REGLUGERÐ BÍS UM HEIÐURSMERKI BÍS

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 10. maí 2005

1.  GREIN - HETJUDÁÐAMERKI BÍS

Gullkrossinn: sem borinn er í bandi með íslensku fánalitunum á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem lagt hefur líf sitt í bersýnilega hættu við björgun úr lífsháska og sýnt við tækifæri sérstaka hugprýði og hetjudáð.

Silfurkrossinn: sem borinn er í rauðu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem bjargar úr lífsháska án þess að hætta eigin lífi.

Bronskrossinn: sem borinn er í bláu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta, sem sýnir hreystilega framkomu og fyrir vel af hendi leysta hálp í viðlögum, er slys ber að höndum.

2. GREIN - HEIÐURSMERKI BÍS:

Silfurúlfurinn: borinn um hálsinn, í sérstakri keðju með nafnskjöldum fyrri skátahöfðingja, er embættistákn skátahöfðingja. Fráfarandi skátahöfðingi afhendir arftaka sínum embættistákn þetta í lok þess aðalfundar er skipti fara fram.

Silfurúlfurinn: sem borinn er um hálsinn, í bandi með íslensku fánalitunum, skal veittur fráfarandi skátahöfðingja þá er hann hefur afhent arftaka sínum embættistákn skátahöfðingja.

Skátakveðjan úr gulli: sem borin er í rauðu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni af framúrskarandi dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veitt Skátakveðjan úr gulli, sem áður hefur verið sæmdur Skátakveðjunni úr silfri.

Skátakveðjan úr silfri: sem borin er í gráu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veitt Skátakveðjan úr silfri, sem áður hefur verið sæmdur Skátakveðjunni úr bronsi.

Skátakveðjan úr bronsi: sem borin er í brúnu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veitt Skátakveðjan úr bronsi, sem áður hefur verið sæmdur Þórshamrinum úr gulli.

Þórshamarinn úr gulli: sem borinn er í rauðu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veittur Þórshamarinn úr gulli, sem áður hefur verið sæmdur Þórshamrinum úr silfri.

Þórshamarinn úr silfri: sem borinn er í gráu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Að jafnaði skal þeim einum veittur Þórshamarinn úr silfri, sem áður hefur verið sæmdur Þórshamrinum úr bronsi.

Þórshamarinn úr bronsi: sem borinn er í brúnu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi.

Á skátabúningi skal aðeins bera æðsta heiðursmerki BÍS sem skátinn hefur hlotið. Að jafnaði skal skila til stjórnar BÍS heiðursmerki, þegar handhafi þess hlýtur æðra stig heiðursmerkis.

3. GREIN – VIRÐINGARMERKI SKÁTA:

Gullmerki skáta: getur stjórn BÍS veitt verndara íslenskra skáta, heiðursfélögum BÍS og öðrum sem hún vill sýna mikinn heiður.

Silfurmerki skáta: getur stjórn BÍS veitt borgara sem vinnur skátahreyfingunni eða einstökum skátafélögum mikið gagn. Silfurmerki skáta má einnig veita skátum og gildisskátum.

4. GREIN – ÞJÓNUSTUMERKI BÍS:

Gyllta Liljan og Smárinn: sem borin er í bláu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Sérstaklega skal horft til einstakra verkefna sem skátinn hefur unnið að. Að jafnaði skal þeim einum veitt Gyllta Liljan og Smárinn, sem áður hefur verið sæmdur Silfruðu Liljunni og Smáranum.

Silfraða Liljan og Smárinn: sem borin er í bláu bandi á vinstri barmi, veitist þeim skáta sem unnið hefur skátahreyfingunni sérlega mikið gagn og starfað af dugnaði og fórnfýsi. Sérstaklega skal horft til einstakra verkefna sem skátinn hefur unnið að.

5. GREIN – STARFSMERKI BÍS:

Starfsmerki BÍS eru bronsmerki sem eru að lögun eins og skinn, með merkjum íslenskra skáta og þeirri tölu sem markar hvert starfs (þjónustu) tímabil. Starfsmerki (Þjónustumerki) BÍS má/skal veita þeim skáta sem vinnur skátafélagi sínu gagn í tiltekinn árafjölda. Skal leitast við að sem flestir skátar, í virku skátastarfi, hljóti Starfsmerki BÍS reglulega.

6. GREIN – UM VEITINGU MERKJA

Orðunefnd BÍS sem í sitja skátahöfðingi, aðstoðarskátahöfðingi og félagsmálastjóri BÍS ákveða um veitingu hetjudáða,-heiðurs- virðingar- og þjónustumerkja BÍS.

Skátafélög geta sent rökstudd tilmæli til stjórnar BÍS, á þar til gerðum eyðublöðum, með minnst mánaðar fyrirvara, um veitingu framangreindra merkja á ákveðnum degi. Allir skátaforingjar hafa rétt til að beina samskonar tilmælum til stjórnar BÍS.

Að jafnaði skal við það miðað að Þórshamarinn úr bronsi sé ekki veittur skátum yngri en 25 ára og að jafnaði líði ekki minna en 10 ár milli þess að sama skátanum sé veitt heiðurs eða virðingarmerki.

Bandalag íslenskra skáta ber allan kostnað af gerð hetjudáða-, heiðurs-, virðingar- og þjónustumerkja, en skátafélög greiða kostnað sem hlýst af gerð starfsmerkja.

Skátafélög ákveða hverjir hljóti starfsmerki BÍS.

Hetjudáða-, heiðurs- og virðingarmerki afhendir skátahöfðingi eða umboðsmaður hans við hentugt hátíðlegt tækifæri.

Félagsforingi afhendir að jafnaði þjónustu- og starfsmerki, við hentugt hátíðlegt tækifæri en skátahöfðingi eða umboðsmaður hans, sé þess sérstaklega óskað.

7. GREIN – UM GILDISTÖKU REGLUGERÐAR ÞESSARAR

Með reglugerð þessari falla úr gildi eldri reglugerðir um hetjudáða og heiðursmerki BÍS. Þeir sem hlotið hafa 5, 10 , 15 ára Skátaliljuna eða Skátasmárann halda þeim merkjum óbreyttum.