Verkefni 7 - Gátur og þrautir

Er ekki tilvalið að þjálfa heilann aðeins á þessum fallega sunnudegi? Við mælum með að setja skemmtilega tónlist á fóninn og hvetja alla sem eru heima til að prófa! Ekki gleyma að láta okkur vita hvernig gekk og ef þið kunnið fleiri þrautir eða gátur þá ekki hika við að senda þær inn og leyfa okkur hinum að prófa :)

Skemmtu þér vel og ekki gleyma að deila með okkur þegar þið finnið lausnirnar --> #skátarnir #stuðkví

Fyrsta þrautin er orðarugl! Getur þú fundið öll týndu orðin? Þegar þú ert búin getur þú prófað að búa til þitt eigið orðarugl og leyft öðrum að prófa:)

 

Önnur þrautin er peningaröðin! Hér sérðu mynd af peningum þar sem fjöldi peninga í annarri röðinni eru 4 og í hinni röðinni eru 5. Getur þú, með því að færa EINN pening, haft raðirnar þannig að BÁÐAR raðirnar séu með 5 peningum?

Þriðja þrautin er skátadulmál. Skátadulmál er vinsælt meðal skáta og hefur meðal annars verið notað í leikjum, bréfaskriftum og dagbókarfærslum. Nærð þú að finna út úr því? Notaðu fyrri myndina til að leysa skátadulmálið.

Skátadulmál setning

 


Verkefni 6 - Eldfjall

https://www.redtedart.com/how-to-make-a-papier-mache-erupting-volcano-for-the-science-fair//

ELDFJALL

Hefur þig alltaf langað til að gera þitt eigið eldfjall? Íslendingar þekkja mörg eldfjöll og kannast við sögur af eldgosum. Prófaðu að búa til þitt eigið eldfjall, og láttu það gjósa!

Hér að neðan eru grunn upplýsingar fyrir verkefnið, en þú getur farið á þessa vefsíðu og skoðað þetta myndband til þess að sjá hvernig skal búa til eldfjall skref fyrir skref.

Það sem þú þarft:

  • Tóma plastaflösku, helst 500 ml
  • Dagblöð
  • Límband
  • Box til að setja eldfjallið í
  • Hveiti og vatn (fyrir pappírsmassann, sjá hér að neðan)
  • Málningu, til dæmis akrílmálningu
  • Vatnshelt lakk ef þú vilt nota eldfjallið aftur og aftur

Pappírsmassi:

Kíktu á þessa vefsíðu til að sjá frekari leiðbeiningar.

  1. Blandaðu einum hluta af hveiti við tvo hluta af vatni í gamalt ílát, til dæmis 1/2 bolla hveiti og 1 bolla af vatni.
  2. Settu blönduna í örbylgjuofn og hitaðu vel.
  3. Örbylgjuofnar eru með mismunandi stillingar, svo þetta gæti tekið 30 sek - 3 mín. Hrærðu í blöndunni inn á milli og fylgstu vel með.
  4. Blandan mun vera mjög heit, svo þú vilt kæla hana smá. Það er hægt að geyma blönduna í lokuðu íláti í ísskáp í 1-2 daga.

Fyrir eldgosið:

  • Rauðan matarlit
  • Heitt vatn
  • Matarsóda
  • Edik

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur eldfjallið þitt með því að setja mynd eða myndband á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá!


Verkefni 5 - Gólfið er hraun

GÓLFIÐ ER HRAUN

Prófaðu þennan leik! Ferðastu á milli staða, án þess að snerta gólfið. Passaðu þig að nota einungis hluti sem má stíga eða sitja á!

 

Hér má sjá útfærslu af þessum leik! Taktu myndband af þér í leiknum og deildu með okkur.

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvernig þín þrautabraut er með því að setja myndband á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví.


Verkefni 4 - Klósettpappírleikarnir

KLÓSETTPAPPÍRLEIKARNIR

Klósettpappírleikarnir eru safn frábærra leikja þar sem þátttakendur keppast á ýmsan máta og nota til þess klósettpappírsbirgðir heimilisins. Hér geta ungir sem aldnir keppt við jafnaldra sína eða á milli kynslóða. Allir leikirnir eru hannaðir með það í huga að klósettpappírinn skemmist ekki hann geti áfram sinnt mikilvægu hlutverki sínu. Þau sem taka þátt geta deilt myndum eða myndböndum af þátttöku sinni á samfélagsmiðlum ásamt leiknum sem þau búa til undir myllumerkjunum #stuðkví og #klósettpappírleikarnir og þá eigið þið möguleika á að vinna 32 klósettpappírrúllur en dregið verður úr þátttakendum á síðasta degi samkomubanns.

Klósettpappírsleika kastalinn sem þátttakendur geta hlotið í verðlaun. Athugið að ástandið á klósettpappírsrúllunum gæti hafa breyst eftir gerð þessara leiðbeininga.

Það er starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar og sambýlisfólkið Javier Paniagua og Hulda María Valgeirsdóttir sem sýna hvernig skuli leika hvern leik og leyfa þau sér því að hafa minna en 2 metra fjarlægð á milli sín en ekki er mælst til þess að aðrir en fólk sem deilir sama heimili leiki þessa leiki saman á meðan samkomubann ríkir.

Leikur 1 - Körfupappír

Þátttakendur liggja á bakinu með kassa eða annað heppilegt ílát við höfuð sér og með jafn margar klósettpappírsrúllur við fætur sér. Markmið leiksins er að koma öllum rúllunum í ílátið en til þess má bara nota fætur, ekki hendur. Ef þátttakandi hittir ekki ofan í ílátið má sækja klósettpappírsrúllurnar og setja þær aftur við fætur sér og síðan halda áfram að reyna að koma þeim ofan í ílátið. Það vinnur sem er fyrst að koma öllum klósettpappírsrúllunum ofan í ílátið.

 

 

Leikur 2 - Þrautabrautin

Þáttakendur nota klósettpappírsrúllur til að marka þrautir í þrautabraut. Hægt er að gera tvær eða fleiri samskonar þrautabrautir hlið við hlið og keppast um hvert sé fyrst að ljúka brautinni eða hafa bara eina þrautabraut og keppa í henni til skiptis um hvert lýkur þrautabrautinni á bestum tíma.

Leikur 3 - Rúllukast

Þátttakendur standa andspænis hvort öðru með gott bil á milli sín og hafa við fætur sér ílát og sama fjölda af klósettpappírsrúllum. Markmið leiksins er að kasta eins mörgum klósettpappírsrúllum og maður getur frá sínum enda vallarins í ílát andstæðingsins á 60 sekúndum. Ef að klósettpappírsrúllurnar lenda á milli ílátana mega báðir þátttakendur hlaupa og sækja rúlluna og kasta henni aftur frá sínum enda vallarins. Ef þær rúlla hins vegar fyrir aftan ílát andstæðings má sá aðili eingöngu kasta klósettpappírsrúllunni aftur. Það vinnur sem nær fleiri klósettpappírsrúllum í ílát andstæðingsins.

 

Leikur 4 - Slá upp turn

Í þessum leik keppast þátttakendur um að slá undir klósettpappírsrúllur þannig að þær lendi samsíða ofan á annarri klósettpappírrúllu og myndi þannig klósettpappírsrúllu turn. Þessi leikur reynir á þolinmæði og fínhreyfingar en gleður verulega þegar þátttakendum tekst sett markmið. Útfæra má leikinn á ýmis máta t.d. má reyna að slá þriðju klósettpappírsrúllunni upp á hinar tvær og ýmislegt fleira skemmtilegt.

 

Leikur 5 - Sundur, saman

Þátttakendur fá eina klósettpappírsrúllu hvort og keppast um að rúlla allri rúllunni í sundur og síðan aftur saman. Hér þurfa þátttakendur að gæta þess að slíta ekki klósettpappírsrúlluna en þeim refsast það þegar þau rúlla henni aftur saman.

Leikur 6 - Rúlla sér í hring

Í þessum leik liggja þátttakendur á bakinu og setja klósettpappírsrúllu á il sína. Markmið leiksins er að rúlla sér í hring og halda jafnvægi á klósettpappírsrúllunni á sama tíma. Hægt er að keppast um að ná þessu fyrst eða mæla tíma. Eins og sjá má í myndbandinu sem fylgir skiptir öllu máli að gefa sér gott pláss til að leika þetta eftir.

Leikur 7 - Klósettpappírs keila

Við núverandi ástand má vera að margir séu ekki tilbúnir að stinga fingrum sínum í lánskúlu og fæstir landsmenn sem eiga sína eigin keilukúlu. Í þessum leik getur þú sett upp þína eigin keilubraut heima hjá þér! Stillið upp 10 klósettpappírs keilupinnum með því að stafla saman tveimur og tveimur klósettpappírsrúllum. Rúllið út tveimur klósettpappírsrúllum til vibótar til að marka braut sitthvorum megin við klósettpappírskeilupinnana. Því næst grípið þið eina klósettpappírsrúllu til viðbótar og notið hana í stað keilukúlu. Síðan gilda bara sömu reglur og í keilu, að fella alla 10 pinnana í einu tilraun telst til fellu og til feykju ef maður nær því í tveimur. Útfæra má leikinn þannig að bolti, appelsína eða keilukúla sé notuð til að fella klósettpappírs keilupinnana en hvetjum við þátttakendur þá að gæta innanhúsmuna, gólfefnis og veggja.

Leikur 8 - Búðu til þinn eigin leik!

Hér viljum við hvetja þátttakendur til að búa til sinn eigin leik! Við viljum þar að auki að þú hlaðir myndbandi, skýringarmyndum og leiðbeiningum leiksins upp á samfélagsmiðla og merkir með myllumerkjunum #stuðkví og #klósettpappírsleikarnir og þá gætir þú unnið 32 rúllur af klósettpappír!


Verkefni 3 - Ljósmyndamaraþon

LJÓSMYNDAMARAÞON

Það þarf smá hugmyndaflug í þetta verkefni og verður spennandi að sjá afraksturinn. Tilvalið að skella sér í smá göngutúr um hverfið og vinna saman að því að taka skapandi myndir af hlutunum á þessum lista, sérstaklega gaman ef að þau yngstu í hópnum fá að spreyta sig á myndavélinni! 

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvað þú gerir með því að setja mynd á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá myndir.


Verkefni 2 - Pokagerð

POKAGERÐ

Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvað þú ættir að gera við gamla stuttermabolinn sem er orðinn aðeins of lítill, eða er með málningarslettum? Hér er hin fullkomna hugmynd, búðu til poka úr stuttermabolnum! Með því að endurnýta stuttermabolinn getur þú búið til flottan poka, sem hægt er að nota fyrir dót, nesti, mat, bækur eða hvað sem þér dettur í hug. Það eina sem þú þarft í þetta verkefni er stuttermabolur og skæri. Hægt er að fylgja leiðbeiningunum hér að neðan eða skoða myndbönd af þessu verkefni sem aðrir hafa gert, til dæmis þetta hér.

Skref fyrir skref

  1. Finndu til stuttermabol og góð skæri.
  2. Leggðu bolinn á borð/gólf og breiddu úr honum.
  3. Brjóttu bolinn saman í tvennt.

4. Byrjaðu á að klippa ermarnar af, með því að fylgja saumunum á bolnum.
5. Breiddu aftur úr bolnum, en nú ætti hann að líta út eins og hlýrabolur.

6. Klipptu í kringum hálsmálið. Það má ná eins langt niður og þú vilt, en það fer eftir því hversu langt handfang þú vilt.
7. Snúðu bolnum við og breiddu úr honum.

   

8. Næst þarf að klippa botninn á bolnum í nokkra búta.
Klipptu um það bil 10 cm lengjur frá botninum á bolnum upp að miðju - en aðeins um ca. 3 cm breiðar lengjur - ath myndir fyrir betri útskýringar.

9. Þegar það er búið, þarf að hnýta saman lengjurnar.
Byrjið á því að gera einfaldan hnút á allar lengjurnar (tvær lengjur bindast saman, framaná og aftaná bolnum).

10. Næst þarf að taka efri lengjuna sem er hnýtt saman, og neðri lengjuna á næstu lengju, og hnýta þær saman. Þetta þarf að gera til að koma í veg fyrir göt á milli.
11. Svo endar þetta á því að þú hnýtir tvöfaldan hnút á allar lengjurnar svo þær séu alveg örugglega þéttar og fastar.

12. Snúðu pokanum við og hann ætti þá að vera tilbúinn!
13. Nú er hægt að fínpússa og til dæmis skreyta pokann með litum, glimmeri, hnoðrum eða því sem þér dettur í hug!

Hægt er að nota afgangana sem eru klipptir í burtu til þess að nota í til dæmis tuskur eða búninga.

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvað þú gerir með því að setja mynd á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá myndir.


Verkefni 1 - Innilega í stofunni!

INNILEGA

Það er mjög gaman að fara í útilegu. En stundum er það bara ekki hægt. Þá er einfaldlega hæft að fara í innilegu! Notaðu teppi og lök og hjúfraðu um þig í heimagerðu tjaldi í stofunni eða svefnherberginu. Það er engin hætta á að þér verði kalt eða tærnar blotni! Svo geturðu notað hugmyndaflugið og bætt endalaust við til að gera meira kósí. Seríur, púðar og fleiri teppi gera tjaldið virkilega huggulegt og til að koma sér í alvöru útilegustuð er hægt að sötra kakó og narta í sykurpúða!

Inni-varðeldur

Það er alltaf gaman að sitja í kringum varðeld, segja sögur og syngja nokkur lög! Þú getur búið til inni-varðeld fyrir innileguna þína. Það sem þig vantar er klósettrúllur, pappír, skæri, liti og lím.

  1. Búðu til eldivið úr klósettrúllunum. Þú getur notað liti til að teikna á klósettrúllurnar línur eins og er á viðarkubbum. Þú getur líka málað þær. Leyfðu ímyndunaraflinu að ráða för!
  2. Notaðu blöð til að búa til eldinn. Klipptu blöðin í þeirri stærð sem þér finnst henta og límdu þau saman.
  3. Raðaðu eldiviðnum (klósettrúllunum) í hring og límdu blöðin í miðjuna.
  4. Vekjum athygli á að EKKI á að kveikja í þessum varðeldi heldur bara njóta að horfa á.

Ævintýri úr skuggamyndum

Nú getur þú setið í kringum inni-varðeldinn þinn, sagt sögur og sungið öll uppáhalds lögin þín. Notaðu ímyndunaraflið þitt og segðu sögur með skuggamyndum! Finndu vasaljós og prófaðu þig áfram. Ef þig vantar hugmyndir þá getur þú séð nokkrar hugmyndir hér hvernig fígúrur þú getur gert með höndunum þínum. Prófaðu að sjá hvort þú getir fundið út nýjar fígúrur.

#stuðkví

Skemmtu þér vel! Sýndu okkur hvað þú gerir með því að setja mynd á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá myndir.


Privacy Preference Center