Mótsstjóri Landsmóts skáta 2026
05/03/2025Tilkynningar,landsmót26

Ingibjörg Guðmundsdóttir hefur verið skipuð mótsstjóri Landsmóts skáta 2026 sem fram fer á Hömrum á Akureyri.
Ingibjörg hefur verið í skátunum frá því hún var barn og komið að ýmsum skemmtilegum verkefnum. Hún er í skátafélaginu Vífli en er búsett á Akureyri með Hamra í bakgarðinum hjá sér og eyðir þar miklum tíma. Ingibjörg starfaði hjá Útilífsskóla skáta hjá Vífli, hefur komið að foringjaþjálfun, farið á mörg landsmót, alheimsmót í Hollandi og Síle ásamt því að syngja í Skátakórnum.
Ingibjörg á stóran og góðan vinahóp sem hún kynntist í skátunum og segir að allar skemmtilegustu minningarnar séu úr skátastarfi.
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt með einum eða öðrum hætti getur þú sent Ingibjörgu tölvupóst hér.
Bandalag íslenskra skáta er þakklátt að Ingibjörg taki að sér svo stórt verkefni og hlökkum við til samstarfsins!
Vetaráskorun Crean 2025 – Ógleymanlegt ævintýri á Íslandi
Eftir 7 mánaða ferli og 4 undirbúningsferðir hófst lokaleiðangur Vetaráskorunnar Crean. Dagana 14–21. febrúar 2025 fór fram Crean Challenge Expedition á Íslandi, þar sem 32 írskir og 15 íslenskir skátar tóku þátt í krefjandi og spennandi leiðangri. Viðburðurinn hófst Úlfljótsvatni, þar sem hópurinn safnaðist saman til að hefja þetta einstaka viku ferðalag.
Þolpróf í íslenskri náttúru
Þrátt fyrir lítið magn snjós skapaði náttúran töfrandi umgjörð fyrir ævintýrið, með norðurljósum sem lýstu upp himininn. Skátarnir stóðu frammi fyrir breytilegum aðstæðum, þar á meðal kulda sem fór niður í -6°C, blautum stígum og ófyrirsjáanlegu veðri. Þau sýndu gott úthald og seiglu, sérstaklega á sjötta degi þegar þau gengu 15 km leið í drullu og krefjandi landslagi.


Samvinna og menningarsamskipti
Meðan á ferðinni stóð lærðu þátttakendur fjölbreytta færni, allt frá leiðsögn í náttúrunni til teymisvinnu við krefjandi aðstæður. Menningarsamskipti milli íslenskra og írskra skáta sköpuðu einstaka stemningu, þar sem nýjar vináttur mynduðust og ómetanleg reynsla safnaðist í minningabankann.

Lokaathöfn í Reykjavík
Leiðangrinum lauk 22. febrúar með viðurkenningaafhendingu í Reykjavík, þar sem skátarnir voru verðlaunaðir fyrir framúrskarandi frammistöðu og þrautseigju. Sérstakar þakkir voru veittar Hörpu Ósk Valgeirsdóttur, skátahöfðingja, og Eoin Callanan skátahöfðingja Írlands fyrir þeirra framlag og stuðning við viðburðinn.
Crean Challenge heldur áfram
Eftir 7 mánaða ferli, 12 nætur og 110 gengna kílómetra hafa 15 íslenskir skátar öðlast einstaka reynslu í farteskinu sínu, innblásnir af áskoruninni sem þeir tóku þátt í. Crean Challenge Expedition 2025 var ekki aðeins þrekraun heldur einnig vettvangur fyrir vináttu, lærdóm og ógleymanlegar stundir í íslenskri náttúru. Við hlökkum til að fylgjast með næstu ævintýrum sem skátarnir taka sér fyrir hendur!
Takk fyrir þátttökuna – sjáumst í næsta ævintýri!

Ari eldar í Undralandinu

Ari Björn Össurarson hefur verið ráðinn í stöðu matráðs í Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni.
Ari er menntaður matreiðslumaður og hefur síðustu 9 ár unnið í eldhúsum hjá veitingahúsunum Varmá, Fiskmarkaðnum, Skyrgerðinni, Hótel Selfoss og Tryggvaskála. Hlutverk Ara verður að hafa yfirumsjón með eldhúsi, þrifum, innkaupum og öðru utanumhaldi þar að lútandi. Hann mun einnig leiða og leiðbeina starfsfólki og sjálfboðaliðum í eldhúsinu og við þrif.
Auk mikillar reynslu úr veitingabransanum hefur Ari lengi starfað sem foringi í skátafélaginu Fossbúum og verið virkur í alþjóðastarfi.
„Ég er aðallega spenntur yfir því að vera Fossbúum til sóma, og að elda góðan mat fyrir skáta og aðra gesti Úlfljótsvatns“ segir Ari. „Góður matur skiptir lykilmáli fyrir fólk sem er mikið úti, eins og oftast er á Úlfljótsvatni og ég hlakka til að fá að starfa við mitt fag í skátaumhverfi. Svo er líka mikilvægt að brosa og hafa gaman!“ segir Ari brosandi.
Við bjóðum Ara hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum mikið til að borða matinn hans.
Skátahreyfingin á fund forseta Íslands

Þau Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi og Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdarstjóri BÍS fóru á fund forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, í liðinni viku. Rætt var um náið samband forsetaembættisins og skátahreyfingarinnar allt frá lýðveldisstofnun og um framhald á því samstarfi í embættistíð núverandi forseta.
Forseti Íslands hefur verið verndari skátahreyfingarinnar frá 50 ára afmæli skátastarfs á Íslandi árið 1961 og engin breyting er þar á en Halla Tómasdóttir, forseti er verndari skátahreyfingarinnar. Samstarfið hefur meðal annars átt sinn fasta sess með afhendingu forsetamerkisins á Bessastöðum á ári hverju, en þar afhendir forseti heiðursmerki til 18-19 ára ungmenna sem hafa til þriggja ára sett sér markmið um að efla sig sjálf en á sama tíma efla samfélagið með sjálfboðalistastarfi.
Fram kom á fundinum að skátahreyfingin hefur á síðustu árum náð að byggja upp þátttöku ungmenna innan sinna raða í þátttöku lýðræðislegra ákvarðanna og sett i lög að í öllum ákvörðunareiningum séu fulltrúar ungmenna. Á síðasta aðalfundi hreyfingarinnar, Skátaþingi vorsins 2024, voru yfir 70% þátttakenda undir 30 ára aldri og voru 65% atkvæða í höndum skáta á aldrinum 13-25 ára. Á fundinum var rætt um möguleika á samstarfi fleiri æskulýðssamtaka um að koma á verkefnum á landsvísu þar sem ungmenni fái stuðning og fræðslu til áhrifa á samfélagið. (Texti unnin uppúr texta forsetaembættisins).


Yngsta Ungmennaráðið til þessa
Helgina 7-9. febrúar var Ungmennaþing 2025 haldið. Upprunalega átti það að vera í Stykkishólmi en vegna veðurs var það fært í Skátaheimili Vogabúa. Þingið sjálft fór hins vegar fram í Skátamiðstöðinni.


Á föstudaginn mættum við um kl. 20:00 í Skátafélag Vogabúa. Við komum okkur fyrir, settum mótið og fórum svo stuttu eftir að sofa.
Á laugardeginum var vaknað um kl. 09:00 og farið í morgunmat, síðan var lagt af stað í strætó upp í Skátamiðstöðina þar sem þingið var haldið. Á þinginu var farið yfir áskoranir og lagabreytingatillögur t.d. Skátafrakka, fleiri útilegur fyrir Rekka- og Róverskáta og að hækka lágmarks aldur Ungmennaráðs. Einnig var kosið í Ungmennaráð og Áheyrnarfulltrúa Ungmenna. Í hádegismat voru tortillur. Þingið stóð í sjö tíma.


Þegar komið var aftur í Vogabúa heimilið voru hamborgarar í kvöldmat. Horft var á söngvakeppnina, spilaður foosball og voru allir mjög pepp. Síðan var farið í karaoke keppni.
Ræs var á svipuðum tíma á sunnudeginum og svo beint í frágang. Það var haldið uppboð til þess að losna við allan mat sem eftir var. Af því loknu var mótinu slitið og þau sem vildu fóru í sund!

Eins og á hverju ári var kosið í nýtt Ungmennaráð. Núna eru komnir þrír nýir meðlimir:
Emil Kjartan Valdimarsson - Ægisbúi,
Ragnar Eldur Jörundsson - Ægisbúi og
Ragnheiður Óskarsdóttir - Kópur.
Meðlimir sem sitja áfram eru:
Þorkell Grímur Jónsson - Garðbúi og
Hafdís Rún Sveinsdóttir - Fossbúi.
Þetta er yngsta Ungmennaráð sem hefur verið, þar sem 4 meðlimar þess eru Dróttskátar!
Einnig var kosinn Áheyrnarfulltrúa ungmenna. Það var aðeins einn frambjóðandi þar og eftir stuttar og einfaldar kosningar var Einar Tryggvi Petersen - Árbúi kosinn nýji Áheyrnarfulltrúi ungmenna.

Fundarboð Skátaþings 2025

Með bréfi þessu boðar stjórn Bandalags íslenskra skáta til Skátaþings 2025.
Þingið verður haldið dagana 4.-6. apríl í Víðistaðaskóla, Hafnarfirði. Þingið hefst með setningu kl. 19:00 föstudaginn 4. apríl og lýkur sunnudaginn 6. apríl kl. 13:00. Aðstaðan opnar kl. 17:00 og frá þeim tíma er hægt að fá þinggögn afhent. Vakin er athygli á að ekki verður boðið upp á kvöldmat á föstudegi. Skátafélagið Hraunbúar er gestgjafi þingsins.
Dagskrá þingsins er skv. 21. grein laga BÍS og kosið verður í embætti gjaldkera og tveggja meðstjórnenda skv. 23. grein laga BÍS. Vakin er athygli á því að skv. 21. grein laga BÍS er ekki kosið í fastaráð að þessu sinni.
Einnig er rétt að vekja athygli á greinum 18-20 í lögum BÍS sem fjalla um Skátaþing. Starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétt óháð aðildarleið. Fulltrúar skátafélaga með aðild A fara með 4 atkvæði, þar af skal eitt atkvæði bundið félagsforingja eða öðrum stjórnarmeðlim skátafélagsins í hans stað og æskilegt er að minnst eitt atkvæði sé í höndum einstaklings á aldrinum 13-25 ára.
Öll sem hyggjast taka þátt skulu skv. 18. grein laga BÍS skrá sig á skraning.skatarnir.is fyrir kl. 19:00 þann 28. mars. Félagsforingjar eða annað stjórnarfólk skátafélaganna skal skila kjörbréfum rafrænt fyrir setningu þingsins. Kjörbréf tilgreina hver fara með atkvæði fyrir hönd félagsins. Hægt verður að fylgjast með þinginu rafrænt í gegnum steymi en rafræn þátttaka verður ekki möguleg að þessu sinni.
Þátttökugjald er 12.900 kr., innifalin eru þinggögn, léttar veitingar á föstudagskvöldi, morgunverður og hádegisverður bæði á laugardegi og sunnudegi ásamt almennri dagskrá sem boðið verður upp á samhliða þinginu.
Skráning og upplýsingar um gistingu í Hraunbyrgi sem og hátíðarkvöldverð á laugardegi verða auglýst sér, á Abler og á upplýsingasíðu skátaþings.
Eftirfarandi embætti eru laus til kjörs á Skátaþingi 2025:
| Stjórn Gjaldkeri Tveir meðstjórnendur |
Kjörin á Ungmennaþingi 2025
Áheyrnarfulltrúi ungmenna í stjórn BÍS |
Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi hlutverk óskast sendar hið fyrsta og eigi síðar en 14. mars kl. 19:00 á netfangið uppstillingarnefnd@skatarnir.is. Með fundarboði fylgir tilkynning frá Uppstillingarnefnd þar sem finna má nánari upplýsingar og lýsingu á hverju hlutverki fyrir sig.
Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.
| Uppstillingarnefnd skipa: | ||||
| Hafdís Bára Kristmundsdóttir | s. 617-1591 | barahafdis@gmail.com | ||
| Ásgeir Ólafsson | s. 844-4069 | asgeir@hraunbuar.is | ||
| Reynir Tómas Reynisson | s. 698-6226 | reynirtomas@gmail.com | ||
| Ingimar Eydal | s. 862-2173 | ingimar.eydal@simnet.is | ||
| Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir | s. 862-4605 | dagga@mosverjar.is | ||
Mikilvægar dagsetningar fram að Skátaþingi:
Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi dagsetningum fram að þingi samkvæmt gildandi lögum BÍS.
- febrúar kl. 19:00 - Fresti til að boða til Skátaþings lýkur.
- mars kl. 19:00 – Fresti til að skila tillögum að lagabreytingum til stjórnar BÍS lýkur.
- mars kl. 19:00 – Framboðsfrestur í laus embætti stjórnar BÍS rennur út.
- mars kl. 19:00 – Fresti til að skila beiðnum um upptöku mála á Skátaþingi til stjórnar BÍS lýkur.
- mars kl. 19:00 – Fresti stjórnar BÍS til að senda félagsforingjum þinggögn og drög að dagskrá Skátaþings lýkur.
- mars kl. 19:00 – Fresti til að skila athugasemdum um útsend gögn til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
- mars kl. 19:00 – Skráning á Skátaþing lýkur.
- apríl kl. 19:00 – Fresti skátafélaga til að skila gögnum og kjörbréfum til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
- apríl kl. 19:00 – Skátaþing er sett.
Upplýsingasíðu Skátaþings má finna á skatarnir.is/skatathing. Þar verður öllum gögnum hlaðið upp þegar þau berast og í síðasta lagi fyrir tilgreindan frest samkvæmt lögum. Öll þinggögn verða aðgengileg þar á rafrænu formi fyrir setningu Skátaþings.
Reykjavík, 21. febrúar 2025
Fyrir hönd stjórnar BÍS
Harpa Ósk Valgeirsdóttir
Skátahöfðingi
Tilkynning uppstillinganefndar vegna Skátaþings 2025
Tilkynning frá uppstillingarnefnd BÍS vegna Skátaþings 2025
Reykjavík 19. febrúar 2025
Á Skátaþingi helgina 4.-6. apríl n.k. verður kosið í neðangreind embætti í samræmi við lög BÍS.
Uppstillingarnefnd hvetur skáta sem hafa áhuga og hugsjónir fyrir skátastarfi í landinu að skoða þau embætti sem eru laus til kjörs, að gefa kost á sér til starfa og hvetja aðra til þess. Lýsingar á þeim embættum sem kosið er í má finna neðst í þessari tilkynningu.
Athygli skal vakin á eftirfarandi:
- Kosning fer fram á Skátaþingi og skal vera kosið í embætti skátahöfðingja og þriggja meðstjórnenda á sléttutöluári en í embætti gjaldkera og tveggja meðstjórnenda á oddatöluári
- Við kosningu í stjórn BÍS er kosið sérstaklega um gjaldkera en tveir meðstjórnendur eru kosnir í einni kosningu
- Kosið var í ungmennaráð (13 - 25 ára) og áheyrnarfulltrúa ungmenna í stjórn BÍS á ungmennaþingi 7. - 9. febrúar.
- Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 16. grein, 19. grein, 23. grein, 26. grein og 27. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi.
Uppstillingarnefnd skipa:
| Reynir Tómas Reynisson, formaður | 698-6226 | reynirtomas@gmail.com | Skátafélagið Garðbúar |
| Ásgeir Ólafsson | 844-4069 | asgeir@hraunbuar.is | Skátafélagið Hraunbúar |
| Dagbjört Brynjarsdóttir | 862-4605 | dagga@mosverjar.is | Skátafélagið Mosverjar |
| Hafdís Bára Kristmundsdóttir | 617-1591 | barahafdis@gmail.com | Skátafélagið Vífill |
| Ingimar Eydal | 862-2173 | ingimar.eydal@simnet.is | Skátafélagið Klakkur |
Eftirtalin embætti eru laus til kjörs á Skátaþingi 2025:
Stjórn
Gjaldkeri
Tveir meðstjórnendur
Áheyrnarfulltrúi ungmenna var kosinn á ungmennaþingi 7. - 9. febrúar.
Fastaráð og aðrar nefndir
Fimm sæti í ungmennaráði voru kosin á ungmennaþingi 7.- 9. febrúar.
Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi embætti óskast sendar uppstillingarnefnd hið fyrsta og eigi síðar en 14. mars kl. 19:00.
Tilkynningar um framboð þurfa að berast í tölvupósti á netfang uppstillingarnefndar uppstillingarnefnd@skatarnir.is.
Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.
Hér eru skýringar um helstu verkefni sem þau embætti sinna sem kosið verður í á Skátaþingi. Athugið að þetta eru ekki tæmandi listar og verkefnin geta verið jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Ennfremur starfa ráð oft saman að ýmsum verkefnum.
Stjórn
Gjaldkeri situr í stjórn BÍS. Hann ber m.a. ábyrgð á fjármálum BÍS og vinnur náið með framkvæmdastjóra hreyfingarinnar að stjórn þeirra, framkvæmd fjáraflana, vinnslu bókhalds, áætlanagerð o.þ.h.
Meðstjórnendur (2): Sitja í stjórn BÍS sem skiptir með sér verkum og ber m.a. sameiginlega ábyrgð á starfi stjórnar, ráða og nefnda. Sitja eftir atvikum í fastaráðum samkvæmt ákvörðun stjórnar.
Áheyrnarfulltrúi ungmenna hefur áheyrnarrétt í stjórn BÍS en ekki atkvæðisrétt. Kosið er í embættið á ungmennaþingi.
Fastaráð og aðrar nefndir
Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun eigin skátastarfs og hreyfingarinnar. Kosið er í ráðið á ungmennaþingi.
Komdu með, vekjum athygli saman

Bandalag íslenskra skáta er að fara í framleiðslu á mynd-og auglýsingaefni þar sem áherslan verður lögð á skáta og skátastarf. Nú leitum við að áhugasömum einstaklingum sem vilja taka þátt í þessu stóra spennandi verkefni með okkur.
Við leitum af skátum á öllum aldri og af öllum kynjum sem hafa áhuga á leiklist, tónlist, sminki eða öðru skemmtilegu sem gæti nýst.
Haldin verður kynningafundur fyrir þátttakendur og önnur áhugasöm á næstunni og verður hann auglýstur sérstaklega.
Áhugasöm eru beðin um að fylla út umsókn og senda á Ragnar Þór framkvæmdarstjóra og Halldóru Aðalheiði kynningamálastýru.
Vel lukkuð skátagleði í samstarfi við Rauða krossinn
Laugardaginn 15. febrúar síðastliðinn var haldin fjölmenn og vel lukkuð skátagleði fyrir fjölskyldur á flótta. Verkefnið hlaut styrk úr Æskulýðssjóði og er samstarfsverkefni BÍS, Rauða krossins og Skátafélagsins Landnema. Á svæðinu voru hátt í 80 þátttakendur, sjálfboðaliðar, túlkar og aðrir sem komu að deginum. Dagskráin fór öll fram í og við skátaheimili Landnema en þar var m.a. súrrað, föndrað og grillað brauð. Boðið var upp á hádegisverð en dagskrá lauk með leikjum og skátasöng.
BÍS og Rauði Krossinn þakka kærlega öllum þeim sem stóðu að deginum og þátttakendum fyrir að mæta, taka þátt og skemmta sér með okkur.

Nýjungar á heimasíðu Skátanna

Undanfarin misseri hefur verið unnið að úrbótum á heimasíðu Skátanna. Heimasíðan hefur fengið litlar og stórar en nauðsynlegar upplyftingar ásamt því að upplýsingar og efni hefur verið einfaldað og gert aðgengilegra fyrir öll. Einnig hefur verið unnið að því að koma áður birtu efni ásamt nýju efni inn á heimasíðuna, en sú vinna er enn í gangi og mun halda áfram jafnt og þétt.
Við mælum með að vafra um síðuna til að kynnast henni og læra á hana þar sem eitthvað hefur færst til í þessum breytingum.
Það sem er nýtt á síðunni er:
Undir "Um okkur" hafa birst tveir nýjir undirflokkar sem eru "Öryggi í skátastarfi" og "Útgefið efni" ásamt flestu því efni sem þar er undir en einnig er þar reglulega efni að bætast við.

Undir "Verkfærakista" hefur "Bakpokinn" verið uppfærður og fengið nýja undirkafla. Þar má helst nefna "Dagskrárbankann" en þar munu bætast við gömul verkefni af gömlu skátamál síðunni ásamt nýjum og spennandi verkefnum frá ykkur. Hér má senda inn hugmyndir að dagskrárefni sem væri hægt að setja þar inn.

Ef farið er í "EN" í valmyndinni birtist síða með ýmsum nytsamlegum upplýsingum fyrir erlenda skátahópa sem vilja koma í heimsókn til Íslands en einnig fyrir skáta með annað móðurmál og vilja kynnast íslensku skátastarfi og finna skátafélag.








