Sumarlokun Skátamiðstöðvarinnar
Sumarlokun Skátamiðstöðvarinnar
Skátamiðstöðin og Skátabúðin eru lokuð vegna sumarleyfa frá 23. júlí og fram yfir Verslunarhelgi.
Endurvinnslumóttaka Grænna skáta er opin eins og venjulega virka daga 9 – 18 og um helgar 12 – 16:30
Beiðnir um að sækja dósir í fyrirtækjaþjónustu má senda á netfangið graenir@skatar.is
Vegna fyrirspurna um Tjaldsvæðið á Úlfljótsvatni er sími Tjaldvarðar 618-7449
Starfslok
Starfslok
Jakob Guðason staðarhaldari á Úlfljótsvatni hefur ákveðið að láta af störfum hjá Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.
Jakob mun sinna ákveðnum verkefnum á uppsagnartímanum.
Skátar og stjórn ÚSÚ þakka Jakobi fyrir vel unnin störf í þágu skáta og Útilífsmiðstöðvar skáta og óska honum alls hins besta í framtíðinni.

Auðveldara verði að ná í hæfa skátaforingja
Auðveldara verði að ná í hæfa skátaforingja

Kynningarfundur þróunarverkefnis um launaða starfsmenn skátafélaga sem haldinn var í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ í gærkvöldi var ákaflega vel sóttur. Alls mættu fulltrúar frá níu skátafélögum til fundarins í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ. Fram kom á fundinum að flest félaganna íhuga þátttöku. „Þessar undirtektir skátafélaganna eru mun betri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Jón Halldór Jónasson, í stjórn BÍS og formaður stýrihóps verkefnisins.
„Við efnum til þessa verkefnis með það í huga að auðvelda skátafélögunum að finna hæfa foringja og ná að halda þeim lengur í starfi,“ segir Jón Halldór, en hann kynnti hugmyndirnar ásamt Helga Þór Guðmundssyni úr skátafélaginu Vogabúum og formanni Skátasambands Reykjavíkur.
Tvö launuð hlutverk
Þróunarverkefnið gerir ráð fyrir tveimur launuðum hlutverkum hjá skátafélagi, annars vegar starfi framkvæmdastjóra sem fær aukið vægi miðað við fyrirkomulag hjá flestum skátafélögum í dag og hins vegar fá sveitarforingjar laun fyrir sín störf. Með þessu nýja fyrirkomulagi á að fást meiri festa í starfið, en eins og staðan er í dag keppir skátahreyfingin um tíma ungs fólks í foringjastörfum og eru dæmi um að vaktaplanið hafi betur á kostnað skátafundarins.
Helgi Þór segir mikilvægt að skátafélögin sníði sér stakk eftir vexti og í því rekstrarlíkani sem var kynnt er starfshlutfall framkvæmdastjóra breytilegt eftir stærð skátafélags. Það sé auðvelt að auka það þegar félagið vex og að sama skapi minnka ef fækkar í félaginu. Mikilvægt sé að ráða framkvæmdastjóra sem hafi reynslu af rekstri, með brennandi áhuga á skátastarfi og frumkvæði. Margvíslegir möguleikar opnist með öflugu fólki og skátafélög hafi ríkt erindi við samfélagið, en þurfi svigrúm til að fylgja því eftir.
Skátafélögin með svipaðar hugmyndir
Ástæðan fyrir því hve fundurinn í gær var vel sóttur er að mörg skátafélög voru með svipaðar hugmyndir í skoðun þegar boð um hann barst frá Skátamiðstöðinni. Líklegt er að þau hefðu farið í þessa átt hvort sem er, en með samfloti skátafélaga innan þróunarverkefnisins næstu þrjú árin fengist aukinn kraftur. Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri BÍS segir að Skátamiðstöðin komi inn í verkefnið til að gefa því enn meiri kraft. Hægt er að létta stjórnum félaganna lífið með margvíslegum hætti þannig að krafturinn fari í skátastarfið en ekki skrifstofurekstur.
Eins og áður segir mættu fulltrúar frá níu skátafélögum: Fossbúar á Selfossi, Heiðabúar í Reykjanesbæ, Skátafélag Akraness, Vífill í Garðabæ og úr Reykjavík komu fulltrúar fimm félaga, frá Skjöldungum, Garðbúum, Vogabúum, Árbúum og Haförnum.
Næstu skref
Flest skátafélaganna sem mættu á fundinn vilja skoða möguleika á að fara í þróunarverkefnið strax í haust. Sum þeirra hafa þegar tilkynnt formlega þátttöku og önnur láta heyra í sér á næstu dögum eftir að hafa rætt innan sinna stjórna.
Gert er ráð fyrir vinnustofum með þeim skátafélögum sem koma inn í verkefnið og ræðst það á næstu vikum hvernig fyrirkomulag þeirra verður, en það tekur að sjálfsögðu mið af þátttöku.
Verkefni skátamiðstöðvar og stýrihóps skv. erindisbréfi stjórnar BÍS verða þessi:
- Fullmóta rekstrarlíkan fyrir skátafélög með launaða starfsmenn
- Vinna með skátafélögum sem ákveða að taka þátt í þróunarverkefninu
- Ganga frá starfslýsingum fyrir framkvæmdastjóra og skátaforingja.
- Vera talsmenn verkefnisins innan skátahreyfingarinnar
- Skoða gildi stuðnings og hvatningar sem skátaforingjar fá í starfi.
- Miðla upplýsingum um framvindu verkefnisins til áhugasamra
- Vera til ráðgjafar vegna samninga við sveitarfélög
- Fylgjast með gæðum þess skátastarfs sem boðið er
- Skoða og vinna með leiðir til að ná til nýrra skátaforingja
Rakel Ýr Sigurðardóttir verkefnastjóri í Skátamiðstöð mun leiða verkefnið ásamt stýrihópi. Formaður stýrihóps er Jón Halldór Jónasson úr stjórn BÍS og auk hans eru í hópnum Birgir Ómarsson, skátafélaginu Garðbúum, Helgi Þór Guðmundsson, skátafélaginu Vogabúum, Jóhanna Másdóttir, fulltrúi starfsráðs, Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir, skátafélaginu Garðbúum og Þórhallur Helgason, fulltrúi Skátaskólans.

Heimsþing - Útkall
HEIMSÞING - ÚTKALL

Langar þig að vera fulltrúi BÍS á heimsþingi skáta? Við leitum að áhugasömu fólki til að taka þátt í heimsþingi WOSM sem fer fram á netinu þann 25-28. ágúst. Þetta er frábært tækifæri til að læra hvernig skátahreyfinginn virkar á heimsvísu og skapa vináttu við skáta allstaðar úr heiminum.
Á heimsþingi eru stórar ákvarðanir teknar m.a. hvar næsta alheimsmót verður haldið árið 2027 og að hverju WOSM mun vinna næstu þrjú árin, síðast en ekki síst fáum við tækifæri til að deila reynslu milli landa.
Þátttaka í þinginu veitir mikla alþjóðlega reynslu og möguleika á að víkka persónulegt tengslanet. Íslenski fararhópurinn mun hittast og eyða þinginu saman (staðsetning óákveðin), þar sem verður dagskrá bæði á netinu og í raunheimum.
Fyrir þá sem eru 25 ára og yngri þá er einnig tækifæri til að mæta á ungmennaþingið sem er haldið fyrir aðalþingið dagana 18-22. ágúst. Þar verður rætt um mikilvægi þátttöku ungmenna og hvernig þau geta haft áhrif á samfélagið.
Frekari upplýsingar um þingið er hægt að finna inná https://scoutconference.org/
Hægt að skrá sig með því að senda umsókn á althjodarad@skatar.is
Umsóknarfrestur er til 18. júní
Sumaropnun Skátamiðstöðvarinnar
Sumaropnun Skátamiðstöðvarinnar
Frá mánudeginum 14. júní verður opnunartími Skátamiðstöðvarinnar og Skátabúðarinnar 9 – 16 alla virka daga.
Opnunartími endurvinnslumóttöku Grænna skáta breytist ekki, verður áfram 9- 18 virka daga og 12 – 16:30 um helgar.
Drekaskátamótin 2021
Drekaskátamót 2020 2021
DREKASKÁTAMÓT Á TÍMUM HEIMSFARALDURS
Drekaskátamót 2020 2021 fór fram á Úlfljótsvatni 5. og 6. júní síðastliðinn. Mótið er árlegur liður í starfi 7 – 9 ára skáta og ekki óvanalegt að þess sé beðið með mikilli eftirvæntingu. En í ár var eftirvæntingin jafnvel meiri en áður því ekki var mögulegt að halda mótið sumarið 2020 vegna heimsfaraldurs og því höfðu mörg beðið í tvö ár eftir því að komast á mótið.
Þótt Covid hafi ekki komið í veg fyrir mótið þetta sumarið, minnti heimsfaraldurinn samt á sig. Vegna samkomutakmarkanna var ekki mögulegt að allir þátttakendur og sjálfboðaliðar kæmu á Úlfljótsvatn í einu og gistu yfir nótt og því brugðið á það ráð að halda tvö styttri mót sitt hvorn daginn í staðin.
Þessa ákvörðun þurfti að taka þegar rúm vika var í mót og því þurfti mótstjórnin að leggja gífurlega vinnu í að aðlaga mótið út frá aðstæðum.

EINS MÓT ÓLÍK VEÐRÁTTA
Það var sólstrandarþema á Drekaskátamóti 2020 2021 og sólin var svo sannarlega á sínum stað, en því miður var hrúga af skýjum á milli hennar og skátanna á mótinu. En það kom ekki í veg fyrir að 150 þátttakendur og sjálfboðaliðar ættu fjörugan dag á Úlfljótsvatni á laugardeginum og gekk rigningunni ekki betur að stöðva gleðina hjá hinum 150 þátttakendunum og sjálfboðaliðunum sem komu á mótið á sunnudegi.
Drekaskátarnir nýttu aðstöðuna til fulls og sigldu bátum, sigruðu vatnasafaríið, mátuðu gamla skátabúninga, náðu toppi klifurturnsins, spenntu boga og þöndu lungun á kvöldvöku í lok dags.

ÁVALLT VIÐBÚIN
Þátttakendur voru ekki ein í hópi þeirra sem skemmtu sér um helgina, reynsluboltarnir í mótstjórn og starfsmannahópnum höfðu ekki síður gaman af. „Það er búið að vera mjög skemmtilegt að prófa að gera þetta á nýjan máta og takast á við nýjar áskoranir.“ sagði einn mótstjórnenda og holdgervingur skátamottósins Ísak Árni Eiríksson Hjartar sem var í miðju kafi að sauma efstu töluna aftur á Hawai skyrtuna sína.

LEARNING BY DOING
En ekki voru öll að gera þetta í annað, þriðja eða fjórða sinn því þrjú ný tóku sæti í mótstjórn öll á rekkaskátaaldri, 16 – 19 ára. „Það er gaman að sjá yngri skátana vera tilbúna til að taka við keflinu og að sjá eldmóðinn hjá ungum mótstjórnarmeðlimum, foringjum og starfsfólki. Ég er allavega stolt af drekaskátamóti fyrir að gefa yngri skátum tækifæri til að spreyta sig í viðburðarhaldi og sjálf lærði ég mikið af þessu og er enn að.“ sagði Unnur Líf úr mótstjórn og bar svo á sig sólarvörn í þriðja skiptið svo að rigningin héldi áfram að renna af henni eins og nýbónuðum bíl.

DÝRMÆTT AÐ GETA KOMIÐ SAMAN
Þrátt fyrir aukið álag á mótstjórn og starfsfólk mótsins þótti þeim vel þess að virði að geta fundið lausn svo hægt væri að halda mótið. „Þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að bjóða þátttakendum öllum í einu í tjaldútilegu eins og vanalega var mjög dýrmætt og þarft fyrir bæði skáta og foringja þeirra að komast loksins á almennilegan skáta og útivistarviðburð.“ Sagði Salka Guðmundsdóttir leiðtogi mótstjórnar á meðan hún réri brimbrettinu sínu um vatnasafaríið.

AFTUR STÆRRA AÐ ÁRI
Sumarið 2022 verður landsmót á hverju aldursbili skátanna og verður drekaskátamótið auðvitað á sínum stað og jafnvel stærra en nú og áður.

Undirbúningur fyrir Útilífsskóla skáta byrjaður!
Undirbúningur fyrir Útilífsskóla skáta 2021 er byrjaður!

Í gær, 26. maí 2021, mætti hópur af duglegu, spenntu og flottu fólki sem á það sameiginlegt að ætla að vinna í Útilífsskóla skáta sumarið 2021. Til að undirbúa sig fyrir námskeiðin og vera tilbúin í allt þá byrjuðu þá á skyndihjálparnámskeiði sem var í leiðsögn hinnar frábæru Laufeyjar Elísabetar Gissurardóttur, sem hefur kennt skyndihjálp í þrjá áratugi.
Laufey hafði orð á því hversu flottur þessi hópur væri, greinilega tilbúin í að læra og meðtaka nýjar upplýsingar, spennt fyrir komandi tímum og má segja að starfskostur Útilífsskólans sé vel skipaður í ár.
Gaman verður að fylgjast með þessum hópi takast á við skemmtilegar áskoranir sumarsins en skráning í Útilífsskóla skáta er í fullum gangi og hægt að nálgast frekari upplýsingar á www.utilifsskoli.is.
Salernisaðstaða við Skátalund
SALERNISAÐSTAÐA VIÐ SKÁTALUND
í dag, fimmtudag kl. 14.30 verður nýtt salernishús tekið í notkun við sunnanvert Hvaleyrarvatn, við skátaskálann Skátalund.
Húsið, sem byggt er af eldri skátum í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, mun bæði þjóna starfsemi á svæði skátanna en verður einnig opið almenningi og kær viðbót við kamarhús sem eru norðan við vatnið. Í húsinu eru tvö vatnssalerni í hituðu rými ásamt vöskum. Útivaskar verða einnig svo auðvelt sé að bæta á vatnsflöskuna eða þvo sér. Háþróuð rotþró, sem í raun er hreinsistöð var sett upp til að tryggja að engin mengun skili sér í Hvaleyrarvatnið og kemur hún í stað frumstæðrar rotþróar sem hefur verið á svæðinu í áratugi.
Það var að frumkvæði skátanna í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði, öflugu félagi eldri skáta, sem bygging salernishússins hófst. Hafnarfjarðarbær leggur til hluta fjármagns til byggingarinnar en skátarnir hafa lagt til alla vinnu og fengið mikinn stuðning í samfélaginu en bæði fyrirtæki og einstaklinga hjálpuðu til að þetta verkefni yrði að veruleika.
Skátarnir hafa einnig sett upp upplýsingaspjöld neðan við svæðið sitt og við innkeyrsluna að því og eru þar m.a. merktir inn göngustígar en svæði skátanna er opið almenningi sem eru þó beðnir að taka tillit til starfsemi á svæðinu. Hafa skátarnir byggt þarna upp útivistarparadís til nota í skátastarfi og nýtist jafnframt almenningi.
Framkvæmdir hófust fyrir réttu ári og eru salernin tilbúin til notkunar en eftir er að setja gras á þakið og ljúka við fínni frágang. Opnun hefur tafist aðeins vegna Covid-19 og að sjálfsögðu er fólk hvatt til að virða sóttvarnarreglur á staðnum.

Mikil starfsemi hefur verið í skátaskálanum og á svæðinu en auk starfsemi skátanna hefur skálinn verið leigður út til ýmissi viðburða til að fjármagna endurbætur og nýframkvæmdir á svæðinu.
Salernin eru opin kl. 8-22 alla daga og sjálfvirkur búnaður sér um læsingar. Skátarnir hvetja alla til að ganga vel um til að tryggja að sem flestir geti nýtt aðstöðuna um næstu framtíð.
St. Georgsgildið í Hafnarfirði
Miðvikudaginn 22. maí 1963 var St. Georgsgildið í Hafnarfirði stofnað. Þá komu eldri skátar búsettir í Hafnarfirði saman í Hraunbyrgi, félagsheimili Hraunbúa. Tilgangur fundarins var að stofna St. Georgsgildi, samtök eldri skáta í Hafnarfirði. Tveimur kunnum skátaforingjum í Reykjavík hafði verið boðið á fundinn. Það voru þeir Hans Jörgenson skólastjóri og Frank Michelsen úrsmiður. Hans hafði framsögu á fundinum og gerði grein fyrir starfsgrundvelli St. Georgsskáta. Þegar hann hafði lokið máli sínu, var samþykkt að stofna St. Georgsgildið í Hafnarfirði. Síðan fóru allir fundarmenn með heiti St. Georgsskáta og rituðu nöfn sín í fundargerðabók því til staðfestingar. Stofnfélagar voru 41.
Fyrsta stjórn St. Georgsgildisins í Hafnarfirði var þannig skipuð: Eiríkur Jóhannesson gildismeistari, Lára Janusdóttir varagildismeistari, Bragi Guðmundsson ritari, Svavar Jóhannesson gjaldkeri, Ragnheiður Kristinsdóttir meðstjórnandi. Bragi Guðmundsson óskaði eftir því í októbermánuði 1963 að vera leystur frá stjórnarstörfum og var þá Jón Kr. Jóhannesson kjörinn ritari í hans stað.
Á fyrsta starfsári gildisins voru haldnir sjö gildisfundir, farið í eina útilegu, komið á fót happdrætti sem gaf góðar tekjur, jólatrésskemmtun var haldin í samvinnu við Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði og árshátíð gildisins sóttu 90 manns. Af þessu má sjá að rösklega var af stað farið.
Efnið í hann kom tilsniðið frá Noregi og kostaði 86.310,65 krónur á þess tíma verðlagi. Árið 1970 var pallurinn byggður við húsið og kamína keypt til upphitunar. Hafist var handa við að girða landið umhverfis Skátalund 1972 og því var að mestu lokið 1973. Á árunum 1978 og 1979 var Skátalundi breytt og húsið stækkað.æ Til þess var varið 650.000 krónum. Haustið 2001 var rafmagn og vatn leitt að skálanum.
Þegar skátarnir komu á staðinn voru nánast engin tré við Hvaleyrarvatn og svæðið alger berangur. Frá þeim tíma hefur svæðið bæst í mikla útivistarparadís og og munar þar mestu um veru Skógræktarfélags Hafnarfjarðar á svæðinu.
Starfsemin
Starfsemi St. Georgsgildisins í Hafnarfirði er og hefur verið fjölþætt. Fundir eða aðrar samkomur eru haldnar mánaðarlega yfir vetrarmánuðina. Á fundum er mikið sungið, fólk fengið til að halda stutt erindi um ýmis forvitnileg efni, spjallað er saman og glaðst yfir meðlæti og kaffibolla. Þá eru haldin stutt námskeið eða fræðslukvöld tengd hinum ýmsu áhugasviðum félagsmanna.
Skátalundur
St. Georgsgildið í Hafnarfirði á útivistarskála við Hvaleyrarvatn. Hann heitir Skátalundur og var vígður 25. júní 1968.
Starfið er fjölbreytt og fer eftir áhugamálum og hugarflugi gildisfélaga á hverjum tíma. Því eru engin takmörk sett, en þátttaka er frjáls og óbundin. Þeir kom hverju sinni sem áhuga hafa á því sem er þar að gerast.
Markmið
Markmið St. Georgsgildisins í Hafnarfirði eru að reyna að lifa lífinu í samræmi við hugsjónir skátahreyfingarinnar, að flytja hinn sanna skátaanda inn í samfélagið sem við lifum og störfum í, að veita skátastarfinu stuðning, að útbreiða skátahugsjónina, að stuðla að varðveislu skátaminja og vera tengiliður milli skátahreyfingarinnar og eldri skáta og annarra velunnara hennar.
Félagar
Gildisskátar, fullgildir félagar í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði, geta þeir orðið sem náð hafa 18 ára aldri, hafa verið skátar eða hafa áhuga á starfi skátahreyfingarinnar.
St. Georgsgildið er aðili að Skátagildunum á Íslandi, samtökum skátagilda á Íslandi og sömuleiðis er það í heimssamtökum eldri skáta.
Frétt frá Skátaþingi 2021
Skátaþing 2021
Skátaþing 2021 var annað Skátaþingið sem haldið var rafrænt. Jón Þór Gunnarsson var fundarstjóri og Kolbrún Ósk Pétursdóttir og Védís Helgadóttir fundarritarar. Þingið gekk vel fyrir sig og verður hér farið yfir það helsta sem fram fór á þinginu.
Allar upplýsingar um þingið, fundargerð og fleira er að finna á www.skatarnir.is/skatathing-2021.
Staðfesting á skipan félagsforingjafundar
Á Skátaþinginu var Sigurður Viktor Úlfarsson, formaður uppstillingarnefndar BÍS, með framsögu þar sem hann sagði frá því að stjórnarmeðlimur BÍS hafi hætt í stjórn í janúar og því hafi uppstillingarnefnd þurft að búa til verklag til að finna nýjan stjórnarmeðlim til þess að uppfylla lögin. Á félagsforingjafundi var Huldar Hlynsson skipaður í stjórn BÍS og lagði Sigurður það til að niðurstaða félagsforingjafundarins yrði lögð fram til Skátaþings til staðfestingar og að kosið yrði um hvort skipan Huldars yrði út kjörtímabilið.
Tillaga Sigurðar um að staðfesta kosningu félagsforingjafundar var samþykkt og heldur því Huldar Hlynsson sæti sínu í stjórn BÍS út kjörtímabilið.
Jafnréttis- og mannréttingastefna BÍS
Ein þingsályktunartillaga var lögð fram af Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur um jafnréttis- og mannréttindastefnu BÍS. Þórhildur sagði frá því að nánast öll skátabandalög væru með slíka stefnu og að í stefnu BÍS til 2025 komi fram að BÍS þurfi að semja slíka stefnu og að best væri að gera það sem fyrst. Tillagan var samþykkt.
Lagabreytingar
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir lagði fram 12 lagabreytingatillögur og voru 3 samþykktar. Hér koma þær uppfærðar en allar lagabreytingartillögurnar eru inn á heimasíðu skátaþingsins.
Ný 16. grein skátalaga um árlegt Ungmennaþing
Ungmennaráð og stjórn BÍS skulu a.m.k. árlega boða til Ungmennaþings. Til Ungmennaþings skal boða með minnst 6 vikna fyrirvara. Ungmennaþing skal haldið í síðasta lagi fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert. Ungmennaþing er vettvangur fyrir skáta 25 ára og yngri til að koma saman og ræða málefni er varða þau sérstaklega. Á Ungmennaþingi geta ungmenni í skátunum t.d. komið sér saman um lagabreytingar og aðrar tillögur fyrir Skátaþing ár hvert ásamt því að kjósa á kosningaári áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS og a.m.k. þrjá fulltrúa í ungmennaráð. Aðeins eru kjörgengir þeir skátar sem eru 25 ára eða yngri á því ári sem kosið er.
Auka Ungmennaþing skal halda ef stjórn eða ungmennaráð telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara. Auka Ungmennaþing er undanskilið því skilyrði að Ungmennaþing skal vera haldið minnst fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert.
Sé þessi lagabreytingartillaga samþykkt verður núverandi 16. grein að 17. grein, 17. grein að 18. grein o.s.frv.
18. grein um jafna aldursdreifingu í ráðum, nefndum og stjórnum.
Á vegum BÍS skal ætíð starfa sérstök 5 manna uppstillingarnefnd, kosin á Skátaþingi til tveggja ára. Í nefndinni skal vera a.m.k. einn einstaklingur sem er 25 ára eða yngri á því ári sem nefndin er skipuð. Nefndin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.
Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 18. grein, 20. grein, 22. grein, 23. grein, 26. grein og 28. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi. Við störf sín skal uppstillingarnefnd ávallt leita eftir hæfum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS.
Framboð til áðurnefndra embætta má tilkynna til nefndarinnar og skal það vera skriflegt og undirritað af frambjóðanda. Framboð skulu hafa borist í síðasta lagi 3 vikum fyrir Skátaþing. Nefndin skal ljúka störfum í síðasta lagi 17 dögum fyrir þing. Nöfn, netföng og símanúmer nefndarmanna skulu tilgreind í fundarboði til Skátaþings.
Stjórn BÍS skal kalla uppstillingarnefnd saman í síðasta lagi 15. janúar.
25. grein um fjölgun í fastaráð
Á vegum stjórnar BÍS starfa ávallt fimm fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð, ungmennaráð og stjórn Skátaskólans.
Kosnir skulu að lágmarki þrír í hvert fastaráð til tveggja ára. Ungmennaráð er kosið á ungmennaþingi. Að auki situr stjórnarmaður í ráðinu og getur eftir atvikum verið formaður þess. Stjórn getur ákveðið að fleiri séu kjörnir í ákveðið fastaráð með auglýsingu með fundarboði skátaþings eða fundarboði ungmennaþings ef um er að ræða fjölgun meðlima ungmennaráðs.
Í hverju fastaráði BÍS skal vera að lágmarki einn fulltrúi á aldrinum 18-25 ára. Skátar sem bjóða sig fram í ungmennaráð skulu vera á aldrinum 16-25 ára á því ári sem þeir bjóða sig fram.
Hlutverk fastaráðanna er eftirfarandi:
- Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.
- Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
- Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
- Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun dagskrár hreyfingarinnar og eigin skátastarfs.
- Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af grunngildum Bandalags íslenskra skáta.
Næstu viðburðir
Í lokin minnti Ragnheiður Silja frá Garðbúum alla á að skrá sig á Skátasumarið og að skráningarfrestur væri til 30. apríl. Frekari upplýsingar um Skátasumarið má finna hér. [Skráningarfrestur hefur verið lengdur til 14. maí]
Einnig sagði Harpa Ósk, stjórnarmeðlimur BÍS, frá því að í haust verði haldinn aðalfundur þar sem farið verður yfir hvatakerfi og umgjörð í skátastarfi. Auk þess verður Kveikjan haldin í ágúst en það er nýr viðburður þar sem smiðjur verða opnar fyrir skáta, skátafélög og skátaforingja til að mæta, læra nýja hluti og undirbúa veturinn. Viðburðirnir verða auglýstir betur þegar nær dregur.
Hittingar á næsta leyti
Skátaþingið 2021 gekk vel og ekki að furða enda flestir vanir því núna að taka þátt í viðburðum á netinu. Skátamiðstöðin þakkar öllum fyrir þátttökuna og við hlökkum til að hittast sem fyrst í raunheimum, hvort sem það verður á Skátasumarinu, Kveikjunni, næsta aðalfundi, í Skátamiðstöðinni eða hvar sem það verður 🙂
Með skátakveðju úr Skátamiðstöðinni





