Nýkjörin stjórn Skátagildanna á Íslandi

Skátagildin á Íslandi kusu sér nýja stjórn á þingi Skátagildanna í Hveragerði, 17. maí síðastliðinn.
Skátagildið í Hveragerði sá um framkvæmd þingsins og gerðu það af miklum glæsibrag. Ólafur Proppé, landsgildismeistari setti þingið og Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, heiðraði samkomuna með nærveru sinni og hvatti til góðs samstarfs Bandalags íslenskra skáta við fjölgun skátagilda. Pétur Markan, bæjarstjóri í Hveragerði, heiðraði einnig samkomuna með nærveru sinni og flutti ávarp um ágæti skátastarfs og Hveragerðis.
Það bar til tíðinda að tvö voru í framboði til landsgildismeistara en aðeins einu sinni áður hefur það gerst, 1971, þegar Hrefna Tynes og Franch Michelsen voru í framboði. Þá sigraði Franch með einu atkvæði.
Þau Guðni Gíslason úr St. Georgsgildinu í Hafnarfirði og Þóra Guðnadóttir úr Skátagildinu í Kópavogi voru nú tvö í framboði og svo fór að Guðni sigraði með þremur atkvæðum.
Einnig voru framboð til ritara, gjaldkera og varamanns og lagði uppstillingarnefnd fram eitt nafn í hvert embætti.
Þegar kom að kjöri ritara, stakk Guðni upp á því að Þóra yrði kjörin ritari en Jóhannes Reykdal úr St. Georgsgildinu í Hafnarfirði, sem verið hafði á lista uppstillingarnefndar var tilbúinn að draga framboð sitt til baka. Þóra tók tilnefningunni og var hún sjálfkjörin ritari.
Hjördís Sigursteinsdóttir úr St. Georgsgildinu á Akureyri var sjálfkjörin sem gjaldkeri og Laufey Bragadóttir úr St. Georgsgildinu Kvisti var kjörin sem varamaður í stjórn.
Stjórn Skátagildanna á Íslandi 2025-2027 skipa:
Guðni Gíslason, landsgildismeistari
Sigríður Kristjánsdóttir, varalandsgildismeistari
Þóra Guðnadóttir, ritari
Hjördís Sigursteinsdóttir, gjaldkeri
Agnes Ösp Þorvaldsdóttir, alþjóðlegur bréfritari
Laufey Bragadóttir, varamaður í stjórn

Stefnuræður beggja frambjóðenda til landsgildismeistara voru álíkar, en í kynningu Guðna sagði:
- Að efla kynningarstarf og gera gildisstarfið meira áberandi
- Að efla tengsl skátagildanna
- Að hvetja til fjölgunar í starfandi gildum
- Að hvetja til stofnunar nýrra skátagilda
- Að efla enn fremur samstarf við BÍS og skátafélögin
Guðni sagðist í samtali við skátavefinn vera spenntur fyrir nýju hlutverki með góðu fólki. „Mikilvægt er að efla þekkingu almennra skáta og eldri skáta á Skátagildunum en borið hafi á því að almenningur hafi ekki tengt við skátastarf þau heiti sem notuð hafa verið, landsgildi og St. Georgsgildi. Ég fagna orðum skátahöfðingja um aukið samstarf og veit að hugur fylgir máli. Skátagildin eru mikilvægur bakhjarl skátafélaganna og væri ánægjulegt ef hægt væri að skátagildi væri starfandi með hverju skátafélagi. Víða eru bakhjarlar sem væri gott að fá til samstarfs við Skátagildin á Íslandi. Ég hef sjálfur verið skáti í 60 ár og man vel eftir þeim gildisskátum sem voru sterkir bakhjarlar í mínu félagi, Hraunbúum.
Fyrsta verk nýrrar stjórnar verður að marka starf samtakanna til næstu tveggja ára í góðu samstarfi við alla gildismeistara.“
Á þinginu var samþykkt tillaga fráfarandi stjórnar að styrkja Karmelsystur í Hafnarfirði um 500 þúsund kr. til byggingar hjúkrunardeildar við klaustrið en Karmelsystur hafa hýst Friðarlogann í góðu samstarfi við Skátagildin í fjölmörg ár.
Fjögur fengu heiðursmerki Skátagildanna
Fjórir skátar voru heiðraðir fyrir störf sín fyrir skátagildin, þau Þorvaldur J. Sigmarsson, Kristleifur Gauti Torfason, Sigríður Kristjánsdóttir og Hrefna Hjálmarsdóttir.
Eftir ánægjulegt þing var Hespuhúsið í Ölfusi skoðað og um kvöldið var hátíð Skátagildanna haldin í Skyrgerðinni þar sem félagar fóru á kostum í skemmtiatriðum.
