Verkefni 4 – Klósettpappírleikarnir

KLÓSETTPAPPÍRLEIKARNIR

Klósettpappírleikarnir eru safn frábærra leikja þar sem þátttakendur keppast á ýmsan máta og nota til þess klósettpappírsbirgðir heimilisins. Hér geta ungir sem aldnir keppt við jafnaldra sína eða á milli kynslóða. Allir leikirnir eru hannaðir með það í huga að klósettpappírinn skemmist ekki hann geti áfram sinnt mikilvægu hlutverki sínu. Þau sem taka þátt geta deilt myndum eða myndböndum af þátttöku sinni á samfélagsmiðlum ásamt leiknum sem þau búa til undir myllumerkjunum #stuðkví og #klósettpappírleikarnir og þá eigið þið möguleika á að vinna 32 klósettpappírrúllur en dregið verður úr þátttakendum á síðasta degi samkomubanns.

Klósettpappírsleika kastalinn sem þátttakendur geta hlotið í verðlaun. Athugið að ástandið á klósettpappírsrúllunum gæti hafa breyst eftir gerð þessara leiðbeininga.

Það er starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar og sambýlisfólkið Javier Paniagua og Hulda María Valgeirsdóttir sem sýna hvernig skuli leika hvern leik og leyfa þau sér því að hafa minna en 2 metra fjarlægð á milli sín en ekki er mælst til þess að aðrir en fólk sem deilir sama heimili leiki þessa leiki saman á meðan samkomubann ríkir.

Leikur 1 – Körfupappír

Þátttakendur liggja á bakinu með kassa eða annað heppilegt ílát við höfuð sér og með jafn margar klósettpappírsrúllur við fætur sér. Markmið leiksins er að koma öllum rúllunum í ílátið en til þess má bara nota fætur, ekki hendur. Ef þátttakandi hittir ekki ofan í ílátið má sækja klósettpappírsrúllurnar og setja þær aftur við fætur sér og síðan halda áfram að reyna að koma þeim ofan í ílátið. Það vinnur sem er fyrst að koma öllum klósettpappírsrúllunum ofan í ílátið.

 

 

Leikur 2 – Þrautabrautin

Þáttakendur nota klósettpappírsrúllur til að marka þrautir í þrautabraut. Hægt er að gera tvær eða fleiri samskonar þrautabrautir hlið við hlið og keppast um hvert sé fyrst að ljúka brautinni eða hafa bara eina þrautabraut og keppa í henni til skiptis um hvert lýkur þrautabrautinni á bestum tíma.

Leikur 3 – Rúllukast

Þátttakendur standa andspænis hvort öðru með gott bil á milli sín og hafa við fætur sér ílát og sama fjölda af klósettpappírsrúllum. Markmið leiksins er að kasta eins mörgum klósettpappírsrúllum og maður getur frá sínum enda vallarins í ílát andstæðingsins á 60 sekúndum. Ef að klósettpappírsrúllurnar lenda á milli ílátana mega báðir þátttakendur hlaupa og sækja rúlluna og kasta henni aftur frá sínum enda vallarins. Ef þær rúlla hins vegar fyrir aftan ílát andstæðings má sá aðili eingöngu kasta klósettpappírsrúllunni aftur. Það vinnur sem nær fleiri klósettpappírsrúllum í ílát andstæðingsins.

 

Leikur 4 – Slá upp turn

Í þessum leik keppast þátttakendur um að slá undir klósettpappírsrúllur þannig að þær lendi samsíða ofan á annarri klósettpappírrúllu og myndi þannig klósettpappírsrúllu turn. Þessi leikur reynir á þolinmæði og fínhreyfingar en gleður verulega þegar þátttakendum tekst sett markmið. Útfæra má leikinn á ýmis máta t.d. má reyna að slá þriðju klósettpappírsrúllunni upp á hinar tvær og ýmislegt fleira skemmtilegt.

 

Leikur 5 – Sundur, saman

Þátttakendur fá eina klósettpappírsrúllu hvort og keppast um að rúlla allri rúllunni í sundur og síðan aftur saman. Hér þurfa þátttakendur að gæta þess að slíta ekki klósettpappírsrúlluna en þeim refsast það þegar þau rúlla henni aftur saman.

Leikur 6 – Rúlla sér í hring

Í þessum leik liggja þátttakendur á bakinu og setja klósettpappírsrúllu á il sína. Markmið leiksins er að rúlla sér í hring og halda jafnvægi á klósettpappírsrúllunni á sama tíma. Hægt er að keppast um að ná þessu fyrst eða mæla tíma. Eins og sjá má í myndbandinu sem fylgir skiptir öllu máli að gefa sér gott pláss til að leika þetta eftir.

Leikur 7 – Klósettpappírs keila

Við núverandi ástand má vera að margir séu ekki tilbúnir að stinga fingrum sínum í lánskúlu og fæstir landsmenn sem eiga sína eigin keilukúlu. Í þessum leik getur þú sett upp þína eigin keilubraut heima hjá þér! Stillið upp 10 klósettpappírs keilupinnum með því að stafla saman tveimur og tveimur klósettpappírsrúllum. Rúllið út tveimur klósettpappírsrúllum til vibótar til að marka braut sitthvorum megin við klósettpappírskeilupinnana. Því næst grípið þið eina klósettpappírsrúllu til viðbótar og notið hana í stað keilukúlu. Síðan gilda bara sömu reglur og í keilu, að fella alla 10 pinnana í einu tilraun telst til fellu og til feykju ef maður nær því í tveimur. Útfæra má leikinn þannig að bolti, appelsína eða keilukúla sé notuð til að fella klósettpappírs keilupinnana en hvetjum við þátttakendur þá að gæta innanhúsmuna, gólfefnis og veggja.

Leikur 8 – Búðu til þinn eigin leik!

Hér viljum við hvetja þátttakendur til að búa til sinn eigin leik! Við viljum þar að auki að þú hlaðir myndbandi, skýringarmyndum og leiðbeiningum leiksins upp á samfélagsmiðla og merkir með myllumerkjunum #stuðkví og #klósettpappírsleikarnir og þá gætir þú unnið 32 rúllur af klósettpappír!