Sigurgeir rær á ný mið

Takk Sigurgeir,

Sigurgeir Þórisson hefur lokið störfum sem erindreki BÍS eftir fimm ára starf og kveðjum við hann með mikilli eftirsjá en að sama skapi miklu þakklæti fyrir gríðarlega gjöfult og faglegt samstarf.

Við óskum Sigurgeiri velfarnaðar í námi sínu og skilum til hans miklum þökkum fyrir allt sem hann hefur lagt af mörkum til þess að efla skátastarf á Íslandi.

Við bendum á að Sædís Ósk mun svara fyrirspurnum skátafélaga Sigurgeirs tímabundið, eða þar til að nýr erindreki tekur til starfa sem nú er unnið í að ráða.


Skátamiðstöðin lokuð milli jóla og nýárs

Skátamiðstöðin verður lokuð frá 22. desember til 2. janúar.
Takmörkuð þjónusta verður milli jóla og nýárs en aðkallandi mál má senda á Framkvæmdastjóra BÍS

Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar óskar ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. 🌟


ESC verkefni - Aðgengilegt skátastarf

Starfsárið 2023-2024 vinnum við að verkefni sem snýr að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í skátastarfi. Þetta er okkur mjög mikilvægt verkefni, við höfum verið að leggja aukna áherslu á innglindingu í skátastarfi og er þetta einn liður í því að gefa öllum börnum tækifæri á að kynnast skátastarfi.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr samfélagsverkefnahluta Erasmus+ áætlunarinnar og eru verkþættir verkefnisins eftirfarandi:

  • Bjóða starfsfólki og sjálfboðaliðum hreyfingarinnar upp á fræðslu
  • Þýða dagskrárefni skáta
  • Þýða bókina “Hvað er skátastarf?” ætlað börnum, foreldrum og starfsfólki til kynningar
  • Koma á tengslaneti fullorðinna skáta með erlendan uppruna búsett á Íslandi og hvetja þau til þátttöku.

Forsenda þess að verkefnið takist vel er að við sem hreyfing leggjumst öll á eitt að gera starfið aðgengilegt, á vettvangi bandalagsins en einnig á vettvangi skátafélaganna.

Því er fyrsti verkþátturinn fræðsla fyrir sjálfboðaliða, starfsfólk og önnur áhugasöm þar sem við fáum tækifæri á því að öðlast innsýn í reynsluheim fólks af erlendum uppruna á Íslandi og hvað aftrar þátttöku þeirra í æskulýðsstarfi.

FJÖLMENNINGARFRÆÐSLA MANNFLÓRUNNAR

Fyrsta fræðsluerindið var haldið í nóvember en þá kom Chanel Björk Sturludóttir, stofnandi Mannflórunnar, til okkar og hélt fræðslu um fjölmenningu.

Chanel kom með ýmsan fróðleik og upplýsingar um hvernig íslenskt samfélag er byggt upp með þátttöku einstaklinga með ólíkan bakgrunn, fjölda ólíkra og sameiginlegra uppruna og einnig einstaklingar sem tilheyra mörgum fjölbreyttum menningarheimum.

Hún kom einnig með fræðslu varðandi ýmiss hugtök sem snertir fjölmenningu og mikilvægt fyrir virka einstaklinga í samfélagi að vera meðvituð um eins og

  • Staðalímyndir
  • Kynþátttafordóma
  • Menningarfordóma
  • Öráreiti
  • Hvítleika
  • Forréttindi
  • Forréttindi hvítra

Við hvetjum öll að fræðast um þessi mikilvægu málefni en þau sem ekki komust á fræðsluna hjá Chanel geta nálgast ítarefni hjá starfsmanni síns skátafélags.

Við vonum að sem flest sjái sér fært um að mæta á aðrar fræðslur á vorönn.

Ef þið hafið hugmyndir að áhugaverðum fræðsluerinudm má endilega senda þær á skatarnir@skatarnir.is.

 


Kraftur í fálkaskátum Skjöldunga

Í nóvember voru fálkaskátar í skátafélaginu Skjöldungum fyrstu þátttakendur FálkaKrafts, sem eru ný leiðtoaþjálfunarnámskeið haldin af Leiðbeinendasveitinni.

Á FálkaKrafti fá þátttakendur tækifæri á því að taka þátt í dagskrá sem þjálfar þau í flokkastarfi, að plana-gera-meta og samvinnu. Þátttakendur fá færi á því að kynnast gildum skátahreyfingarinnar í gegnum leiki og reynslunám og eru þau hvött til að vinna að samfélagsverkefnum að viðburði loknum.

"GAMAN AÐ SJÁ HVAÐ KRAKKARNIR ERU FLOTT"

Helena Sif, annar sveitarforingi fálkaskátanna í Skjöldungum, var mjög ánægð með FálkaKraft og fannst gaman að fylgjast með því hversu vel skátarnir þeirra stóðu sig á viðburðinum.

"Þetta gekk vel og var bara kósý" segir Helena en á FálkaKrafti koma tveir aðilar úr Leiðbeinendasveitinni og keyra dagskrána með fálkaskátunum. Helena sagði það vera mjög þægilegt í ljósi alls sem sjálfboðaliðar eru oft að fást við innan og utan skátastarfs að fá tilbúna dagskrá og aðila sem sjá um hana.

"Við þurftum ekkert að gera nema vera stolt" sagði Helena en einnig fannst henni gaman að fá nýja að starfinu og sjá þau hvetja skátana þeirra áfram til að vinna að verkefnum sem þeim hefði kannski ekki dottið í hug að gera sjálf. Það helsta sem stóð uppúr fyrir foringjana var "að sjá hvað krakkarnir eru flott og fá einhvern nýjan inn sem sýnir fram á hvað er hægt í skátastarfi. The sky is the limit í rauninni en þau taka ekki alltaf mark á því þegar það kemur frá okkur foringjunum"

Dagskráin gekk vel og höfðaði vel til skátanna, viðfangsefnin voru fjölbreytt og var ólíkt hvað stóð uppúr hjá þátttakendum að sögn Helenu. Það sem hefur þó farið mest fyrir eftir að viðburðinum lauk eru samfélagsverkefni en einn dagskrárliður FálkaKrafts var að flokkarnir áttu að velja sér samfélagsverkefni sem þeim þótti mikilvægt. Í framhaldi að því fóru þau í lýðræðisleik þar sem hver flokkur kynnti sína hugmynd og svo var kosið um bestu hugmyndina sem þau myndu vinna saman að sem sveit. Að auki voru þau hvött til að vinna samt sem áður að sínum samfélagsverkefnum og hafa fálkaskátarnir svo sannarlega gert það en þau hafa þegar framkvæmt tvö samfélagverkefni.

JÓLABALL FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA

Einn flokkurinn vildi halda jólaball fyrr fjölskyldur í hverfinu og voru þau búin að skipuleggja dagskrá ballsins sjálf. Þau hönnuðu auglýsingar fyrir jólaballið á skátafundum en fóru svo sjálf að dreifa þeim um hverfið í sínum frítíma. Einnig sáu þau um að baka veitingar  til að bjóða uppá á ballinu heima hjá sér.

Jólaballið var haldið í skátaheimili Skjöldunga 9. desember og voru um 20 manns sem mættu, hittu jólasveina og skreyttu piparkökur.

DÓSASÖFNUN FYRIR GRINDVÍKINGA

Annar flokkur var mjög áhugasamur um að safna dósum til að styðja söfnun Rauða Krossins vegna jarðrhræringanna við Grindavík. Vörðu þau þrem fundum í að ganga í hús og safna flöskum og dósum úr hverfinu og náðu þau að safna 51.442 krónum sem afhentar voru Rauða Krossinum.

Hér má lesa frétt á vef Rauða Krossins um dósasöfunina.

BÓKA FÁLKAKRAFT

FálkaKraftur er haldinn á vettvangi félagsins en nokkur félög geta einnig sameinast um að halda námskeiðið.  Skátafélögin sem óska eftir Fálkakrafti fyrir sínar fálkaskátasveitir útvega húsnæði fyrir námskeiðin (t.d. skátaheimili eða skátaskála) og þannig kemur Fálkakrafturinn til skátafélaganna! Hvert námskeið stendur yfir í 5 klukkustundir og því er tilvalið að prjóna lengri dagskrá við Fálkakraftinn, t.d. sveitarútilegu yfir alla helgina.

Langar þig að fá FálkaKraft í þitt félag? Hafðu samband við Leiðbeinendasveitina með því að senda þeim tölvupóst á leidbeinendasveit@skatarnir.is.


Ánægjukönnun sjálfboðaliða starfsárið 2023-2024

Eins og fram kemur í stefnu BÍS til ársins 2025 er eitt markmið Skátanna að sjálfboðaliðar hreyfingarinnar séu sátt. Skátarnir vilja veita fólki tækifæri á að taka þátt í uppbyggilegu sjálfboðaliðastarfi þar sem það nýtur sín í starfi, getur miðlað af reynslu sinni og fær tækifæri til að vaxa og dafna. Einn af mælikvörðum þess er að Skátamiðstöðin sendir frá sér ánægjukönnun til allra sjálfboðaliða tvisvar sinnum ári og niðurstöðum hennar verði fylgt eftir.

Því erum við núna að óska eftir svörum við ánægjukönnun fyrir skátaforingja og meðlimi stjórna skátafélaga starfsárið 2023-2024. Sendur hefur verið tengill á könnunina á alla sjálfboðaliða samkvæmt mannauðsskrá BÍS og biðjum við öll um að athuga tölvupóstinn sinn og svara könnuninni.

Nokkrir heppnir svarendur verða svo dregnir úr lukkupotti þann 15. desember og fá vinning úr Skátabúðinni.


Nýjar og breyttar reglugerðir stjórnar BÍS

Á árinu uppfærði stjórn BÍS nokkrar reglugerðir og samþykkti nýja sem talið var þörf fyrir og hafa þær nú verið birtar. Eins og 25. grein laga BÍS kveður á um getur stjórn BÍS sett reglugerðir um starfsemi innan BÍS og aðra þætti starfsins, eftir því sem þurfa þykir, efni þeirra skal rúmast innan laga BÍS og skulu þær kynntar aðildareiningum BÍS. Þær sem voru uppfærðar voru reglugerð um hæfi skátaforingja ásamt reglugerð um Landsmót skáta. Þá var samþykkt ný reglugerð um hæfi sjálfboðaliða.

Reglugerð um hæfi skátaforingja

Einhver mikilvægasta reglugerð skátastarfs var uppfærð lítillega til að ríma betur við samtímakröfur. Helstu atriði sem var breytt:

  • Textinn gerður kynhlutlaus.
  • Áréttað að félagseiningar skipa skátaforingja frekar en formenn stjórna þeirra.
  • Tvítekning um lögræði skátaforingja tekin úr 2. grein
  • Úrelt skilyrði fjarlægð m.a. um að einstaklingar skuli á sig komnir andlega að þeir séu færir um að gegna störfum tekið út og krafa um að einstaklingur hafi forræði yfir búi sínu sem hafi ekki verið til gjaldþrotaskipta sl. 2 ár.
  • Skilyrði um færni uppfærð til að spegla kröfur um ráðningar ábyrgðaraðila fyrir æskulýðsstarf í Æskulýðslögum.
  • Nákvæmara tungumál um hvaða brot það eru sem koma í veg fyrir að einstaklingur megi starfa í Æskulýðsstarfi samkvæmt lögum.
  • Skilyrði um undirritun upplýsingaröflunar úr sakaskrá áréttuð.
  • Setning um hvernig félagsforingi þurfi að afla leyfis BÍS til að taka við því embætti fjarlægð. Félagsforingjar sækja umboð til aðalfunds síns félags að því gefnu að þau uppfylli skilyrði í lögum BÍS um hlutverkið. Ekki talið endurspegla verklag í nútíma og ekki talið eiga heima í þessari reglugerð.
  • Í þriðju grein hvatt til þess að skrifleg samkomulög séu gerð við skátaforingja í stað fyrra orðalags um að félög gæfu út skipunarbréf, til að endurspegla það verklag sem BÍS talar fyrir í dag.
  • Í fjórðu grein áréttað að skátahreyfingunni sé skylt að vísa skátaforingja úr starfi ef þau gerast brotleg í því, í stað fyrra orðalags um að afturkalla skipunarbréf viðkomandi.
  • Fimmta grein um hvernig veita megi undanþágu frá öðrum greinum reglugerðarinnar tekin út. Undanþágur skulu ekki veittar frá þessum kröfum.

Reglugerð um hæfi sjálfboðaliða

Þar sem reglugerðin um hæfi skátaforingja nær í raun eingöngu til þeirra sem leiðbeina í skátastarfi með börnum þá hefur samskonar reglugerð verið samþykkt af stjórn BÍS.

Reglugerð um Landsmót skáta

Talin var ástæða til að uppfæra reglugerð um landsmót og voru breytingarnar unnar í nánu samstarfi við skátafélagið Klakk. Breytingar fela í sér:

  • Tilmælum um ólíka þátttöku mismunandi aldurshópa breytt. Í stað þess að hvetja gegn þátttöku yngri skáta er hvatt til hennar.
  • Fest í reglugerð að mótið fari fram á Hömrum og Úlfljótsvatni á víxl í stað þess að stjórn sé falið að ákvarða staðsetningu í kjölfar ábendinga frá Skátaþingi.
  • Grein um sérstaka undirbúningsnefnd og allar tilvísanir til hennar teknar úr reglugerð þar sem ekki hefur verið stuðst við slíka í langan tíma.
  • Breytingar á ákvæðum um skipun mótstjórnar, fjármálastjóri BÍS sé héðan af fjármálastjóri mótsins og krafa um að minnst einn í mótstjórn sé af landsbyggðinni.
  • Tímarammi í 3. grein styttur úr 18 mánuðum í 15. Einnig áréttað að mótstjórn skuli tryggður aðgangur að gögnum fyrri móta.
  • Orðalag um fjármagn til mótstjórnar á undirbúningstíma gert opnara.
  • Tímasetning Landsmóta skáta fest við miðjan júlí.
  • Ný krafa sett um dagskrá sem hefur tengsl við heimsmarkmið sameinuðu þjóðana.

Reglugerðirnar eru samkvæmt skilyrðum 31. greinar laga BÍS ávallt aðgengilegar á sérstöku vefsvæði á heimasíðu skátanna ásamt öðrum gildandi reglugerðum.


Privacy Preference Center