Drekaskátamót 2020 2021

DREKASKÁTAMÓT Á TÍMUM HEIMSFARALDURS

Drekaskátamót 2020 2021 fór fram á Úlfljótsvatni 5. og 6. júní síðastliðinn. Mótið er árlegur liður í starfi 7 – 9 ára skáta og ekki óvanalegt að þess sé beðið með mikilli eftirvæntingu. En í ár var eftirvæntingin jafnvel meiri en áður því ekki var mögulegt að halda mótið sumarið 2020 vegna heimsfaraldurs og því höfðu mörg beðið í tvö ár eftir því að komast á mótið.

Þótt Covid hafi ekki komið í veg fyrir mótið þetta sumarið, minnti heimsfaraldurinn samt á sig. Vegna samkomutakmarkanna var ekki mögulegt að allir þátttakendur og sjálfboðaliðar kæmu á Úlfljótsvatn í einu og gistu yfir nótt og því brugðið á það ráð að halda tvö styttri mót sitt hvorn daginn í staðin.

Þessa ákvörðun þurfti að taka þegar rúm vika var í mót og því þurfti mótstjórnin að leggja gífurlega vinnu í að aðlaga mótið út frá aðstæðum.

EINS MÓT ÓLÍK VEÐRÁTTA

Það var sólstrandarþema á Drekaskátamóti 2020 2021 og sólin var svo sannarlega á sínum stað, en því miður var hrúga af skýjum á milli hennar og skátanna á mótinu. En það kom ekki í veg fyrir að 150 þátttakendur og sjálfboðaliðar ættu fjörugan dag á Úlfljótsvatni á laugardeginum og gekk rigningunni ekki betur að stöðva gleðina hjá hinum 150 þátttakendunum og sjálfboðaliðunum sem komu á mótið á sunnudegi.

Drekaskátarnir nýttu aðstöðuna til fulls og sigldu bátum, sigruðu vatnasafaríið, mátuðu gamla skátabúninga, náðu toppi klifurturnsins, spenntu boga og þöndu lungun á kvöldvöku í lok dags.

ÁVALLT VIÐBÚIN

Þátttakendur voru ekki ein í hópi þeirra sem skemmtu sér um helgina, reynsluboltarnir í mótstjórn og starfsmannahópnum höfðu ekki síður gaman af. „Það er búið að vera mjög skemmtilegt að prófa að gera þetta á nýjan máta og takast á við nýjar áskoranir.“ sagði einn mótstjórnenda og holdgervingur skátamottósins Ísak Árni Eiríksson Hjartar sem var í miðju kafi að sauma efstu töluna aftur á Hawai skyrtuna sína.

LEARNING BY DOING

En ekki voru öll að gera þetta í annað, þriðja eða fjórða sinn því þrjú ný tóku sæti í mótstjórn öll á rekkaskátaaldri, 16 – 19 ára. „Það er gaman að sjá yngri skátana vera tilbúna til að taka við keflinu og að sjá eldmóðinn hjá ungum mótstjórnarmeðlimum, foringjum og starfsfólki. Ég er allavega stolt af drekaskátamóti fyrir að gefa yngri skátum tækifæri til að spreyta sig í viðburðarhaldi og sjálf lærði ég mikið af þessu og er enn að.“ sagði Unnur Líf úr mótstjórn og bar svo á sig sólarvörn í þriðja skiptið svo að rigningin héldi áfram að renna af henni eins og nýbónuðum bíl.

DÝRMÆTT AÐ GETA KOMIÐ SAMAN

Þrátt fyrir aukið álag á mótstjórn og starfsfólk mótsins þótti þeim vel þess að virði að geta fundið lausn svo hægt væri að halda mótið. „Þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að bjóða þátttakendum öllum í einu í tjaldútilegu eins og vanalega var mjög dýrmætt og þarft fyrir bæði skáta og foringja þeirra að komast loksins á almennilegan skáta og útivistarviðburð.“ Sagði Salka Guðmundsdóttir leiðtogi mótstjórnar á meðan hún réri brimbrettinu sínu um vatnasafaríið.

AFTUR STÆRRA AÐ ÁRI

Sumarið 2022 verður landsmót á hverju aldursbili skátanna og verður drekaskátamótið auðvitað á sínum stað og jafnvel stærra en nú og áður.