Sædís nýr erindreki BÍS

Sædís nýr erindreki BÍS

Sædis Ósk Helgadóttir hefur verið ráðin til starfa sem erindreki hjá Bandalagi íslenskra skáta, en nýlega var tekin ákvörðun um að fjölga teymi erindreka í Skátamiðstöðinni.

Sædís hefur verið í skátunum frá 6 ára aldri þegar hún byrjaði í skátafélaginu Árbúum, árið 2011 fór hún yfir í Garðbúa og á stóran hlut í endurreisn og uppbyggingu félagsins síðustu 10 árin. Í Garðbúum hefur hún verið sveitarforingi á öllum aldursbilum og verið í öllum hlutverkum innan stjórnar nema félagsforingja og gjaldkera. Sædís hefur verið mjög virk í viðburðarhaldi innan skátahreyfingarinnar en hún hefur verið mótstýra vetrarmóts Reykjavíkurskáta, aðstoðarmótstjóri á skátasumrinu og í mótstjórnum landsmóts rekka- og róverskáta. Sædís hefur farið á alheimsmót sem sveitarforingi bæði í Japan og í Bandaríkjunum og farið með hóp úr 5 félögum á skátamótið Gilwell 24 í Englandi. Sædís hefur starfað í leiðbeinendahóp Gilwell skólans og hefur setið í fræðsluráði.

Sædís er með B.A. í tómstunda- og frístundafræði og tók þar m.a. ár í skiptinámi í Noregi með áherslu á útivistarnám  og hún stefnir á að klára mastersnám á næsta ári í sömu fræðum. Sædís hefur starfað á leikskóla, sem jöklaleiðsögukona, verið útilífsskólastjóri mörg sumur og nú síðast sem frístundafræðingur í Árbænum.

Í teymi erindreki mun Sædís vinna við að styðja og þjónusta sjálfboðaliða BÍS í félagsstarfi skátafélaganna um land allt. Hún mun líka sinna allskyns átaksverkefnum sem miða af því að efla starfsumhverfi skátanna og að framþróun og innleiðingu nýs dagskrárefnis í skátastarfi. Þá vinna erindrekar líka að því að fjölga bæði sjálfboðaliðum og þátttakendum í skátastarfi og geta liðsinnt við að koma á fót skátastarfi í byggðarlögum þar sem það fyrirfinnst ekki í dag. Sædís mun síðan líka vinna að hluta til fyrir Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni þar sem hún mun vinna að efldari samræmingu dagskrár á Úlfljótsvatni og í skátastarfi og taka þátt í þróun skóla- og sumarbúðanna.

Sædís hefur störf 10. janúar og við hlökkum til að fá að starfa með henni!


Minningarstyrkir um Björgvin Magnússon

Eftir fjölda fyrirspurna frá skátum hefur stjórn Bandalags íslenskra skáta í samráði við fjölskyldu Björgvins Magnússonar ákveðið að safna minningarstyrkjum til heiðurs Björgvini sem munu óskipt renna til Gilwell skálans á Úlfljótsvatni.

Fyrir hvern minningarstyrk verður útbúið sérstakt minningarkort sem verður afhent fjölskyldu Björgvins. Hægt er að leggja upphæð að eigin vali á styrktarsjóð skáta og senda okkur tölvupóst á skatarnir@skatarnir.is um hvaða nöfn eigi að setja á minningarkortið. Einnig er hægt að koma við í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 til að undirrita slíkt kort og/eða ganga frá minningarstyrknum í persónu.

Björgvin Magnússon kom að Úlfljótsvatni fyrst sem skólastjóri Skátaskólans 1947 og gegndi því starfi til fjölda ára. Björgin var jafnframt einn aðal leiðbeinanda við fyrsta Gilwellnámskeiðið á Úlfljótsvatni 1959 og síðan stjórnandi og merkisberi fjölmargra slíkra í áratugi. Gamli skátaskálinn að Úlfljótsvatni, nú nefndur Gilwellskálinn var Björgvini alla tíð afar hugleikinn og var hann einn forgöngumanna um endurreisn hans fyrir fáum árum. Gilwellskálinn var hans staður.

Styrktarsjóður Skáta:
Reikningsnúmer - 528-14-403279
Kennitala – 4401692879


Skátamiðstöðin lokuð milli jóla og nýárs

Skátamiðstöðin verður lokuð milli jóla og nýárs. Opnum aftur mánudaginn 3. janúar.
Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar óskar ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.


Halldór nýr erindreki BÍS

Halldór nýr erindreki BÍS

Halldór Valberg hefur verið ráðinn til starfa sem erindreki hjá Bandalagi íslenskra skáta, en nýlega var tekin ákvörðun um að fjölga í teymi erindreka hjá Skátamiðstöðinni.

 

Halldór hefur verið í skátunum síðan hann byrjaði 12 ára í skátafélaginu Svönum þar sem Halldór hefur undanfarin ár starfað sem félagsforingi og átt hlut með öðrum frábærum sjálfboðaliðum í myndarlegum vexti félagsins. Halldór hefur setið í upplýsingaráði BÍS og fyllti sæti fráfarandi stjórnarmanns BÍS um tíma og starfaði síðast í öflugu teymi stýrihóps Heimsmarkmiðanna hjá BÍS og sat í stjórn Skátaskólans. Halldór er langt kominn með B.S. gráðu í tölvunarfræði og hefur unnið ýmis verkefni tengd vefsíðugerð, ljósmyndun og grafískri miðlun, hann hefur einnig starfað nokkur sumur hjá skátafélaginu Svönum sem útilífsskólastjóri.

 

Í teymi erindreki mun Halldór vinna við að styðja og þjónusta sjálfboðaliða BÍS í félagsstarfi skátafélaganna um land allt. Hann mun líka sinna allskyns átaksverkefnum sem miða af því að efla starfsumhverfi skátanna og að framþróun og innleiðingu nýs dagskrárefnis í skátastarfi. Þá vinna erindrekar líka að því að fjölga bæði sjálfboðaliðum og þátttakendum í skátastarfi og geta liðsinnt við að koma á fót skátastarfi í byggðarlögum þar sem það fyrirfinnst ekki í dag.

 

Við bjóðum Halldór velkominn til starfa!


Hringfarinn veitir fjölskylduskátum veglegan styrk

Hringfarinn veitir fjölskylduskátum veglegan styrk

Hringfarinn Kristján Gíslason og eiginkona hans Ásdís Rósa Baldursdóttir vilja láta gott af sér leiða og hafa meðal annars stutt við bataferli fíkla. Þegar því verkefni lauk spurðu þau þann hóp sem naut góðs af því verkefni hvað þau teldu að kæmu sér best. Þau hvöttu hann til að skoða aðstæður ungs fólks fyrr á lífsleiðinni. Hann hafði samband við Helgu Þórey Júlíudóttur hjá skátunum og hún sagði honum frá nýjung í skátastarfi sem kölluð eru fjölskylduskátun.

Fjölskylduskátastarf er fyrir börn sem ekki hafa náð hinum hefðbundna skátaaldri og forráðafólk þeirra.  Markmið starfsins er gera öllum fjölskyldum kleift að stunda saman skipulagt tómstundastarf þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri á að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, njóta útivistar, líða vel í eigin skinni, vera sjálfstæðir leiðtogar í eigin lífi og með sterka sjálfsmynd. Hugmyndin hefur þegar fengið tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla.

Skátastarf hefur til þessa almennt hafist við 8 ára aldur. Boðið hefur verið upp á starfið til reynslu í þrjú ár og hefur það gefið góða raun. Fjölskyldur í starfinu hafa komið saman tvisvar sinnum í mánuði í skipulögðu starfi sem reyndir skátaforingjar og forráðafólkið sem fylgir börnunum hjálpast að við að leiða. Þetta nýja starf kallar á þróun í dagskrárefni og verður það einnig útbúið til að fjölga fjölskylduskátasveitum.

Kristján og Ásdís Rósa ákváðu eftir að hafa kynnt sér málið að styrkja skátana veglega til að byggja upp þessa nýjung í skátastarfinu. Heildarstyrkur Hringfarans til skátanna eru 10 milljón krónur. Hluti styrksins eða 2 milljónir verður afhentur í formi bóka sem þau hafa gefið út og verða seldar í Skátabúðinni en það eru:

  • Hringfarinn
  • Sliding Through (ensk útgáfa Hringfarans)
  • Andlit Afríku.

Söluandvirði bókanna sem seljast í Skátabúðinni rennur óskipt til skátastarfsins.  Aðstandendur styrktarsjóðsins, Kristján Gíslason og Ásdís Rósa Baldursdóttir, vilja einnig miðla reynslu sinni til skáta og annarra sem áhuga hafa á þeirra reynslu.

Styrkurinn var afhentur formlega í morgun að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands en hann er einnig verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi.

„Mér lýst afskaplega vel á þetta nýja starf skátanna sem stefnir að því að fjölskyldur komi saman og njóti þessa að brúa bil milli kynslóðanna.“ segir Guðni Th

„Við erum ákaflega þakklát fyrir þennan stuðning,“ segir Helga Þórey Júlíudóttir, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Hún og Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, veittu styrknum móttöku við fjölskylduskátaviðburð við Bjarnastaði í morgun.

Í framhaldi af hinni formlegu afhendingu var gestum boðið að taka þátt í fjölskylduskátafundi sem haldinn var á skátaheimilið á Álftanesi, Bjarnastöðum. Þar fóru fram leikir og verkefni sem að fjölsykldu skátar tóku þátt í af gleði, þrátt fyrir rigningu og rok.


Björgvin Magnússon farinn heim

Björgvin Magnússon farinn heim

Vinur okkar og skátabróðir, Björgvin Magnússon lést s.l. nótt 98 ára að aldri. Björgvin var öllum kær og hann hafði áhrif á okkur öll. Með Björgvin er genginn góður skáti sem ávallt og alls staðar dreifði gæsku og góðum straumum. Margs er að minnast en einkum nefnum við hér störf hans að Úlfljótsvatni allt frá árinu 1947 og málefnum Gilwellsþjálfunar á Íslandi. Björgvin lauk Gilwellþjálfun sinni í Gilwell Park 1948 og var einn aðal leiðbeinanda við fyrsta Gilwellnámskeiðið á Úlfljótsvatni 1959 og síðan stjórnandi fjölmargra slíkra í áratugi. Björgvin gerðist ungur skáti í Skátafélaginu Völsungum sem starfaði í tengslum við Laugarnesskólann í Reykjavík. Þegar Völsungar sameinuðust Skátafélagi Reykjavíkur starfaði Björgvin þar og sat m.a. í stjórn félagsins. Einnig starfaði hann um tíma sem félagsforingi Skjöldunga. Fyrir störf sín var Björgvin Magnússon sæmdur æðsta heiðursmerki íslensku skátahreyfingarinnar, Silfurúlfinum árið 1992 og riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2008 af forseta Íslands.

Í samráði við fjölskyldu Björgvins safnar BÍS minningarstyrkjum til heiðurs Björgvini sem mun renna óskipt til Gilwellskálans á Úlfljótsvatni. Áhugasöm geta fundið allar upplýsingar með því að smella hér.


Katrín ný verkefnastýra fræðslumála

Katrín ný verkefnastýra fræðslumála

Í haust var Katrín Kemp Stefánsdóttir ráðin til starfa til að sinna fræðslu og leiðtogaþjálfunar málum fyrir Bandalag íslenskra skáta.

Katrín hefur starfað innan skátahreyfingarinnar í 10 ár að fjölbreyttum verkefnum m.a sem aðstoðarfélagsforingi skátafélagsins Kópa undanfarin ár og sem sjálfboðaliði í leiðtogaþjálfunarteymi Gilwell skólans. Hún er með B.A. gráðu í uppeldis og menntunarfræði og er að klára masternám í sömu fræðum samhliða starfinu. Katrín hefur verið Útilífsskólastjóri nokkur sumur hjá skátafélaginu Kópum og starfað í leik- og grunnskólum.

Sem verkefnastýra fræðslumála BÍS hefur Katrín yfirumsjón með fræðsluefni, námskeiðaframboði og þjálfunum á vegum BÍS. Katrín vinnur að markmiðum BÍS um Skátaskólann og er í nánu samstarfi við sjálfboðaliðana sem mynda stjórn skólans. Hún vinnur mun líka hjálpa að móta og styðja leiðbeinendasveit BÍS sem ætlað er að sinna skipulagi og framkvæmd námskeiða með dyggum stuðningi hennar.

Það er okkur mikil ánægja að hafa fengið Katrínu til starfa!


Forskráning á Alheimsmót 2023 í Kóreu opin

Forskráning á Alheimsmót 2023 í Kóreu opin!

Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu er alþjóðlegt mót sem fer fram 1.-12. ágúst 2023 fyrir ungmenni fædd frá 22. júlí 2005 til 31. júlí 2009, en eldri skátar eiga möguleika á að fara sem starfsmenn mótsins, foringjar þátttakenda eða sem meðlimir fararstjórnar.

Ef þú hefur brennandi áhuga á að koma með á alheimsmótið 2023 í einhverju af þessum hlutverkum er forskráning núna opin án nokkurrar skuldbindingar um endanlega þátttöku. Þau sem eru forskráð munu reglulega fá upplýsingar um leið og þær liggja fyrir.
Forskráning á: skraning.skatarnir.is


Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir fararstjórar á Alheimsmót

Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir fararstjórar á Alheimsmót

Þau Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir munu leiða fararhóp Bandalags íslenskra skáta á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Þau vinna nú að ljúka allri helstu áætlanagerð svo hægt verði að opna skráningu sem allra fyrst!

Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu  er alþjóðlegt mót sem fer fram 1.-12. ágúst 2023 fyrir ungmenni fædd frá 22. júlí 2005 til 31. júlí 2009, en eldri skátar eiga möguleika á að fara sem starfsmenn mótsins, foringjar þátttakenda eða sem meðlimir fararstjórnar.

Ef þú hefur brennandi áhuga á að koma með á alheimsmótið 2023 í einhverju af þessum hlutverkum er forskráning núna opin án nokkurrar skuldbindingar um endanlega þátttöku. Þau sem eru forskráð munu reglulega fá upplýsingar um leið og þær liggja fyrir.


Rita ný kynningarmálastýra

Rita ný kynningarmálastýra

Í haust var Rita Osório ráðin til starfa til að sinna kynningar og ímyndarmálum fyrir Bandalag íslenskra skáta og dótturfélög þess.

Rita hefur starfað sem skáti í Portúgal frá því áður en hún man eftir sér, hún útskrifaðist með BSc í „Technologies of multimedia communications“ frá School of Media Arts and Design í Porto í Portúgal. Hún starfaði sem sjálfboðaliði við samskiptamál í aðlþjóðlegu skátamiðstöðinni í Kandersteg árin 2018 – 2020 og kom síðan til Íslands í apríl 2021 og gerðist tímabundinn sjálfboðaliði hjá Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Þar tók hún meðal annars  að sér margmiðlun og ímyndarmál og sinnti þeim með glæsibrag!

Rita mun vinna að kynningar- og öðru útgefnu efni fyrir skátana, sinna samfélagsmiðlum og heimasíðum skátanna og dótturfélaga ásamt átaksverkefnum tengd upplýsingamálum í samstarfi við skátafélög. Það er okkur mikil ánægja að hafa fengið Ritu til starfa!


Privacy Preference Center