Verkefni 6 - Eldfjall
https://www.redtedart.com/how-to-make-a-papier-mache-erupting-volcano-for-the-science-fair//
ELDFJALL
Hefur þig alltaf langað til að gera þitt eigið eldfjall? Íslendingar þekkja mörg eldfjöll og kannast við sögur af eldgosum. Prófaðu að búa til þitt eigið eldfjall, og láttu það gjósa!
Hér að neðan eru grunn upplýsingar fyrir verkefnið, en þú getur farið á þessa vefsíðu og skoðað þetta myndband til þess að sjá hvernig skal búa til eldfjall skref fyrir skref.
Það sem þú þarft:
- Tóma plastaflösku, helst 500 ml
- Dagblöð
- Límband
- Box til að setja eldfjallið í
- Hveiti og vatn (fyrir pappírsmassann, sjá hér að neðan)
- Málningu, til dæmis akrílmálningu
- Vatnshelt lakk ef þú vilt nota eldfjallið aftur og aftur
Pappírsmassi:
Kíktu á þessa vefsíðu til að sjá frekari leiðbeiningar.
- Blandaðu einum hluta af hveiti við tvo hluta af vatni í gamalt ílát, til dæmis 1/2 bolla hveiti og 1 bolla af vatni.
- Settu blönduna í örbylgjuofn og hitaðu vel.
- Örbylgjuofnar eru með mismunandi stillingar, svo þetta gæti tekið 30 sek - 3 mín. Hrærðu í blöndunni inn á milli og fylgstu vel með.
- Blandan mun vera mjög heit, svo þú vilt kæla hana smá. Það er hægt að geyma blönduna í lokuðu íláti í ísskáp í 1-2 daga.
Fyrir eldgosið:
- Rauðan matarlit
- Heitt vatn
- Matarsóda
- Edik
#stuðkví
Skemmtu þér vel! Sýndu okkur eldfjallið þitt með því að setja mynd eða myndband á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá!
VEGNA NÝRRA VIÐMIÐA FRÁ STJÓRNVÖLDUM

Fyrr í dag, föstudaginn 20. mars 2020, sendi Heilbrigðisráðuneytið ásamt Mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá sér leiðbeinandi viðmið um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum. Í þeim segir:
Kennsla í leik- og grunnskólum fer nú fram í litlum hópum og leitast er við að ekki verði blöndum milli þessara hópa til að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Samkvæmt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi gilda sömu reglur um íþrótta- og æskulýðsstarf barna en ljóst er að ekki er unnt að halda þar sömu hópaskiptingu og í skólum og því óhjákvæmilegt að nemendur munu blandast í íþrótta- og æskulýðsstarfsemi sem stefnt gæti markmiðum sóttvarnarráðstafananna í tvísýnu.
....
Af þeim sökum og að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur. Eru skipuleggjendur þess hvattir til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.
Því hefur Bandalag íslenskra skáta í samráði við félagsforingja allra skátafélaga ákveðið að hlé skuli gert á öllu skátastarfi þar til takmörkun skólastarfs lýkur.
Við munum leggja okkur fram við að halda áfram góðu samráði við öll skátafélögin og veita allar upplýsingar um leið og þær verða aðgengilegar.
Á meðan að æskulýðsstarf líkt og íþrótta- og skólastarf verður fyrir röskunum vegna ríkjandi heimsfaralds munu sjálfboðaliðar skátanna og starfsfólk búa til og miðla dagskrárefni sem vonandi nýtist ungmennum og fólki á öllum aldri til að stytta sér stundir. Efnið er öllum aðgengilegt á https://skatarnir.is/studkvi og á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #Stuðkví.
Leiðbeinandi viðmið um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum frá Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og menningamálaráðuneytinu má lesa í heild sinni á vef stjórnarráðsins.
Verkefni 5 - Gólfið er hraun
GÓLFIÐ ER HRAUN
Prófaðu þennan leik! Ferðastu á milli staða, án þess að snerta gólfið. Passaðu þig að nota einungis hluti sem má stíga eða sitja á!

Hér má sjá útfærslu af þessum leik! Taktu myndband af þér í leiknum og deildu með okkur.
#stuðkví
Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvernig þín þrautabraut er með því að setja myndband á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví.
Fresta skátaþingi en virkja nýtt fólk
Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta skátaþingi sem boðað hafði verið til í lok þessa mánaðar. Gert er ráð fyrir að kynna nýja tímasetningu með vorinu. Ástæða þessar ákvörðunar stjórnar Bandalags íslenskra skáta (BÍS) er Covid faraldurinn og áhrif hans á samfélagið.

Flestir í fráfarandi stjórn BÍS gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Á mynd eru frá vinstri: Jón Halldór Jónasson, Marta Magnúsdóttir, Dagmar Ólafsdóttir, Sævar Skaptason, Jón Ingvar Bragason, Ásgerður Magnúsdóttir, Björk Norðdahl og Harpa Ósk Valgeirsdóttir.
Vilji stjórna skátafélaga kannaður
Stjórn og fulltrúar í fastaráðum hefðu verið sjálfkjörin á skátaþingi og má sjá framboðslistann neðar í þessari frétt. Í samræmi við breytingar á lögum BÍS sem gerðar voru á síðasta skátaþingi verður kosið til stjórnar og starfsráða til tveggja ára. Einnig voru gerðar í nýju lögunum breytingar á skipan starfsráða.
Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi sendi í dag póst á stjórnir skátafélaga og upplýsti þær um stöðu mála og viðraði hugmyndir um hvernig virkja mætti nýtt fólk sem er að bjóða sig fram. Hún segir að verðandi stjórn BÍS sé full tilhlökkunar og vilji gjarnan hefja vinnu sem fyrst miðað við nýja skipan. Þar sem sjálfkjörið sé í allar stöður þá sé sú hugmynd uppi að ný stjórn og ráð taki við eins og skátaþing hefði verið haldið. Ef skátafélögin lýsi sig ekki andvíg þessari ráðagerð yrði stefnt að því að nýtt fólk taki við í samræmi við framboðslista uppstillingarnefndar. Formleg kosning til stjórnar og ráða verður á skátaþingi samkvæmt venju.
Sjálfkjörið í allar stöður
Eftirtaldir bjóða sig fram á skátaþingi:
Stjórn Bandalags íslenskra skáta
- Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
- Sævar Skaptason, gjaldkeri
- Jón Halldór Jónasson
- Ásgerður Magnúsdóttir
- Harpa Ósk Valgeirsdóttir
- Björk Norðdahl
- Þórhallur Helgason
Alþjóðaráð
- Þórey Lovísa Sigmundsdóttir
- Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir
- Aron Gauti Sigurðarson
Starfsráð
- Eva María Sigurbjörnsdóttir
- Birta Ísafold Jónasdóttir
- Páll Kristinn Stefánsson
Stjórn Skátaskólans
- Dagbjört Brynjarsdóttir
- Inga Jóna Þórisdóttir
- Halldór Valberg Skúlason
Ungmennaráð
- Úlfur Leó Hagalín
- Thelma Líf Sigurðardóttir
- Ísold Vala Þorsteinsdóttir
Uppstillinganefnd
- Berglind Lilja Björnsdóttir
- Birgir Ómarsson
- Sigurður Viktor Úlfarsson
- Katrín Kemp Stefándóttir
- Jóhanna Björg Másdóttir
Félagslegir skoðunarmenn
- Guðmundur Þór Pétursson
- Kristín Birna Angantýsdóttir
- Jón Þór Gunnarsson
Tengt efni:
Verkefni 4 - Klósettpappírleikarnir
KLÓSETTPAPPÍRLEIKARNIR
Klósettpappírleikarnir eru safn frábærra leikja þar sem þátttakendur keppast á ýmsan máta og nota til þess klósettpappírsbirgðir heimilisins. Hér geta ungir sem aldnir keppt við jafnaldra sína eða á milli kynslóða. Allir leikirnir eru hannaðir með það í huga að klósettpappírinn skemmist ekki hann geti áfram sinnt mikilvægu hlutverki sínu. Þau sem taka þátt geta deilt myndum eða myndböndum af þátttöku sinni á samfélagsmiðlum ásamt leiknum sem þau búa til undir myllumerkjunum #stuðkví og #klósettpappírleikarnir og þá eigið þið möguleika á að vinna 32 klósettpappírrúllur en dregið verður úr þátttakendum á síðasta degi samkomubanns.

Það er starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar og sambýlisfólkið Javier Paniagua og Hulda María Valgeirsdóttir sem sýna hvernig skuli leika hvern leik og leyfa þau sér því að hafa minna en 2 metra fjarlægð á milli sín en ekki er mælst til þess að aðrir en fólk sem deilir sama heimili leiki þessa leiki saman á meðan samkomubann ríkir.
Leikur 1 - Körfupappír
Þátttakendur liggja á bakinu með kassa eða annað heppilegt ílát við höfuð sér og með jafn margar klósettpappírsrúllur við fætur sér. Markmið leiksins er að koma öllum rúllunum í ílátið en til þess má bara nota fætur, ekki hendur. Ef þátttakandi hittir ekki ofan í ílátið má sækja klósettpappírsrúllurnar og setja þær aftur við fætur sér og síðan halda áfram að reyna að koma þeim ofan í ílátið. Það vinnur sem er fyrst að koma öllum klósettpappírsrúllunum ofan í ílátið.
Leikur 2 - Þrautabrautin
Þáttakendur nota klósettpappírsrúllur til að marka þrautir í þrautabraut. Hægt er að gera tvær eða fleiri samskonar þrautabrautir hlið við hlið og keppast um hvert sé fyrst að ljúka brautinni eða hafa bara eina þrautabraut og keppa í henni til skiptis um hvert lýkur þrautabrautinni á bestum tíma.
Leikur 3 - Rúllukast
Þátttakendur standa andspænis hvort öðru með gott bil á milli sín og hafa við fætur sér ílát og sama fjölda af klósettpappírsrúllum. Markmið leiksins er að kasta eins mörgum klósettpappírsrúllum og maður getur frá sínum enda vallarins í ílát andstæðingsins á 60 sekúndum. Ef að klósettpappírsrúllurnar lenda á milli ílátana mega báðir þátttakendur hlaupa og sækja rúlluna og kasta henni aftur frá sínum enda vallarins. Ef þær rúlla hins vegar fyrir aftan ílát andstæðings má sá aðili eingöngu kasta klósettpappírsrúllunni aftur. Það vinnur sem nær fleiri klósettpappírsrúllum í ílát andstæðingsins.
Leikur 4 - Slá upp turn
Í þessum leik keppast þátttakendur um að slá undir klósettpappírsrúllur þannig að þær lendi samsíða ofan á annarri klósettpappírrúllu og myndi þannig klósettpappírsrúllu turn. Þessi leikur reynir á þolinmæði og fínhreyfingar en gleður verulega þegar þátttakendum tekst sett markmið. Útfæra má leikinn á ýmis máta t.d. má reyna að slá þriðju klósettpappírsrúllunni upp á hinar tvær og ýmislegt fleira skemmtilegt.
Leikur 5 - Sundur, saman
Þátttakendur fá eina klósettpappírsrúllu hvort og keppast um að rúlla allri rúllunni í sundur og síðan aftur saman. Hér þurfa þátttakendur að gæta þess að slíta ekki klósettpappírsrúlluna en þeim refsast það þegar þau rúlla henni aftur saman.
Leikur 6 - Rúlla sér í hring
Í þessum leik liggja þátttakendur á bakinu og setja klósettpappírsrúllu á il sína. Markmið leiksins er að rúlla sér í hring og halda jafnvægi á klósettpappírsrúllunni á sama tíma. Hægt er að keppast um að ná þessu fyrst eða mæla tíma. Eins og sjá má í myndbandinu sem fylgir skiptir öllu máli að gefa sér gott pláss til að leika þetta eftir.
Leikur 7 - Klósettpappírs keila
Við núverandi ástand má vera að margir séu ekki tilbúnir að stinga fingrum sínum í lánskúlu og fæstir landsmenn sem eiga sína eigin keilukúlu. Í þessum leik getur þú sett upp þína eigin keilubraut heima hjá þér! Stillið upp 10 klósettpappírs keilupinnum með því að stafla saman tveimur og tveimur klósettpappírsrúllum. Rúllið út tveimur klósettpappírsrúllum til vibótar til að marka braut sitthvorum megin við klósettpappírskeilupinnana. Því næst grípið þið eina klósettpappírsrúllu til viðbótar og notið hana í stað keilukúlu. Síðan gilda bara sömu reglur og í keilu, að fella alla 10 pinnana í einu tilraun telst til fellu og til feykju ef maður nær því í tveimur. Útfæra má leikinn þannig að bolti, appelsína eða keilukúla sé notuð til að fella klósettpappírs keilupinnana en hvetjum við þátttakendur þá að gæta innanhúsmuna, gólfefnis og veggja.
Leikur 8 - Búðu til þinn eigin leik!
Hér viljum við hvetja þátttakendur til að búa til sinn eigin leik! Við viljum þar að auki að þú hlaðir myndbandi, skýringarmyndum og leiðbeiningum leiksins upp á samfélagsmiðla og merkir með myllumerkjunum #stuðkví og #klósettpappírsleikarnir og þá gætir þú unnið 32 rúllur af klósettpappír!
Verkefni 3 - Ljósmyndamaraþon
LJÓSMYNDAMARAÞON
Það þarf smá hugmyndaflug í þetta verkefni og verður spennandi að sjá afraksturinn. Tilvalið að skella sér í smá göngutúr um hverfið og vinna saman að því að taka skapandi myndir af hlutunum á þessum lista, sérstaklega gaman ef að þau yngstu í hópnum fá að spreyta sig á myndavélinni!

#stuðkví
Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvað þú gerir með því að setja mynd á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá myndir.
Verkefni 2 - Pokagerð
POKAGERÐ
Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvað þú ættir að gera við gamla stuttermabolinn sem er orðinn aðeins of lítill, eða er með málningarslettum? Hér er hin fullkomna hugmynd, búðu til poka úr stuttermabolnum! Með því að endurnýta stuttermabolinn getur þú búið til flottan poka, sem hægt er að nota fyrir dót, nesti, mat, bækur eða hvað sem þér dettur í hug. Það eina sem þú þarft í þetta verkefni er stuttermabolur og skæri. Hægt er að fylgja leiðbeiningunum hér að neðan eða skoða myndbönd af þessu verkefni sem aðrir hafa gert, til dæmis þetta hér.
Skref fyrir skref
- Finndu til stuttermabol og góð skæri.
- Leggðu bolinn á borð/gólf og breiddu úr honum.
- Brjóttu bolinn saman í tvennt.

4. Byrjaðu á að klippa ermarnar af, með því að fylgja saumunum á bolnum.
5. Breiddu aftur úr bolnum, en nú ætti hann að líta út eins og hlýrabolur.

6. Klipptu í kringum hálsmálið. Það má ná eins langt niður og þú vilt, en það fer eftir því hversu langt handfang þú vilt.
7. Snúðu bolnum við og breiddu úr honum.

8. Næst þarf að klippa botninn á bolnum í nokkra búta.
Klipptu um það bil 10 cm lengjur frá botninum á bolnum upp að miðju - en aðeins um ca. 3 cm breiðar lengjur - ath myndir fyrir betri útskýringar.

9. Þegar það er búið, þarf að hnýta saman lengjurnar.
Byrjið á því að gera einfaldan hnút á allar lengjurnar (tvær lengjur bindast saman, framaná og aftaná bolnum).

10. Næst þarf að taka efri lengjuna sem er hnýtt saman, og neðri lengjuna á næstu lengju, og hnýta þær saman. Þetta þarf að gera til að koma í veg fyrir göt á milli.
11. Svo endar þetta á því að þú hnýtir tvöfaldan hnút á allar lengjurnar svo þær séu alveg örugglega þéttar og fastar.

12. Snúðu pokanum við og hann ætti þá að vera tilbúinn!
13. Nú er hægt að fínpússa og til dæmis skreyta pokann með litum, glimmeri, hnoðrum eða því sem þér dettur í hug!


Hægt er að nota afgangana sem eru klipptir í burtu til þess að nota í til dæmis tuskur eða búninga.

#stuðkví
Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvað þú gerir með því að setja mynd á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá myndir.
Verkefni 1 - Innilega í stofunni!
INNILEGA
Það er mjög gaman að fara í útilegu. En stundum er það bara ekki hægt. Þá er einfaldlega hæft að fara í innilegu! Notaðu teppi og lök og hjúfraðu um þig í heimagerðu tjaldi í stofunni eða svefnherberginu. Það er engin hætta á að þér verði kalt eða tærnar blotni! Svo geturðu notað hugmyndaflugið og bætt endalaust við til að gera meira kósí. Seríur, púðar og fleiri teppi gera tjaldið virkilega huggulegt og til að koma sér í alvöru útilegustuð er hægt að sötra kakó og narta í sykurpúða!
Inni-varðeldur
Það er alltaf gaman að sitja í kringum varðeld, segja sögur og syngja nokkur lög! Þú getur búið til inni-varðeld fyrir innileguna þína. Það sem þig vantar er klósettrúllur, pappír, skæri, liti og lím.
- Búðu til eldivið úr klósettrúllunum. Þú getur notað liti til að teikna á klósettrúllurnar línur eins og er á viðarkubbum. Þú getur líka málað þær. Leyfðu ímyndunaraflinu að ráða för!
- Notaðu blöð til að búa til eldinn. Klipptu blöðin í þeirri stærð sem þér finnst henta og límdu þau saman.
- Raðaðu eldiviðnum (klósettrúllunum) í hring og límdu blöðin í miðjuna.
- Vekjum athygli á að EKKI á að kveikja í þessum varðeldi heldur bara njóta að horfa á.
Ævintýri úr skuggamyndum
Nú getur þú setið í kringum inni-varðeldinn þinn, sagt sögur og sungið öll uppáhalds lögin þín. Notaðu ímyndunaraflið þitt og segðu sögur með skuggamyndum! Finndu vasaljós og prófaðu þig áfram. Ef þig vantar hugmyndir þá getur þú séð nokkrar hugmyndir hér hvernig fígúrur þú getur gert með höndunum þínum. Prófaðu að sjá hvort þú getir fundið út nýjar fígúrur.
#stuðkví
Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvað þú gerir með því að setja mynd á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá myndir.

Verður skátamiðstöð við Rauðavatn?
Uppbygging skátamiðstöðvar á nýjum stað hefur verið til skoðunar og er horft til staðsetningar sem gefur möguleika í útivist og svigrúm til uppbyggingar á tengdri þjónustu s.s. gistiaðstöðu sem rýma myndi 50 manns og jafnvel hægt að slá upp tjaldbúð. Svigrúm væri einnig fyrir geymslu á búnaði í skemmum.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi segir engar ákvarðanir um flutning hafa verið teknar en skátar séu opnir fyrir áhugaverðum hugmyndum og tækifærum. Fyrirséð er aukin byggð í Hraunbænum sem takmarkar svigrúm skáta á núverandi stað.
Nýi staðurinn sem er til skoðunar er við Rauðvatn og jaðar Hólmsheiðar, en þessi staðsetning tengist vel útivistarsvæði sem þar er. Nýja skátasvæðið er í brekkunni fyrir neðan Hádegismóa og nýtur því skjóls fyrir norðanáttinni. Þar hafa staðið sumarhús í gegnum tíðina og mikið er um hávaxin tré m.a. lerki, birki og einstaka reynitré, eins og segir í skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags, sem er í kynningarferli.

Möguleiki á gistiaðstöðu
Verði af þessum hugmyndum skapast nýir möguleikar í starfsemi skáta, en í byggingum yrði auk skrifstofuaðstöðu gert ráð fyrir gistirými ásamt matsal sem myndi rýma um 50 manns. Útisvæðið yrði fjölbreytt bæði fyrir leiki og einnig tjaldbúðir. Reisa mætti skemmur sem rýma myndu búnað sem skátamiðstöðin þarf fyrir sína starfsemi.
Hugmyndir gera ráð fyrir að skátafélagið Árbúar myndu fá annað svæði og hentugra innan hverfisins. Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenskra skáta myndu hins vegar flytja að Rauðavatni með fundaaðstöðu og almennan skrifstofurekstur.

Endanleg ákvörðun tekin í samráði við skátafélögin
Þegar málið var kynnt fyrir stjórnum skátafélaganna á fundi í haust var áréttað að engar ákvarðanir yrðu teknar án samráðs við skátafélögin og að fjárhagslegar skuldbindingar yrðu skoðaðar sérstaklega.
Nú þegar skipulags- og matslýsing liggur fyrir verður hægt að skoða heildardæmið betur og verður það gert á næstunni og kynnt innan skátasamfélagsins þannig að ábendingar, rök með og móti verði skoðuð í heildarmyndinni.
Stjórn BÍS og framkvæmdastjóri nálgast verkefnið með opnum huga. „Ég vil leggja áherslu á að hér erum við að hugsa til framtíðar. Önum ekki að neinu en þetta opnar klárlega áhugaverðar hugmyndir og tækifæri. Það er svo gott að hafa enga tímapressu á sér,“ segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Skátamiðstöðvar, en hann hefur haldið utan um ferlið með umboði stjórnar.
Hér má skoða Skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags.

TILLAGA UM BREYTINGAR Á SKÁTAÞINGI 2020
Í ljósi stöðunnar varðandi heimsfaraldur COVID-19 og samkomubanns leggur stjórn BÍS til að Skátaþing verði haldið í Skátamiðstöðinni föstudaginn 27. mars frá 18:00 – 20:00 í stað Varmalands yfir tvo daga. Á þinginu yrðu nauðsynlegir dagskrárliðir afgreiddir og þátttaka færi fram í gegnum fjarfundarbúnað. Aukaskátaþing yrði síðan haldið að hausti 2020 þar sem aðrir dagskrárliðir yrðu afgreiddir.
Samkvæmt lögum BÍS skal skila athugasemdum við útsend gögn vegna Skátaþings til Skátamiðstöðvarinnar eigi síður en viku fyrir þing. Því er afar mikilvægt að skátafélögin kynni sér þessar tillögur og geri athugasemdir við þær eigi síður en 20. mars 2020.
Sækja tillögu í heild sinni hér













