Tíðindi frá félagsforingjafund

Haustfundur félagsforingja BÍS var haldinn í Hraunbæ 123 4. október síðastliðinn.

Þar var farið yfir stöðu mála á skrifstofunni, rætt um samning skátanna við Sportabler, farið yfir niðurstöður ánægjukönnunar BÍS, ný viðbragðsáætlun Æskulýðsvetvangsins var kynnt, og skipun mótsstjóra landsmóts skáta 2024 var tilkynnt.

Af starfsmannamálum skrifstofunnar var það helst að Helga Þórey Júlíudóttir framkvæmdastjóri BÍS hefur látið af störfum og mun Harpa Ósk skátahöfðingi stíga tímabundið í stöðu hennar meðan á ráðningarferli stendur.  Auglýst verður eftir nýjum framkvæmdastjóra fljótlega.   Önnur starfsmannamál skrifstofunnar haldast óbreytt. Helstu verkefni skrifstofunnar voru kynnt en framundan eru spennandi tímar þar sem endurgerður starfsgrunnur BÍS mun brátt líta dagsins ljós og síðustu mánuði hefur leiðbeinendasveitin hafið námskeiðahald fyrir ungmenni innan skátahreyfingarinnar.  Þátttaka í nýju námskeiðunum hefur verið mjög góð.

Rætt var um þann samning sem BÍS hefur með skráningar- og miðilskerfinu Sportabler. Núna er sá prufusamningur sem BÍS gerði við skráningarfyrirtækið að renna út og breytast í hefðbundinn samning. Mun sú breyting hafa í för með sér mánaðarlegan kostnað og ræddir voru möguleikar þess að félögin muni þurfa að greiða árgjald til að bera kostnað af sínum hluta samningsins. Umræða félags- og aðstoðarfélagsforingja um Sportabler var jákvæð, og lýsti fólk yfir ánægju með kerfið í samanburði við fyrra skráningarkerfi.  Einnig var lýst yfir ánægju með leiðbeiningar fyrir skráningarkerfið sem erindrekar BÍS hafa útbúið og dreift til félaganna.

Send var út ánægjukönnun á þátttakendur skátastarfs í vor. Þar var forráðafólk beðið um að svara spurningum um upplifun barna sinna í starfinu. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á fundinum og var þar helst minnst á ánægju forráðafólks með útivist og gildi skátastarfs í lífi barna sinna. Forráðafólk óskaði eftir meiri útivist, fleiri útilegum, og að upplýsingar um starfið bærist bæði í gegnum Sportabler og með tölvupósti.

Ný viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins verður birt 8. nóvember og fengu félagsforingjar stutta kynningu á efnistökum.  Skátar hafa lengi starfað eftir viðbragðsáætlun ÆV og hafa lagt mikið af mörkum við uppfærslu þeirrar nýju.

Kolbrún Ósk Pétursdóttir hefur verið skipuð mótsstjóri Landsmóts skáta 2024.  Mótið verður haldið á Úlfljótsvatni 12-19.júlí 2024.  Kolbrún Ósk hefur strax hafist handa við að búa til mótsstjórn og munu nánari upplýsinga vera að vænta fljótlega.


Fleiri en 200 íslenskir skátar tóku þátt í JOTA-JOTI 2022

Alþjóðlega skátamótið JOTA-JOTI fór fram helgina 14.-16. október, skammstöfunin stendur á ensku fyrir alheimsmót skáta í loftinu og alheimsmót skáta á internetinu. Á milli 2 og 3 miljónir skáta um allan heim tóku þátt í mótinu. Íslenskir skátar um land allt tóku líka þátt í viðburðinum en skátar frá Akranesi, Akureyri, Búðardal, Reykjavík og Hafnarfirði voru á meðal þátttakenda.

Rafræna mótsvæðið á jotajoti.info

Það eru ýmsar leiðir færar til að taka þátt í mótinu en skátar geta bæði tekið þátt sem einstaklingar eða tekið þátt í mótinu í stærri hópum. Mótið fer fram á rafrænu mótsvæði sem skiptist upp í dagskrártorg þar sem hvert torg er með ólíka áherslu. Innan hvers torgs er síðan fjölbreytt og spennandi dagskrá yfir helgina þar sem þátttakendur geta tengst skátum um allan heim ýmist á zoom fundum, í tölvuleikjum eða bara með að fást við verkefni í raunheimum á sama tíma og þúsundir annarra.

Skátar í Klakki, Akureyri, taka þátt í mótinu á internetinu

Flestir íslenskra skáta tóku þátt með sínu skátafélagi en félögin fóru ólíkar leiðir til að taka þátt. Skátafélögin Landnemar og Hraunbúar voru í félagsútilegu umrædda helgi á Úlfljótsvatni og í Lækjabotnum og nýttu mótið fyrir dagskrá í útilegunni hjá sér, þau fengu líka aðstoð radíóskáta sem mættu til þeirra og hjálpuðu þeim að taka þátt í þeim hluta mótsins sem fór fram í loftinu gegnum talstöðvar og annan fjarskiptabúnað. Skátafélag Akraness, Klakkur og Stígandi voru héldu viðburð í sinni heimabyggð vegna tilefnisins þar sem áhugasamir skátar gátu komið að taka þátt í mótinu með sínum skátaforingjum og gist á meðan að á viðburðinum stóð. Árbúar hittust síðan í skátaheimilinu til að taka þátt saman í mótinu meðan sum í hópnum voru heima en tengd við restina af hópnum gegnum sameiginlega spjallrás. Garðbúar skráðu síðan hóp til þátttöku og auglýstu til sinna skáta og foringja sem tóku síðan þátt sitt í hvoru lagi. Þá tóku á milli 10 og 20 íslenskir skátar líka þátt í mótinu án þess að vera í stærri hóp.

Í heildina tóku því fleiri en 200 skátar þátt í mótinu og var skiptingin eftirfarandi samkvæmt skrá mótsins:
Skátafélagið Árbúar - 7 skátar
Dróttskátsveitin Oríón, skátafélagi Akraness - 14 skátar
Radíóskátar - 7 skátar
Skátafélagið Stígandi - 10 skátar
Skátafélagið Klakkur - 14 manns
Skátafélagið Garðbúar - 20 skátar
Skátafélagið Landnemar - 50 skátar
Skátafélagið Hraunbúar - 74 skátar

Radíóskátar aðstoða unga skáta í Landnemum að taka þátt í alheimsmóti skáta í loftinu með fjarskiptabúnaði

10 Rekkaskátar fengu forsetamerkið

10 REKKASKÁTAR FENGU FORSETAMERKIÐ

Forsetamerkishafarnir 10 ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta íslands og Hörpu Ósk Valgeirsdóttur skátahöfðingja

Forsetamerkið er hvatamerki sem rekkaskátar, 16-18 ára, geta valið sér að vinna að samhliða starfi sínu. Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingunnar um eflingu einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátanna til persónulegs vaxtar með því að skipuleggja, framkvæma og endurmeta 20 minni verkefni sem öll þurfa að falla undir ein fjögurra flokka,:

  1. Heimurinn, ferðalög og alþjóðastarf
  2. Útivist og útilífsáskoranir
  3. Samfélagsþátttaka
  4. Lífið, tilveran og menning

Auk þeirra verkefna þurfa öll sem vinna að forsetamerkinu að sækja 5 daga alþjóðlegt skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og sækja 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil, dæmi um þetta er að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn félags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaheimili og margir fleiri möguleikar standa til boða.

Forsetamerkishafi með vegabréfið sitt

Haustið 2022 luku 10 rekkaskátar frá 7 félögum vegferðinni og bætast þar með í hóp 1438 forsetismerkishafa frá upphafi. Þau voru í röð númers forsetamerkis þeirra:

nr. 1429 – Aney Sif Ólafsdóttir – Skátafélagið Fossbúar
nr. 1430 – Bjarni Gunnarsson – Skátafélagið Fossbúar
nr. 1431 – Karen Hekla Grønli – Skátafélagið Fossbúar
nr. 1432 – Guðbjörg Viðja Pétursdóttir Biering – Skátafélagið Heiðabúar
nr. 1433 – Sigurbjörg Erla Pétursdóttir Biering – Skátafélagið Heiðabúar
nr. 1434 – Sebastian Fjeldal Berg – Skátafélaginu Klakki
nr. 1435 – Hersteinn Skúli Gunnarsson – Skátafélaginu Kópum
nr. 1436 – Jökull Freysteinsson – Skátafélagið Landnemar
nr. 1437 – Sunna Dís Helgadóttir – Skátafélagið Skjöldungar
nr. 1438 – Pjetur Már Hjaltason – Skátafélagið Ægisbúar

Við það tilefni bauð forsetaembættið rekkaskátunum og fjölskyldum þeirra til hátíðlegrar móttöku á Bessastöðum þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti þeim forsetamerkið. Við afhendinguna var samsöngur, tónlistaratriði flutt og Guðni ávarpaði samkomuna. Að lokum fluttu tvö úr hópi forsetamerkishafa stutta ræðu sem má horfa á í spilaranum hér að neðan:

Að lokinni afhendingu var haldið til Bessastaðastofu þar sem skátahöfðingi sagði nokkur orð áður en boðið var upp á veitingar.

Að lokinni afhendingu var haldið til Bessastaðastofu þar sem skátahöfðingi sagði nokkur orð áður en boðið var upp á veitingar.


Hringborð drekaskátaforingja

Drekaskátaforingjar hittust fimmtudaginn 13. október á hringborði drekaskátaforingja. Tilgangur hringborðsins var að skapa vettvang fyrir drekaskátaforingja að hittast og spegla sig við aðra drekaskátaforingja með því að deila reynslum og ræða ákveðin málefni.

Skilaboðakassi fyrir traustan félaga

Skátaforingjar frá Skjöldungum, Sunna Dís og Gunnhildur, deildu reynslu sinni við að nota skilaboðakassa í drekaskátasveitinni sinni til þess að bjóða drekunum upp á möguleikann á að senda þeim skilaboð nafnlaust. Þau höfðu umræðu um kassann með sveitinni þar sem hann var staðsettur frammi á gangi og hvernig skátarnir gátu nýtt sér kassann til að deila með foringjunum bæði hvernig þeim líður á fundunum og að koma með hugmyndir af dagskrá fyrir sveitina. Foringjarnir sögðu reynsluna mjög góða og að mörg gagnleg skilaboð höfðu komið yfir önnina. Þær nýttu kassan til þess að vinna að færnimerkinu traustur félagi.

 

Hvað geta drekar

Védís frá starfsráði og fyrrum drekaskátaforingi ræddi við foringjana um að drekaskátar geta oft á tíðum mun meira en við höldum. Hún sagði frá reynslu sinni sem drekaskátaforingi hjá Landnemum ásamt Júlíu og hvernig þæt settu sér það markmið að reyna að gera dagskrána eins spennandi og krefjandi og þær gátu. Þær hjálpuðu hvor annarri að muna eftir því að vefja ekki drekaskátana inn í bómulinn heldur að skapa frekar vettvang þar sem drekarnir fá tækifæri til að reyna almennilega á sig. Einnig minnti Védís okkur á að auðvelt er að breyta innifundum í útifundi, að stundum er venjan að gera ákveðin verkefni inni í skátaheimilinu sem auðvelt er að færa út og mögulega virka fundirnir enn betur og verða skemmtilegari úti í nærumhverfinu og náttúrunni.

 

Hvernig keyrir maður ólíka dagskrá

Egle fyrrum drekaskátaforingi í Garðbúum fór yfir hvernig hún leyfði drekaskátunum að velja sér ,,vinnuhópa/flokka" eftir áhugasviði þar sem hver hópur var að einblína á ákveðin færnimerki en öll sveitin fór í gegnum dagskráhringinn á sama tíma sem endaði í að öll fengu þau færnimerkin sem unnið var að. Hún fór einnig yfir hvernig hún bjó til spennandi dagskráhringi upp úr hugmyndum skátanna, þar sem engin hugmynd er of stór heldur er hægt að finna leiðir til að vinna allar hugmyndir inn í dagskráhring eða tengja við færnimerki. Það mikilvægasta er að muna að gera dagskrána spennandi og hugsa út fyrir kassann. Hún deildi síðan með okkur sínum eftirminnilegustu fundum eða dagskráhringum eins og útibíó þar sem krakkarnir bjuggu til bíla úr pappakassa, pókemon fund þar sem krakkarnir bjuggu til nýja pókemona og alþjóðlegt þema þar sem krakkarnir völdu lönd og lærðu um menninguna hjá þeim og fóru í stopdans með lögum þeirra landa.

 

Góðar umræður í lokin

Heilt yfir var hringborðið góður vettvangur fyrir skátaforingjana að hittast og ræða saman um hvernig við gera drekaskátastarfið spennandi og krefjandi. Farið var yfir hvað stendur í starfsgrunni skátanna um drekaskáta og voru skátaforingjar sammála um að gott er að hafa viðmið um hvert þau eiga að stefna með starfinu. Í lokin voru góðar umræður um dagskrá drekaskáta og náðu foringjarnir að spyrja hvort annað um hugmyndir og deila skemmtilegum og eftirminnilegum fundum og dagskráhringjum.


Hringborð fjölskylduskátaforingja

Fimmtudaginn 6.október fór fram hringborð fjölskylduskátaforingja í Skátamiðstöðinni. Þá hittust fjölskylduskátaforingjar frá sex skátafélögum, þar af voru tvö skátafélög sem hafa verið með starfandi fjölskylduskátastarf síðasta árið, tvö skátafélög sem eru farin af stað með fjölskylduskátastarf núna í haust og tvö skátafélög sem vilja byrja með fjölskylduskátastarf.

Gagnlegar umræður

Opnar umræður um ýmiss málefni tengd fjölskylduskátum voru rædd, þar á meðal skráningarmál, verðlag, staðsetningar fundanna, tímasetningar fundanna og dagskráin sjálf á fundum.

Að auki fór erindreki BÍS yfir nýja umgjörð sem skátamiðstöðin er að vinna að sem snýst um að auðvelda nýjum fjölskylduskátaforingjum eða skátafélögum að hefja fjölskylduskátastarf í sínu umhverfi. Í umgjörðinni kemur fram hvers vegna fjölskylduskátastarf er mikilvægt bæði fyrir fjölskylduna en einnig fyrir skátafélagið. En fjölskylduskátastarf er tækifæri til þess að veita börnum undir þátttöku aldri yngsta aldursbils í skátafélaginu möguleikann á því að taka þátt í krefjandi og spennandi dagskrá með fjölskyldunni sinni. Með virkri þátttöku fjölskyldumeðlima nær skátafélagið að stofna jákvætt samband milli síns og fjölskyldanna í hverfinu.

Sameiginlegur drekaskátadagur í vor

Hringborðið var mjög gagnlegt og mynduðust mjög áhugaverðar samræður þar sem foringjar náðu að spegla sig hvert við annað og deila reynslum um fjölskylduskátastarf. Hópnum fannst tilvalið að stefna að sameiginlegum degi fyrir fjölskylduskáta eins og er fyrir önnur aldursbilin og ætla að stefna á að halda svoleiðis dag að vori.


Hringborð rekkaskátaforingja

Hringborð rekkaskátaforingja fór fram í Skátamiðstöðinni þriðjudagskvöldið 21. september. Rekkaskátar og foringjar þeirra mættu frá 5 félögum af þeim 17 sem halda úti starfi fyrir aldursbilið. En þrátt fyrir að mega vera fjölmennara reyndist hringborðið afar góður og fræðandi vettvangur fyrir viðstödd.

Rekkaskátanetið komið af stað

Eitt stærsta málið sem var rætt við hringborðið var Rekkaskátanetið, en fyrir tveimur árum á sama vettvangi var lagður grunnur að áætlunum sem gátu síðan ekki gengið fram sökum heimsfaraldurs, á síðasta starfsári voru síðan opnir fundir fyrir rekkaskáta haldnir í hinum ýmsu skátaheimilum undir sama nafni. Við hringborðið var rykið dustað af þessum tveggja ára gömlu áætlunum, að skátafélög sem stæðu að rekkaskátastarfi myndu taka sig saman um að tryggja þrjá viðburði á komandi ári fyrir rekkaskáta auk þess starfs sem mun eiga sér stað innan þeirra sveita. Þetta samstarf um viðburðarhald muni síðan stuðla að þéttara tengslaneti á milli rekkaskátaforingja og rekkaskátasveita og vonandi nýtast til að tryggja efldara samstarf þvert á félög t.d. svo að rekkaskátar geti boðið rekkaskátum utan sinnum sveitar að taka þátt með sér í flottum verkefnum, til að deila hugmyndum og fleira.

Áframhaldandi þróun á stuðningi vegna forsetamerkis

Védís frá starfsráði kynnti umgjörðina í kringum forsetamerkið og svaraði nokkrum praktískum spurningum um þau efni. Vegabréfið er enn nokkuð nýlegt kerfi og þótt það líkist mjög kerfinu sem var í kringum aldamót upplifðu fæstir foringjar nútímans það kerfi og því hefur verið áskorun að leiðbeina rekkaskátum í því. Þess vegna var kafað ofan í hvaða hindranir skátaforingjar hafa helst rekið sig á í þessum stuðningi og hvernig megi halda áfram að þróa stuðningsnetið. Niðurstaðan var sú að rekkaskátaforingjar vildu áfram geta fengið kynningar- og stöðufundi um forsetamerkið inn til sinna sveita frá Skátamiðstöð. Starfsráð hélt nýlega í fyrsta sinn kvöld þar sem þau sem væru að vinna að forsetamerkinu gætu komið og var óskað eftir því að slíkt væri gert einu sinni á önn. Þá sagði skátaforingi Svana frá yfirlitsskema sem hann þróaði til að hafa betri yfirsýn með stöðu hvers og eins í sveitinni sem ynni að merkinu og var óskað eftir að Skátamiðstöð myndi þróa slíkt skema sem gæti nýst foringjum með sama hætti.

Framfarir einstaklingsins

Davíð Þrastarson sem er á síðasta ári í rekkaskátunum kynnti sína vegferð en Davíð hefur verið afar duglegur að grípa þau ýmsu tækifæri sem bjóðast einstaklingum utan sveitarstarfsins en hann situr m.a. í ungmennaráði, er áheyrnafulltrúi ungmenna í stjórn BÍS og hefur verið í mótstjórn Drekaskátamóts undanfarin ár. Að kynningu lokinni fékk Davíð spurningar frá rekkaskátum, rekkaskátaforingjum og erindrekum um hvaða hvatar hafi drifið hann áfram, hvar hann heyrði af tækifærunum og ýmislegt fleira.

Upplýsingamiðlun til rekkaskáta og rekkaskátaforingja

Í gegnum alla aðra umræðu var mikið rætt um upplýsingamiðlun frá Skátamiðstöð til rekkaskáta og foringja þeirra. Það virtist á umræðum við hringborðið sem að skátaforingjar rekkaskáta hafi lykilhlutverki að gegna í þeirri upplýsingamiðlun en á umræðum virtist ljóst að rekkaskátar væru best meðvituð um tækifæri sem þau fengu fregnir af í gegnum skátaforingja sinn. Því verður áhersla lögð á að sinna góðri upplýsingamiðlun til skátaforingja en það mun fara fram á póstlista og í Sportabler hóp fyrir stærri verkefni og tækifæri, en þegar það kemur að minni tækifærum sem hafa jafnvel forsetamerkis tengsl verður það bara í Sportabler. Síðan er mikilvægt að skátaforingjar láti skátana vita af tækifærum á samfélagsmiðlum fyrir þau til að fylgjast með s.s. á facebook og instagram síðu skátanna.

Annað hringborð fyrir áramót

Heilt yfir var hringborðið var góður vettvangur til að ræða saman, spegla og leita upplýsinga viðstödd óskuðu eftir öðru hringborði fyrir rekkaskátaforingja fyrir áramót og ætlar starfsráð að verða við því.

 


Breytingar á siðareglum Æskulýðsvettvangsins

Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Breytingarnar byggja á breytingartillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins í apríl síðastliðnum og voru í framhaldi unnar af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins. Ráðgjafahópinn skipa aðilar frá öllum aðildarfélögunum; Skátarnir, Landsbjörg, KFUM og KFUK og UMFÍ.

Helstu breytingar voru eftirfarandi:

Breytingar sem snúa að samskiptum:

Þessum reglum var bætt við

  1. Starfsfólk, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar eða aðrir sem gegna valdastöðum þurfa að vera meðvitaðir um ábyrgð sína og þann aðstöðumun sem staða þeirra skapar þeim.
  2. Hvers kyns kynferðislegt daður, orðbragð eða samneyti aðila í ábyrgðarstöðu gagnvart þátttakanda sem er yngri en 18 ára er með öllu óheimilt.
  3. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.

Regla sem var áður númer 8, og fjallar um skyldu ábyrgðaraðila að fá leyfi fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá, var fjarlægð þar sem hún er í hluta reglanna sem fjalla um rekstur og ábyrgð og á frekar heima þar.

Reglu númer 14 var breytt og er nú:

Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna ábyrgð í rafrænum samskiptum og netnotkun. Ekki skal vera í rafrænum samskiptum við þátttakendur undir 18 ára aldri án vitneskju forsjáraðila þeirra og aðeins í tengslum við þátttöku þeirra í starfi félagsins. Öll samskipti skulu fara fram í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir.

Markmiðið með þessari breytingu er að vekja athygli á því að samskiptaleiðir í félögum sem okkar þurfa að vera skýrar og eiga sér stað með þeim hætti að við getum svarað fyrir þær. Með því að taka fram að samskipti eigi sér stað í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir er einnig betur hægt að stíga inn í þegar samskipti eiga sér stað á samfélagsmiðlum sem við viðurkennum ekki sem samskiptavettvang starfi með börnum.

Breytingar sem snúa að rekstri og ábyrgð

Þessum reglum var bætt við:

  1. Öllu starfi skal sinna með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og standa skal vörð um markmið og heiður þess. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna félaginu, samstarfsfólki, samstarfsaðilum og þátttakendum virðingu, sanngirni og trúnað í samskiptum sínum.
  2. Aldrei skal stefna heilsu eða öryggi starfsfólks og sjálfboðaliða í hættu. Ávallt skal sýna fyllstu aðgát og varkárni í starfi og koma í veg fyrir að starfsfólki og sjálfboðaliðum séu falin verkefni eða þau lendi í aðstæðum sem þau ráða ekki við.
  3. Allt starf skal unnið á opinn, upplýstan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt. Ávallt skal veita faglegar og réttar upplýsingar.
  4. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta þess að sitja ekki beggja vegna borðs í málum er varða hagsmuni félagsins. Forðast skal að skapa þær aðstæður sem geta dregið óhlutdrægni þeirra í starfi í efa. Það á meðal annars við þegar félagið tilnefnir einstaklinga til að taka þátt í eftirsóttum verkefnum eða þegar samið er við starfsfólk, verktaka eða aðra þjónustuaðila.

Uppfærðar siðareglur má finna hér og á prentvænuformi hér.

Nánari upplýsingar um Æskulýðsvettvanginn og starfsemi hans er hægt að finna hér.


Skátarnir hljóta höfðingjalega gjöf

Lionsklúbburinn Muninn og Lionsklúbburinn Ýr færðu Skátunum að gjöf 114 gerðarleg borð með samanfellanlegum fótum í minningu hjónanna Friðriks Haraldssonar og Steinu Haraldsdóttur. Þessi borð munu koma sér vel víða um land hjá skátafélögunum sem og á Úlfljótsvatni. Skátahreyfingin sendir þeim miklar þakkir fyrir!


Dróttskátar í þúsund metrum

Ds. Fimmvörðuháls hófst með því að hátt í 30 dróttskátar ásamt foringjum lögðu af stað í ævintýri seinnipart föstudagsins 10. júní, full eftirvæntingar með stútfulla bakpoka. Hópur með sameiginlegt markmið: Ganga yfir Fimmvörðuháls á tveimur dögum í hópi skemmtilegra dróttskáta. Við í foringjahópnum settum markið ennþá hærra: að koma öllum alla leið heilum á húfi og brosandi.

Hópurinn lagði af stað um klukkan 16 frá Skógarfossi og tók fyrsti hjallinn á, en því var bjargað með því að stilla vel bæði bakpokann og höfuðið. Hópurinn hélt síðan áfram og var stefnan sett á Baldvinsskála og Fimmvörðuskála þar sem átti að gista eina nótt í 800 eða 1.000 metra hæð. Á leiðinni skoðuðum við þrjátíu og eitthvað fossa sem sannarlega glöddu augað.

Leiðin upp tók á alla bæði líkamlega og andlega en ýmsar leiðir voru nýttar meðal dróttskátanna til að koma sér upp. Einhverjir fóru í hláturjóga, sumir gengu alltaf fyrstir, aðrir sungu og svo tóku nokkrir að sér að vera í peppliðinu.

Þegar klukkan var orðin eitt eftir miðnætti sáum við loksins skálana og hresstust ansi margir við það, en mörgum fannst þetta engan endi ætla að taka, enda allir með þunga bakpoka á bakinu og hækkunin mikil. Tilfinningin að sjá jökultoppana og skálanna þar á milli, í bjartri sumarnótt, er eiginlega ólýsanleg.

Helmingurinn af hópnum renndi sér í átt að Baldvinsskála og hinn helmingurinn í átt að Fimmvörðuskála. Hópurinn í Baldvinsskála var kominn í hús um tvöleytið en Fimmvörðuskálahópurinn um klukkan þrjú. Skálaverðir tóku óvænt á móti hópunum en allir komust loksins í poka og sváfu til morguns.

Hópurinn úr Baldvinsskála lagði af stað fyrr morguninn eftir og hittust hóparnir uppi á hálsinum í þúsund metra hæð. Á laugardeginum var stefnan sett á Bása með viðkomu hjá Magna og Móða, nýjum tindum sem urðu til í eldgosi 2010 og eru því yngri en dróttskátarnir. Ferðin niður gekk hraðar að mörgu leyti. Fjölbreytt umhverfi og að sjá niður í Þórsmörkina hjálpaði öllum að muna eftir markmiðinu.

Brattafönn var hápunktur göngunnar fyrir marga. Mikil lækkun á mjög stuttum tíma. Skálaverðir höfðu útvegað nokkra plastpoka sem voru nýttir í að gera upplifunina ennþá skemmtilegri. Allir renndu sér niður brekkuna á sínum hraða með bros á vör og stundum snjó í andlitinu.

Síðan tók við Heljarkamburinn þar sem einnig var töluvert af snjó. Hópur nýliða í björgunarsveit var aðeins á undan okkur og gerði leiðina greiðari fyrir okkur meðfram hlíðinni þar sem við fikruðum okkur eftir keðjum og klifurlínum. Heppnin alveg með okkur.

Það voru síðan glaðir dróttskátar sem gengu yfir Kattahryggi og alveg niður í Bása. Allir höfðu lagt af stað saman og kláruðu saman. Í Básum voru frábærir foringjar búnir að tjalda flestum tjöldunum og gera klárt á grillið. Tók því á móti okkur kvöldmatur og standandi tjöld sem var kærkomið fyrir göngugarpana. Markmiðum ferðarinnar náð!

Eftir kvöldmat hurfu sumir inn í tjöld, spjölluðu og sáust ekki fyrr en morguninn eftir, á meðan aðrir sungu og töluðu fram eftir nóttu. Á sunnudeginum var öllu pakkað niður og haldið heim með rútunni með viðkomu í Merkurkeri. Þar óðum við upp ánna í gegnum stóran helli og gil og náði vatnið upp á læri og stundum lengra. Frábært ævintýri í stórkostlegri náttúru með góðum skátavinum og skemmtilegur endir á góðri dróttskátahelgi.

Ds. Fimmvörðuháls var svo sannarlega vel heppnuð dróttskátaferð þar sem þátttakendur og foringjar fengu að njóta sín og takast á við krefjandi verkefni. Við hlökkum til að hittast aftur í ágúst á landsmóti dróttskáta á Akureyri.

Ferðin var styrkt af Bandalagi íslenskra skáta í gegnum Styrktarsjóð skáta og má með sanni segja að þar hafi “dósum verið breytt í káta skáta”.

Texti: Sigurður Úlfarsson og Ragnheiður Silja


Drekatemjari fær gullmerki, mótsstjórn Drekaskátamóts kveður og ný tekur við

Landsmót drekaskáta var haldið um síðustu helgi þar sem yfir 240 skátar skemmtu sér við leik og störf.  Í lok móts var Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir heiðruð fyrir dygg störf sín í þágu ylfinga og nú drekaskáta og var afhentur þórshamarinn úr gulli.

Dagga eins og hún er alltaf kölluð hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og eljusemi og mætt sem foringi með skátana sína  á aldrinum 8-10 ára á hvert drekaskátamót sem haldið hefur verið síðan 1997. Auk þess að vera einnig starfandi félagsforingi Mosverja hefur hún unnið fjölmörg óeigingjörn störf í þágu skáta og skátahreyfingarinnar og fyrir það ber að þakka.

Unnur Líf Kvaran var einnig heiðruð fyrir ötult starf í þágu drekaskáta og drekaskátamóts síðustu 5 ár. Hún hefur starfað sem sveitarforingi í Skjöldungum, áður var hún aðstoðarfélagforingi Fossbúa og hefur verið í forsvari fyrir mörg verkefni á vegum BÍS. Var henni afhentur þórshamarinn úr bronsi.

Á mótinu kvaddi elsti hópur mótsstjórnar sem hefur starfað saman í 4-6 ár og ný mótsstjórn sem hefur verið í þjálfun síðustu 2 ár tekur nú við.  Stjórn BÍS þakkar fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf og einstakan starfsanda og hvetur nýja mótsstjórn til dáða. Var eldri mótsstjórn afhent þjónustumerki BÍS úr gulli, þeim Sölku, Ísaki og Birtu úr Mosverjum, Óla úr Árbúum og Aroni úr Skjöldungum.

Yngri hluti mótsstjórnar fékk þjónustumerki BÍS úr silfri, þeir Davíð og Reynir úr Garðbúum, Ægir úr Faxa, Valur Kári úr Skjöldungum og Andri úr Kópum.

 


Privacy Preference Center