Nýkjörin stjórn Skátagildanna á Íslandi

Stjórn: f.v.: Laufey Bragadóttir, Hjördís Sigursteinsdóttir, Guðni Gíslason, Sigríður Kristjánsdóttir og Anes Ösp Þorvaldsdóttir. Á myndina vantar Þóru Guðnadóttur.
Skátagildin á Íslandi kusu sér nýja stjórn á þingi Skátagildanna í Hveragerði, 17. maí síðastliðinn.
Skátagildið í Hveragerði sá um framkvæmd þingsins og gerðu það af miklum glæsibrag. Ólafur Proppé, landsgildismeistari setti þingið og Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, heiðraði samkomuna með nærveru sinni og hvatti til góðs samstarfs Bandalags íslenskra skáta við fjölgun skátagilda. Pétur Markan, bæjarstjóri í Hveragerði, heiðraði einnig samkomuna með nærveru sinni og flutti ávarp um ágæti skátastarfs og Hveragerðis.
Það bar til tíðinda að tvö voru í framboði til landsgildismeistara en aðeins einu sinni áður hefur það gerst, 1971, þegar Hrefna Tynes og Franch Michelsen voru í framboði. Þá sigraði Franch með einu atkvæði.
Þau Guðni Gíslason úr St. Georgsgildinu í Hafnarfirði og Þóra Guðnadóttir úr Skátagildinu í Kópavogi voru nú tvö í framboði og svo fór að Guðni sigraði með þremur atkvæðum.
Einnig voru framboð til ritara, gjaldkera og varamanns og lagði uppstillingarnefnd fram eitt nafn í hvert embætti.
Þegar kom að kjöri ritara, stakk Guðni upp á því að Þóra yrði kjörin ritari en Jóhannes Reykdal úr St. Georgsgildinu í Hafnarfirði, sem verið hafði á lista uppstillingarnefndar var tilbúinn að draga framboð sitt til baka. Þóra tók tilnefningunni og var hún sjálfkjörin ritari.
Hjördís Sigursteinsdóttir úr St. Georgsgildinu á Akureyri var sjálfkjörin sem gjaldkeri og Laufey Bragadóttir úr St. Georgsgildinu Kvisti var kjörin sem varamaður í stjórn.
Stjórn Skátagildanna á Íslandi 2025-2027 skipa:

Guðni Gíslason, landsgildismeistari
Sigríður Kristjánsdóttir, varalandsgildismeistari
Þóra Guðnadóttir, ritari
Hjördís Sigursteinsdóttir, gjaldkeri
Agnes Ösp Þorvaldsdóttir, alþjóðlegur bréfritari
Laufey Bragadóttir, varamaður í stjórn

Guðni Gíslason og Þóra Guðnadóttir

 

Stefnuræður beggja frambjóðenda til landsgildismeistara voru álíkar, en í kynningu Guðna sagði:
  • Að efla kynningarstarf og gera gildisstarfið meira áberandi
  • Að efla tengsl skátagildanna
  • Að hvetja til fjölgunar í starfandi gildum
  • Að hvetja til stofnunar nýrra skátagilda
  • Að efla enn fremur samstarf við BÍS og skátafélögin
Guðni sagðist í samtali við skátavefinn vera spenntur fyrir nýju hlutverki með góðu fólki. „Mikilvægt er að efla þekkingu almennra skáta og eldri skáta á Skátagildunum en borið hafi á því að almenningur hafi ekki tengt við skátastarf þau heiti sem notuð hafa verið, landsgildi og St. Georgsgildi. Ég fagna orðum skátahöfðingja um aukið samstarf og veit að hugur fylgir máli. Skátagildin eru mikilvægur bakhjarl skátafélaganna og væri ánægjulegt ef hægt væri að skátagildi væri starfandi með hverju skátafélagi. Víða eru bakhjarlar sem væri gott að fá til samstarfs við Skátagildin á Íslandi. Ég hef sjálfur verið skáti í 60 ár og man vel eftir þeim gildisskátum sem voru sterkir bakhjarlar í mínu félagi, Hraunbúum.
Fyrsta verk nýrrar stjórnar verður að marka starf samtakanna til næstu tveggja ára í góðu samstarfi við alla gildismeistara.“

Á þinginu var samþykkt tillaga fráfarandi stjórnar að styrkja Karmelsystur í Hafnarfirði um 500 þúsund kr. til byggingar hjúkrunardeildar við klaustrið en Karmelsystur hafa hýst Friðarlogann í góðu samstarfi við Skátagildin í fjölmörg ár.

Fjögur fengu heiðursmerki Skátagildanna
Fjórir skátar voru heiðraðir fyrir störf sín fyrir skátagildin, þau Þorvaldur J. Sigmarsson, Kristleifur Gauti Torfason, Sigríður Kristjánsdóttir og Hrefna Hjálmarsdóttir.
Eftir ánægjulegt þing var Hespuhúsið í Ölfusi skoðað og um kvöldið var hátíð Skátagildanna haldin í Skyrgerðinni þar sem félagar fóru á kostum í skemmtiatriðum.
Heiðranir: F.v.: Þorvaldur J. Sigmarsson, Kristleifur Gauti Torfason, Sigríður Kristjánsdóttir, Hrefna Hjálmarsdótti og Ólafur Proppé fráfarandi landsgildismeistari.

Fararstjórar á Jamboree í Póllandi 2027

Stjórn BÍS hefur falið þeim Dagbjörtu Brynjarsdóttur og Dagmari Ýr Ólafsdóttur það hlutverk að vera fararstjórar fararhóps BÍS á Jamboree í Póllandi 2027.

Dagbjört eða Dagga eins og hún er ávallt kölluð kemur úr Mosverjum og Dagmar kemur úr Skjöldungum, þær hafa verið í skátaflokk saman í mörg ár, eru Gilwell skátar og hafa unnið að ýmsum skátaverkefnum saman, stórum og smáum.

Þeim hlakkar til að takast á við það verkefni að leiða fararhóp BÍS á alheimsmót í Pólandi þar sem „Hugrekki“ er slagorð mótsins!

Okkur hjá BÍS hlakkar til samstarfsins og óskum þeim til hamingju með nýtt hlutverk!


Hlutu styrk úr Loftlagssjóði ungs fólks

Mynd: Félag Sameinuðu þjóðanna - Pétur Hjörvar Þorkelsson.

Ungmennaráð BÍS hlaut styrk úr Loftlagssjóði ungs fólks og tóku við styrknum í Höfða í gær. Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að sjá verkefnið þeirra "Tré og tjútt" verða að veruleika 🎊
Emil Kjartan Valdimarsson og Þorkell Grímur Jónsson fulltrúar Ungmennaráðs tóku við styrknum. 

Tré og tjútt í Esjuhlíðum er viðburður þar sem tré eru gróðursett í Esjuhlíðum ásamt útilegu, fræðslu og gerð kynningarefnis um náttúru og gróðursetningu.

Mynd: Félag Sameinuðu þjóðanna – Pétur Hjörvar Þorkelsson.

Tóku þátt í vetrarskátun

Fréttin birtist fyrst hjá akureyri.net og er birt með leyfi.

Skíðasamband skáta stendur árlega fyrir dagskrá í „vetrarskátun“ sem endar með 4-5 daga gönguferð á skíðum um páska sem kallast ÍSHÆK. Í ár fóru tíu vaskir skátar í leiðangurinn og var stefnan sett að Gili suður af Fjörðum.

Vetrarskátun er dagskrá fyrir skáta, 14 ára og eldri, þar sem lögð er áhersla á kennslu á gönguskíðum utan brautar og ferðamennsku að vetri. Það eru skátar úr Skátafélaginu Klakki á Akureyri sem halda utan um verkefnið og sjá um skipulagningu undir merkjum Skíðasambands skáta. Dagskráin er í boði fyrir skáta alls staðar að af landinu.

Yfir veturinn eru reglulegar skíðaæfingar þar sem hinar ýmsu listir utanbrautarskíða eru reyndar og þátttakendur æfa sig í að rata. Skátunum gefst einnig kostur á að taka þátt í útilífsnámskeiði yfir helgi þar sem þeir læra það helsta um útivist, svo sem klæðnað, búnað, matarræði, skyndihjálp, skíðabúnað og margt fleira. Þátttakendur gista eina nótt inni, en seinni nóttina í tjaldi. Námskeiðið er að mestu leyti verklegt og fer að stórum hluta fram utandyra.

Þeir skátar sem náð hafa 16 ára aldri, ljúka útilífsnámskeiðinu, tilteknum fjölda skíðaæfinga og standast rötunarpróf eru svo gjaldgengir í lokaþolraunina, ÍSHÆK og bikarmót Skíðasambands skáta.

ÍSHÆK 2025

Það voru tíu vaskir skátar sem lögðu af stað í ÍSHÆK laugardaginn 12. apríl og var stefnan sett að Gili suður af Fjörðum. Gengið var frá bílaplaninu neðan Kaldbaks, upp Grenjárdal og niður Trölladal um 14 km leið uns komið var að ferðaskála að Gili þar sem hópurinn hafði bækistöð í ferðinni. Veður var með ágætum en snjóalög frekar slök sökum hitatíðar dagana á undan. Þótt hópurinn þyrfti að ganga með skíðin á bakinu frá Finnastaðatungum miðaði honum vel en skátarnir voru þó hvíldinni fegnir í lok þessa fyrsta dags þegar komið var á áfangastað.

Á Pálmasunnudegi hafði veðrið versnað nokkuð, skátarnir létu það þó ekki á sig fá og var farið í dagsferð frá Gili og gengið upp fjallshlíðina austan við á, upp Illagil og til baka. Byrjað var að blása og kólna og þar sem spáin fyrir mánudaginn var ekki sem best var ákveðið að taka forskot á bikarmót Skíðasambands skáta, sem til stóð að halda daginn eftir. Það reyndist skynsamlegt því á mánudeginum var slagviðri; bálhvasst og úrkoma. Ferðalangarnir héldu sig því mest innandyra þann dag, en luku þeim keppnisgreinum sem eftir voru af bikarmótinu í kringum skálann.

Bikarmótið

Hefð er fyrir því að halda bikarmót Skíðasambands skáta í ferðinni. Keppt er í ýmsum þolraunum s.s. spjótkasti, skíðasvigi, spretthlaupi o.fl. Þá tíðkast, segja skátar í léttum dúr, að múta megi – eða hreinlegi eigi að múta – dómurum til að auka vegferð keppanda að hinum mikla heiðri sem felst í því að fá nafn sitt á forláta farandbikar sem sigurvegarinn hlýtur í verðlaun! Að keppni lokinni var það Anton Dagur Björgvinsson sem bar sigur úr bítum og hefur þannig ritað nafn sitt rækilega í sögu ÍSHÆK.

Á þriðjudeginum var pakkað saman og skíðuðu skátarnir sem leið lá ríflega 16 km suður um Leirdalsheiði uns komið var til byggða. Súlur – Björgunarsveitin á Akureyri – sá um að ferja skátana í sund þar sem ferðarykið var skolað af mannskapnum og tröllasögur úr ferðinni sagðar í pottinum.


Sækjum fram - skátar í hverri höfn

Skátaþing var haldið helgina 4.-6. apríl í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Yfirskrift þingsins var "sækjum fram - skátar í hverri höfn" og vísar það til hringferðar sem verið er að leggja í með það að markmiði að fjölga skátafélögum og veita fleiri börnum og ungmennum tækifæri á því að stunda skátastarf. Skátaþing var einkar vel sótt og voru þátttakendur um 150 talsins. Kjörbréf voru 58 og voru 50% atkvæða í höndum ungmenna á aldrinum 13-25 ára.

Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, setti þingið og ávarpaði þingheim. Í ávarpinu kom hún inná hvað skátastarf hefur þróast og dafnað undanfarin tæp 120 ár og á enn jafn vel við í dag og þá. Enn er skátastarfið að skila sínu til samfélagsins, stuðla að frið, efla ungt fólk til ábyrgðar og halda tengslum við upprunan og náttúruna. Þá talaði hún einnig um hvernig síðustu ár hafa farið í að styrkja innviði skátastarfs, hvatakerfið, uppbyggingu viðburða og fleira og þess vegna er skátahreyfingin tilbúin að sækja fram og efla skátastarf í landinu.

Heiðursmerki voru veitt fyrir ýmis vel unnin störf og voru það eftirfarandi sem hlutu heiðursmerki:

Þjónustumerki BÍS úr gulli:
Alex Már Gunnarsson, Vífill, fararstjórn Roverway
Halldóra Hinriksdóttir, Landnemar, fararstjórn Roverway
Valdís Huld Jónsdóttir, Vífill, fararstjórn Roverway
Þóra Lóa Pálsdóttir, Hraunbúar, fararstjórn Roverway

Þórshamarinn úr bronsi:
Bjarni Freyr Þórðarson, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Haukur Friðriksson, Ægisbúar, fráfarandi félagsforingi Ægisbúa

Skátakveðjan úr bronsi:
Claus Hermann, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Þórey Valgeirsdóttir, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði

Skátakveðjan úr gulli:
Guðni Gíslason, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði

Bronskrossinn:
Anna Kristjana Öfjörð Helgadóttir, Klakkur.
Fyrir rétt viðbrögð við slysi á dróttskátamóti í Viðey þar sem skáti ökklabrotnaði. Anna tók stjórn á aðstæðum, hlúði að skátanum og veitti aðstoð við andlega skyndihjálp, lét útbúa börur og stýrði því að skátanum var komið ferjuna til að fá aðstoð við hæfi á Landspítalanum.

Matthildur Guðrún Hlín Leósdóttir, 8 ára, Heiðabúar.
Fyrir að sýna hárrétt viðbrögð þegar það rofnaði kransæð hjá móður hennar og þær tvær einar heima. Hún lét móður sína hringja í 112 og beið róleg með henni þar til sjúkraflutningamenn komu og fylgdi henni alla leið á hjartagáttina sem stuðningur. 

Silfurkrossinn:
Jón Andri Helgason, Árbúar.
Fyrir hetjulega björgun á Crean þar sem írskir skátar misstu fótana í straumharðri á sem þeir reyndu að þvera. Jón Andri Stakk sér á eftir þeim og kom þeim að lokum í land, blautum en afar þakklátum fyrir lífgjöfina.

 

Almenn þingstörf fóru fram fyrri hluta laugardags og var þar kosið um lagabreytingatillögur og rætt um ýmis mál. Að þingstörfum loknum voru haldnar vinnusmiðjur  þar sem starfsráð kynnti færnimerki, R.s. Snúðar kynntu færnifant sem er nýtt færnimerkjaspil og alþjóðaráð fræddi fólk um hvað þau geta gert á eigin vegum í alþjóðastarfi. Einnig voru Úlfljótsvatn, Hraunbyrgi og Hamrar með umræðusmiðju um skátamiðstöðvar á Íslandi og tækifærin sem þar liggja. Vinnuhópur Hringferðarinnar var með tvær smiðjur, annars vegar um fjölgun sjálfboðaliða og hinsvegar um fjölgun skátafélaga. Þá var einnig smiðja um skátasambönd.

Hátíðarkvöldverður var haldin á laugardagskvöldinu þar sem Jakob Burgel veislustýrði með miklum glæsibrag og Elfa Dögg reytti af sér brandarana.

Sunnudagurinn var tileinkaður stefnumótun þar sem um 80 skátar mættu og fóru yfir það sem vel var gert í stefnunni sem klárast í ár en jafnframt var horft fram á við og hvaða markmið skátahreyfingin vill sjá í stefnu 2026 - 2030. Stærstur hluti þeirra sem komu að þessari undirbúningsvinnu nýrrar stefnu voru ungmenni og erum við stolt af því að rödd þeirra muni sjást og heyrast í næstu stefnu. Smiðjan um stefnuna var þó einungis upphafið að vinnu við gerð nýrrar stefnu og kemur hún til með að lýta dagsins ljós í upphafi árs 2026.

 


Skátaþing var sett í gærkvöldi

Skátaþing var sett í gærkvöldi með hátíðlegri setningarathöfn sem var einkar vel sótt en yfir 160 manns sóttu setninguna. Skátaþing fer fram í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og eru gestgjafar þingsins skátafélagið Hraunbúar. Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, setti þingið og ávarpaði þingheim.

Ávörp fluttu Ólafur Proppé landsgildismeistari, Bjarni Freyr Þórðarson félagsforingi Hraunbúa og Ágúst Þorsteinsson fyrrverandi skátahöfðingi.

Veitt voru heiðursmerki og hetjudáðarmerki, en sjaldgæft er að hetjudáðamerki séu afhent.

Hetjudáðarmerki hlutu:

Anna Kristjana Helgadóttir, skátafélaginu Klakki, fyrir rétt viðbrögð þegar dróttskáti ökklabrotnaði í Viðey.

Jón Andri Helgason, skátafélaginu Árbúum, fyrir lífsbjörg þegar Crean farar misstu fæturnar í straumharðri á fyrr á árinu.

Matthildur Guðrún Hlín Leósdóttir, 8 ára, skátafélaginu Heiðabúum, fyrir rétt viðbrögð þegar hún og móðir hennar voru tvær heima og kransæð rofnaði hjá móður hennar. Matthildur lét móður sína hringja í 112 og hlúði að móður sinni þar til sjúkrabíll kom.

Nokkur skemmtileg verkefni voru kynnt þingheim en það voru kynningar á samstarfi skátamiðstöðva á Íslandi, Landsmóti skáta 2026, hringferð sem verið er að leggja í en markmið hennar er að fjölga skátum og skátafélögum í landinu. Að lokum var kynnt hughrifaherferð og sýnt var frá fyrsta tökudegi hennar.

Skemmtilegt er að segja frá því að 50% atkvæða þingsins eru í höndum ungmenna á aldrinum 13-25 ára.

Þingstörf halda áfram í dag 5. apríl en þinginu lýkur á morgun.


Erindreki landsbyggðar og verkefnastjóri viðburða

Markmið með starfi erindreka er að efla starf skátafélaga í landinu og vinna að því að fjölga skátum í starfi með stuðningi við skátafélög ásamt því að vinna að og eftir atvikum leiða verkefni sem stuðla að aukinni þátttöku í skátastarfi.

Leitað er eftir að erindreki sýni mikið frumkvæði og eigi auðvelt með að vinna með ungu fólki, sé framfærin, geti unnið sjálfstætt, skipulagt verkefni og stýrt verkefnum jafnt sem að vinna í hópastarfi. Óskað er sérstaklega eftir því að Erindreki þessi sé búsett á landsbygðinni og þá sérstaklega á norðurlandi.

Erindreki á að vera mikið í beinum samskiptum við skátafélög á landsbyggðinni og sveitastjórnir/bæjarstjórnir eftir tilvikum – í samráði við framkvæmdastjóra BÍS.

Í starfi þessu felst einnig viðburðastjórnun í samstarfi við annað starfsfólk BÍS og í samráði við starfsráð. Sérstök áhersla verður lögð á stuðning við mótsnefnd Landsmóts skáta sem haldið verður á Hömrum, Akureyri árið 2026 auk annarra viðburða.

Vinnutími er sveigjanlegur, starfsaðstaða einnig og gert er ráð fyrir því að erindreki sé töluvert á ferðinni í heimsóknum til skátafélaga, forsvarsmanna sveitarfélaga og stuðningsaðila skátastarfs.

Helstu verkefni og ábyrgð

Erindrekstur

  • Veita stuðning við uppbyggingu skátastarfs, fjölgun skátafélaga og skáta í starfi
  • Samtal og samvinna með sveitastjórnum/bæjarstjórnum eftir tilvikum
  • Styðja við verkefni fyrir skátafélög í landinu sem tengjast skátaaðferðinni og dagskrármálum
  • Stuðningur við foringja og stjórnir skátafélaga
  • Miðla upplýsingum á heimasíðu skátanna
  • Aðstoð við fræðslumál og námskeiðahald í skátastarfi
  • Aðstoða skátafélög við styrkumsóknir

 

Viðburðastjórnun

    • Styðja mótsstjórn Landsmótar skáta 2026 í undirbúningi
    • Samskipti við erlenda skátahópa
    • Skráningar (innlendra og erlendra skáta) á Landsmót
    • Rútuferðir, skráningar, skipulag og utanumhald á ferðum innlendra og erlendra skáta (pre & post tours) ásamt samskiptum við birgja.
    • Vinna að markaðssetningu Landmóts í samvinnu við mótsstjórn og markaðsstýru BÍS

 

Menntunar- og hæfniskröfur
  • Menntun sem nýtist í starfi
  • Góð almenn tölvukunnátta
  • Reynsla af skipulagningu og stjórnun verkefna/viðburða
  • Mjög sjálfstæð vinnubrögð og afburða frumkvæði
  • Eftirfylgni með verkefnum
  • Góð mannleg samskipti og með góða, jákvæða og hvetjandi framkomu
  • Eiga auðvelt með að vinna með öðrum og virkja fólk
  • Nauðsynlegt að hafa mikla reynslu og brennandi áhuga á skátastarfi, með þekkingu á stöðu skátastarfs á Íslandi í dag og hafa verið virk/ur í starfi undanfarin ár
  • Geta til þess að vinna undir álagi
Fríðindi í starfi
  • Sveigjanlegur vinnutími
  • Fjölskylduvæn stefna
  • Heilsustyrkur
  • Hvetjandi starfsumhverfi

Sækið um hér https://www.alfred.is/starf/erindreki-landsbyggdar-verkefnastjori-vidburda


16 rekkaskátar sæmdir forsetamerkinu

Mynd: Andrea Dagbjört

Skemmtileg og óhefðbundin fyrsta athöfn nýs forseta

16 ungir skátar hlutu forsetamerkið laugardaginn síðastliðinn , 29. mars, við skemmtilega og einlæga athöfn í Bessastaðastofu . Er þetta í fyrsta sinn sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhendir forsetamerkið en hún er verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi. Því afhenti Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, Höllu gullmerki Bandalags íslenskra skáta en í þakkarorðum Hörpu sagði hún það mikinn heiður fyrir skáta að Halla hafi fallist á það að vera verndari skátahreyfingarinnar og þannig viðhalda þeirri hefð sem af­hend­ing for­seta­merk­is­ins hef­ur verið í skát­a­starf­inu. Í athöfninni fluttu tvö úr hópi forsetamerkishafa, Alma Sól Pétursdóttir og Viktor Nói Bergs stutta hugvekju þar sem þau stikluðu á stóru gegnum vegferð sína að forsetamerkinu. Hugvekjuna má finna hér að neðan.

Forsetamerkið er veitt rekkaskátum, 16-18 ára, sem hafa valið að vinna að merkinu samhliða starfi sínu. Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingunnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátanna til persónulegs vaxtar í gegnum 20 fjölbreytt verkefni.

Auk þess þurfa skátarnir að sækja 5 daga alþjóðlegt skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil, dæmi um þetta er að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn félags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaskála og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug. Hér má lesa nánar um forsetamerkið.

 

Forsetamerkishafar Viktor Nói Bergs og Alma Sól Pétursdóttir fóru með hugvekju. Mynd: Andrea Dagbjört

 

Hugvekja nýrra forsetamerkishafa
Alma Sól Pétursdóttir og Viktor Nói Bergs

Alma: Frú forseti, ágætu skátar og kæru aðstandendur.

Í dag rennur upp skemmtilegur og merkilegur dagur í skátalífi okkar þar sem við erum hér til að taka við viðurkenningu fyrir að hafa stundað þróttmikið skátastarf og leyst samvisku- samlegan lista af verkefnum. Venjulega er þessi athöfn haldin í Bessastaðakirkju en í dag fáum við að standa hérna í stofu forsetans. Sumir munu reyna telja ykkur trú um að þetta sé bara neyðarráðstöfun, en ég er viss um að forestanum þyki bara svo vænt um okkur að hún vilji hafa okkur í stofunni sinni.

Verkefni forsetaembættisins eru fjölbreytt og margvísleg, en ég held að við getum öll verið sammála um að það mikilvægasta sé að vera verndari Skátahreyfingarinnar.

Litla bláa bókin sem hefur fylgt okkur í vasanum alla þessa ferð, eins og bakpoki fyrir hugmyndir og minningar, er eflaust fremur krumpuð og sjúskuð eftir fjögurra ára ferð. Nema náttúrulega hjá þeim sem skrifuðu allt í bókina daginn fyrir skil. Þær bækur eru með mjög sléttar og fínar blaðsíður. Það verður gaman að geta flett í gegnum bókina og að geta munað eftir öllum spennandi (og skrítnu) hlutunum sem maður hefur gert í nafni skátanna.

Viktor: Þetta er tíminn þar sem við fáum að prófa sjálf. Leggja í ferðalög eins okkar liðs sem við skipuleggjum kannski með öðrum jafnöldrum. Það sem er pínu frábrugðið mínu ferli frá öðrum er að ég vann stóran part af mínu úti í Danmörku. Ferðalagið sem ég lærði mest af var þegar við héldum út í skóg og ætluðum að kveikja saklausan eld sem endaði heldur betur ekki svoleiðis. Eldurinn hætti bara ekki að stækka og hann var orðin það stór að ég hringdi í Halldór, gamla skátaforingjann minn, í algjöru paniki að spurja hvað í andskotanum ég ætti að gera næst.

Alma: Ef þú hefðir sagt mér fyrir fjórum árum að ég myndi fara í fimm daga ferð sem væri plönuð aftan á kexpakka daginn eftir að við skipulögðum hana, eða hjólað 50 kílometra hefði ég líklega- dáið úr hjartaáfalli. Skipulagða litla ég hefði aldrei trúað því að ég gæti gert nokkuð án fyrirvara.

Viktor: Það er í þessum ferðalögunum sem maður skipuleggur sjálfur og sérstaklega þegar eitthvað fer úrskeiðis sem maður lærir mest, hvernig fór ferðin og hvað hefði mátt fara betur, við lærum að axla ábyrgð og standa á eigin fótum. En þessi ferð er auðvitað æfing í því að stíga út fyrir þægindaramman.

Alma: Fyrir mörg okkar er Skátahreyfingin griðastaður í hversdeginum. Vettvangur vináttu, þar sem við vinnum saman að því að efla okkur sem einstaklingar með því að gera okkar besta, samfélaginu til heilla.

Viktor: Hinsvegar væri ekkert af þessu hægt ef við værum ekki með þennan frábæra foringja hóp sem alltaf er hægt að leita til og verð ég að fá að þakka Halldóri Valberg fyrir að gefa mér fullt af ógleymanlegum minningum, og auðvitað fyrir að hjálpa mér að sauma merkin á skyrtuna mína í gærkvöldi. Það er nefnilega ótrúleg vinna sem fer í foringja starf og nú þekkjum við það flest sjálf, það er ótrúlega gefandi að fá að kenna litlu skátunum okkar það sem við höfum lært á skáta árunum okkar. Og eins og rannsóknir hafa sýnt fram á eru sjálfboðaliðar að meðaltali hamingjusamari en aðrir.

Alma: Og elsku foreldrar, takk fyrir þolinmæði ykkar gagnvart skrítnum verkefnum og unglingastælum.

Viktor: Þetta ferli hefur verið ótrúlega skemmtilegt og ef ekki skemmtilegasti tími lífs míns, en það er magnað hvað þetta getur gleymst hratt og þess vegna er svo einstakt að eiga þessa bók og getað rifjað upp allt þetta ferli.

Alma: Einhver gæti spurt: Hvernig í ósköpunum gerum við heiminn betri með því að ferðast 40 kílómetra undir eigin afli, eða ganga á jökli en með því að gera slíka hluti lærum við að vinna saman, setja okkur markmið og fylgja þeim eftir. Og auðvitað verður þetta pínulítil keppni. Og eins og allar keppnir sem skipta einhverju máli er þetta keppni við okkur sjálf. Sem við keppum samt í með aðstoð annara. Til þess að gera samfélagið okkar betra þurfum við að byrja á því að vinna í okkur sjálfum. Svo að við getum tekist á við áskoranir saman, og vinna til góðs.

Viktor: Að segja fólki að þú sért skáti getur verið erfitt. Fólk hefur mjög skýra steríótýpu teiknaða í hausnum sem eiga líklega uppruna sinn úr amerískum bíómyndum. Ofurskátinn sem bindir hnúta, tálgar spítur og hjálpar gömlum konum yfir götur. Þetta er ekki endilega staðalímynd sem að margir skátar tengja við í dag, en er jú að vissu leyti hluti af því sem að við gerum í skátastarfi, nema við gerum oft svo miklu meira. Í skátastarfi kynnist maður frábæru fólki og eignast vini til eilífðar. Vináttan er ástæðan fyrir því að við höldum áfram að mæta á fundi og bíðum spennt vikum saman eftir næsta viðburði. Ég er handviss um að flestum þætti mjög gaman í skátunum eða allavega eftir að þú fattar þennan aula húmor. Það sem ég elska við skátana er að ég fæ að vera ég sjálfur, það er enginn hér til þess að dæma einn né neinn og allir eru bara eins og þeir eru.

Í skátunum hef ég þroskast mikið en á sama tíma fengið að leika mér eins og barn. Það er svo mikilvægt að hætta aldrei að leika sér því fyrst þá nær aldurinn þér og þú verður gamall lúinn og fúll. Höldum áfram að leika okkur, höldum áfram að vera vinir. Því saman getum við gert heiminn að betri stað.

 

Forsetamerkishafar úr 6 félögum

Eftirfarandi rekkaskátar úr 6 skátafélögum hlutu forsetamerkið á Bessastöðum 29. mars 2025 og bættust í hóp 1462 forsetamerkishafa frá upphafi.

Úr Árbúum:
Jón Björn Richardsson Yeo

Úr Garðbúum:
Brynjar Ingi Ágústsson
Daníel Eiríksson
Tinna María Antonsdóttir

Úr Hraunbúum:
Brynhildur Þorbjörg Þórhallsdóttir
Guðni Hannesson
Gunnsteinn Hjalti Jónsson
Kjartan Ingólfsson
Sara Elísabet Jónsdóttir

Úr Vífli:
Arnar Freyr Hallgrímsson
Jóhann Thomasson Viderö

Úr Svönum:
Birta Dís Gunnarsdóttir
Viktor Nói Bergs

Úr Ægisbúum:
Alma Sól Pétursdóttir
Hildur Þórey Sigurbjörnsdóttir
Höfni Gylfason ( Rs. Snúði)

 

Mynd: Andrea Dagbjört

 

 

 


Skátamiðstöðin lokuð vegna Skátaþings

Skátamiðstöðin verður lokuð föstudaginn 4. apríl og mánudaginn 7. apríl vegna Skátaþings.


Sjóræningjar í Vesturbæ

Þrátt fyrir rok og rigningu var Drekaskátadagurinn 2025 haldinn hátíðlegur í Vesturbænum laugardaginn 2. mars. Skátafélagið Ægisbúar skipulagði viðburðinn, sem er ætlaður drekaskátum á aldrinum 7 til 9 ára. Um 124 skátar frá 10 mismunandi skátafélögum tóku þátt í deginum, sem var með sjóræningjaþema.

Dagurinn hófst með risahókípóki þar sem krakkarnir vöktu Vesturbæinn með gleði og fjöri. Eftir það tóku skátarnir þátt í hópleikjum og ratleik um Vesturbæinn. Í ratleiknum áttu skátarnir að leysa ýmsar þrautir, þar á meðal að taka myndir af þremur leiðum með nafninu Anna í Hólavallakirkjugarði.

Þrátt fyrir óhagstætt veður stóðu krakkarnir sig mjög vel og héldu í góða skapið eins og sannir sjóræningjar. Í hádeginu voru borðaðar pylsur, sem var án efa hápunktur dagsins fyrir marga. Eftir ratleikin fengu drekarnir kex og kakó í von um að fá smá hita í kroppinn.

Ægisbúar þakka fyrir frábæran dag og góða mætingu.


Privacy Preference Center