Vetrarskátun á Úlfljótsvatni

Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í níunda sinn í útivistarparadísinni á Úlfljótsvatni um helgina. Þema mótsins að þessu sinni var heimskautaferðalangar.
Um 150 skátar skemmtu sér konunglega í frábæru veðri. Á föstudagskvöldið var setning þar sem skátarnir bjuggu til kyndla og kveiktu upp í stórum varðeld og kyrjuðu skátalög.
Að því loknu fóru eldri skátarnir að reisa tjaldbúðir til að gista í og á meðan fóru yngri skátarnir í dýrindis skátakakó og kex.
Á laugardeginum var fjölbreytt skátadagskrá þar sem tekist var á við klifurturninn, eldað hikebrauð yfir opnum eldi, byggt snjóhús, grunnur í snjóflóðafræðum var kennd en það sem stóð uppúr hjá skátunum var sleðabrekkan þar sem var rennt sér niður á öllu því sem hendi var næst. Gleðin var á hverju andliti þegar þau renndu sér niður brekkuna í frábærum vetraraðstæðum.

Fálkaskátar komu í dagsferð á laugardeginum en vegna slæmrar færðar á leiðinni austur var farið góða skoðunarferð um suðurlandið í gegnum Laugarvatn á leiðinni á Úlfljótsvatn en Fálkaskátarnir voru hamingjusamir þegar loksins var komið á Úlfljótsvatn og tóku þátt í póstaleiknum og í lok dagsferðar var kvöldvaka með skátakakó, snúðum og gómsætum kökum.
Boðið var upp á glæsilegan kvöldverð að hætti Arthurs gjaldkera SSR og eftir hann tók við næturleikur þar sem skátarnir þurftu að fanga góðar mörgæsir og forðast vondar mörgæsir til þess að fá hráefni til þess að búa til risa skilti til þess að senda neyðarboð til þess að komast aftur heim frá suðurskautinu.

Á sunnudaginn var frágangur á staðnum og stórleikur þar sem skátarnir tókust á í „capture the flag“ en sleðabrekkan var áfram afar vinsæl. Mótinu var síðan slitið með Bræðralagssöng og félögin fengu þátttökuviðurkenningar sem voru glæsilegir skildir í tilefni 10 ára afmælis vetrarmóts. Við brottför fengu skátarnir svo afhent mótsmerki fyrir vel unnin skátastörf um helgina.

Markmið með Vetrarmóti Reykjavíkurskáta er fyrst og fremst að kenna ungum skátum að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík. Sjálfboðaliðar úr skátafélögunum sjá um undirbúning og framkvæmd mótsins og eiga þau hrós skilið fyrir frábært vetrarmót og spennandi dagskrá.

Árangur, ævintýri og undirbúningur: Crean 2025 tekur síðustu skrefin fyrir stóru ferðina!

Crean 2025 sveitin er á lokasprettinum í undirbúningi sínum fyrir hina stóru ferð í febrúar. Helgin sem leið var stór áfangi, þar sem skátarnir komu saman við Skátalund í Hafnarfirði, tóku þátt í vetrarfærnis kynningum, gistu í tjöldum í -3° frosti og gengu 18km til Bláfjalla. Núna er ljóst að þau eru vel undirbúin fyrir það sem fram undan er.


Vikan í febrúar, Ævintýrið sem sameinar
Vikan í febrúar, þar sem sveitin mun sameinast 32 írskum skátum við Úlfljótsvatn, verður stútfull af ævintýrum, fræðslu og þjálfun í vetrarfærni. Skátarnir munu læra um Tom Crean, írskan suðurskautsfara, og hetjudáðir hans, sem er mikill innblástur í þessari áskorun. Auk þess munu þau fá þjálfun í rötun og kortalestri, vetrarfærnin tekur einnig á mikilvægum þáttum eins og snjóflóðum, félagabjörgun, ganga í mannbroddum, byggja snjóhús og að draga púlku.
Ekki má gleyma að ferðin er líka tækifæri til að efla vináttu og læra hvert af öðru. Skátarnir munu einnig kynnast menningu og sögu landa hvor annars í gegnum fræðslu, samskipti og samverustundir. Þetta mun dýpka skilning þeirra og auka enn frekar ríkidæmi þessa ævintýris.
Til viðbótar við þessa þjálfun mun sveitin fara í tvær upphitunargöngur í nágrenni Úlfljótsvatns og gista tvær nætur í tjaldi. Þetta verður einstakt tækifæri til að prófa búnað, byggja upp reynslu og auka sjálfstraustið fyrir stóra daginn.
Ferðin endar með göngu frá Úlfljótsvatni í skátaskálana á Hellisheiði, þar sem hópurinn mun hvíla sig og fagna vel unnu verki. Þaðan verður ferðinni haldið áfram til Reykjavíkur, þar sem henni verður lokið með hátíðlegri athöfn og pizzaveislu – fullkominn endir á þessari mögnuðu áskorun. Vetraráskorunin Crean er einstakt verkefni sem sýnir hvað hægt er að ná þegar unnið er saman með ástríðu og þrautseigju.

Dagskrárbankinn stækkar með þinni hjálp

Saman getum við hjálpast að og búið til stóran og flottan dagskrárbanka. Vegna fjölda áskorana hefur Skátamiðstöðin tekið af skarið og byrjað að setja inn efni. Við vitum að skátar og skátaforingjar eiga mikið af spennandi dagskrárefni í bakpokanum sínum sem gæti nýst öðrum. Hér getur þú skoðað efnið sem er komið inn núþegar!
Villt þú hjálpa til við að stækka dagskrárbankann? Þú getur fyllt út formið eða sent póst á skatarnir@skatarnir.is með þínum hugmyndum!
Köfuðum dýpra á Neista 2025
Nú um helgina komu hátt í 70 manns saman á Úlfljótsvatni og tóku þar þátt í Neista 2025. Neisti er árlegur helgarviðburður þar sem skátar, 16 ára og eldri, fá tækifæri til að læra nýja færni, kynnast öðrum skátum og byrja nýtt skátaár á því að viðhalda skátaneistanum sínum. Neisti í ár var með breyttu sniði en vanalega, nú völdu þátttakendur sér leið eftir áhugasviðum og nýttu helgina til að kafa djúpt í valið viðfangsefni. Leiðirnar sem stóðu þeim til boða voru þrjár; dagskrá, útivist og stjórnun skátafélaga.

Helgin hófst á setningarathöfn þar sem þátttakendum var skipt í flokka og hin sívinsæla flokkakeppni hófst. Að því loknu fóru þátttakendur í póstaleik þar sem verkefnið var að byggja kafbát sem gerði þeim kleift að kafa djúpt ofan í hafsjó þeirrar þekkingar sem þátttakendur völdu að tileinka sér. Hver leið táknaði eina stöð innan kafbátsins en það sýndi okkur einnig að þó þátttakendur væru á ólíkum leiðum yfir helgina þá virkar kafbáturinn ekki nema við séum öll að vinna saman - líkt og í skátastarfinu.
Kvöldið endaði í Ólafsbúð þar sem þátttakendur áttu huggulega stund saman við varðeldinn.
Laugardagurinn byrjaði á fánaathöfn og hláturjóga og svo byrjaði dagskráin þar sem þátttakendur dýfðu sér ofaní þá leið sem þau völdu. Þátttakendur tókust á við ýmis verkefni, bæði utandyra og innandyra og var góður andi yfir hópnum. Á meðal viðfangsefna var leikjasmiðja, táknræn umgjörð, hvernig virka stjórnir skátafélaga, og snjóflóðaýla leit.



Að kvöldi var svo komið að hinum klassísku Eldleikum og að þeim loknum var haldin öflug kvöldvaka þar sem hópurinn söng og hló saman til skiptis.


Á sunnudeginum kláruðu hóparnir sína leið og tóku svo til hendinni og gengu frá öllu eins og skátum einum er lagið.
Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega og lærdómsríka helgi, takk fyrir samveruna og takk öll sem aðstoðuðu við skipulag og gerðu helgina að veruleika.
Gleðilegt nýtt skátaár!

Kolbrún Ósk rær á ný mið

Kolbrún Ósk Pétursdóttir mun í byrjun janúar hætta sem starfsmaður Skátamiðstöðvarinnar og Skátamóta. Kolbrún hefur unnið ötult og glæsilegt starf sem viðburðastýra BÍS, mótsstjóri Landsmóts skáta 2024 á Úlfljótsvatni og stutt fararhópa og aðra viðburði á vegum BÍS.
Með þakklæti í hjarta kveðjum við Kolbrúnu Ósk og óskum henni velfarnaðar í nýjum ævintýrum í leik og starfi. Takk fyrir alla þá vinnu sem þú hefur veitt skátastarfi á Íslandi.
Opnunartími yfir hátíðarnar
Opnunartími verður takmarkaður yfir hátíðarnar en verður sem hér segir:
| Skrifstofa BÍS & Skátabúðin | |
| 20. desember | OPIÐ |
| 21.-26. desember | LOKAÐ |
| 27. desember | OPIÐ |
| 30. desember | OPIÐ |
| 31. desember | LOKAÐ |
| 1. janúar | LOKAÐ |
| Sígræna jólatréð | |
| 20. desember | 09:00 - 18:00 |
| 21. desember | 10:00 - 18:00 |
| 22. desember | 10:00 - 18:00 |
| 23. desember - 1. janúar | LOKAÐ |
Sjálfboðaliðar skátahreyfingarinnar velkomin í Skátamiðstöðina

Þann 5. desember næstkomandi er dagur sjálfboðaliðans og viljum við í Skátamiðstöðinni þakka okkar sjálfboðaliðum kærlega fyrir allt þeirra framlag til skátahreyfingarinnar og bjóða þeim að koma í Hraunbæ 123 og þyggja léttar veitingar kl. 15:00-17:00.
Sjálfboðaliðar eru ómetanlegt afl sem drífur skátahreyfinguna áfram. Sem dæmi má nefna: sinna foringjastörfum, sitja í stjórn skátafélags, vera í baklandi, byggja upp og viðhalda skátaheimilum eða skátaskálum, stýra dagskrá á viðburðum, ganga frá og þrífa eftir viðburði, taka að sér hlutverk í ráðum og nefndum, yfirfara fjölmargar eldri minjar og gamlan búnað, elda ljúffengan mat fyrir aðra sjálfboðaliða og þátttakendur, slá gras, mála byggingar, klippa tré og setja upp skilti til að undirbúa stórviðburð, vera fararstjórar og sveitarforingjar á erlendum skátamótum, bjóða fram sína sérþekkingu og kunnáttu á skátafundum eða á fræðsluviðburðum.
Sjálfboðaliðar leika líka lykilhlutverk í rekstri útilífsmiðstöðvarinnar okkar á Úlfljótsvatni. Þangað koma árlega hátt í 30 erlendir sjálfboðaliðar sem dvelja í 3-9 mánuði hver og leggja ómælda vinnu í dagskrá, matseld, þrif og viðhald. Þegar á þarf að halda er svo fjöldinn allur af íslenskum sjálfboðaliðum sem er tilbúinn að stökkva til og lyfta grettistaki.
Meðal sjálfboðaliðaverkefna sem hafa verið unnin í ár eru ótal handtök í undirbúningi fyrir landsmót, svo sem við að mála hús, slá gras, hreinsa blómabeð, hengja upp skilti, leggja vatnslagnir, setja upp sturtur, leggja göngustíga, halda við tækjum og búnaði og margt, margt fleira.
Án sjálfboðaliða væri Úlfljótsvatn ekki sá staður sem það er í dag, og þeir munu halda áfram að vera mikilvægasti drifkrafturinn bakvið áframhaldandi uppbyggingu staðarins.
Augljóst er að án sjálfboðaliðanna okkar væri varla hægt að bjóða upp á spennandi, skemmtilegt og öflugt skátastarf og erfitt er að ná almennilega yfir öll þau fjölbreyttu verkefni sem sjálfboðaliðar hafa tekið að sér í gegnum árin.
Kraftur í boði Leiðbeinendasveitarinnar
Leiðbeinendasveit skátanna hefur haft í mörgu að snúast síðastliðinn mánuð en í nóvember hefur sveitinn haldið tvö leiðtogaþjálfunarnámskeið, DróttKraft og FálkaKraft.
55 dróttskátar á Blönduósi
Skátar norðan og sunnan heiða hittust í Glaðheimum á Blönduósi helgina 15.-17. nóvember og gerðu sér glaða daga. Reyndar frestaðist ferðin til ósa Blöndu ögn vegna veðurs en við hittumst hress í hádegi á laugardag eftir gistingu í skátaheimili Landnema fyrir sunnan og skátaheimili Klakks fyrir norðan.

Þema helgarinnar var Landvættir en skátarnir áttu m.a. að finna nafnið á sínum landvætti. 55 skátar frá Akranesi, Garðbúum, Landnemum, Skjöldungum, Ægisbúum, Mosverjum, Heiðabúum og Klakki blönduðu sér í 8 flokka og unnu saman að ýmsum verkefnum, m.a. að undirbúa útilífsmiðstöð í Hrútey við Blönduós, kveiktu eld og lærðu á Hollendinga, undirbjuggu starfsáætlun og héldu æðislega kvöldvöku.

Mjög skemmtileg helgi er að baki og við vonumst til að geta tengt skátafélög víðsvegar að af landinu saman í meira mæli á næstu námskeiðum.
Við sendum þakkir til allra þátttakenda og sjálfboðaliða sem aðstoðuðu okkur við að gera þennan viðburð að veruleika!

Fyrsti FálkaKraftur fyrir norðan
Sveitarforingjar fálkaskátasveitanna Arna og Skeifa í Klakki báðu Leiðbeinendasveitina um að halda Fálkakraft hjá sér og var það okkur sönn ánægja að verða við þeirri ósk.
Námskeiðið var haldið í Valhöll laugardaginn 23. nóvember í sveitarútilegu fálkaskátasveitanna sem 15 skátar tóku þátt í. Þema námskeiðsins var heimshornaflakk þar sem skátarnir heimsóttu m.a. Palavúflugvöll og fóru í ímyndað útsýnisflug yfir Akureyri til að skoða hvar þau vilja bæta nærsamfélag sitt með því að vinna samfélagsverkefni.

Draumur fálkaskátanna í Klakki er að byggja tívolí í bænum, það verður spennandi að fylgjast með því.
Þá hönnuðu skátarnir póstaleik þar sem viðfangsefnið var skátalögin og póstarnir tengdir þeim. Sem dæmi má nefna að "Skáti er glaðvær" var túlkað með því að renna sér í snjónum niður svakalega skemmtilega brekku.
Við þökkum skemmtilegri fálkaskátasveit fyrir að fá okkur í heimsókn norðum og hlökkum til að fara í heimsókn til fleirri sveita á árinu.
Hvað gerir Leiðbeinendasveitin?
Leiðbeinendasveitin er vinnuhópur á vegum Skátaskólans. Hlutverk hennar er að sjá um leiðtogaþjálfun á vegum BÍS, undirbúa, framkvæma og meta námskeið.

Í leiðbeinendasveitinni er þegar hópur öflugra leiðtoga en það er alltaf opið fyrir einstaklinga sem eru áhugasöm um að þjálfa næstu kynslóð leiðtoga og vill auka gæði þjálfunar og fræðslu á vegum Bandalags íslenskra skáta. Leiðbeinendasveitin vinnur að því að auka leiðtogafærni og valdefla unga skáta til virkrar þátttöku í skátastarfi sem og í daglegu lífi þeirra. Leiðbeinendasveitin miðlar þekkingu sinni og reynslu til annara skáta og vinnur að því að auka áhrif skátastarfs á íslenskt samfélag.
Nánari upplýsingar um starf sveitarinnar má finna hér.
Fundur fólksins - Tölum saman daginn fyrir kosningar!
Lýðræðishátíð unga fólksins fer fram í Hörpunni 29. nóvember sem hluti af Fundi fólksins, ráðstefnu Almannaheilla.
Krökkum í 10. bekk í Reykjavík er boðið á Lýðræðishátíðina og verða þátttakendur um 150. Hátíðin byrjar kl. 10.00 í salnum Kaldalóni þar sem hópurinn fær örfyrirlestur um það að taka afstöðu og láta í sér heyra.
Eftir það verður unga fólkinu skipt í hópa og skiptum þeim niður á fleiri sali þar sem þau setjast á umræðuborð og ræða fjögur málefni. Í lokin munu þau svo kjósa um það hvað skiptir þau mestu máli.
Þau hafa óskað eftir sjálfboðaliðum til að vera umræðustjórar hjá hópunum og hvetjum við skáta, 18 ára og eldri, til að bjóða sig fram!
Þetta á að vera skemmtilegt og áhugavert verkefni fyrir sjálfboðaliða og tækifæri til að leiða hóp í málefnalegu samtali.
Hver sjálfboðaliði/umræðustjóri myndi taka að sér eitt umræðuefni og fara með fjóra hópa í gegnum það efni.
Þú getur skráð þig hér sem sjálfboðaliði. Þú getur sett inn það umræðuefni sem þú hefur mestan áhuga á, en ekki víst að við getum sinnt öllum óskum.
Að neðan eru umræðuefnin sem á að taka fyrir. Hlutverk umræðustjóra er að hvetja nemendur til að taka til máls og segja sína skoðun. Ekki verra ef umræðustjóri þekkir málefnið eða kynnir sér fyrirfram.
Umræðuefnin eru:
-
Símabann í skólum
-
Á að banna síma alfarið í skólum?
-
Ættu að vera reglur um símanotkun í skólunum?
-
Af hverju símabann? Er það raunhæft?
-
Hefur síminn áhrif á þig í skólanum?
-
Er hægt að finna aðrar leiðir svo símar trufli ekki í skólum? Eða hafi áhrif á samskipti nemenda?
-
-
Samræmd próf og inntaka í framhaldsskóla
-
Á að taka upp samræmd próf?
-
Af hverju? Af hverju ekki
-
-
Hvað finnst þér um inngönguskilyrði í framhaldsskóla í dag?
-
Veistu hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að komast inn í framhaldsskóla?
-
-
Á að færa kosningarétt til 16 ára?
-
Myndir þú vilja geta kosið á morgun?
-
Finnst þér að 16 ára ættu að geta kosið?
-
Fylgistu með kosningunum?
-
Veistu hvaða flokk þú myndir kjósa?
-
-
Samgöngumál - strætó, Borgarlína.
-
Tekur þú strætó?
-
Hvernig finnst þér strætó samgöngur?
-
Veistu hvað Borgarlínan er?
-
Myndirðu vilja fá Borgarlínu?
-







