Úr Ragnaroki í Costa del Úlfljótsvatn

Ævintýri á Fálkaskátamóti

Síðastliðna helgi mættu 180 skátar af öllu landinu á Þingvelli á Fálkaskátamót þar sem framundan beið þeim stútfull dagskrá og fjör að víkingasið. Þátttakendurnir voru fljótt fluttir 800 ár aftur í tímann til að hjálpa Snorra Sturlusyni og fleiri höfðingjum að afstýra Ragnarökum sem voru yfirvofandi. Sú spá rættist heldur betur þegar þátttakendur vöknuðu morgunin eftir við fjúkandi tjöld, sem varð til þess að mótið var fært yfir á Úlfljótsvatn. Færsla mótsins gekk vonum framar, þar sem samtakamáttur skátahreyfingarinnar skein í gegn. Skátar mættu úr öllu áttum til að hjálpa til og stuttu seinna var risin ný tjaldbúð á Úlfljótsvatni. Skátarnir létu ekki flutningana slá sig út af laginu og nýttu sér þá frábæru dagskrámöguleika sem Úlfljótsvatn hefur upp á að bjóða; að klifra í klifurturninum, sigla á bátum, föndra, heimsækja Skátasafnið og fara á ótal kvöldvökur svo eittvað sé nefnt. Hápunkturinn var þó gleðigangan og diskóblótið, hinsegin partý mótsins. Skátarnir fagna jú alltaf fjölbreytileikanum, þó þeir skipuleggi óvart skátamót á hinsegindögum. Eftir að hafa séð samtakamátt, vinsemd og bræðralagið milli ættana á mótinu ákváðu höfðingjarnir að koma á friði, sem reyndist vera það sem þurfti til að koma í veg fyrir Ragnarök. Að lokum gátu skátarnir því snúið aftur til síns tíma. Því má segja að þrátt fyrir erfiðar aðstæður gekk mótið vonum framar, þökk sé mikilli samvinnu og ómetanlegri aðstoð foringja og sjálfboðaliða mótsins. Allir fálkaskátarnir komu heim með bros á vör, reynslunni ríkari.


Tuttugu Ægisbúar í ógleymanlegri ferð til Vässarö

Eftir tveggja ára undirbúning varð ferðin loksins að veruleika. Dróttskátasveitin Hvíta Fjöðrin í Ægisbúum hélt í ævintýralega ferð til Vässarö í Svíþjóð dagana 21. - 28. júlí 2025. Eyjan er í eigu skáta frá Stokkhólmi og tekur hún á móti tugi þúsunda skáta á hverju ári. Hópurinn samanstóð af 20 þátttakendum (16 dróttskátum, 2 foringjum og 2 foreldrum) sem lögðu öll upp í ferð sem mun seint gleymast.

Fyrstu nóttina var gist í skátaheimili Sancta Maria Scoutkår í Stokkhólmi, þar sem hópurinn fór saman út að borða á pizzastað og upplifði stemninguna í borginni. Áður en ferðalagið til eyjunnar sjálfrar hófst var kíkt í verslunarmiðstöð til að klára síðustu innkaup. Þá tók við fimm klukkustunda ferðalag með lestum og strætisvögnum að bryggjunni þar sem bátur beið okkar. Bátsferðin til Vässarö var um 30 mínútur í frábæru veðri með fallegu útsýni yfir sænsku eyjarnar í kring. Við komuna beið okkar traktor sem flutti allar töskurnar á tjaldsvæðið. Þar fengum við afhendan allan þann tjald- og eldunarbúnað sem að við þurftum. Efrir að tjöldin voru reist endaði fyrsta kvöldið á sjósundi og heimsókn í saununa við bryggjuna.

Þó svo að moskítóflugurnar væru heldur ágengar í ljósaskiptunum létu skátarnir það ekki á sig fá. Dagskráin á Vässarö var fjölbreytt og skemmtileg. Í boði voru siglingar á seglskútum, kajakferðir, padel board, klifur, göngur, leikir og endurnærandi ferðir í saunu og sjó. Skátarnir reistu eigin tjaldbúð og skiptust á að elda máltíðir fyrir hópinn. Tveir skátar tóku þá ákvörðun að sofa í hengirúmum alla vikuna, sem gekk ótrúlega vel og stór og glæsileg fánastöng var reist í miðju tjaldbúðarsvæðinu. Froskarnir á eyjunni létu ekki sitt eftir liggja og kíktu iðulega í heimsókn í tjöldin, sem vakti mikla kátínu.

Eftir sex dásamlega daga á Vässarö var komið að kveðjustund. Hópurinn hélt aftur heim á leið með stuttu stoppi á McDonalds á flugvellinum sem þótti skemmtilegur endapunktur á ferð sem einkenndist af gleði, samvinnu, náttúru og ævintýrum.

Ferðin til Vässarö var einstök upplifun fyrir Dróttskátana og er sannarlega eitthvað sem fleiri skátafélög ættu að íhuga.

Dagur Sverrisson, sveitarforingi Hvítu Fjaðrarinnar


Skátar fagna fjölbreytileikanum

Skátastarf snýst um miklu meira en að binda hnúta og ganga á fjöll. Skátastarf snýst um að finna sitt fólk, læra að treysta sjálfu sér og öðrum og finna öryggið til að vera nákvæmlega þú sjálft. Fyrir hinsegin ungmenni getur það skipt sköpum að tilheyra hópi þar sem fjölbreytni er ekki bara liðin heldur fagnað. Þátttaka skátanna í Gleðigöngunni er löngu orðinn fastur liður í dagskrá sumarsins en Hjálpasveit skáta í Reykjavík hefur tekið þátt í göngunni með skátunum frá upphafi. Með þátttökunni sýnum við ungu skátunum okkar í verki að skátahreyfingin sé staður þar sem þau geta verið þau sjálf, að við stöndum með mannréttindum og fögnum fjölbreytileikanum.

En skátar tóku ekki aðeins þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík á laugardaginn var heldur var fjölbreytileikanum einnig fagnað á Fálkaskátamóti á Úlfljótsvatni um helgina. Hátt í 180 fálkaskátar, foringjar og sjálfboðaliðar dönsuðu og gengu frá Friðarlautinni upp í KSÚ þar sem haldið var eftirminnanlegt diskóblót í ljósaskiptunum. Myndirnar tala fyrir sig.

Þá var Elín Esther Magnúsdóttir, rekstrarstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni ein af þremur viðmælendum í þættinum Hinsegin dagar, vikur, mánuðir, ár sem sýndur var sunnudaginn 10. ágúst í tilefni hinsegin daga. Viðtalið er einlægt, skemmtilegt og hvetjandi en Elín Esther er frábær fyrirmynd fyrir unga skáta. Horfa má á þáttinn hér en innslagið með Elínu hefst á 29. mínútu.


Lokað yfir verslunarmannahelgina

Lokað verður í Skátamiðstöðinni mánudaginn 4. ágúst vegna frídag verslunarmanna. Skátamiðstöðin opnar aftur þriðjudaginn 5. ágúst.


Íslendingar í Vín: Sjö skáta fararhópur fer á evrópuþing skáta fyrir hönd Íslands:

Í síðustu viku fóru fram Evrópuþing WOSM og WAGGGS og voru haldin í Vínarborg í Austurríki. Fararhópurinn fór út á föstudaginn þann 18. júlí og komu heim á fimmtudaginn þann 24. júlí. Fyrir hönd BÍS fóru sjö skátar út, tvö á WAGGGS þingið og fimm á WOSM þingið.

Á þinginu var margt að gera. Farið var yfir nýjar stefnur Evrópudeildar skátahreyfingunnar sem mun gilda næstu þrjú ár, kosið var í stjórnir Evrópudeildar hreyfinganna WOSM og WAGGGS og svo voru áskoranir á stjórnirnar sem voru fjörugar. Oftast þá komst þingið í gegnum þessar tillögur frekar fljótt, en eins og alltaf þá voru einhverjar tillögur sem rifist var mikið um. Í grunninn starfar Evrópuþing eins og Skátaþing gerir heima á Íslandi nema það er mikið sturlaðra og lengra. Samanlagt voru þrír dagar af þingstörfum en það voru þó ekki aðeins þingstörf heldur voru líka t.d. kynningar frá mismunandi aðilum eins og næstu stjórn fyrir Roverway sem verður haldið í Sviss árið 2028, og svo var einnig heill hellingur af smiðjum og þar má nefna t.d. smiðjur um að búa til stefnur, valdeflingu ungmenna og safe from harm.

Líklega það áhugaverðasta við það að fara í svona ferðir er samspil heimshreyfingana skáta og mismunandi skátabandalaga. Í rauninni voru þetta 3 þing sett saman. WOSM þingið WAGGGS þingið og sameiginlega þingið. Á WOSM og WAGGGS þinginu var rætt um það hefðbundna (áskoranir og skýrslur) en svo á sameiginlega þinginu var aðallega rætt um samstarf bandalaganna og hvernig ætti að styrkja það. Einnig var skemmtilegt að fylgjast með hvernig það sást í tengslanet bandalaga. Líklega besta dæmið um þetta voru Norðurlöndin. Algengt var að sjá hópa af Dönum, Svíum, Norðmönnum og Finnum að spjalla saman á göngunum og styðja við hvort annað í þingsalnum.

Annað sem var rosalegt er hversu mikið af valdamiklu og áhugaverðu fólki var á þinginu, það var frekar súrrealískt að sjá fólk ekki merkt löndum heldur heimshreyfingum eins og til dæmis má nefna WOSM stjórn sem gengur um með fjólubláan klút og í dökkblárri skyrtu. Þetta er fólkið sem tekur sumar af stærstu ákvörðunum innan skátanna sem hafa áhrif á alla skáta í Evrópu, jafnvel heiminum. Ef maður lenti á spjalli við einhvern frá öðru landi voru miklar líkur á að það væri stjórnarmeðlimur, jafnvel skátahöfðingi þess lands. En þrátt fyrir þetta þá tók maður ekki mikið eftir því í raun. Allir þarna hefðu alveg eins getað verið skátar og stjórnarmeðlimir félaga að hittast á Skátaþingi á Íslandi. Þess vegna var svo svalt að sjá einnig mikið af ungmennum á þinginu. Eitt hlutverk innan fararhópanna hét Youth delegate og það var alltaf skemmtilegt þegar þau komu með athugasemdir á umræðuna, oft skemmtilegra að hlusta á þau heldur en þau eldri.

Næsta Evrópuþing verður haldið í Flórens og við hlökkum til að sjá sem flest sækja um fyrir það!

 

-Helgi Þórir Sigurðsson, skátafélagið Vífill

 

Hægt er að lesa um stefnuna sem var kosin hjá WOSM næstu þrjú ár hér


Frá Bifröst til Búðardals

Þann 14. júlí 2025 hófst ferðalag sem átti eftir að verða mikið ævintýri fyrir þátttakendur og skipuleggjendur. Þetta ævintýri var Landsmót rekka- og róverskáta sem haldið er fyrir skáta á aldrinum 16-25 ára um landið allt, mótið skiptist upp í gönguhluta og tjaldbúðarhluta. Að þessu sinni var ákveðið að ganga Vatnaleiðina frá Bifröst til Hlíðarvatns og hafa þar tjaldbúð við Hallkelsstaðahlíð. 

Eftir góða sundferð í Borgarnesi safnaðist gönguhópurinn saman við Bifröst þar sem gist var við háskólann og smurt nesti fyrir fyrsta göngudag. Frá Bifröst lögðu að stað 21 göngugarpar frá Garðbúum, Landnemum, Klakki, Skjöldungum og Ægisbúum, þriðjudaginn 15. júlí. Þar af voru fjórir skipuleggjendur mótsins og tveir sjálfboðaliðar með gríðarlega reynslu og flotta kálfa. Þessum hóp til halds og trausts voru þrír sjálfboðaliðar sem sáu meðal annars um að flytja farangur, hlúa að þreyttum löppum eftir langan dag og leyfa latari hluta skipuleggjanda að gista í fortjaldinu hjá sér.

Þar sem þátttakendur fengu að ráða eigin ræsi var lagt að stað aðeins á eftir áætlun á fyrsta degi göngunnar. Gengið var fram hjá Hreðavatni, upp Vikrafell og að Langavatni. Fjölbreytt landslag einkenndi fyrsta dag göngunnar sem var virkilega fallegur með  óvenju há tré, grýtt fjöll, mosagræna hóla, grasbrekkur, mýrlendi og falleg vötn. Skátarnir nýttu ótrúlega gott veður til þess að sóla sig, synda í vötnum og gengu í stuttbuxum og stuttermabolum alla leið. Helstu vandamálin á fyrsta degi voru tómir vatnsbrúsar, sólbruni og mýflugur sem eltu skátana upp holt og hæðir og áttu eftir að herja þau alla gönguna. Nestið var fjölbreytt og metnaðarfullt hjá skátunum, á göngunni voru flatkökurnar vinsælar ásamt hágæða hnetublöndum og í kvöldmat voru gerðar flottar núðlusúpur, bakaðar pizzur og pasta með ljúffengum ostum.

Göngudagur tvö var sá lengsti og lá um 23 kílómetra frá Langavatni til Hítarvatns. Á leiðinni þurftu skátarnir að vaða yfir á, klífa brattar brekkur í gegnum skarð, berjast við flugur og halda sér vel vökvuðum á heitum degi. Sumir skátanna ákváðu að skella sér á toppinn á Ok og fengu þar að njóta frábærs útsýnis áður en ský dró fyrir. Vatnaleiðin var ekki sú besta þegar kom að stikum og merkingum en skátarnir voru með hamar með í för til að laga skakkar stikur sem þau sáu, oftar en ekki þurftu þau að finna sína eigin leið með því að treysta á kort og kennileiti á leiðinni. Eftir langan dag komu þreyttir og vel teipaðir fætur, í boði Hansaplast, að skálanum við Hítarvatn. Þegar búið var að tjalda, teygja og borða dýrindis kvöldmat var tekinn stöðufundur með hópnum en veðurfræðingur hópsins spáði mikilli rigningu næsta dag og var ákveðið að vakna snemma til að reyna að sleppa við sem mest af henni.

Vekjaraklukkur byrjuðu að hringja klukkan sex næsta morgun og skátarnir komu hoppandi glaðir úr tjöldum sínum tilbúin að takast á við daginn. Síðasti göngudagurinn var 10 kílómetra leið frá Hítarvatni til Hallkellsstaðahlíðar við Hlíðarvatn. Eftir myndatöku stopp við magnað landslag Hítarvatns tók við mýri og löng brekka sem var öll hækkun dagsins. Hópurinn var kominn upp hálfa brekkuna þegar rigning og þoka mætti þeim en skátarnir gáfu þá bara í og drápu tímann með því að syngja skátasöngva og reyna að komast að því hver maðurinn var. Nokkrir skátar leituðu skjóls í helli þar sem tekin var stutt nestispása fyrir lokasprett að Hlíðarvatni en þar þurfti að vaða og gekk hópurinn síðasta kílómetrann á tám, tevum eða blautum skóm. Þegar komið var á leiðarenda leitaði hópurinn skjóls frá rigningunni inn í tjaldi sem frábærir sjálfboðaliðar höfðu reist. Restin af mótsstjórninni mætti svo á svæðið með fjöldann allan af búnaði svo hægt var að reisa almennilega tjaldbúð og matartjald. Eftir kvöldmat höfðu skátarnir það kósí inn í matartjaldi, spiluðu borðspil og spjölluðu. 

Tjaldbúðin var lengi á fætur næsta dag enda margir ansi þreyttir eftir langa göngu en eftir góðan morgunmat var fánastöng fljót að rísa ásamt og hengirúmi úr trönum. Skátarnir tókust svo á í góðum hópeflisleikjum, spiluðu spil, föndruðu og höfðu það almennt frekar notalegt. Yfir daginn bættust skátar við hópinn og voru í heildina 32 skátar frá Árbúum, Fossbúum, Garðbúum, Heiðabúum, Hraunbúum, Klakki, Kópum, Landnemum, Svönum, Vogabúum og Ægisbúum ásamt frábæru liði sjálfboðaliða. Vindur var yfir svæðinu og smá þoka svo skátarnir treystu sér ekki út á bát á vatninu, þessi þoka reyndist svo vera gosmengun og eftir að hafa hringt og ráðstafað okkur við gáfaðra fólk var tekin ákvörðun um að gista innandyra.

Þátttakendur eiga stórt hrós skilið fyrir hvernig þau tóku þessum fréttum. Með góðri samvinnu var sett heimsmet í frágangi á tjaldbúð, smalað í bíla og lagt af stað í Búðardal. Við erum ótrúlega þakklát Skátafélaginu Stíganda og Búðardal sem leyfði okkur að gista í grunnskólanum og nýta aðstöðuna þar.

Laugardaginn 19. júlí, vaknaði hópurinn í Auðarskóla og eftir morgunmat, morgunleikfimi og fánaathöfn dreif hópurinn sig í sund í Laugum í Sælingsdal. Mjög gott var að geta skolað af sér ferðarykið, slappa af í pottinum og leika sér í lauginni. Laugin var full þegar hópurinn mætti á svæðið en varð ansi tóm þegar hann fór af einhverjum ástæðum. Eftir sund heimsótti hópurinn Erpsstaði, gæddi sér á dýrindis ís og heilsaði upp á dýrin þar. Einnig var klifrað upp ganginn í skólanum á rúllustólum og spilað fleiri borðspil. Um kvöldið tók svo við söguleg kvöldvaka með frábærum kvöldvökustjórum, fallegum söng og sprenghlægilegum skemmtiatriðum sem stóð yfir í þrjá klukkutíma. Lokadagur ferðarinnar einkenndist að frágangi og þrifum. Eftir góða kveðjustund og merkjagjöf skiptist hópurinn í bíla og kom sér heim.

Við í mótsstjórn erum alsæl með þetta mót þó svo að það hafi ekki farið alveg eins og upphaflega var planað. Við viljum þakka öllum sjálfboðaliðum sem komu að þessu móti þar sem það hefði ekki getað orðið að veruleika án þeirra. Einnig viljum við þakka öllum frábæru þátttakendunum sem gerðu þetta mót svona skemmtilegt og tóku vel í allar breytingar og verkefni sem við hentum í þau. 

Skátakveðja,

Mótsstjórn Náttúrulegu 2025, Landsmóts Rekka-og Róverskáta.

 


Vinnuhópur um nýliðaprógram

Langar þig að taka þátt í að fjölga sjálfboðaliðum í skátahreyfingunni?

Við erum því að leggja af stað í Hringferð um Ísland til að fjölga skátafélögum og starfandi skátum í landinu. Nánari upplýsingar um Hringferðina má finna hér.

Vinnuhópurinn mun skipuleggja og stýra Nýliðaprógrami fyrir nýja fullorðna sjálfboðaliða þar sem þátttakendur fá tækifæri til að upplifa skátastarfið sjálf og læra um hvað  starfið snýst. 

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái grunnþekkingu á skátastarfi, séu valdefld til að taka þátt í starfi og upplifi sig tilbúin til að sinna verkefnum sem falla að þeirra áhuga. Prógrammið samanstendur af 3 hittingum og jafnvel vinnu utan skipulagðra hittinga.

Vinnuhópurinn sér um að skipuleggja dagskrá allra hluta námskeiðsins og stýra námskeiðunum.

Fylltu út formið hér að neðan ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í verkefninu.
Segðu í stuttu máli frá því hvers vegna þú hefur áhuga á verkefninu

 


Vinnuhópur fjölgun sjálfboðaliða

Langar þig að taka þátt í að fjölga sjálfboðaliðum í skátahreyfingunni?

Við erum því að leggja af stað í Hringferð um Ísland til að fjölga skátafélögum og starfandi skátum í landinu. Nánari upplýsingar um Hringferðina má finna hér.

Vinnuhópurinn mun búa til og innleiða verklag til þess að taka vel á móti nýjum fullorðnum sjálfboðaliðum í skátana. Verklagið snýr bæði að skátamiðstöðinni sem og skátafélögunum.
Mikilvægt er að huga að mannauði í skátunum og að fólk sem sýni starfinu áhuga fái góðar móttökur. Við viljum taka á móti fólki og geta boðið upp á ólík verkefni/hlutverk eftir áhuga og getu hvers og eins.
Fylltu út formið hér að neðan ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í verkefninu.
Segðu í stuttu máli frá því hvers vegna þú hefur áhuga á verkefninu

Vinnuhópur um fjölgun skátafélaga

Langar þig að taka þátt í að fjölga skátafélögum á landinu?

Bandalag íslenskra skáta (BÍS) vill efla skátastarf á landsvísu og þar með auka valmöguleika barna og ungmenna um allt land þegar kemur að vali á æskulýðsstarfi í þeirra nærumhverfi.

Við erum því að leggja af stað í Hringferð um Ísland til að fjölga skátafélögum og starfandi skátum í landinu.

Verkefnið felur í sér að taka þátt í teymi sem hefur það að markmiði að stofna eða endurvekja skátafélög, deildir, sveitir eða flokka á landsbyggðinni.

Vinnuhópurinn kemur að samskiptum við sveitarfélög, stuðningi við hin nýju félög og úrlausn þeirra verkefna sem þetta verkefni krefst. Vinnuhópurinn heldur utan um verkefnið í samvinnu við starfsfólk og stjórn BÍS.
Nánari upplýsingar um Hringferðina má finna hér.
Fylltu út formið hér að neðan ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í verkefninu.
Segðu í stuttu máli frá því hvers vegna þú hefur áhuga á verkefninu

 


Skert þjónusta í júlí og ágúst

Nú er sumartíminn þar sem fólk skellir sér í frí runninn upp og verður því takmörkuð þjónusta hjá Skátamiðstöðinni frá 11. júlí - 15. ágúst.

Hægt er að senda tölvupóst á skatarnir@skatarnir.is eða hringja í síma 550-9800.

Skátabúðin verður með venjulegan opnunartíma nema annað sé tekið fram. Fylgist endilega með Skátabúðinni á facebook.


Privacy Preference Center