Nýr framkvæmdastjóri Grænna skáta

Jón Ingvar Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Grænna skáta. Jón Ingvar tekur við af Kristni Ólafssyni sem óskaði eftir starfslokum þar sem hann tekur sér nýtt starf fyrir hendur á sumarmánuðum. Nýr framkvæmdastjóri mun byrja með vorinu eftir nánara samkomulagi. Grænir skátar þakka Kristni kærlega fyrir vel unnin störf í uppbyggingu félagsins undanfarin ár.
Stjórn Grænna skáta hóf ráðningarferli á nýjum framkvæmdastjóra í byrjun janúar og var starfið auglýst í aldreifingu prentmiðla, á vefsíðu, Alfreð og samskiptamiðlum sem skátahreyfingin notar. Viðtöl við umsækjendur fóru fram í febrúar.
Jón Ingvar er viðskiptafræðingur og hefur verið skáti frá unga aldri. Síðastliðin þrjú ár starfaði hann sem rekstrarstjóri Heimaleigu sem er með um 400 íbúðir í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Jón Ingvar hefur unnið í fjölbreyttum störfum innan skátahreyfingarinnar lengst af sem viðburðastjóri, var framkvæmdastjóri World Scout Moot 2017 sem haldið var á Íslandi.
Um Græna skáta
Grænir skátar er endurvinnslufyrirtæki í eigu Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Helstu verkefni þess er söfnun skilagjaldsskyldra umbúða frá fólki og fyrirtækjum. Fyrirtækið rekur 150 söfnunargáma á stór-höfuðborgarsvæðinu, móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir auk söfnunar- og flokkunarstöðvar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 starfsmenn í 20 stöðugildum. Fyrirtækið hefur langa sögu af því að bjóða fólki með skerta starfsgetu atvinnu. Allur ágóði af starfsemi félagsins fer til uppbyggingar skátastarfs á Íslandi. Fjölmörg skátafélög nýta jafnframt Græna skáta til fjáröflunar.


Skátapósturinn snýr aftur!

Mánaðarlega fréttabréfið okkar eða skátapósturinn snýr aftur!
Í skátapóstinum geta skátar og öll sem hafa áhuga séð yfirlit yfir helstu fréttir, viðburði, útköll og margt fleira spennandi sem er að gerast í skátastarfi á Íslandi.
Hér er hægt að lesa febrúar skátapóstinn og skrá sig á póstlistann til að fá pósta næstkomandi mánuði.


Fundarboð Skátaþings 2024

Sækja fundarboð í pdf formi

Stjórn Bandalags íslenskra skáta boðar til Skátaþings 2024.

Þingið verður haldið dagana 5.-7. apríl á Sóleimum í Grímsnesi og á Úlfljótsvatni. Þingið hefst með setningu kl. 19:00 föstudaginn 5. apríl á Sólheimum og lýkur sunnudaginn 7. apríl kl. 13:00 á Úlfljótsvatni. Aðstaðan opnar kl. 18:00 og frá þeim tíma er hægt að fá þinggögn afhent. Vakin er athygli á að ekki verður boðið upp á kvöldmat á föstudegi af þinginu. Hægt verður að kaupa kvöldmat í kaffihúsinu á Sólheimum fyrir setningu þingsins á föstudag. Maturinn kostar 3.000 krónur og fer skráning fram í Sportabler viðburði.

Dagskrá þingsins er skv. 21. grein laga BÍS og er sérstök athygli vakin á því að skv. 17. grein laga BÍS er kosningaár.

Einnig er rétt að vekja athygli á greinum 18.-20. í lögum BÍS sem fjalla um Skátaþing. Starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétt óháð aðildarleið. Fulltrúar skátafélaga með aðild A fara með 4 atkvæði, þar af skal eitt atkvæði bundið félagsforingja eða öðrum stjórnarmeðlim skátafélagsins í hans stað og æskilegt er að minnst eitt atkvæði sé í höndum einstaklings á aldrinum 13-25 ára.

Öll sem hyggjast taka þátt skulu skv. 18. grein laga BÍS skrá sig á skraning.skatarnir.is fyrir 29. mars klukkan 19:00. Félagsforingjar eða annað stjórnarfólk skátafélaganna skal skila kjörbréfum rafrænt fyrir setningu þar sem tilgreindir eru aðal- og varafulltrúar skátafélags á þinginu.

Þátttökugjald er 9.500 kr., innifalin eru þinggögn, léttar veitingar á föstudagskvöldi, morgunverður og  hádegisverður á laugardegi og sunnudegi ásamt almennri dagskrá sem verður boðið upp á samhliða þinginu.

Skátafélag Sólheima er gestgjafi þingsins.

Hægt verður að bóka svefnpláss í herbergjum á Sólheimum og Úlfljótsvatni fyrir einstaklinga eða hópa. Verður það auglýst sérstaklega þegar lokatala á laus gistirými er komin. Þá verður sérstakur hátíðarkvöldverður á laugardegi þingsins. Öll skráning fyrir slíkt mun fara fram í Sportabler og verður eingöngu aðgengileg þeim sem eru þegar skráð á Skátaþing.

Eftirfarandi embætti eru laus til kjörs á Skátaþingi 2024:

Stjórn

Skátahöfðingi
Gjaldkeri
Fimm meðstjórnendur

Fastaráð

Fjögur sæti í alþjóðaráði
Fjögur sæti í starfsráði
Fimm sæti í stjórn Skátaskólans
Þrjú sæti í útilífsráði

Annað

Fimm sæti í uppstillingarnefnd
Þrír félagslegir skoðunarmenn reikninga
Löggiltur endurskoðandi

Kjörin á Ungmennaþingi 2024

Áheyrnarfulltrúi ungmenna í stjórn BÍS
Fimm sæti í ungmennaráði

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi hlutverk óskast sendar hið fyrsta og eigi síðar en 15. mars kl. 12:00 á netfangið uppstillingarnefnd@skatarnir.is. Með fundarboði fylgir tilkynning frá Uppstillingarnefnd þar sem má finna nánari upplýsingar og lýsingu á hverju hlutverki fyrir sig.

Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.

Uppstillingarnefnd skipa:
Berglind Lilja Björnsdóttir, form s. +45 50 18 13 25 berglind@skatarnir.is
Hafdís Bára Kristmundsdóttir s. 617-1591 barahafdis@gmail.com
Jón Ingvar Bragason s. 699-3642 joningvarbragason@gmail.com
Reynir Tómas Reynisson s. 698-6226 reynirtomas@gmail.com
Sædís Ósk Helgadóttir s. 661-6433 saedis@skatarnir.is

Mikilvægar dagsetningar fram að Skátaþingi:

Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi dagsetningum fram að þingi samkvæmt gildandi lögum BÍS.  

8. mars kl. 19:00– Fresti til að skila tillögum að lagabreytingum til stjórnar BÍS lýkur.
15. mars kl. 19:00– Fresti til að skila beiðnum um upptöku mála á Skátaþingi til stjórnar BÍS lýkur.
15. mars kl. 12:00 – Framboðsfrestur í stjórn og fastaráð BÍS rennur út.
22. mars kl. 19:00 – Fresti stjórnar BÍS til að senda félagsforingjum þinggögn og drög að dagskrá Skátaþings lýkur.
29. mars kl. 19:00 Fresti til að skila athugasemdum um útsend gögn til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
29. mars kl. 19:00  – Skráning á Skátaþing lýkur.
5. apríl kl. 19:00 Fresti skátafélaga til að skila gögnum og kjörbréfum til skrifstofu BÍS lýkur.
5. apríl kl. 19:00
  – Skátaþing er sett.

Upplýsingasíðu Skátaþings má finna á skatarnir.is/skatathing en þar má finna allar upplýsingar um Skátaþing í rauntíma, þangað verður gögnum hlaðið upp þegar þau berast og í síðasta lagi fyrir tilgreindan frest samkvæmt lögum. Öll þinggögn verða aðgengileg þar á rafrænu formi þegar Skátaþing verður sett.

Reykjavík,  21. febrúar 2024
Fyrir hönd stjórnar BÍS

Harpa Ósk Valgeirsdóttir
Skátahöfðingi

 


Nýtt ungmennaráð kosið á ungmennaþingi

Ungmennaþing var haldið fyrstu helgina í febrúar á Akranesi þar sem kosið var í ungmennaráð Bandalag íslenskra skáta.  Fimm sæti voru laus til kjörs í ungmennaráði auk þess sem kosið var í stöðu sérstaks áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS. Þau ungmenni sem voru kosin í embætti og myndi því nýtt ungmennaráð eru:

  • Annika Daníelsdóttir Schnell - Skátafélagið Akraness
  • Grímur Chunkuo Ólafsson - Skátafélagið Fossbúar
  • Hafdís Rún Sveinsdóttir - Skátafélagið Fossbúar
  • Lára Marheiður Karlsdóttir - Skátafélagið Fossbúar - Áheyrnafulltrúi ungmenna í stjórn BÍS.
  • Þorkell Grímur Jónsson - Skátafélagið Garðbúar

Nýja ungmennaráðið hefur þegar hafið störf og héldu þau fyrsta ungmennaráðsfundinn strax í vikunni eftir ungmennaþing ásamt fráfarandi meðlimum sem munu vera nýja ráðinu innan handar fyrst um sinn.

Við óskum nýju ungmennaráði innilega til hamingju með kjörið og óskum þeim velfarnaðar í nýju hlutverki.


Halldóra Aðalheiður ráðin sem Erindreki hjá BÍS

Halldóra Aðalheiður Ólafsdóttir hefur verið ráðin í fullt starf sem Erindreki BÍS.

Halldóra hefur góða reynslu af skátastarfi og hefur sinnt hinum ýmsu verkefnum fyrir hreyfinguna. Hún hefur verið foringi dreka- og fálkaskáta ásamt því að hafa verið aðstoðarforingi dróttskáta, skipulagt viðburði og klárað Gilwell svo einhvað sé nefnt. Halldóra ber með sér metnað, rólegt yfirbragð og góða samskiptahæfni. Hún mun taka við starfi erindreka og vinna að stefnu BIS við að styðja skátafélög landsins og vinna hin ýmsu verkefni sem falla til hjá Skátamiðstöðinni.

Við bjóðum Halldóru innilega velkomna til starfa.


Bjarki Rafn ráðinn til BÍS

Bjarki Rafn Andrésson hefur verið ráðinn til starfa hjá BÍS sem starfsmaður Landsmóts Skáta 2024.

Bjarki Rafn er dróttskátaforingi hjá Mosverjum og er á sinni Gilwell vegferð ásamt því að stunda nám við Háskóla Íslands í Tómstunda- og félagsmálafræði. Bjarki var í vettvangsnámi hjá BÍS í vetur og fékk þá innsýn inn í starfsemi Skátamiðstöðvarinnar. Hann hefur gaman að því að vinna með fólki, er skipulagður og ber með sér mikla jákvæðni og kraft. Bjarki mun taka við því mikilvæga verkefni að taka við samskiptum við erlenda skátahópa sem koma á Landsmót skáta 2024 ásamt því að sinna öðrum verkefnum við hlið mótsstýru Landmóts 2024.

Við bjóðum Bjarka innilega velkominn til starfa.


Egle verður næsti alþjóðafulltrúi WAGGGS

Stjórn BÍS hefur skipað Egle Sipaviciute sem næsta alþjóðafulltrúa fyrir WAGGGS. Egle verður tengiliður BÍS við alþjóðasamtök kvenskátahreyfingarinnar og á norrænum samstarfsvettvangi skáta ásamt því að vinna náið með alþjóðaráði BÍS. Egle tekur formlega við hlutverkinu frá Sunnu Líf á Skátaþingi en þangað til fylgist Egle með störfum Sunnu til að fá innsýn í þau verkefni sem alþjóðafulltrúi sinnir.  Stjórn BÍS óskar Egle innilega til hamingju með stöðuna og hlakkar til að starfa með henni í nýju hlutverki.

EN:

The board of Bandalag Íslenskra Skáta has appointed Egle Sipaviciute as the next International Commissioner for WAGGGS. Egle will represent BÍS within the World Association of Girl Guides and Girl Scout abroad and within the Nordisk Speiderkomité as well as working with BÍS's council on international scouting. Egle will take over the role from Sunna Líf at the next annual meeting but will be in training with Sunna until then. The board of BÍS would like to congratulate Egle on her new position and looks forward to working with her.

 


Þórhildur fer í annað verkefni

Þórhildur fer í annað verkefni,

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir hefur síðastliðna mánuði sinnt verkefnastýringu á verkefni Inngildingar fyrir öll börn. Þórhildur fer nú að sinna öðrum verkefnum og eftir kraftmikið og gott samstarf í Skátamiðstöðinni.

Við óskum Þórhildi velfarnaðar í starfi og þökkum henni fyrir mikilvægt framlag til verkefnis Inngildingar í skátastarfi.


Áhugaskráning á MOOT 2025

Hefur þú áhuga á að fara á MOOT 2025 í Portúgal 25. júlí-3. ágúst? Ert þú fætt á bilinu 26. júlí 1999 - 25. júlí 2007? Þá hvetjum við þig til að forskráðu þig á mótið á Sportabler fyrir 25. janúar!

Við höfum opnað áhugaskráningu til að áætla stærð íslenska fararhópsins. Athugið að skráningin er ekki bindandi og ítarlegri upplýsingar um ferðina og verð verður sent út áður en formleg skráning opnar.

 

 

 


Sigurgeir rær á ný mið

Takk Sigurgeir,

Sigurgeir Þórisson hefur lokið störfum sem erindreki BÍS eftir fimm ára starf og kveðjum við hann með mikilli eftirsjá en að sama skapi miklu þakklæti fyrir gríðarlega gjöfult og faglegt samstarf.

Við óskum Sigurgeiri velfarnaðar í námi sínu og skilum til hans miklum þökkum fyrir allt sem hann hefur lagt af mörkum til þess að efla skátastarf á Íslandi.

Við bendum á að Sædís Ósk mun svara fyrirspurnum skátafélaga Sigurgeirs tímabundið, eða þar til að nýr erindreki tekur til starfa sem nú er unnið í að ráða.


Privacy Preference Center