeim reglum, stefnum og viðbragðsferlum sem Æskulýðsvettvangurinn setur sér að fylgja hverju sinni.

3. grein - Einkenni BÍS

Merki BÍS er skátaliljan og smárinn tengd saman með hnúti úr íslenskum vefnaði. Stjórn BÍS setur reglugerð um nánari útfærslu og notkun á merki BÍS og öðrum einkennum skáta.

Orðið og orðmyndin skáti er skráð vörumerki skátahreyfingarinnar á Íslandi. Eingöngu viðurkenndir aðilar af hálfu BÍS, að viðlagðri ábyrgð, hafa heimild til að nota orðmerkið „SKÁTI” og/eða orðmyndanir dregnar af orðmerkinu. Það sama á við um við- og/eða forskeyti á hverju sem er, s.s. í nafni á félagi eða samtökum, á vörum, á fatnaði og í auglýsingum. Það sama gildir um öll önnur einkenni skáta.

4. grein - Grunngildi BÍS

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta mynda sameiginlega grundvöll skátastarfs á Íslandi og skilgreina þannig sérstöðu þess. Þau eru sá grunnur sem Bandalag íslenskra skáta og öll skátafélög á Íslandi starfa eftir. Grunngildi BÍS eru samþykkt af Skátaþingi.

5. grein - Hlutverk BÍS

Hlutverk Bandalags íslenskra skáta er að vinna að eflingu skátastarfs á Íslandi. Hlutverk sitt rækir BÍS m.a. með því að:

  • Standa vörð um sjálfstæði BÍS sem frjálsra og óháðra félagasamtaka.
  • Stuðla að ungmennalýðræði.
  • Styðja við og efla starf skátafélaganna í landinu.
  • Stuðla að gerð dagskrárefnis til notkunar í skátastarfi, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.
  • Stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.
  • Standa fyrir dagskrárviðburðum fyrir skáta.
  • Annast samstarf um málefni skáta við ríkisvaldið og önnur félagasamtök.
  • Vera fulltrúi íslenskra skáta á alþjóðavettvangi skáta.
  • Kynna skátastarf og Grunngildi Bandalags íslenskra skáta fyrir almenningi.
  • Bera ábyrgð á að BÍS fylgi stefnum alþjóðasamtaka skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt samskiptum við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
  • Bera ábyrgð á fjármálum BÍS og afla tekna er gera BÍS kleift að halda fullu fjárhagslegu sjálfstæði.
  • Auka stuðning fullorðinna einstaklinga við skátastarf.
  • Gera sem flestum börnum og ungmennum kleift að stunda skátastarf.

6. grein - Alþjóðabandalögin

BÍS kemur fram fyrir hönd íslenskra skáta gagnvart alþjóðabandalagi skáta, WOSM, og alþjóðabandalagi kvenskáta, WAGGGS, sem og erlendum skátabandalögum.

7. grein - Skátafélög

Stjórn BÍS skal aðstoða og leiðbeina þeim sem stofna vilja nýtt skátafélag, eða endurvekja gamalt, svo sem kostur er.

Stofnun skátafélags, nafn þess, lög og merki, er háð samþykki stjórnar BÍS, enda séu lög hins nýja félags í samræmi við Grunngildi, lög og reglugerðir BÍS og landslög.

Innganga skátafélags í BÍS skal formlega staðfest á Skátaþingi og öðlast hún gildi í lok þess þings.

Hvert skátafélag er sjálfstæður lögaðili. Skátafélög starfa eftir Grunngildum BÍS og þeim meginreglum sem stofnandi skátahreyfingarinnar, Baden-Powell, setti skátastarfi og alþjóðasamtök skáta hafa staðfest. Einnig starfa þau eftir lögum og reglugerðum BÍS, æskulýðslögum og öðrum landslögum sem snerta starfsemi þeirra.

Meginhlutverk skátafélaga er að standa fyrir og/eða styðja við reglubundið skátastarf fyrir börn og ungmenni á aldrinum 7-25 ára, sem starfa að jafnaði í aldursskiptum skátasveitum sem skipað er í flokka, auk skátaforingja og annarra fullorðinna.

8. grein - Skátasambönd

Skátafélögum er heimilt að mynda með sér skátasambönd. Þau eru samstarfsvettvangur og málsvari skátafélaga í sameiginlegum málum. Skátasambönd setja sér starfsreglur í samræmi við lög BÍS.

9. grein - Lög skátafélaga

Skátafélögum innan BÍS er skylt að setja sér lög. Í vörslu BÍS skal jafnan vera eintak af gildandi félagslögum viðkomandi skátafélags. Í lögum hvers skátafélags skulu a.m.k. vera ákvæði um eftirfarandi:

  • Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega. Stjórn BÍS er heimilt að senda áheyrnarfulltrúa á fundinn. Fundarboð skal sent skrifstofu BÍS.
  • Í félaginu skal starfa minnst 3ja manna stjórn sem funda skal að jafnaði mánaðarlega. Þar á meðal skulu vera félagsforingi og gjaldkeri en sami aðili má ekki gegna báðum embættum.
  • Í félaginu skal starfa teymi félagaþrennunar, félagsforingi auk dagskrár- og sjálfboðaliðaforingja sem ýmist geta verið embætti innan eða utan stjórnar.
  • Æskilegt er að minnst einn stjórnarmanna skátafélags með aðild A sé á aldrinum 18-25 ára.
  • Í félaginu skal starfa foringjaráð og/eða félagsráð þar sem skátaforingjar og stjórn félagsins eiga sæti. Foringjaráð og/eða félagsráð skal funda eigi sjaldnar en þrisvar á ári.
  • Stjórn og foringjaráð skulu skipuð fólki af fleira en einu kyni og kynjahlutföll vera sem jöfnust sé því við komið.
  • Hvernig staðið skuli að úrsögn félagsins úr BÍS.
  • Hvernig staðið skuli að því að leggja starfsemi félagsins niður.
  • Hverjir skulu fara með eignir félagsins hætti það störfum. Þessir aðilar eru skyldugir til þess að ráðstafa eignunum í samráði við stjórn BÍS.

10. grein - Gagnaskil skátafélaga

Á árlegum aðalfundi skátafélaga skulu stjórnir þeirra leggja fram skýrslu um störf liðins árs og ársreikninga áritaða af félagskjörnum skoðunarmönnum.

Aðilar að BÍS skulu fyrir Skátaþing árlega hafa greitt félagsgjald fyrra starfsárs til BÍS og standa skil á gögnum til skrifstofu BÍS:

Félagsaðild A B C D
Félagatal
Ársskýrsla síðasta starfsárs nei nei
Gildandi lög nei nei
Starfsáætlun næsta starfsárs nei nei
Ársreikningur síðasta starfsárs nei nei
Undirritaðri heimild til BÍS til að kanna sakaskrá allra félaga 18 ára og eldri nei nei
Nöfn, hlutverk og tengiliðaupplýsingar allra stjórnarmeðlima félagsins

Auk þess skulu aðilar með aðild A, B, C og D starfa í anda Grunngilda BÍS. Þá skulu skátafélög með aðild A og B vera skráð frjáls félagasamtök með kennitölu.

11. grein - Óvirk skátafélög

Í eftirfarandi tilvikum getur stjórn BÍS boðað til aðalfundar skátafélags samkvæmt lögum þess og/eða vikið félagsstjórn þess frá störfum og skipað félaginu umsjónaraðila þar til kosin hefur verið ný stjórn og valinn nýr félagsforingi:

  • Aðalfundur, löglegur og skráður samkvæmt lögum félagsins, hefur ekki verið haldinn í 18 mánuði.
  • Ársreikningar félagsins, endurskoðaðir og áritaðir af tilskildum aðilum, hafa ekki verið lagðir fram og samþykktir í 18 mánuði.
  • Lágmarksstjórn félagsins, löglega kjörin samkvæmt lögum félagsins, hefur ekki haldið skráðan stjórnarfund í að minnsta kosti 6 mánuði.
  • Félagsstjórn fer ekki eftir ákvæðum 10. greinar laga BÍS, eða að starfsemi félagsins samrýmist ekki Grunngildum BÍS, lögum BÍS og/eða landslögum.

Sé skátafélag óvirkt um lengri eða skemmri tíma, þrátt fyrir tilraunir stjórnar BÍS til að efla starf þess, skal stjórn BÍS ráðstafa eigum félagsins samkvæmt lögum þess og í samráði við heimamenn.

12. grein - Brottvísun og úrsögn skátafélaga

Gerist skátafélag eða stjórn þess sek um brot á lögum þessum er Skátaþingi heimilt að víkja félaginu úr Bandalagi íslenskra skáta, að því tilskyldu að 2/3 hlutar þingfulltrúa greiði því atkvæði.

Úrsögn skátafélags úr BÍS er því aðeins gild hafi hún verið samþykkt á lögmætum aðalfundi þess og stjórn BÍS og stjórn viðkomandi skátafélags hafi verið tilkynnt með minnst tveggja mánaða fyrirvara að tillaga um úrsögn komi til afgreiðslu á fundinum. Úrsögnin öðlast þegar gildi.

Skátafélag, sem vikið hefur verið úr BÍS, eða hefur sagt sig úr því, á ekki tilkall til sjóða BÍS eða annarra eigna. Heimilt er að veita því aðild að nýju.

13. grein - Ábyrgðaraðilar í skátasatarfi

Skátaforingi er lögráða einstaklingur sem hefur verið skipaður til ábyrgðastarfa af hálfu félagsforingja eða skátahöfðingja, samanber reglugerð um hæfi skátaforingja. Hver skátaforingi ber ábyrgð gagnvart foringja sínum á því að skátastarf á hans vegum sé virkt og í samræmi við landslög, Grunngildi BÍS og lög BÍS.

Félagsforingi ber ábyrgð á öllu starfi skátafélags gagnvart stjórn BÍS.

Störf sjálfboðaliða í skátastarfi skulu skilgreind formlega og til ákveðins tíma.

14. grein - Aðkoma fullorðinna að skátastarfi

Einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri geta haft aðkomu að skátastarfi sem skátar með félagsaðild að BÍS, samkvæmt A), B) og C) lið þessarar greinar, eða sem styrktarfélagar samkvæmt D) og E) lið.

A) Sem meðlimur í skátafélagi með A- eða B – aðild. Viðkomandi skáti borgar þá félagsgjöld til skátafélagsins sem aftur borgar þátttökugjald til BÍS sem og er ábyrgt fyrir skilum á sakaskrárheimild viðkomandi.

B) Sem meðlimur í hópi skáta sem halda tengslum við BÍS.

    1. Viðkomandi borgar ekki félagsgjald til BÍS.
    2. Viðkomandi skilar sakarskrárheimild.

C) Sem beinn aðili að BÍS með D aðild.

      1. Viðkomandi skráir sig beint í gegnum félagatal BÍS í „Eitt sinn skáti“ félag BÍS og borgar félagsgjald.
      2. Viðkomandi skilar sakarskrárheimild.

D) Styrktarfélagar BÍS: Aðilar sem styrkja BÍS fjárhagslega en óska ekki eftir virkri aðild að BÍS þurfa ekki að skila inn sakaskrárheimild, enda hafa þau ekki nein réttindi eða skyldur gagnvart BÍS. Eru á skrá yfir styrktaraðila en hafa ekki félagsaðild að BÍS.

E) Skátafélögum er heimilt að stofna sveit í félagatali sínu sem heldur utan um styrktarfélaga félagsins. Um þessa styrktarfélaga gildir það sama og um styrktarfélaga BÍS, þau eru á skrá styrktaraðila skátafélagsins, en eru ekki með virka félagsaðild að BÍS.

Allir lögráða starfandi skátar og sjálfboðaliðar í starfi skátahreyfingarinnar, óháð aðildarleið eða þeim verkefnum sem viðkomandi hyggst sinna, skulu undirrita yfirlýsingu sem veitir Bandalagi íslenskra skáta heimild til að leita eftir upplýsingum hjá Sakaskrá ríkisins um hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða brota á ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum. Enda hluti af réttindum ofangreindra þátttaka í viðburðum eins og skátamótum og Skátaþingi þar sem gera má ráð fyrir þátttöku ungmenna undir 18  ára aldri. Stjórn BÍS er heimilt að víkja einstaklingum eða hópum úr skátahreyfingunni og hafna styrktaraðilum.

15. grein - Félagsforingjafundir

Stjórn BÍS skal a.m.k. árlega boða til félagsforingjafundar. Félagsforingjafundur er vettvangur umræðna um þau mál sem snerta skátastarfið í landinu. Félagsforingjafundur er ráðgefandi samkoma.

16. grein - Ungmennaþing

Ungmennaráð og stjórn BÍS skulu a.m.k. árlega boða til Ungmennaþings. Til Ungmennaþings skal boða með minnsta 6 vikna fyrirvara. Ungmennaþing skal haldið í síðasta lagi fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert. Ungmennaþing er vettvangur fyrir skáta 25 ára og yngri til að koma saman og ræða málefni er varða þau sérstaklega. Á Ungmennaþingi geta ungmenni í skátunum t.d. komið sér saman um lagabreytingar og aðrar tillögur fyrir Skátaþing ár hvert ásamt því að kjósa árlega fulltrúa í ungmennaráð og áheyrnarfulltrúa ungmenna í stjórn BÍS, sem mætir á stjórnarfundi, hlustar og er með málfrelsi. Aðeins eru kjörgengir þeir skátar sem eru 25 ára eða yngri á því ári sem kosið er.

Á Ungmennaþingi mega framboð berast fram að kosningum.

Auka Ungmennaþing skal halda ef stjórn eða ungmennaráð telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara. Auka Ungmennaþing er undanskilið því skilyrði að Ungmennaþing skal vera haldið minnst fimm vikum fyrir Skátaþing ár hvert.

17. grein - Skátaþing

Skátaþing fer með æðstu stjórn í málefnum Bandalags íslenskra skáta. Þingið skal halda ár hvert í mars- eða aprílmánuði, eftir ákvörðun stjórnar BÍS. Til Skátaþings skal boða með minnst 6 vikna fyrirvara.

Í fundarboði skal tilgreina hvar og hvenær þingið fari fram, til hvaða starfa skuli kjósa á þinginu og hver framboðsfrestur er. Í fundarboði skal tilgreina hvort rafræn þátttaka verði möguleg og hvort þau sem taka þátt rafrænt hafi málfrelsi og tillögurétt eða atkvæðisrétt á þinginu. Kosningaár skal fara fram á sléttu ártali.

Aukaþing skal halda ef stjórn eða meirihluti virkra skátafélaga telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara.

Stjórn BÍS ákveður þingstað hverju sinni.

18. grein - Frestir tengdir Skátaþingi

Minnst 4 vikum fyrir Skátaþing skulu tillögur að lagabreytingum hafa borist stjórn BÍS.

Minnst 3 vikum fyrir Skátaþing skulu beiðnir um upptöku tiltekinna mála, sem þarfnast afgreiðslu og/eða umræðu á Skátaþingi, hafa borist stjórn BÍS.

Tillögur um mál sem til umfjöllunar eru á þinginu, samkvæmt útsendri dagskrá, geta komið fram á þinginu sjálfu.

Minnst 2 vikum fyrir Skátaþing skal stjórn BÍS senda félagsforingjum og kynna eftirfarandi:

  • Drög að dagskrá Skátaþings.
  • Drög að skýrslu stjórnar.
  • Drög að ársreikningi.
  • Fjárhagsáætlun og tillögu að félagsgjaldi skáta til BÍS.
  • Drög að starfsáætlun BÍS til fimm ára.
  • Tillögur til lagabreytinga.
  • Tillögur frá skátum, skátafélögum, stjórn BÍS, ráðum þess og nefndum.
  • Kynningu á þeim frambjóðendum sem í kjöri verða á þinginu.

Athugasemdir við útsend gögn skulu berast skrifstofu BÍS eigi síðar en einni viku fyrir Skátaþing. Skulu þær athugasemdir kynntar þingfulltrúum án tafar.

Þátttökutilkynningar allra þingfulltrúa og gesta skulu berast til skrifstofu BÍS minnst einni viku fyrir Skátaþing.

19. grein - Uppstillingarnefnd

Á vegum BÍS skal ætíð starfa sérstök 5 manna uppstillingarnefnd, kosin á Skátaþingi til tveggja ára. Að lágmarki skal einn nefndarmeðlimur ekki vera eldri en 25 ára á því ári sem kosning fer fram. Nefndin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 16. grein, 19. grein, 23. grein, 26. grein og 27. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi.

Við störf sín skal uppstillingarnefnd ávallt leita eftir hæfum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS sem og að aldursdreifing sé sem jöfnust.

Framboð til áðurnefndra embætta má tilkynna til nefndarinnar og skal það vera skriflegt og undirritað af frambjóðanda. Framboð skulu hafa borist í síðasta lagi 3 vikum fyrir Skátaþing.

Nefndin skal ljúka störfum í síðasta lagi 17 dögum fyrir Skátaþing en við setningu Ungmennaþings. Nöfn, netföng og símanúmer nefndarmanna skulu tilgreind í fundarboði til Skáta- og Ungmennaþings.

Stjórn BÍS skal kalla uppstillingarnefnd saman í síðasta lagi tíu vikum fyrir Skátaþing en þremur vikum fyrir Skátaþing.

20. grein - Réttur til setu á Skátaþingi

Rétt til setu á Skátaþingi eiga:

A) Með atkvæðisrétt:

Fulltrúar skátafélaga með aðild A fara með 4 atkvæði, þar af skal eitt atkvæði bundið félagsforingja eða öðrum stjórnarmeðlim skátafélagsins í hans stað og æskilegt er að minnst eitt atkvæði sé í höndum einstaklings á aldrinum 13-25 ára.

Fulltrúar skátafélaga með aðild B fara með 1 atkvæði.

  • Fulltrúar með atkvæðisrétt skulu vera starfandi skátar 13 ára og eldri.
  • Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á Skátaþingi og eingöngu fyrir skátafélag sem hann er skráður félagi í.
  • Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á Skátaþingi, nema um breytingu á lögum BÍS eða Grunngildum BÍS sé að ræða.

B) Með málfrelsi og tillögurétt:

  • Stjórn, ráðsmenn og starfsfólk BÍS
  • Endurskoðendur og skoðunarmenn BÍS
  • Allir starfandi skátar með aðild að BÍS
  • Stjórn BÍS er heimilt að bjóða gestum til Skátaþings

Skilyrði fyrir úthlutun atkvæða er að skátafélag hafi staðið skil á gögnum og greiðslum skv. 10. gr. þessara laga. Kjörbréfanefnd er heimilt að veita undanþágu frá þessu skilyrði sé dráttur á afhendingu tilkynnt tímanlega og henni fylgi skriflegur rökstuðningur. Kjörbréfanefnd skal meta hvað teljast gildar ástæður í þessu sambandi.

Ef atkvæði skátafélaga með félagsaðild A fara undir 51% þá fellur niður atkvæðisréttur annarra félaga á því Skátaþingi og hafa því einungis skátafélög með félagsaðild A atkvæði á þinginu.

Kjörbréf, er tilgreinir aðal- og varafulltrúa skátafélags, undirritað af félagsforingja eða stjórnarmanni skátafélagsins, skal afhenda við upphaf Skátaþings.

Fyrirkomulag atkvæðagreiðslu skal kynnt sérstaklega á hverju Skátaþingi og er rafræn atkvæðagreiðsla heimiluð með þeim skilyrðum að fulltrúar með atkvæðisrétt þurfi að auðkenna sig með sannarlegum hætti en atkvæði séu ekki rekjanleg eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslu liggur fyrir. Í atkvæðagreiðslu er ávallt í boði að skila auðu atkvæði.

21. GREIN - Dagskrá Skátaþings

Stjórn BÍS gerir tillögu að dagskrá Skátaþings og niðurröðun dagskrárliða.

Í upphafi Skátaþings skal borin upp tillaga stjórnar BÍS að dagskrá Skátaþings. Einnig skal kosið í 3ja manna kjörnefnd er fjallar um réttmæti þingfulltrúa og atkvæðafjölda á þinginu og 5 manna allsherjarnefnd sem vinnur úr og samræmir álitamál sem upp kunna að koma á þinginu og fundarstjóri vísar málum til. Aðeins þingfulltrúar þeirra félaga sem staðið hafa skil á gögnum og greiðslum skv. 10. grein hafa kjörgengi í nefndirnar. Ef ágreiningur er innan þingnefnda við ákvarðanatöku ræður meirihluti nefndarmanna og er ákvörðun þingnefnda endanleg.

Á þinginu gilda almenn fundarsköp. Að þingi loknu skulu fundarstjórar auk allsherjarnefndar yfirfara og undirrita fundargerð frá fundarriturum. Telst hún staðfest með undirritun a.m.k. 1 fundarstjóra og 3 meðlima allsherjarnefndar.

Eftirtaldir dagskrárliðir skulu a.m.k. koma fyrir í dagskrá þingsins hverju sinni:

  • Setning Skátaþings
  • Inntaka nýrra skátafélaga
  • Skýrsla stjórnar fyrir síðasta almanaksár kynnt og rædd
  • Endurskoðaðir reikningar BÍS fyrir síðasta almanaksár kynntir, ræddir og afgreiddir
  • Fjárhagsáætlun BÍS fyrir 2 ár, yfirstandandi ár og það næsta, kynnt, rædd og afgreidd
  • Tillaga að félagsgjaldi skáta til BÍS kynnt, rædd og afgreidd
  • Starfsáætlun BÍS til fimm ára og langtíma stefnumörkun
  • Kosningar: Kjörgengir eru allir lögráða skátar
    • Á sléttutöluári:
      • Kosning stjórnar skv. 23. grein:
        • Kosning skátahöfðingja og þriggja meðstjórnenda
      • Kosning fastaráða skv. 26.grein
      • Kosning uppstillingarnefndar skv. 19 grein
      • Kosning löggilts endurskoðanda skv. 27. grein
    • Á oddatöluári:
      • Kosning stjórnar skv. 23. grein:
        • Kosning gjaldkera og tveggja meðstjórnenda
  • Ályktanir kynntar, ræddar og afgreiddar
  • Lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar
  • Kynningar frá skátafélögum
  • Önnur mál
  • Þingslit

22. grein - Starfshættir stjórnar BÍS

Stjórn BÍS stýrir starfsemi BÍS á milli Skátaþinga í umboði þess. Stjórn BÍS skal skipuð sjö skátum: skátahöfðingja, gjaldkera og fimm meðstjórnendum. Stjórn skal funda reglulega, að jafnaði mánaðarlega. Stjórnarfundur er löglegur ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

Fundir stjórnar BÍS skulu auglýstir á heimasíðu BÍS með minnst viku fyrirvara nema í neyðartilvikum.

Öllum skátum er heimilt að sitja fundi stjórnar BÍS. Skátum má víkja af stjórnarfundi ef ræða á viðkvæm trúnaðarmál.

Samþykktar fundargerðir stjórnar BÍS skulu birtar á heimasíðu BÍS. Þegar stjórn fjallar um viðkvæm trúnaðarmál skal halda utan um þau í sérstakri trúnaðarbók.

Öllum skátum er heimilt að bera erindi undir stjórn BÍS.

23. grein - Kosning stjórnar BÍS

Skátaþing kýs stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Að lágmarki skal einn stjórnarmaður ekki vera eldri en 25 ára á því ári sem kosning fer fram. Kosning fer fram á tveggja ára fresti.

Kjörgengi hafa allir lögráða skátar.

Kosning fer fram á Skátaþingi á tveggja ára fresti og skal vera kosið í embætti skátahöfðingja, gjaldkera og 5 meðstjórnenda. Sérstaklega er kosið um skátahöfðingja og gjaldkera en meðstjórnendur eru kjörnir í einni kosningu. Lendi atkvæði á jöfnu skal kosið sérstaklega á milli þeirra þar til öll sæti hafa verið fyllt.

Við kosningu stjórnarmanna skal þess gætt að þeir séu ekki allir af sama kyni.

Stjórnarmenn mega ekki sitja í stjórn lengur en fjögur kjörtímabil í röð. Láti einhver stjórnarmanna af störfum eða ef um langvarandi fjarveru stjórnarmanns er að ræða á milli aðalfunda skal félagsforingjafundur í samráði við uppstillingarnefnd manna stöðuna fram að næsta aðalfundi.

24. grein - Ábyrgð stjórnar BÍS

Skátahöfðingi er formaður stjórnar og leiðtogi alls skátastarfs. Stjórnin deilir með sér verkum.

Sameiginlega ber stjórn BÍS ábyrgð á:

  • Að skátastarf á Íslandi sé í samræmi við landslög, Grunngildi BÍS, lög og reglugerðir Bandalags íslenskra skáta.
  • Starfi stjórnarmanna, nefnda og ráða á hennar vegum.
  • Öllum meiriháttar skuldbindingum og eignabreytingum og þarf samþykki stjórnarfundar fyrir þeim.

25. grein - Umboð stjórnar BÍS

Stjórn BÍS kemur fram fyrir hönd íslenskra skáta gagnvart einstaklingum, lögaðilum og ríkisvaldi í sameiginlegum málefnum hreyfingarinnar.  Samþykki stjórnar BÍS þarf fyrir inngöngu BÍS í önnur samtök og félög. Stjórn BÍS skal leita staðfestingar næsta Skátaþings á slíkri aðild.

Stjórn BÍS ræður framkvæmdastjóra að undangenginni auglýsingu.

Stjórn BÍS setur reglugerðir um starfsemi skáta innan BÍS og aðra þætti starfsins, eftir því sem þurfa þykir hverju sinni, enda rúmist efni þeirra innan laga BÍS.

Reglugerðir skulu kynntar aðildareiningum BÍS. Hlutverk reglna og reglugerða er að kveða nánar á um skipulag einstakra þátta í starfsemi íslenskra skáta.

Stjórn er heimilt að skipa nefndir og vinnuhópa sér til aðstoðar og ákveða verksvið þeirra. Stjórn er heimilt að skipa sér ráðgjafa eftir þörfum hverju sinni.

Stjórn er heimilt að skipa skáta í embætti og ákveða verksvið þeirra. Þau geta eftir atvikum starfað náið með fastaráðum BÍS.

Upplýsingar um starfandi nefndir, vinnuhópa og embætti skulu ávallt aðgengilegar á heimasíðu skátanna.

26. grein - Fastaráð BÍS

Á vegum stjórnar BÍS starfa ávallt fimm fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð, ungmennaráð og stjórn Skátaskólans.

Kosnir skulu að lágmarki þrír en að hámarki fimm í hvert fastaráð til tveggja ára. Ungmennaráð er kosið árlega á Ungmennaþingi til eins árs. Að auki situr stjórnarmaður í ráðinu og getur eftir atvikum verið formaður þess. Ef fjöldi framboða er fleiri en fimm skal kjósa á milli þeirra en að öðrum kosti eru allir frambjóðendur sjálfkjörnir. Stjórn getur ákveðið að fleiri séu kjörnir í ákveðið fastaráð með auglýsingu með fundarboði Skátaþings eða fundarboði Ungmennaþings ef um er að ræða fjölgun meðlima ungmennaráðs.

Í hverju fastaráði BÍS skal vera að lágmarki einn fulltrúi yngri en 26 ára. Skátar sem bjóða sig fram í ungmennaráð skulu vera á aldrinum 13-25 ára á því ári sem þeir bjóða sig fram.

Láti einhver meðlimur fastaráðs af störfum eða ef um langvarandi fjarveru er að ræða á milli kosningaára skal stjórn BÍS í samráði við uppstillingarnefnd manna stöðuna fram að næsta aðalfundi.

Hlutverk fastaráðanna er eftirfarandi:

  • Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.
  • Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
  • Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
  • Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun dagskrár hreyfingarinnar og eigin skátastarfs.
  • Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.

27. grein - Ársreikningar BÍS

Reikningsár BÍS er almanaksárið. Reikningar BÍS og dótturfélaga skulu skoðaðir ár hvert af löggiltum endurskoðanda, kosnum af Skátaþingi til tveggja ára í senn.

Félagsleg skoðun reikninga BÍS og dótturfélaga er í höndum þriggja manna félagslegrar skoðunarnefndar sem Skátaþing kýs til tveggja ára í senn. Félagslegir skoðunarmenn reikninga mega ekki sinna öðrum störfum fyrir BÍS sem snerta fjármál. Þeir bera ábyrgð gagnvart Skátaþingi og skulu eiga greiðan aðgang að öllu bókhaldi BÍS og er stjórninni skylt að veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar um fjármál og reikningshald þess.

Felli Skátaþing framlagða reikninga fer fram yfirskoðun eftir reglum sem þingið setur. Að þeirri yfirskoðun lokinni skal boðað til framhaldsþings sem tekur nánari ákvörðun um reikninga.

28. grein - Ársreikningar BÍS

Fjárhagsgrundvöllur BÍS skal tryggður með fjárframlögum skátafélaga, styrktarfélaga, opinberra aðila og með fjáröflunum.

Stjórn BÍS er heimilt að efna til fjáraflana ef þær krefjast ekki þátttöku almennra skáta í landinu. Fjáraflanir sem krefjast slíkrar þátttöku skulu samþykktar á Skátaþingi eða með skriflegri atkvæðagreiðslu félagsforingja og ræður meirihluti.

Óheimilt er að veðsetja fasteignir BÍS nema að undangengnu einróma samþykki stjórnar BÍS.

29. grein - Slit BÍS

Til þess að slíta Bandalagi íslenskra skáta eða sameina það öðrum samtökum  þarf samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða á lögmætu Skátaþingi. Með slíkri samþykkt er störfum þess þings tafarlaust lokið, en fráfarandi stjórn skal sitja áfram með fullu umboði. Skal hún boða til auka-Skátaþings sex mánuðum síðar. Sé þá aftur samþykkt, með atkvæðum a.m.k. 4/5 hluta atkvæðisbærra fulltrúa, að slíta BÍS, skulu það heita lögleg slit þess.

Ákvæði laga þessara um Skátaþing skulu gilda um aukaþingið.  Ef samþykkt verður skv. 1. mgr. að slíta BÍS skal aukaþingið ákveða hvert fjárhagslegar og ófjárhagslegar eignir og réttindi BÍS skulu renna. Eingöngu má ráðstafa eignum og réttindum BÍS til skátafélaganna á Íslandi eða annarra skátasambanda á Íslandi séu þau starfrækt, eða almannaheillasamtaka með sambærileg markmið og BÍS.

30. grein - Breytingar á lögum BÍS

Lögum þessum verður því aðeins breytt að 2/3 hlutar greiddra atkvæða á Skátaþingi samþykki þá breytingu. Auk þess þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða tveggja Skátaþinga í röð til að breyta Grunngildum BÍS og 4. grein þessara laga.

31. grein - Aðgengi að samþykktum BÍS

Lög BÍS og Grunngildi BÍS, ásamt gildandi reglugerðum, skulu ávallt vera aðgengileg á heimasíðu BÍS.

32. grein - Síðast breytt

Lög þessi eru sett á Skátaþingi 2023 og öðlast þegar gildi.