Þórhallur Helgason skipaður sem aðstoðarskátahöfðingi

 

Á stjórnarfundi BÍS sem haldinn var í Lækjarbotnum þann 10. maí skipaði stjórnin sér aðstoðarskátahöfðingja úr sínum röðum. Þórhallur Helgason mun gegna embættinu og er í því hlutverki staðgengill skátahöfðingja. Hlutverk Þórhalls (eða Ladda líkt og hann er ávallt kallaður) er einnig að hafa umsjón og yfirsýn yfir lög og reglugerðir BÍS og veita verkefnastjórnun eftirfylgni.

Laddi hefur verið skáti síðan hann var 13 ára. Hann hefur farið á ófá landsmótin sem þátttakandi, foringi og starfsmaður. Hann hefur farið á alheimsmót skáta auk þess að hafa haldið hin ýmsu foringjanámskeið. Einnig var Laddi félagsforingi Seguls um árabil og því hokinn skátareynslu. Ladda er óskað velfarnaðar með vissu um að hans aðkoma verði skátahreyfingunni til heilla.

 


Halldóra Inga nýr fjármálastjóri BÍS og dótturfélaga

Okkur er sönn ánægja að tilkynna að Halldóra Inga Ingileifsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem fjármálastjóri hjá Bandalagi íslenskra skáta. Halldóra er viðskiptafræðingur og býr yfir víðtækri reynslu á sviði reksturs og fjármála, einnig hefur hún reynslu af stjórnarsetum í frjálsum félagasamtökum. Halldóra mun vinna náið með framkvæmdastjórum BÍS og dótturfyrirtækjum: Grænum skátum, Skátabúðinni, Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni og Skátamótum.  Sem fjármálastjóri ber Halldóra ábyrgð á daglegri fjármálastjórn og bókhaldi ásamt fjárreiðum BÍS og dótturfyrirtækjum þess.

Halldóra Inga hóf störf 1. maí og við hlökkum til samvinnunnar!


Skátaþing

Skátar setja sér jafnréttisstefnu

Á Skátaþingi sem haldið á Bifröst um liðna helgi samþykktu skátar sér jafnréttisstefnu. Þórhildur Elínardóttir Magnúsardóttir sem leitt hefur vinnuna með góðum hópi skáta kynnti stefnuna, sem var samþykkt samhljóða. 

Með stefnunni er verið að skýra hlutverk og leiðir til að tryggja raunverulega inngildingu og aðgengi allra hópa að skátastarfi óháð kynþætti, þjóðerni, kynvitund, kynhneigð, kyntjáningu, trú, stjórnmálaskoðun, aldri, stétt eða stöðu að öðru leyti.  

Hlutverk Bandalags íslenskra skáta er að tryggja að allir skátar njóti jafnréttis í skátastarfi og er því settar þær skyldur á herðar að koma í veg fyrir mismunun, ójafnrétti og óréttláta meðferð.  

     

Markmið stefnunnar eru:

  1. Að öll sem sinni sjálfboðaliða- eða forystustörfum fyrir skátana búi yfir greinargóðri þekkingu og vitund um mannréttindi, jafnrétti, inngildingu og fjölbreytileika samfélagsins.
     
  2. Að ráðstafanir verði teknar til að kynna skátastarf fyrir, og taka sérstaklega á móti í skátastarfi, þeim hópum samfélagsins sem eiga erfiðara með að stunda tómstundir eða æskulýðsstarf, t.a.m. vegna fjárhags, tungumáls, fötlunar, þjóðernis, kynferðis eða stöðu að öðru leyti.
     
  3. Að hvar sem það er hægt skal skátastarf aðlagað að ólíkum þörfum þeirra sem stunda það, svo lengi sem það stríðir ekki gegn Grunngildum skátahreyfingarinnar, markmiðum hennar eða skátaaðferðinni.
     
  4. Að öll lög, stefnur og reglugerðir BÍS endurspegli þessa skuldbindingu samtakanna að stuðla að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
     
  5. Að miðla þessari stefnu út á við til félaga BÍS og víðar.
     
  6. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í átt að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni. 

Skoða stefnuna í heild.  

 


Harpa Ósk er nýr skátahöfðingi

Harpa Ósk Valgeirsdóttir hefur tekið við sem skátahöfðingi og var henni vel fagnað á fjölsóttu Skátaþingi sem haldið er á Bifröst nú um helgina.  

Ég vil gera skátastarfið aðgengilegt öllum,”

segir Harpa og þar vísar hún m.a. til verkefna um að gera börnum af erlendum uppruna auðveldara að sækja skátastarf, sem og til fjölgunar skátafélaga á landsbyggðinni.  Hún segir að með skýrari dagskrárgrunni sem var kynntur á skátaþingi sé einnig skref stigið til að gera starfið aðgengilegra.  

Stærsta breytingin sem var kynnt er nýtt aldursbil í dagskránni, sk. Hrefnuskátar fyrir börn 5 – 7 ára og þar taka skátarnir þátt með foreldrum sínum, samhliða fjölskylduskátastarfi. Harpa Ósk hefur góða reynslu af fjölskylduskátastarfi en hún tekur þátt í slíku með dóttur sinni.  

Bjóðum eldri skáta velkomna til verkefna 

Harpa Ósk hefur verið virk í skátastarfi frá unga aldri, en hún segir að það sé ekki forsenda fyrir þátttöku fullorðinna í skátastarfi. Margir hafi komið inn í skátastarfið í gegnum starf barna sinna og haldið áfram. Harpa hvetur eldri skáta sem tóku sér hlé frá skátastarfi til að hafa samband við sitt skátafélag því það séu mörg áhugaverð verkefni sem þarfnast eldhuga.  

„Við bjóðum allra eldri skáta velkomna til verkefna,” segir Harpa Ósk. Verkefnin eru næg og fjölbreytt hvort heldur hjá Bandalagi íslenskra skáta eða hjá skátafélögunum. Áherslur okkar eru að auka gæði skátastarfsins, gefa fleiri börnum kost á þátttöku, efla fræðslu skátaforingjanna og bjóða fleiri velkomna til verkefna. Með þessum áherslum vonumst við til að skátahreyfingin jákvæð áhrif á sitt samfélag og stuðli að bættum heimi,” segir Harpa.    


Skátamiðstöðin lokuð milli jóla og nýárs

Skátamiðstöðin verður lokuð milli jóla og nýárs. Opnum aftur mánudaginn 3. janúar.
Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar óskar ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.


Forskráning á Alheimsmót 2023 í Kóreu opin

Forskráning á Alheimsmót 2023 í Kóreu opin!

Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu er alþjóðlegt mót sem fer fram 1.-12. ágúst 2023 fyrir ungmenni fædd frá 22. júlí 2005 til 31. júlí 2009, en eldri skátar eiga möguleika á að fara sem starfsmenn mótsins, foringjar þátttakenda eða sem meðlimir fararstjórnar.

Ef þú hefur brennandi áhuga á að koma með á alheimsmótið 2023 í einhverju af þessum hlutverkum er forskráning núna opin án nokkurrar skuldbindingar um endanlega þátttöku. Þau sem eru forskráð munu reglulega fá upplýsingar um leið og þær liggja fyrir.
Forskráning á: skraning.skatarnir.is


Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir fararstjórar á Alheimsmót

Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir fararstjórar á Alheimsmót

Þau Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir munu leiða fararhóp Bandalags íslenskra skáta á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Þau vinna nú að ljúka allri helstu áætlanagerð svo hægt verði að opna skráningu sem allra fyrst!

Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu  er alþjóðlegt mót sem fer fram 1.-12. ágúst 2023 fyrir ungmenni fædd frá 22. júlí 2005 til 31. júlí 2009, en eldri skátar eiga möguleika á að fara sem starfsmenn mótsins, foringjar þátttakenda eða sem meðlimir fararstjórnar.

Ef þú hefur brennandi áhuga á að koma með á alheimsmótið 2023 í einhverju af þessum hlutverkum er forskráning núna opin án nokkurrar skuldbindingar um endanlega þátttöku. Þau sem eru forskráð munu reglulega fá upplýsingar um leið og þær liggja fyrir.


Rita ný kynningarmálastýra

Rita ný kynningarmálastýra

Í haust var Rita Osório ráðin til starfa til að sinna kynningar og ímyndarmálum fyrir Bandalag íslenskra skáta og dótturfélög þess.

Rita hefur starfað sem skáti í Portúgal frá því áður en hún man eftir sér, hún útskrifaðist með BSc í „Technologies of multimedia communications“ frá School of Media Arts and Design í Porto í Portúgal. Hún starfaði sem sjálfboðaliði við samskiptamál í aðlþjóðlegu skátamiðstöðinni í Kandersteg árin 2018 – 2020 og kom síðan til Íslands í apríl 2021 og gerðist tímabundinn sjálfboðaliði hjá Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Þar tók hún meðal annars  að sér margmiðlun og ímyndarmál og sinnti þeim með glæsibrag!

Rita mun vinna að kynningar- og öðru útgefnu efni fyrir skátana, sinna samfélagsmiðlum og heimasíðum skátanna og dótturfélaga ásamt átaksverkefnum tengd upplýsingamálum í samstarfi við skátafélög. Það er okkur mikil ánægja að hafa fengið Ritu til starfa!


Pani nýr framkvæmdastjóri útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni

Pani nýr framkvæmdastjóri útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni

Bandalag íslenskra skáta hefur ráðið til starfa Javier Paniagua Petisco, gjarnan kallaður Pani, til þess að gegna stöðu framkvæmdastjóra Útilífsmiðstöðvar skáta við Úlfljótsvatn.

Pani hefur langa og ríkulega reynslu af skátastarfi bæði á Spáni, heimalandi sínu  sem og við alþjóðlegu skátamiðstöðina Kandersteg í Svissnesku Ölpunum hvar hann starfaði fyrst sem sjálfboðaliði og síðar sem starfsmaður. Pani hefur starfað sem sem dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni síðan í upphafi árs 2020 við góðan orðstír. 

Það er mikill fengur fyrir skátana  að Pani sé tilbúinn til að leggja allt sitt til Draumlandsins okkar allra við Úlfljótsvatn þar sem skátar, nemendur og allir aðrir gestir fá að njóta alþjóðlegs umhverfis í gamalgrónu umhverfi staðarins. Þar að auki mun Pani gegna starfi verkefna- og leiðtogaþjálfa fyrir BÍS og m.a. starfa náið með leiðbeinendasveitinni.

Megi Pani ganga sem allra best í nýrri stöðu; Heill, gæfa gengi! Pani er með netfangið pani@skatar.is og hefur mikinn áhuga á að heyra frá skátum á öllum aldri af öllu landinu.


Drekaskátar eru öflugir!

Drekaskátar eru öflugir!

"Það var margt sem bar fyrir augu á leiðinni og drekaskátarnir tóku sér góðan tíma í að rannsaka drullupollana, sprekin, krækiberin, já og útsýnið. Það má segja að drekaskátar séu algjörlega með núvitundina á hreinu og það var ótrúlega dásamlegt að fylgjast með þeim njóta náttúrunnar og félagsskaps hvers annars."

Drekaskátasveitin Huginn og Muninn í Landnemum fór í dagsferð á Úlfarsfell laugardaginn 25. september síðastliðinn. Þegar við sveitarforingjarnir vorum að skipuleggja vígsludagsferð haustsins vorum við ákveðin í að dagsferðin skyldi vera eflandi fyrir skátana. Drekaskátar eru nefnilega öflugir og geta oft meira en margur heldur. Við veltum ýmsum möguleikum fyrir okkur og loks var stungið upp á því að ganga á Úlfarsfell. Hugmyndin var gripin á lofti, hún samþykkt og foreldrabréfið sent út.
Laugardagurinn rann upp, bjartur og fagur, og krakkarnir streymdu að í Landnemaheimilið með nesti og gott skap. Í bakpoka foringjanna rataði gomma af gulum drekaskátaklútum, skyndihjálpartaska og súkkulaðikex. Við kynntum helstu reglur ferðarinnar og minntum á mikilvægi þess að halda ávallt hópinn og svo héldum við af stað með fjórtán spræk börn í strætó.
“Jæja, hér förum við út!”, var loks kallað þegar strætóinn var kominn í nýlegt hverfi í Úlfarsárdal og út héldum við. Við sögðum krökkunum að við ætluðum að reyna að fara alla leið upp á topp og svo örkuðum við öll af stað upp fjallið.
Það var margt sem bar fyrir augu á leiðinni og drekaskátarnir tóku sér góðan tíma í að rannsaka drullupollana, sprekin, krækiberin, já og útsýnið. Það má segja að drekaskátar séu algjörlega með núvitundina á hreinu og það var ótrúlega dásamlegt að fylgjast með þeim njóta náttúrunnar og félagsskaps hvers annars. Drekaskátarnir voru líka duglegir að pæla í mismunandi leiðum sem hægt er að fara upp fjallið og komu stundum með uppástungur um hvaða leið skyldi fara og oft máttu krakkarnir vísa veginn en stundum þurfti líka að rifja það upp að stysta leiðin er ekki alltaf besta leiðin!

Drekaskátarnir urðu spenntir þegar þeir sáu að við nálguðumst toppinn og sumir hverjir þutu upp síðasta spölinn þar sem útsýni til allra átta beið okkar. Eftirvæntingin var mikil meðal krakkanna því á toppi Úlfarsfells átti vígsla nýrra skáta að fara fram. Eftir nestisstund voru nýir skátar vígðir inn í skátahreyfinguna og á einu augnabliki höfðu allir skátar í heiminum eignast 8 ný skátasystkin og nýju drekaskátarnir eignast ótal skátasystkina um allan heim.
Yndislegt, ekki satt?
Drekaskátaklútarnir fóru allir utan um nýja hálsa, kexið kláraðist nánast upp til agna en skyndihjálpartaskan var aldrei opnuð.
Drekaskátar eru öflugir! Ef við foringjar temjum okkur alltaf að hugsa: “Hvernig getum við gert leikinn, verkefnið, fundinn, dagskrárhringinn, dagsferðina eða útileguna enn þá meira krefjandi og spennandi?”, þá náum við að búa til sífellt öflugra og lærdómsríkara skátastarf.
Það ætti ekki að óttast að drekaskátar verði með þessu móti búnir að prófa allt og gera allt þegar þeir koma í fálkaskáta. Það er nóg eftir og það má alltaf byggja ofan á og bæta þrepum við í stigann. Það má alltaf klífa hærri fjöll, vaða fleiri ár, ganga fleiri kílómetra, gista fleiri nætur og fara á fleiri skátamót. Spörum ekki gamanið þar til komið er í róverskáta, byrjum stuðið strax í drekaskátastarfinu!

-Védís Helgadóttir, Júlía Jakobsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir drekaskátaforingjar drekaskátasveitarinnar Hugins og Munins í Landnemum


Privacy Preference Center