REGLUGERÐ BÍSUM EINKENNISMERKI SKÁTA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 11. mars 1997.

A. ALMENN ÁKVÆÐI:

 1. Allir skátar skulu bera merki á skátabúningnum í samræmi við eftirfarandi ákvæði.
 2. Stjórn BÍS setur reglur um einkennismerki skáta að fenginni umsögn frá Starfsráði, skv grein H-3 þessarar reglugerðar.
 3. Gæta skal hófs í notkun viðurkenningamerkja og skulu félagsforingjar sjá til þess að þau séu eingöngu á boðstólum hjá ákveðnum aðilum innan félagsstjórnar.
 4. Skátum er óheimilt að kaupa, selja, gefa eða láta af hendi í skiptum þau hetjudáða- og heiðursmerki, Forsetamerki og vörðumerki er þeir fá.

B. EFTIRTALIN MERKI SKULU BORIN Á SKÁTASKYRTUNNI:

 1. Merki Bandalags íslenskra skáta skal bera fjóra sentimetra ofan við vinstri brjóstvasa skátaskyrtunnar. Fyrir foringja og eldri skáta sem ekki bera vörðumerkin má merkið vera tveimur sentimetrum ofan við vinstri brjóstvasa.
 2. Alþjóðamerki BÍS (merki inniheldur merki beggja alþjóðahreyfinganna) skal bera ofan við hægri brjóstvasa í sömu hæð og merki BÍS.
 3. Staðarmerki: Merki sveitarfélags, skátafélags, skátadeildar, skátasveitar eða skátaflokks skal bera á hægri upphandlegg neðan við axlarsaum, þannig að efst komi merki sveitarfélags, þá félags, deildar, sveitar og að lokum flokks.
 4. Skátavörðurnar skal bera á skátaskyrtunni undir merki BÍS, einn sentimeter ofan við vinstri brjóstvasa. Þegar skáti hefur unnið sér inn allar þrjár vörðurnar í einni átt, má hann færa þriðju vörðuna yfir á vinstri upphandlegg rétt ofan við olnboga.
 5. Dróttskátavarðan, Gullnavarðan, og Forsetamerkið koma í stað skátavarðanna eftir því sem unnið er til þeirra.

C. HEIMILT ER AÐ BERA EFTIRTALIN MERKI Á SKÁTAKLÚTNUM:

 1. Flokksvarðan, borin aftan á skátaklútnum.

D. MERKI Á SKÁTAPEYSUNNI:

Á skátapeysunni, sem hefur áprentað merki BÍS, er heimilt að bera vörðumerki, alþjóðamerki BÍS og staðarmerki eins og mælt er fyrir um í B lið reglugerðar þessarar. Félagsforingjum er heimilt að ákveða nánar um hvaða merki skulu borin á skátapeysum félaga viðkomandi skátafélags. Heiðursmerki skulu að jafnaði ekki borin á skátapeysu.

E. HEIÐURSMERKI OG HETJUDÁÐAMERKI:

 1. Heiðursmerki BÍS er heimilt að bera ofan við vinstri brjóstvasa skátaskyrtunnar, nema Silfurúlfinn, sem skal bera í borða um hálsinn. Heiðursmerki BÍS skal aðeins bera við hátíðleg tækifæri. Aldrei skal bera fleiri en eitt heiðursmerki BÍS á búningnum í einu. Skal bera heiðursmerki BÍS innst heiðursmerkja, sé það borið ásamt öðrum heiðursmerkjum félaga og öðrum heiðurspeningum.
 2. Hetjudáðarmerki BÍS er heimilt að bera ofan við vinstri brjóstvasa við hátíðleg tækifæri.
 3. Heiðursmerki skátasambanda og skátafélaga er heimilt að bera ofan við vinstri brjóstvasa. Skátasambönd og/eða skátafélög skulu setja nánari reglur um þessi heiðursmerki og notkun þeirra. Félagsforingjum ber að sjá til þess að hófs sé gætt í notkun heiðursmerkja á skátabúningnum.

F. FORINGJAEINKENNI:

 1. Foringjamerki skal bera framan á broti hægri brjóstvasa og skátaskyrtunni og á sambærilegum stað á skátapeysunni.
 2. Foringjaeinkenni er aðeins heimilt að bera á meðan embætti er gegnt.

G. AÐRAR HEIMILDIR:

 1. Heimilt er að bera prjónamerki BÍS á foringjajakka eða dróttskátapeysu.
 2. Heimilt er að bera forsetamerkið á foringjajakka eða dróttskátapeysu.
 3. Heimilt er að bera merki BÍS og/eða alþjóðamerki BÍS á foringjajakka og dróttskátapeysu.
 4. Heimilt er að bera allt að tvö mótsmerki, eða merki tengdum ákveðnum viðburðum í skátastarfi, í senn á skátabúningi.
 5. Heimilt er að skátar beri merki sem getið er í reglugerð þessari á yfirhöfnum, skv nánari ákvörðun félagsforingja.

H. ÖNNUR ÁKVÆÐI:

 1. Félagsforingjar skulu sjá til þess að skátar beri ávallt rétt merki á viðeigandi stað á skátabúningnum.
 2. Félagsforingjar skulu sjá til þess að skátar gæti hófs í notkun merkja á skátabúningnum.
 3. Starfsráð BÍS gerir tillögur til stjórnar BÍS að merkjum sem veitt eru skátum sem lokið hafa skilgreindum þáttum skátaþjálfunar og öðrum sérstökum viðburðum sem BÍS hefur forgöngu að. Foringjaþjálfunarráð og Alþjóðaráð BÍS gera tillögur til stjórnar BÍS að merkjum sem tengjast viðburðum og unnum áföngum á starfssviði ráðanna.
 4. Skátafélög og skátasambönd sem óska eftir að skátar beri merki sem tengjast starfsemi þeirra, skulu leita samþykkis stjórnar BÍS, sem tekur ákvörðun að fenginni umsögn Starfsráðs.
 5. Á yfirhöfnum eru skátar hvattir til að bera merki BÍS. Allir skátar eru hvattir til að bera prjónmerki BÍS er þeir ganga til daglegra starfa.
 6. Bandalag íslenskra skáta sér um framleiðslu og dreifingu allra merkja sem getið er í reglugerð þessari, að undanskildum þeim er getið er um í greinum B-3, E-3, G-4.