Sumardagurinn fyrsti
Sumardagurinn fyrsti 2021
Nú er að detta í garð annar sumardagurinn fyrsti þar sem covid setur smá strik í reikninginn en ekki örvænta! Það er hægt að gera sér glaðan dag með hinum ýmsum verkefnum og leikjum sem til eru og njóta fyrsta sumardagsins í faðmi fjölskyldunnar 🙂
Hér eru hugmyndir af áskorunum, þrautum eða verkefnum sem þið getið gert í tilefni dagsins:
Skátafélagið Mosverjar ætlar að vera með litla tindaáskorun fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. „Sigraðu tinginn“ er létt ganga á Lágafellið og er leiðin stikuð og vel merkt. Áskorunin verður opin frá 10-16 og byrjar og endar á bílastæði Lágafellskirkju. Þar verða skátar til að leiðbeina og einnig veita viðurkenningar þegar komið er aftur niður. Frekari upplýsingar um viðburðinn má finna hér.
Skátafélagið Fossbúar stendur fyrir skemmtilegum fjölskylduratleik þar sem þau ætla að birta lista af verkefnum sem fjölskyldan þarf að leysa, taka mynd og birta á samfélagsmiðlum. Frekari upplýsingar um viðburðinn og verkefnalistann má finna hér.
Sumarbingó fyrir fjölskylduna. Hér er skemmtilegt bingó sem hægt er að gera leik úr fyrir alla fjölskylduna. Hver er fyrstu til að finna B? En O? En allt spjaldið? Smelltu hér til að opna Sumarbingó.
Stuðkví verkefnin eru skemmtileg verkefni sem hægt er að grípa í við mörg tækifæri. Hér eru nokkur skemmtileg verkefni sem henta sumardeginum fyrsta:
- Hunangsflugur – er ekki um að búa til drykkjarstöð fyrir hunangsflugurnar sem fara fljótlega að sveima hér um allt?
- Heimagerður ís í poka – er sumardagurinn fyrsti ekki fullkominn dagur í að búa til ís?
- Knús og músarhús – að knúsa tré er skemmtileg og falleg athöfn sem við ættum öll að gera reglulega. Svo er líka hægt að byggja fallegt músarhús!
- Alvöru gönguferð – ef þið ætlið að nýta daginn í að fara í gönguferð þá er hér farið yfir hvernig er gott að undirbúa sig fyrir langa gönguferð.
- Fuglafóður – sumarið er komið, en það er kannski smá tími í að allt verði grænt og blómin fara að spretta. Því er mjög fallegt að hjálpa fuglunum okkar aðeins og gefa þeim eitthvað gott að borða.
Gleðilegt sumar og njótið dagsins!

Upplýsingar vegna nýrra reglugerða
Upplýsingar vegna nýrra reglugerða
Hér koma upplýsingar um nýjar sóttvarnareglur sem tóku gildi 15. apríl og gilda til og með 5. maí 2021.
Samkvæmt nýjum reglugerðum er leik- og grunnskólabörnum heimilt að stunda íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.
Því mega dreka-, fálka- og dróttskátar hefja fundi að nýju frá og með 15. apríl.
Hér er það sem þarf að hafa í huga á þeirra fundum:
Staðsetning skátafunda:
- Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými.
- Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.
- Ráðstafanir skulu gerðar til að sótthreinsa rými eftir hvern dag og á milli hópa í sama rými.
Skátaforingjar:
- Reyna skal að halda fjölda skátaforingja í lágmarki þó ávallt vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis, samkvæmt reglugerð má fjöldi skátaforingja að hámarki vera 20.
- Skátaforingjar skulu gæta 1 metra nálægðartakmörkunar á milli hvors annars. Sé ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun milli hvors annars skulu skátaforingjar nota andlitsgrímur.
- Skátaforingjar þurfa ekki að gæta 1 metra nálægðar við þátttakendur en mælst er til þess að skátaforingjar séu ekki að óþörfu innan 1 metra við þátttakendur.
Starfsfólk:
Séu starfsmenn í skátafélögum gilda sömu reglur um þau og skátaforingja.
Rekkaskátar og eldri:
Rekkaskátar og eldri falla undir almennar samkomutakmarkanir og er því heimilt að hefja skátastarf aftur þar sem ekki fleiri en 20 koma saman. Það á við um heildarfjölda allra á skátafundi bæði skátanna og foringja. Þá skal tryggja a.m.k. tveggja metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmarkanir skal nota andlitsgrímur.
Kynningarmyndbönd fyrir Skátaþing 2021
Kynningarmyndbönd fyrir Skátaþing 2021
Það er að mörgu að huga fyrir Skátaþing en hér eru þrjú myndbönd sem þið getið skoðað til að kynna ykkur frekar þau málefni sem verða til umfjöllunar á Skátaþinginu 2021.
Í fyrsta myndbandinu fer Kristinn, framkvæmdarstjóri BÍS, yfir ársreikninga BÍS:
Í öðru myndbandinu fer Kristinn yfir ársreikninga Skátamóta og ÚSÚ:
Í þriðja myndbandinu fer Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, yfir tillögu að starfsáætlun BÍS 2021-2025:
Frekar upplýsingar um þingið eru inn á www.skatarnir.is/skatathing

