GRUNNGILDI BÍS

Samþykkt á Skátaþingi 06/04/2019

INNGANGUR

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta eru af þrennum toga:

1. Samfélagsleg gildi sem tengjast hlutverki skátahreyfingarinnar:

      1. Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing sem stuðlar að menntun ungs fólks með sjálfsnámi.
      2. Skátahreyfingin er opin öllum og óháð stjórnmálasamtökum.

2. Siðferðileg gildi sem finna má í:

      1. Skátaheiti.
      2. Skátalögum.
      3. Kjörorði skáta.

3. Aðferðafræðileg gildi sem fólgin eru í Skátaaðferðinni og byggja á:

      1. Stigvaxandi sjálfsnámi.
      2. Kerfi innbyrðis tengdra lykilþátta.
      3. Kjörorði skáta.

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta mynda sameiginlega grundvöll skátastarfs og skilgreina þannig sérstöðu þess. Lög Bandalags íslenskra skáta byggja ávallt á grunngildum samtakanna. Grunngildin eru byggð á Constitution og By-laws beggja heimsbandalaga skáta – WAGGGS og WOSM. Þau eru sá grunnur sem Bandalag íslenskra skáta og öll skátafélög á Íslandi starfa eftir.

BÍS er aðili að alþjóðabandalagi skáta, WOSM, og alþjóðabandalagi kvenskáta, WAGGGS og starfar samkvæmt lögum þeirra og grunngildum.

SAMFÉLAGSLEG GRUNNGLIDI SKÁTAHREYFINGARINNAR

Markmið skátahreyfingarinnar

Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing. Markmið hennar er að leggja sem mest af mörkum við uppeldi ungs fólks  til þess að skapa betri heim þar sem fólk öðlast lífsfyllingu sem sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu. Þetta er gert með því að:

      • Virkja ungt fólk á þroskaskeiði þeirra með óformlegu uppeldis- og menntakerfi.
      • Beita sérstökum aðferðum sem gera hvern einstakling virkasta áhrifavaldinn í eigin þroskaferli.
      • Hjálpa ungu fólki að byggja upp eigið gildakerfi sem grundað er á siðferðilegum lífsgildum, félagslegu réttlæti og persónulegri staðfestu í anda skátalaga og skátaheits.

Skátahreyfingin er æskulýðshreyfing með stuðningi og þátttöku fullorðinna. Gefa þarf skátum á öllum aldursstigum tækifæri til taka þátt í ákvarðanatöku sem hefur áhrif á skátastarfið. Með aldrinum eykst ábyrgð þeirra á ákvarðanatöku og framkvæmd verkefna.

Skátahreyfingin er opin öllum

Skátahreyfingin er opin fyrir alla sem fylgja markmiðum hennar, Grunngildum og Skátaaðferðinni, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda. Hins vegar er ljóst að skátahreyfingin getur aðeins tekið á móti einstaklingum með miklar sérþarfir þegar aðstæður og mannafli eru fullnægjandi til að mæta þörfum þeirra.

Skátahreyfingin er óháð stjórnmálasamtökum

Skátahreyfingin er frjáls og óbundin stjórnmálaflokkum. Það er þó ekkert sem hamlar henni að taka afstöðu í tilteknum málefnum að því tilskildu að afstaðan sé í samræmi við Grunngildin.

Þegar einstaklingar koma fram í nafni skátahreyfingarinnar mega þeir ekki tengja sig stjórnmálaflokkum. Ekkert kemur í veg fyrir að félagar í skátahreyfingunni starfi á sama tíma með stjórnmálaflokki, ef það er gert í eigin nafni en ekki skátahreyfingarinnar.

SIÐFERÐISLEG GRUNNGILDI SKÁTAHREYFINGARINNAR

Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar er að finna í skátaheitinu og skátalögunum. Fyrirmynd þeirra er í samþykktum alþjóðahreyfinga skáta. Orðalag er þó mismunandi eftir löndum, menningarheimum og tungumálum.

Skátaheitið

Skátaheitið er loforð sem skátinn gefur sjálfum sér, eins konar persónuleg áskorun um að gera sitt besta. Þegar skátinn vinnur skátaheitið er hann að taka fyrsta meðvitaða skrefið á sjálfsnámsbrautinni til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur samfélagsþegn. Íslenska skátaheitið hljóðar svo (velja má á milli annars vegar guð/samviska og ættjörðina/samfélag):

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur
til þess að gera skyldu mína við guð/samvisku og ættjörðina/samfélag,
að hjálpa öðrum og
að halda skátalögin.

Siðferðileg gildi í skátaheitinu eru oft flokkuð á eftirfarandi hátt:

      • „Skyldan við guð/samvisku“ – tengsl einstaklingsins við leitina að lífsgildum sem eru ofar honum sjálfum.
      • „Skyldan við aðra“ – tengsl einstaklingsins við samfélagið og ábyrgð hans innan þess.
      • „Skyldan við sjálfan sig“ – ábyrgð einstaklingsins á að þroska hæfileika sína eins og mögulegt er.
Skátalögin

Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru sett fram á skipulegan hátt í skátalögunum. Skátalögin eru þó miklu meira en bara skipulagskerfi hugmynda. Þau eru í raun hegðunarmynstur sem ungt fólk getur valið að fylgja og nota til að móta stefnu sína í lífinu. Til þess að vera sjálfum sér samkvæmur þarf hver einstaklingur að hugsa og haga sér í samræmi við eigin gildi.

Íslensku skátalögin eru svohljóðandi:

      • Skáti er hjálpsamur
      • Skáti er glaðvær
      • Skáti er traustur
      • Skáti er náttúruvinur
      • Skáti er tillitssamur
      • Skáti er heiðarlegur
      • Skáti er samvinnufús
      • Skáti er nýtinn
      • Skáti er réttsýnn
      • Skáti er sjálfstæður
Kjörorð skáta

Kjörorð skáta er: Ávallt viðbúinn.

Kjörorð skáta felur það í sér að skátinn sé alltaf andlega og líkamlega tilbúinn að gera skyldu sína.

AÐFERÐAFRÆÐILEG GRUNNGILDI SKÁTAHREYFINGARINNAR

Skátastarf byggir á hugmyndinni um sjálfsnám sem er stigvaxandi í takt við aldur og þroska.

Í skátastarfi fá börn og ungmenni tækifæri til að vinna að sínum markmiðum með því að takast á við skemmtileg verkefni og lifa sig inn í ævintýri. Aðalatriðið er að skátarnir sjálfir taki virkan þátt í að velja, undirbúa, framkvæma og ígrunda verkefnin í samræmi við aldur og þroska – að sjálfsögðu með leiðsögn og stuðningi hinna fullorðnu.

Að auki byggist Skátaaðferðin á átta lykilþáttum sem tengjast innbyrðis.

Lykilþættir Skátaaðferðarinnar:
      • Skátalögin, skátaheitið og kjörorð skáta
      • Flokkakerfið
      • Táknræn umgjörð
      • Útilíf og umhverfisvernd
      • Leikir og reynslunám
      • Hjálpsemi og samfélagsþátttaka
      • Framfarir einstaklingsins
      • Stuðningur fullorðinna

Hver einstakur lykilþáttur hefur sjálfstætt uppeldis- og menntunargildi og hver þáttur fyrir sig eykur áhrif hinna. Allir lykilþættirnir þurfa að vinna saman til þess að kerfið virki.

NIÐURLAG

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta voru samþykkt á Skátaþingi 2019. Grunngildum Bandalags íslenskra skáta er einungis hægt að breyta með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða tveggja Skátaþinga í röð.