Hringborð fjölskylduskátaforingja

Fimmtudaginn 6.október fór fram hringborð fjölskylduskátaforingja í Skátamiðstöðinni. Þá hittust fjölskylduskátaforingjar frá sex skátafélögum, þar af voru tvö skátafélög sem hafa verið með starfandi fjölskylduskátastarf síðasta árið, tvö skátafélög sem eru farin af stað með fjölskylduskátastarf núna í haust og tvö skátafélög sem vilja byrja með fjölskylduskátastarf.

Gagnlegar umræður

Opnar umræður um ýmiss málefni tengd fjölskylduskátum voru rædd, þar á meðal skráningarmál, verðlag, staðsetningar fundanna, tímasetningar fundanna og dagskráin sjálf á fundum.

Að auki fór erindreki BÍS yfir nýja umgjörð sem skátamiðstöðin er að vinna að sem snýst um að auðvelda nýjum fjölskylduskátaforingjum eða skátafélögum að hefja fjölskylduskátastarf í sínu umhverfi. Í umgjörðinni kemur fram hvers vegna fjölskylduskátastarf er mikilvægt bæði fyrir fjölskylduna en einnig fyrir skátafélagið. En fjölskylduskátastarf er tækifæri til þess að veita börnum undir þátttöku aldri yngsta aldursbils í skátafélaginu möguleikann á því að taka þátt í krefjandi og spennandi dagskrá með fjölskyldunni sinni. Með virkri þátttöku fjölskyldumeðlima nær skátafélagið að stofna jákvætt samband milli síns og fjölskyldanna í hverfinu.

Sameiginlegur drekaskátadagur í vor

Hringborðið var mjög gagnlegt og mynduðust mjög áhugaverðar samræður þar sem foringjar náðu að spegla sig hvert við annað og deila reynslum um fjölskylduskátastarf. Hópnum fannst tilvalið að stefna að sameiginlegum degi fyrir fjölskylduskáta eins og er fyrir önnur aldursbilin og ætla að stefna á að halda svoleiðis dag að vori.