Fleiri en 200 íslenskir skátar tóku þátt í JOTA-JOTI 2022

Alþjóðlega skátamótið JOTA-JOTI fór fram helgina 14.-16. október, skammstöfunin stendur á ensku fyrir alheimsmót skáta í loftinu og alheimsmót skáta á internetinu. Á milli 2 og 3 miljónir skáta um allan heim tóku þátt í mótinu. Íslenskir skátar um land allt tóku líka þátt í viðburðinum en skátar frá Akranesi, Akureyri, Búðardal, Reykjavík og Hafnarfirði voru á meðal þátttakenda.

Rafræna mótsvæðið á jotajoti.info

Það eru ýmsar leiðir færar til að taka þátt í mótinu en skátar geta bæði tekið þátt sem einstaklingar eða tekið þátt í mótinu í stærri hópum. Mótið fer fram á rafrænu mótsvæði sem skiptist upp í dagskrártorg þar sem hvert torg er með ólíka áherslu. Innan hvers torgs er síðan fjölbreytt og spennandi dagskrá yfir helgina þar sem þátttakendur geta tengst skátum um allan heim ýmist á zoom fundum, í tölvuleikjum eða bara með að fást við verkefni í raunheimum á sama tíma og þúsundir annarra.

Skátar í Klakki, Akureyri, taka þátt í mótinu á internetinu

Flestir íslenskra skáta tóku þátt með sínu skátafélagi en félögin fóru ólíkar leiðir til að taka þátt. Skátafélögin Landnemar og Hraunbúar voru í félagsútilegu umrædda helgi á Úlfljótsvatni og í Lækjabotnum og nýttu mótið fyrir dagskrá í útilegunni hjá sér, þau fengu líka aðstoð radíóskáta sem mættu til þeirra og hjálpuðu þeim að taka þátt í þeim hluta mótsins sem fór fram í loftinu gegnum talstöðvar og annan fjarskiptabúnað. Skátafélag Akraness, Klakkur og Stígandi voru héldu viðburð í sinni heimabyggð vegna tilefnisins þar sem áhugasamir skátar gátu komið að taka þátt í mótinu með sínum skátaforingjum og gist á meðan að á viðburðinum stóð. Árbúar hittust síðan í skátaheimilinu til að taka þátt saman í mótinu meðan sum í hópnum voru heima en tengd við restina af hópnum gegnum sameiginlega spjallrás. Garðbúar skráðu síðan hóp til þátttöku og auglýstu til sinna skáta og foringja sem tóku síðan þátt sitt í hvoru lagi. Þá tóku á milli 10 og 20 íslenskir skátar líka þátt í mótinu án þess að vera í stærri hóp.

Í heildina tóku því fleiri en 200 skátar þátt í mótinu og var skiptingin eftirfarandi samkvæmt skrá mótsins:
Skátafélagið Árbúar – 7 skátar
Dróttskátsveitin Oríón, skátafélagi Akraness – 14 skátar
Radíóskátar – 7 skátar
Skátafélagið Stígandi – 10 skátar
Skátafélagið Klakkur – 14 manns
Skátafélagið Garðbúar – 20 skátar
Skátafélagið Landnemar – 50 skátar
Skátafélagið Hraunbúar – 74 skátar

Radíóskátar aðstoða unga skáta í Landnemum að taka þátt í alheimsmóti skáta í loftinu með fjarskiptabúnaði