Drekaskátar eru öflugir!

"Það var margt sem bar fyrir augu á leiðinni og drekaskátarnir tóku sér góðan tíma í að rannsaka drullupollana, sprekin, krækiberin, já og útsýnið. Það má segja að drekaskátar séu algjörlega með núvitundina á hreinu og það var ótrúlega dásamlegt að fylgjast með þeim njóta náttúrunnar og félagsskaps hvers annars."

Drekaskátasveitin Huginn og Muninn í Landnemum fór í dagsferð á Úlfarsfell laugardaginn 25. september síðastliðinn. Þegar við sveitarforingjarnir vorum að skipuleggja vígsludagsferð haustsins vorum við ákveðin í að dagsferðin skyldi vera eflandi fyrir skátana. Drekaskátar eru nefnilega öflugir og geta oft meira en margur heldur. Við veltum ýmsum möguleikum fyrir okkur og loks var stungið upp á því að ganga á Úlfarsfell. Hugmyndin var gripin á lofti, hún samþykkt og foreldrabréfið sent út.
Laugardagurinn rann upp, bjartur og fagur, og krakkarnir streymdu að í Landnemaheimilið með nesti og gott skap. Í bakpoka foringjanna rataði gomma af gulum drekaskátaklútum, skyndihjálpartaska og súkkulaðikex. Við kynntum helstu reglur ferðarinnar og minntum á mikilvægi þess að halda ávallt hópinn og svo héldum við af stað með fjórtán spræk börn í strætó.
“Jæja, hér förum við út!”, var loks kallað þegar strætóinn var kominn í nýlegt hverfi í Úlfarsárdal og út héldum við. Við sögðum krökkunum að við ætluðum að reyna að fara alla leið upp á topp og svo örkuðum við öll af stað upp fjallið.
Það var margt sem bar fyrir augu á leiðinni og drekaskátarnir tóku sér góðan tíma í að rannsaka drullupollana, sprekin, krækiberin, já og útsýnið. Það má segja að drekaskátar séu algjörlega með núvitundina á hreinu og það var ótrúlega dásamlegt að fylgjast með þeim njóta náttúrunnar og félagsskaps hvers annars. Drekaskátarnir voru líka duglegir að pæla í mismunandi leiðum sem hægt er að fara upp fjallið og komu stundum með uppástungur um hvaða leið skyldi fara og oft máttu krakkarnir vísa veginn en stundum þurfti líka að rifja það upp að stysta leiðin er ekki alltaf besta leiðin!

Drekaskátarnir urðu spenntir þegar þeir sáu að við nálguðumst toppinn og sumir hverjir þutu upp síðasta spölinn þar sem útsýni til allra átta beið okkar. Eftirvæntingin var mikil meðal krakkanna því á toppi Úlfarsfells átti vígsla nýrra skáta að fara fram. Eftir nestisstund voru nýir skátar vígðir inn í skátahreyfinguna og á einu augnabliki höfðu allir skátar í heiminum eignast 8 ný skátasystkin og nýju drekaskátarnir eignast ótal skátasystkina um allan heim.
Yndislegt, ekki satt?
Drekaskátaklútarnir fóru allir utan um nýja hálsa, kexið kláraðist nánast upp til agna en skyndihjálpartaskan var aldrei opnuð.
Drekaskátar eru öflugir! Ef við foringjar temjum okkur alltaf að hugsa: “Hvernig getum við gert leikinn, verkefnið, fundinn, dagskrárhringinn, dagsferðina eða útileguna enn þá meira krefjandi og spennandi?”, þá náum við að búa til sífellt öflugra og lærdómsríkara skátastarf.
Það ætti ekki að óttast að drekaskátar verði með þessu móti búnir að prófa allt og gera allt þegar þeir koma í fálkaskáta. Það er nóg eftir og það má alltaf byggja ofan á og bæta þrepum við í stigann. Það má alltaf klífa hærri fjöll, vaða fleiri ár, ganga fleiri kílómetra, gista fleiri nætur og fara á fleiri skátamót. Spörum ekki gamanið þar til komið er í róverskáta, byrjum stuðið strax í drekaskátastarfinu!

-Védís Helgadóttir, Júlía Jakobsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir drekaskátaforingjar drekaskátasveitarinnar Hugins og Munins í Landnemum