Tíðindi frá félagsforingjafund

Haustfundur félagsforingja BÍS var haldinn í Hraunbæ 123 4. október síðastliðinn.

Þar var farið yfir stöðu mála á skrifstofunni, rætt um samning skátanna við Sportabler, farið yfir niðurstöður ánægjukönnunar BÍS, ný viðbragðsáætlun Æskulýðsvetvangsins var kynnt, og skipun mótsstjóra landsmóts skáta 2024 var tilkynnt.

Af starfsmannamálum skrifstofunnar var það helst að Helga Þórey Júlíudóttir framkvæmdastjóri BÍS hefur látið af störfum og mun Harpa Ósk skátahöfðingi stíga tímabundið í stöðu hennar meðan á ráðningarferli stendur.  Auglýst verður eftir nýjum framkvæmdastjóra fljótlega.   Önnur starfsmannamál skrifstofunnar haldast óbreytt. Helstu verkefni skrifstofunnar voru kynnt en framundan eru spennandi tímar þar sem endurgerður starfsgrunnur BÍS mun brátt líta dagsins ljós og síðustu mánuði hefur leiðbeinendasveitin hafið námskeiðahald fyrir ungmenni innan skátahreyfingarinnar.  Þátttaka í nýju námskeiðunum hefur verið mjög góð.

Rætt var um þann samning sem BÍS hefur með skráningar- og miðilskerfinu Sportabler. Núna er sá prufusamningur sem BÍS gerði við skráningarfyrirtækið að renna út og breytast í hefðbundinn samning. Mun sú breyting hafa í för með sér mánaðarlegan kostnað og ræddir voru möguleikar þess að félögin muni þurfa að greiða árgjald til að bera kostnað af sínum hluta samningsins. Umræða félags- og aðstoðarfélagsforingja um Sportabler var jákvæð, og lýsti fólk yfir ánægju með kerfið í samanburði við fyrra skráningarkerfi.  Einnig var lýst yfir ánægju með leiðbeiningar fyrir skráningarkerfið sem erindrekar BÍS hafa útbúið og dreift til félaganna.

Send var út ánægjukönnun á þátttakendur skátastarfs í vor. Þar var forráðafólk beðið um að svara spurningum um upplifun barna sinna í starfinu. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á fundinum og var þar helst minnst á ánægju forráðafólks með útivist og gildi skátastarfs í lífi barna sinna. Forráðafólk óskaði eftir meiri útivist, fleiri útilegum, og að upplýsingar um starfið bærist bæði í gegnum Sportabler og með tölvupósti.

Ný viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins verður birt 8. nóvember og fengu félagsforingjar stutta kynningu á efnistökum.  Skátar hafa lengi starfað eftir viðbragðsáætlun ÆV og hafa lagt mikið af mörkum við uppfærslu þeirrar nýju.

Kolbrún Ósk Pétursdóttir hefur verið skipuð mótsstjóri Landsmóts skáta 2024.  Mótið verður haldið á Úlfljótsvatni 12-19.júlí 2024.  Kolbrún Ósk hefur strax hafist handa við að búa til mótsstjórn og munu nánari upplýsinga vera að vænta fljótlega.