Skátasumarið er hafið

Síðasta sumar stóð til að halda stórt Landsmót skáta en vegna heimsfaraldursins var því frestað. Þess í stað verða haldin þrjú minni skátamót í sumar, sem ganga undir nafninu Skátasumarið. Fyrsta mótið var sett síðasta miðvikudag á Úlfljótsvatni og stendur fram á næsta sunnudag. Næstu mót verða svo sett næstu tvo miðvikudaga á eftir líka á Úlfljótsvatni.

Mikið er lagt upp úr því að hafa dagskránna sem fjölbreyttasta og að allir finni sér eitthvað við sitt hæfi. Þátttakendur fá sjálfir að velja sína dagskrá og reyna verkefnin bæði á samvinnu skátaflokksins sem og hugmyndaflug, hæfni og reynslu hvers þátttakanda.

Heimsbandalag kvennskáta hefur útbúið dagskrárefni sem er ætlað að stuðla að jákvæðu líkamsöryggi og valdefla börn og ungmenni. Allir þátttakendur munu fara í gegnum það ásamt því að kynnast heimsmarkmiðunum, fara í gönguferðir og taka þátt í hefðbundinni skátadagskrá.

Reiknað er með yfir 1.000 – 1.500 manns verði á mótssvæðinu í hverri viku, þátttakendur og gestir í fjölskyldubúðum. Fjölskyldubúðir er rótgróinn þáttur á stærri skátamótum, þar sem foreldrar, gamlir skátar og allir þeir sem hafa áhuga geta komið og notið útivistar, samveru og um leið upplifað töfra skátastarfsins.

Bandalag íslenskra skáta stendur að mótinu. Skátastarf stuðlar að heilbrigðri æsku og virðingu fyrir samfélaginu og náttúrunni. Þannig byggjum við upp öfluga og ábyrga einstaklinga