Nuestra Cabaña - Mexico

Nuestra Cabaña er ein af 5 alþjóðaskátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í Mexico. Þann 22. febrúar 1956 gaf Lady Baden-Powell miðstöðinni bláa hurð sem tekur á móti öllum þeim sem koma í Nuestra Cabaña. Skátamiðstöðin var svo formlega opnuð í júlí 1957. Í Nuestra Cabaña er að finna, svefnálmur, fundaraðstöður, sundlaug, eldstæði, tjaldsvæði, blakvelli og tennisvelli og margt fleira. Ef þú hefur áhuga á að kynnast Nuestra Cabaña betur þá getur þú skoðað það hér.
Hér getur þú nálgast nánari upplýsingar til að gerast sjálfboðaliði hjá þeim.
Kusafiri - Afríku

Kusafiri er ein af alþjóðlegu skátamiðstöðvum WAGGGS. Kusafiri þýðir á Swahili, "að ferðast". Dagurinn sem haldið er upp á sem stofndag Kusafiri er 15. júlí 2011, en hér má lesa nánar um stofnun Kusafiri.
Ef þú hefur áhuga á að gerast sjálfboðaliði í Kusafiri getur þú haft samband við þau hér!
Sangam - Indlandi

Sangam er ein af 5 alþjóðlegu skátamiðstöðvum WAGGGS. Sangam þýðir "að koma saman". Hægt er að skipuleggja ferðir til Sangam og fá þar gistingu og mat, synda í sundlauginn eða slaka á í heita pottinum, skreppa svo út og skoða nærumhverfið. Hér er hægt að fræðast meira um Sangam.
Sangam er ávallt til í að fá fólk til liðs við sig, hvort sem um ræðir starfsfólk eða sjálfboðaliða í styttri og lengri tíma.
Vässarö - Svíþjóð

Vässarö er skógi vaxin eyja í Svíþjóð með nokkrum gömlum húsum sem í dag eru notuð sem skrifstofur og skátamiðstöð yfir sumartímann. Ekki er hægt að komast til eyjunnar frá október til lok apríl vegna veðurs og annara utanaðkomandi aðstæðna. En hér má lesa nánar um sögu Vässarö.
Vässarö er í eigu nokkurra skátafélaga í Svíþjóð sem tilheyra öll undir Stockholm scout district of Sweeden en þar starfa 6 starfsmenn sem færa bækistöðvar sínar yfir til Vässarö á sumrin. Auk starfsfólks eru sjálfboðaliðar sem skipuleggja dagskrá og sjá um viðhald á eyjunni. Sjálfboðaliðar á Vässarö kallast "Funk", og þú getur orðið einn af þeim!
Ef þú ert 18 ára eða eldri og hefur áhuga á að gerast sjálfboðaliði á Vässarö getur þú skoðað þessa síðu fyrir nánari upplýsingar.
Houens Odde Spejdercenter - Danmörku

Houens Odde er stærsta skátamiðstöð í Norður-Evrópu, staðsett í Danmörku. Houens Odde er skagi staðsettur í hjarta Danmerkur, umkringdur vatni. Á skaganum eru 15 tjaldsvæði, sum inni í skógi en önnur á opnum svæðum.
Hægt er að skipuleggja sína eigin ferð með skátasveitinni sinni, og skipuleggja dagskrá innan- og utandyra. En einnig er hægt að taka þátt í skipulagðri dagskrá miðstöðvarinnar.
Danskir sjálfboðaliðar kallast "Houmen" og sjá um að skipuleggja dagskrá og fleira fyrir skáta og skátaforingja bæði frá Danmörku og allstaðar að úr heiminum.
Hægt er að gerast sjálfboðaliði frá 2 - 12 mánuðum í senn ef þú ert á aldrinum 18 - 30 ára. Einnig er hægt að gerast sjálfboðaliði í styttri tíma yfir sumarið. Til að fá nánari upplýsingar er hægt að skoða þessa síðu hér.
Pax Lodge - London

Pax Lodge er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í London. Pax Lodge er í senn farfuglaheimili, þjálfunar- og ráðstefnustaður með skátaandann í fyrirrúmi.
Hægt er að gerast sjálfboðaliði hjá Pax Lodge en þau bjóða upp á 3-6 mánaða leiðtogaupplifun frá 18 ára aldri, þar sem þú býrð á svæðinu og sinnir sjálfboðastörfum sem efla leiðtogahæfni þína. Á þessum tíma muntu efla sjálfstraustið þitt, læra nýja hluti, fá aðra sýn á heiminn og verða hvetjandi leiðtogi.
Ef þú ert að leita að spennandi ævintýrum og langar að fara út í heim að vinna, gerast sjálfboðaliði eða bara hafa gaman þá ættir þú að kíkja á heimasíðuna hjá Pax Lodge í London.
Our Chalet - Svissnesku Alparnir

Our Chalet er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í Alpaþorpinu Adelboden í Sviss.
Svæðið samanstendur af nokkrum skálum með mismunandi magni af svefnplássum og þægindum. Hægt er að gista í rúmum og vera í fullu fæði en einnig er hægt að gista í minni skálum á dýnum og koma með eigin mat, allt eftir því hversu mikið fjármagn hópurinn hefur á milli sín. Það eru mismunandi dagskrár möguleikar eftir því hvenær á árinu staðurinn er heimsóttur og það eru mismunandi erfiðleikastig í boði.
Einnig er hægt að sækja um sem tímabundin sjálfboðaliði frá 2 vikum í allt að 6 mánuði við 18 ára aldur. Það er bæði hægt að sækja um ákveðnar stöður en einnig sem almennur sjálfboðaliði þar sem viðkomandi fær tækifæri til þess að takast á við ýmis verkefni tengd rekstri og dagskrá. Öllum kynjum óháð búsetu er velkomið að sækja um stöður í Our Chalet. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Our Chalet.
KISC - Sviss

Alþjóðlega skátamiðstöðin í Kandersteg, í Sviss, var stofnuð af Baden Powell með það að markmiði að allt árið um kring væri í boði að taka þátt í skátastarfi. Skátamiðstöðin hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og er í dag frábært tækifæri fyrir skáta að prófa að vinna í skátamiðstöð sem sjálfboðaliði.
Í KISC er hægt að sækja um að vera “Pinkie” en það eru þriggja mánaða sjálfboðaliðastarf sem eru í boði fyrir allar árstíðir. Þau verkefni sem Pinkies taka að sér eru fjölbreytt, skemmtileg og lærdómsík. Þar má nefna útivistatengda dagskrá, kvöldvökur, þrif og matreiðsla og vinna á tjaldsvæði svo eitthvað sé nefnt. En hér má finna nánari upplýsingar um KISC.







