Verkefni 2 – Pokagerð

POKAGERÐ

Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvað þú ættir að gera við gamla stuttermabolinn sem er orðinn aðeins of lítill, eða er með málningarslettum? Hér er hin fullkomna hugmynd, búðu til poka úr stuttermabolnum! Með því að endurnýta stuttermabolinn getur þú búið til flottan poka, sem hægt er að nota fyrir dót, nesti, mat, bækur eða hvað sem þér dettur í hug. Það eina sem þú þarft í þetta verkefni er stuttermabolur og skæri. Hægt er að fylgja leiðbeiningunum hér að neðan eða skoða myndbönd af þessu verkefni sem aðrir hafa gert, til dæmis þetta hér.

Skref fyrir skref

  1. Finndu til stuttermabol og góð skæri.
  2. Leggðu bolinn á borð/gólf og breiddu úr honum.
  3. Brjóttu bolinn saman í tvennt.

4. Byrjaðu á að klippa ermarnar af, með því að fylgja saumunum á bolnum.
5. Breiddu aftur úr bolnum, en nú ætti hann að líta út eins og hlýrabolur.

6. Klipptu í kringum hálsmálið. Það má ná eins langt niður og þú vilt, en það fer eftir því hversu langt handfang þú vilt.
7. Snúðu bolnum við og breiddu úr honum.

   

8. Næst þarf að klippa botninn á bolnum í nokkra búta.
Klipptu um það bil 10 cm lengjur frá botninum á bolnum upp að miðju – en aðeins um ca. 3 cm breiðar lengjur – ath myndir fyrir betri útskýringar.

9. Þegar það er búið, þarf að hnýta saman lengjurnar.
Byrjið á því að gera einfaldan hnút á allar lengjurnar (tvær lengjur bindast saman, framaná og aftaná bolnum).

10. Næst þarf að taka efri lengjuna sem er hnýtt saman, og neðri lengjuna á næstu lengju, og hnýta þær saman. Þetta þarf að gera til að koma í veg fyrir göt á milli.
11. Svo endar þetta á því að þú hnýtir tvöfaldan hnút á allar lengjurnar svo þær séu alveg örugglega þéttar og fastar.

12. Snúðu pokanum við og hann ætti þá að vera tilbúinn!
13. Nú er hægt að fínpússa og til dæmis skreyta pokann með litum, glimmeri, hnoðrum eða því sem þér dettur í hug!

Hægt er að nota afgangana sem eru klipptir í burtu til þess að nota í til dæmis tuskur eða búninga.

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvað þú gerir með því að setja mynd á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá myndir.